Sýnir færslur með efnisorðinu Skúli Magnússon. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skúli Magnússon. Sýna allar færslur

29 september, 2018

Að efna í aldarminningu (7) - lok

Á þessum degi, 29. september, 2018, eru 100 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar í Hveratúni. 

Þegar þessari frásögn lauk síðast, var Hveratúnsfjölskyldan búin að sprengja utan af sér "gamla bæinn" og hafin bygging á nýju húsi sem var 140 m², eða 80 m² stærra.
Svo hélt lífið áfram og úr þessu fór því fólki fækkandi sem þurfti húsakjól í Hveratúni. Ætli elsta barnið hafi ekki farið í Skógaskóla um 1962, það næsta á Laugarvatn 1964, afinn á bænum, Magnús lést í byrjun árs 1965.
Þetta er gömul saga og ný: þegar fólk hefur loksins náð efnalegri getu til að komast í hæfilega stórt húsnæði fyrir fjölskylduna, fer að fækka. Eldra fólk í of stóru húsi, er niðurstaðan.
Um 1970 voru Skúli og Guðný í Hveratúni með tvo syni heima á vetrum, sem enn voru í grunnskóla, en skammt í að þeir hyrfu einnig til vetrardvalar fjarri heimilinu.

Árin liðu og Hveratún styrktist í efnalegu tilliti og snemma á níunda áratugnum kom yngsti sonurinn til liðs við foreldrana og tók svo við þegar sá tími kom.

Nýi bærinn í Hveratúni sumarið 1961 (Mynd frá Ástu)
Þetta á að heita aldarminning um föður minn, Skúla Magnússon í Hveratúni, en ekki saga fjölskyldunnar í Hveratúni. Þetta tvennt er þó eðli máls samkvæmt, afskaplega samtvinnað og það getur verið snúið að fylgja aðeins einum þræði þar sem margir eru ofnir saman í einn streng. Ég tek því á það ráð, að reyna að losa um þráðinn sem er Skúli til að skoða hann sjálfan, persónuna sem hann var, jarðveginn sem hann nærðist á og það sem hann bardúsaði fyrir utan að vera samofinn hinum einstaklingunum í fjölskyldunni.

Hver var hann svo, þessi Skúli Magnússon, sem fæddist í Jökuldalsheiðinni - líklega afsprengi frostavetursins mikla - hálfum mánuði áður en Kötlugosið hófst, tæpum mánuði áður en spánska veikin tók að herja á Íslendinga og einum og hálfum mánuði áður en fyrri heimstyrjöld lauk?
Var þessi piltur ef til vill fyrirboði þessara stóru atburða?
Þegar stór er spurt.

Sauðfé var hluti af bústofninum, F.v Ásta, Páll, Sigrún. 
Jú, hann er sonur fólks sem ekki var mulið undir, engin silfurskeið á þeim bæ. Þar er grunnurinn. Ræturnar liggja í þeim jarðvegi sem nærði smábændur á Fljótsdalshéraði. Nægjusemi var nestið sem hann tók með sér í fóstur til kennaranna Sigrúnar og Benedikts á Hallormsstað.

Fjórðungi bregður til fósturs, segir í Njáls sögu, en það merkir, að sá sem elur upp barn mótar það eftir sínu skaplyndi að einum fjórða, þrír fjórðu eru erfðir og ýmsar aðstæður. Hér verður ekkert fullyrt um þetta, en ætla má að það umhverfi sem Skúli komst í á Hallormsstað, hafi breytt, ekki aðeins umhverfinu, heldur einnig viðhorfum hans og sýn á tilveruna. Þar komst hann inn í heim þar sem menntun og menning var höfð í hávegum og heim þar sem fólk átti ekki allt sitt undir veðri og vindum.  Hann var sendur í skóla. Þó ekki væri um langskólanám að ræða, var skólagangan meiri en margra annarra á þessum tíma.
Ætli megi ekki segja að það hafa síðan orðið nokkurskonar leiðarstef í lifi hans að bera virðingu fyrir og skilja erfiða lífsbaráttu og menntun sem grunninn að því að verða sjálfstæður einstaklingur.

Ef við gefum okkur nú að Skúli hafi mótast með þeim hætti sem hér hefur verið tæpt á, hvernig birtist það svo í líf hans síðar?

Ég byrja á að segja þetta:
Skúli var stefnufastur framsóknarmaður og grallari, sem fór sínar eigin leiðir.
Svo reyni ég að rökstyðja þessa fullyrðingu af veikum mætti.

