Sýnir færslur með efnisorðinu Guðmundur Runólfsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Guðmundur Runólfsson. Sýna allar færslur

18 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)

Bókin

Hér held ég áfram að skella inn köflum og kaflabrotum úr sömu bók og síðast. margt að því sem þarna er að finna er eilífur sannleikur, annað hefur breyst með breyttum lífsháttun, tækniþróun og öðru.  Það var þannig að allt í einu vantaði mig bók til að lesa og renndi í gegum bókastaflann á heimilinu. Nennti ekki að byrja á Laxness safninu eða Íslendingasögunum og endaði því á óhefðbundnari ritverkum, þar sem ég fann þessa bók. Húnvar gefin út í íslenskri þýðingu Jóns Þórarinssonar árið 1917 af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og var prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Titill hennar er BÖRN og undirtitill Foreldrar og kennarar og hún er eftir einhvern D.C. Murphy sem mun hafa verið "skóla umsjónarmaður í Ameríku" Um bókina segir þýðandinn m.a.: "þar þykir mikið til hennar koma og séð hef ég hana nefnda »kennslubók kennaranna og húslestrarbók heimilanna«.

Alþúðubl. 11.09.1943
Ökuskírteini Guðmundar, gefið út um ári áður en hann lést.

Eigandi bókarinnar

Bókin er merkt Guðmundi Þórarni Runólfssyni (1918-1943), en hann lést í slysinu sem lesa má um hér til hliðar. Bókin var gefin út ári áður en hann fæddist og hann hefur líklega eignast hana alllöngu seinna. Í Kvistholt barst bókin úr dánarbúi foreldra fD, en Guðmundur var föðurbróðir hennar.
Ekki vitum við margt um lífshlaup Guðmundar, annað en að hann fæddist í Heiðarseli á Síðu og að hann starfaði á Hvanneyri um það leyti sem hann lést. Það væri nú fengur í því ef einhver vissi eitthvað um Hvanneyri í kringum 1940, eða einhver gögn um lífið þar á þeim tíma.



 Guðmundur (fjórði f.v.), móðir hans, Sigurbjörg
Þórarinsdóttir og bræður, um 1925,
Gísli, f. 19. nóv. 1911, d. 23. apr. 1932,
Þorsteinn, f. 22. okt. 1913, d. 30. sept. 1991,
Ólafur, f. 16. des. 1914, d. 13. jan. 1939,
Guðmundur, f. 2. júní 1918, d. 9. okt. 1943 og
Þorvaldur, f. 4.1.1920, d. 15.3.2007.


 Úr bókinni

Ég ætlaði, sem sagt, að setja inn nokkur gullkorn úr þessari bók, en þar kemur í ljós, eins og búast mátti við, að manneskjan breytist ekki mikið, þó umhverfi hennar breytist. 

Foreldrar og kennarar

1. Sambandið milli foreldra og skóla.
Sumir hafa þá skoðun, að skólinn sé staður þar sem börnum sé komið fyrir til pössunar, en að öðru leyti er þeim lítið hugarhaldið um skólann eða kennarann. En þetta er röng hugsun. Verki foreldranna er ekki lokið með því að klæða börnin og sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum; þeir hafa heldur ekki gert alla skyldu sína með því að láta þau ganga reglulega í skóla. Ef foreldrunum er áhugamál að börn þeirra komist  vel áfram og njóti svo góðrar skólafræðslu sem kostur er, þá verða þeir að neyta allra ráða til að gera þeim kost á því, búa sem allra best í haginn.

2. Hugmyndir foreldra um kennara
Foreldrar hafa mjög ólíkar skoðanir um það, hvað geri kennarann góðan fræðara. það minnir á munnmælasöguna um riddara, sem deildu um skjöldinn, hvað efni væri í honum; annar sagði að í honum væri silfur, en hinn að hann væri úr gulli. Þrátt þeirra endaði í einvígi. Þeir skilmdust langa stund, en með því að áþekt var um vígfimi þeirra og hreysti, bar hvorugur sigur úr býtum. Loks féllu báðir, örmagna af þreytu. Þá bar að þriðja riddarann, og báðu þeir hann að skera úr, hvor hefði rétt fyrir sér. Þegar hann fór að rannsaka skjöldinn reyndist hann öðru megin úr  gulli, en úr silfri hinumegin.

3. Tvennskonar foreldrar
Einhver hefur sagt að öllum foreldrum megi skifta í tvo flokka, skynsama og óskynsama. Ekki er allur sannleikurinn sagður með því, en það gefur fyllilega hugmynd um hvað er sannleikur í þessu efni. Fyr nefndi flokkurinn er langt um fjölmennari; en hinn síðarnefndi veldur öllum erfiðleikunum. Meðal óskynsamra foreldra eru þeir, sem hafa þá mölétnu hugmund að »kennarinn verði að fara eins með öll börn«.   Mörg ár eru síðan þessi hugmynd reyndist jafn óheilbrigð eins og hún er gömul. 
Kennarinn verður að fást við mjög ólíkt eðlisfar barna, sum þarf svo sem ekkert að aga; sum er auðvelt að aga, og við sum veitir ekki af að beita öllum þeim ráðum sem kennarinn kann. Læknir sem gæfi öllum sjúklingum sama lyf, myndi lækna suma en drepa suma.