1. Stefnufastur. 
Hann gekkst dálítið upp í því að halda sig við þá stefnu sem hann hafði markað sér og sínum, jafnvel þó svo gild rök gætu verið fyrir því að önnur stefna væri líkast til betri og árangursríkari. Hann þertók fyrir að þetta persónueinkenni hans mætti kalla "þrjósku". Stefnufesta var það og hún átti ekkert skylt við þrjósku. Þetta einkenni á Skúla birtist afar skýrt í framsóknarmennskunni.

2. Framsóknarmaður. 
"Hetja" Skúla á þessu sviði var Eysteinn Jónsson.
Tíminn kom í póstkassann alla tíð, hvort sem það var með mjólkurbílnum einu sinni í viku, í bunkum, eða daglega, svo lengi sem hann var gefinn út undir þessu nafni.
Við vörubíl(inn)
Það voru aldrei, keyptar vörur til heimilisins nema í KÁ eða hjá Sambandinu og það var aldrei keypt eldsneyti á bíla nema hjá Esso. Þetta tók eitthvað að riðlast, að vísu eftir að eignarhaldið á þessum fyrirtækjum fór út um víðan völl með tiheyrandi nafnabreytingum.
Þessi skoðanastefnufesta gekk svo langt, að síðustu árin, þegar arftakar Eysteins höfðu leitt flokkinn út fyrir allt velsæmi, hélt hann samt áfram að verja flokkinn sinn, þó svo vörnin væri engin. Það var þá sem hann fór að leyfa grallaralegu glottinu að fylgja varnarræðum sínum. Þá vissi maður að hann var genginn af trúnni og það kom reyndar í ljós í samtölum, að hann var framsóknarmaðurinn sem vildi að flokkurinn væri sá sem hann var í árdaga. Steingrímur var síðasti formaður hins sanna Framsóknarflokks.

3. Grallari
Ekki er ég viss um að þetta orð "grallari" nái alveg því sem átt er við. Skúli naut þess að vera ósammála viðmælendum sínum, bar fram mótbárur við skoðunum viðmælandans og setti fram sína eigin, jafnvel þó svo þær stönguðust á við eigin skoðanir á þeim málefnum sem um var að ræða. Þegar hann var í þessum ham gerði hann sitt ýtrasta til að halda andlitinu, en það tókst misvel. Grallaralegt glottið sem falið skyldi vera, hreyfði oftast örlítið við andlitinu.

4. Fór sínar eigin leiðir.
Höfundur aftan á Landróvernum,
sennilega frekar þeim brúna en þeim bláa.
Dag nokkurn, sennilega í kringum 1960 þurfti Skúli að skreppa til Reykjavíkur í einhverjum erindagerðum. Fór líklegast með mjólkurbílnum eða grænmetisbílnum. Á þessum tíma hafði ekki verið bíll í Hveratúni frá því vörubíllinn var og hét. Um þennan vörubíl veit ég reyndar ekkert, en hef frétt af honum og séð hann á mynd.
Hvað um það, Skúli sneri til baka úr höfuðborginni á Landrover bensín, ljósbrúnum eða drapplitum, nýjum úr kassanum. Ekkert vissum við, ungviðið á bænum um að til stæði að kaupa Landrover, en það sem meira var, bifreiðakaupin komu frú Guðnýju Pálsdóttur einnig í opna skjöldu.
Þetta einkenni á Skúla fylgdi honum fram á síðustu ár. Meðan hann enn ók bíl, átti hann það jafnvel til að aka út í buskann án þess að láta kóng eða prest vita, en þar kom að hann þurfti að sætta sig við að það sem áður var hægt gekk ekki lengur. Það var hinsvegar fjarri honum að viðurkenna fylgifiska ellinnar fyrir nokkrum manni. Um slíkt ræddi hann ekki.
---
Þar sem hann lifði og hrærðist einn í húsinu sínu í Hveratúni síðustu árin, þótti við hæfi að hann fengi öryggishnapp ef eitthvað kæmi upp á. Þetta fannst honum hin mesta  vitleysa og spurði hvernig hann ætti að fara að því að ýta á þennan hnapp ef hann dytti nú niður dauður.  Hann fékkst þó til að bera hnappinn, aðallega til að friða umhverfið.

Þegar á leið leitaði hugurinn æ oftar austur á land til þess tíma sem hann var á Hallormsstað og það stóðu upp úr honum vísurnar sem hann hafði lært sem barn og ungur maður. Þetta voru yfirleitt kersknisvísur svokallaðar, eða fyndnar, sem sagt.  Hann fór með þær aftur og aftur þar til maður lærði og alltaf hló hann jafn dátt þegar búið var að fara með vísu af þessu tagi. Ég tek hér  tvær vísur af þessu tagi sem dæmi:

Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:
 
Mikið er hvað margir lof´ann 
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.


Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims.
Nú er að segja frá því að í sveitinni var annar bóndi og líkaði honum einnig illa við prestinn. Hann heyrði vísuna og einsetti sér að læra hana utanbókar. Eftir tæp þrjú ár taldi hann sig vera kominn með þetta og fór svona með hana, heldur rogginn:
 
2013 á Lundi. Þarna gæti hann verið að fara með
vísuna um skollabuxurnar

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.


Flutningi á þessari vísu fylgdi síðan skellihlátur allra viðstaddra.


Það kom fyrir að hlé varð á samræðum um stund, en þá kom þessi vísa oftar en ekki:

Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða

Oft lét hann þetta nægja en framhaldið kom þó einnig stundum:

sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt -
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.

---
Þetta fer nú sennilega að verða gott um föður minn, sem ávallt reyndist mér og mínum vel. Aldrei fólst það þó í því að hann fjallaði um tilfinningar eða hefði frammi mörg orð. Hann var maður sem brást við með aðgerðum þegar á þurfti að halda, þurfti ekkert að ræða það neitt sérstaklega. 

Níræður með börnum og tengdabörnum.

Það má segja að lífið hafi farið vel með hann í flestu, en sannarlega þurfti hann að takst á við erfiðleika á lifsleiðinni, þó ég telji nú að hann hafi verið tiltölulega heppinn með börn (hvað sem aðrir kunna að segja um það). 
Sennilega hefur það tekið einna mest á hann að missa lífsförunautinn í desember 1992. Hann tjáði sig hinsvegar ekki um það, við mig í það minnsta. Geymdi söknuð og sorg með sjálfum sér og lifði fram í háa elli. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu þann 5. ágúst 2014, að verða 96 ára.



20 september, 2018

Að efna í aldarminningu (6)

Þar var komið sögu í síðasta hluta þessarar aldarminningar um föður minn, Skúla Magnússon, að þau Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum, verðandi eiginkona hans, höfðu fest kaup að garðyrkjubýli í Laugarási, sem kallaðist Lemmingsland. Þarna höfðu dönsk hjón Börge og Ketty Lemming byggt upp litla garðyrkjustöð, og bjuggu þar frá 1941-1945 (svona um það bil).  Það er sérlega gaman að segja frá því að mér hefur nú tekist að komast í samband við afkomendur þeirra Börge og Ketty, sem þekkja til sögu þeirra á Íslandi og bíð nú spenntur eftir svörum þeirra við spurningum mínum um þessi ágætu hjón. 

Þann 30. maí, 1946 gengu þau Skúli og Guðný í hjónaband eins og lög gera ráð fyrir, enda vart við hæfi að hefja búskap ógift.

Hveratún 1968, séð til norðurs. Lengst t.h. gróðurhúsin þrjú 
og gamla íbúðarhúsið, sem Skúli og Guðný keyptu. 
Fremst fyrir miðju er íbúðarhúsið sem tilheyrði Grósku.
Það sem þau keyptu þarna voru þrjú gróðurhús, ca. 100 m² hvert og 60m²  íbúðarhús með engu eldhúsi. Fólk myndi víst ekki lifa lengi á svona garðyrkjustöð nú.  Það má telja fullvíst, að fyrst eftir að þau komu í Laugarás, hafi þau fengið inni í íbúðarhúsinu í Grósku (Grózku)(síðar Sólveigarstaðir). Á þessum tíma var Skaftfellingur að nafni Guðmundur, sem hafði átt Grósku (sem þá hét óþekktu nafni) í tvö ár, búinn að selja Náttúrulækningafélagi Íslands býlið. Þá voru þarna 4 gróðurhús, alls 600m² og íbúðarhús.
Eina ástæða þess að fyrir liggja upplýsingar um að nýju Laugarásbúarnir hafi búið í Grósku er sú, að þar fæddist elsta barn þeirra, Elín Ásta í júní 1947. Það má með góðri samvisku gera ráð fyrir því, að ekki hafi frú Guðný gert sér að góðu að búa í eldhúslausu húsi og þannig hafi það komið til að þau bjuggu til að byrja með í Grósku.
Magnús Jónsson