4. Áhugaleysi foreldra
Hversu mjög gætu foreldrarnir stutt að því að skólinn ynni gott gagn, ef þeir fengju svo mikinn áhuga á skólavinnunni að þeir létu börn sín vera við nám í það minsta stundarkorn á hverjum degi! Foreldrar eru stundum algerlega hirðulausir um uppeldi barna sinna, og þó er gott uppeldi besti arfurinn sem þeir gætu leift þeim.  Eitt af verstu meinum vorrar þjóðar er slæpingshátturinn.
Á engan hátt geta heimilin stutt skólann að starfi betur en þann, að gæta barnanna sem best þann tímann, sem þau eru ekki í skólanum - varna því að þau leggist í iðjuleysi; að þau séu með góðum leiksystkinum og að ekkert hindri þau frá að sækja skólann reglulega.

5. Hirðulausir foreldrar.
Foreldrar sem eru hirðulausir um það, hvort börn þeirra sækja skóla reglulega, eru versta hindrun í starfi kennarans. Sumir foreldrar sýna aldrei að þeir skeyti  mikið um börn sín - fyr en þeim er refsað í skólanum, eða önnur börn tekin fram yfir þau; þá ranka þeir við sér; og mörg börn í barnaskólunum okkar fá litla hjálp eða upphvatningu heima fyrir. Það er eins og foreldrarnir segi við kennarann: »Ég fæði barnið og klæði, hitt verðið þér að gera« Fyrir getur það komið, að foreldrar undrist yfir því að ekkert heyrist um óþekt barna þeirra í skólanum, þó þeir ráði ekkert við þau heima.

6. Aðfinslur foreldra.
Annað er það sem oft angrar kennara en það eru aðfinslur foreldra barnanna, sem oft eru á reiðum höndum. Einn sagði: »Ekki gest mér að hvernig sá kennari kennir reikning; alt öðru vísi var mér kent«.  Drengurinn hans festr orðin í minni af því að faðir hans sagði þau, og honum þykir fremur gaman að því að eitthvað er út á kennarann að setja. Þegar hann fer í skólann, hljóma orð föður hans  í eyrum honum  og í reikningstímanum ber hann með sjálfum sér brygður á að kennarinn fari rétt með reikningsdæmin.  Hefði faðir hans verið skynsamur maður, þá hefði hann getað sagt sem svo:  »Aðferðirnar eru öðruvísi nú, en þær, er ég vandist, og líklega betir, því að allar kennsluaðferðir eru betri nú en áður.«  Þá hefði drengurinn farið í skólann með sannfæringu um að kennarinn hans segði betur til en kennarar föður hans höfðu gert.  
Stundum þarf að ávíta barn fyrir eitthvað í skólanum. Barnið fer heim og segir frá ofanígjöfinni, og gerir svo lítið úr misgjörð sinni sem það þorir. Foreldrarnir hafa heyrt einungis annan málsaðilann, hugsa að kennarinn hafi haft rangt  fyrir sér og segja það til allrar óhamingju svo barnið heyrir. Það fer aftur í skólann næsta dag, er nú í uppreisnarhug, gerir meira fyrir sér en fyrri daginn og er refsað þunglega. Þá er ekki einungis grátur í skólastofunni, heldur gnístran tanna á heimilinu.

7. Vinátta og heimsóknir
Milli kennara og foreldra ætti að vera innilegt vináttusamband og ef svo er ekki, þá er eitthvað athugavert, annaðhvort við kennarann eða foreldrana, og þá ættu þeir þegar að skilja að skiftum.
Í of mörgum sveitum má kennarinn heita ókunnur maður foreldrum barnanna. Sumstaðar koma foreldrar aldrei til kennarans, nema til að kæra yfir einhverju. Engin eftirtekt er veitt starfi hans, nema þegar eitthvað ber út af. Góð áhrif sem hann hefur á börnin eru skoðuð sem sjálfsagður hlutur; aldrei heyrir hann hlýtt orð fyrir það; en verði honum eitthvað á, þá hljóma áfellisdómar fjöldans bæði hátt og djúpt.

------------------------
Ég sé til hvort ég set inn eitthvað fleira úr þessari bók, en nú sem fyrr skiptir aðkoma foreldra að uppeldi barna sinna höfuðmáli, ekki aðeins til þess að vernda þau frá öllu illu, heldur til að beina þeim inn á þær brautir sem best munu gagnast þeim þegar þau vaxa úr grasi.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...