Svo var eldhúsið klárt  og flutt inn. Framundan 45 ára búskapur Skúla og Guðnýjar með öllu sem slíku fylgir, þar með 5 börnum á 12 árum. Það hefur nú varla þótt neitt merkilegt á tímum barnasprengjunnar sem varð í hinum vestræna heimi á þessum árum.
Elín Ásta, sem áður hefur verið nefnd, fæddist 1947, tveim árum síðar, 1949,  bættist við önnur dóttir Sigrún Ingibjörg, þá liðu þrjú ár (enda þurfti að vanda sig) þar til fyrsti sonurinn kom í heiminn, í lok árs 1953, en það var Páll Magnús. Fjórða barnið og annar sonurinn, Benedikt mætti á svæðið rúmum tveim árum síðar, 1956. Þegar þarna var komið var nú vísast farið að minnka plássið í litla 60 m² húsinu, ekki síst vegna þess að frá 1950 hafði faðir Skúla, Magnús Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um, búið hjá þeim í Hveratúni. Þar fyrir utan voru oftar en ekki vinnukonur, aðallega á sumrin. Í raun skortir mig hugmyndaflug til að segja til um hvernig þeim var komið fyrir.

Gamli bærinn í Hveratúni. Teikning eftir minni.
Hér til hliðar er gróf teikning af húsinu sem Guðný og Skúli bjuggu í með börnum og afa frá 1947-1961.  Á teikningunni eru ýmsir fyrirvarar, m.a. um hlutföll, en herbergjaaskipanin er nokkuð skýr. Gera má ráð fyrir að systkini mín kunni að hafa sínar skoðanir á þessu og reynist þær réttari en þarna má sjá, verður auðvitað tekið tillit til þess.
Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Það var orðið þröngt á fjölskyldunni þegar þriðji sonurinn, fimmta barnið, Magnús, kom í heiminn í september, 1959. Það var því ekki annað í stöðunni en að fara að byggja. 

Fjölskyldan í Hveratúni 1960.
Myndina tók Matthías Frímannsson en hann starfaði þá sem "eftirlitskennari"  í barnaheimili RKÍ, Krossinum.


Árið 1961 tók við enn einn áfanginn á leið Skúla í gegnum lífið, en um hann verður fjallað í síðasta hluta, sem birtast mun áður en langt um líður, ef að líkum lætur.








10 september, 2018

Að efna í aldarminningu (5)

Þar sem síðasta hluta lauk var komið að heilmikilum þáttaskilum í lífi Skúla. Benedikt Blöndal, fóstri hans hafði undirbúið að senda hann í Garðyrkjuskólann í Hveragerði, en jafnframt lá fyrir að til þess að fá inngöngu þar þyrfti Skúli að starfa í eitt á ár garðyrkjustöð. Benedikt hafði hugmyndir um að byggja upp garðyrkju á Hallormsstað og þarna var á heimilinu ungur maður á krossgötum sem myndi geta aðstoðað við að koma þeim áætlunum í framkvæmd.

Eins og segir í lok síðasta hluta, varð Benedikt hinsvegar úti í janúar 1939. Þetta breytti þó ekki fyrirætlunum um að Skúli færi suður til starfa á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur á Syðri-Reykjum. Það má reikna með því að frú Sigrún Blöndal hafi ekki tekið annað í mál en að af þessu yrði þrátt fyrir áfallið og forsendubreytinguna sem varð við brotthvarf Benedikts.


Áður en lengra er haldið, er rétt að greina frá því, að ekki hefur mér tekist enn, á fá það staðfest hvar Skúli ól manninn veturinn 1938-9. Það liggur fyrir að hann lauk gagnfræðaprófi frá MA vorið 1938, en fór ekki suður fyrr en síðla árs 1939. Þetta skiptir svo sem ekki máli nema vegna þess að Guðný Pálsdóttir, sem áður er nefnd og á eftir að koma meira við sögu, var nemandi í Hallormsstaðaskóla frá hausti 1937 til vors 1939. Hafi kynni þeirra Skúla og hennar ekki verið meiri en augngotur á þeim tveim árum sem þarna er um að ræða, er fremur ólíklegt að Skúli hafi dvalið á Hallormsstað veturinn 1938-9. Hann er þó skráður þar til heimilis í sóknarmannatali þennan vetur.  Hitt er rétt að hafa í huga, að það er vel þekkt úr framhaldsskólum, að fólk sem er jafnvel í sama bekk í fjögur ár nær ekki saman fyrr en eftir að skólagöngunni lýkur. Ég hyggst freista þess að komast að þessu og fjalla um það, þegar líður að aldarminningu eftir tvö ár.

Suður á bóginn
En, áfram með Skúla.
Þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir frá því síðari heimsstyrjöldin hófst með innrás Hitlers í Pólland, kom Skúli suður. Það var hinn 6. desember, 1939.  Hann var 21 árs gamall þegar hann kom að Torfastöðum í Biskupstungum til þeirra frú Sigurlaugar Erlendsdóttur og sr. Eiríks Þ. Stefánssonar.  Þetta liggur fyrir, þar sem hann ákvað að skrá dagbók um þá nýju lífsreynslu sem þarna beið hans.
Einhver kann að spyrja hversvegna Skúli fékk fyrst inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði áður en hann kom að Syðri-Reykjum. Líklegast hefur Stefán ekki haft þörf á vinnufólki fyrr en um mánaðamótin janúar febrúar og svo hitt að ekki er ólíklegt að frú Sigrún hafi viljað sjá til þess að hann færi í nokkurskonar aðlögun hér sunnanlands áður en hann hæfi störf. Torfastaðir voru auðvitað hentugur staður, því þar bjó vinkona frú Sigrúnar, frú Sigurlaug. Þær höfðu verið samtíða í  Kvennaskólanum kringum aldamótirn og haldið tengslum síðan.


Dvölin á Torfastöðum reyndist Skúla bara ljúf. Hann greinir frá því í dagbókinni að það hafi ekki verið fyrr en mánuði eftir að hann kom þangað að hann þurfti að vinna eitthvað að ráði. Þá var baðað fé frá Torfastöðum, Miklaholti og Torfastaðakoti.  Á  sama tíma og Skúli dvaldi á Torfastöðum var Jón Sveinsson frá Miklaholti þar vinnumaður og þeir bardúsuðu ýmislegt saman, m.a. fóru þeir á skauta í Hrosshagavík. "Tungnamenn virðast engan áhuga hafa á skautaíþróttinni og er leitt til þess að vita", skráði hann í dagbókina af þessu tilefni.
Skúli á Syðri Reykjum
Annars tók Skúli bar þátt í því sem fyrir bar á Torfastöðum þann tíma sem hann var þar og væri of langt mál að fara að tína það allt til. Hann gekk í stúkuna Bláfell og hann mun hafa átt að læra á orgel  hjá frú Sigurlaugu, en aldrei heyrðist hann fjalla um það nám sitt og aldrei sýndi hann  takta sem bentu til að hann hafi lært á hljóðfæri. Þarna hefur líkast til verið um að ræða tilraun fóstru hans til að smita hann af menningu.

Að Syðri-Reykjum
Þann 27. janúar er þessi færsla í dagbókinni:
"Ég kvaddi hér á Torfastöðum og lagði af stað til Syðri Reykja fyrir fullt og allt. Upp frá þessu mun ég eiga við (meina) Syðri-Reyki þegar ég  segi "heima" hér í þessari dagbók minni.
Við Olav prikluðum úr nokkrum kössum, sáðum í þrjá kassa tómötum og blönduðum mold og áburði".
Um hálfum mánuði síðar var Olav Sanden allur. Hann varð úti milli Syðri-Reykja og Efstadals í miklu óveðri. Skúli fjallaði ítarlega um þetta hörmulega mál í dagbókinni og samantekt á þeirri frásögn er að finna hér.  Má nærri geta að þetta hafði áhrif á hann ekki síður en annað heimilisfólk á Syðri-Reykjum. Þarna var rétt um ár síðan Skúli hafði misst fóstra sinn með sama hætti.

Skúli og Stefán Árnason (mynd frá S-Reykjum)
Eftir þessa harkalegu byrjun í starfsþjálfuninni á Syðri-Reykjum tók við hreint ágætur tími í lífi Skúla. Hann segir svo frá honum í viðtali sem Geirþrúður Sighvatsdóttir átti við hann í Litla Bergþór 2003:
Dvölin á Syðri-Reykjum var góður skóli. Þar var þá önnur stærsta garðyrkjustöð á landinu á eftir Garðyrkjuskólanum og var stunduð fjölbreytt ræktun. Þar vann fjöldi manns, meðal annarra mjög færir ræktunarmenn, danskir, hollenskir, norskir og sænskir, auk margra Tungnamanna, sem unnu ýmis störf og við uppbyggingu mannvirkja, því alltaf var verið að byggja og stækka. Unnu þarna milli 15 og 20 manns þegar mest var. Allt var mjög skipulagt og þegar ég byrjaði að vinna, man ég að við vorum sérstaklega áminntir um stundvísi. En svo gekk allt mjög ljúfmannlega fyrir sig enda Stefán og Áslaug alveg einstakir húsbændur. Stefán sá til þess að ég og annar strákur, sem höfðum mikinn áhuga á blómarækt, fengum sérstaka kennslu hjá hollenska garðyrkjufræðingnum. Og eftir árs dvöl þarna þóttist ég bara vera orðinn nokkuð menntaður maður og fór ekki á garðyrkjuskólann.
Skúli og Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)
Tíminn á S-Reykjum var einhver allra besti tími sem ég hef upplifað, bæði skemmtilegur og lærdómsríkur vegna þess fjölmennis, sem þar var og þarna kynntist ég fjölda Tungnamanna, sem varð til þess að ég fór að sækja mannfagnaði og fundi og falla inn í umhverfið. Ég átti gott með að kynnast þeim, því þá var ekki síminn, tölvur eða sjónvarp, og maður var manns gaman. Þá var líka allt handrukkað og forsvarsmenn yfirvalda, eins og Þorsteinn á Vatnsleysu, Einar í Holtakotum og Skúli í Tungu komu a. m. k. einu sinni á ári að rukka verkafólkið um tryggingar, skatta og þess háttar
Með samstarfsfólki á S-Reykjum. Skúli þriðji f.v.
(Mynd frá S-Reykjum)
Benedikt Blöndal hafði haft  fyrirætlanir um að Skúli skyldi vera á Syðri-Reykjum í eitt ár, en færi eftir það í Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Að því búnu skyldi hann koma aftur austur á Hérað til að byggja upp garðyrkjustöð á Hallormsstað. Líklegast hefur Skúli haft þetta í hyggju þegar hann kom suður, en að Benedikt gengnum virðist þrýstingurinn á að svona skyldi þetta verða hafa minnkað.  Þarna var frú Sigrún komin um sextugt og mögulegt að Skúli hafi ekki endilega séð fyrir sér framtíðina fyrir austan.  Frú Sigrún lést síðan í nóvember 1944.
Önnur ástæða fyrir því að ekkert varð úr, má síðan segja að hafi verið augngotur yfir borð á Hallormsstað nokkrum árum áður.  Það liggur fyrir að Skúli og Guðný voru farin að hittast á árunum 1941-2 og það þróaðist svona eins og gengur og kemur allvel fram í bréfum sem þau skildu eftir sig og sem ekki verður farið í að fjalla um hér.  Það var síðan fyrir tilstuðlan Skúla að Guðný fékk vinnu á Syðri-Reykjum haustið 1945. Í aðdraganda þess segir Skúli í bréfi frá september 1945:
Stefán talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín að Sigríður hefði alveg neitað sér, og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú  geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú mundir geta komið, en það vissi ég ekki. 
Með samstarfskonum (Mynd frá S-Reykjum)
Í framhaldinu var svo frá málum gengið, að Guðný kæmi að Syðri Reykjkum og skyldi vera þar Áslaugu til aðstoðar.
Þennan vetur fór að vatna undir Skúla og Guðnýju á Syðri Reykjum og þráin eftir því að verða örlagavaldar í eigin lífi fór vaxandi. Dæmi um þessar pælingar þeirra er eftirskrift í bréfi Guðnýjar frá janúarlokum 1946, en þá var hún stödd í Reykjavík:

ps. Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun:  Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni eða manni sem gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín, annað var það nú ekki.
Þann 2. apríl kemur fram í bréfi Skúla:
Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi. Ég hringdi til Steindórs (umboðsmannsins) þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann um að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og bað hann mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerði ég með þvi að senda Elís Péturss. á hann um síðustu helgi. Þá var nú kallinn [......] og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá.
.... 
Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri leitt að missa mig einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæti hann ekkert við því sagt fyrst svona stæði á. 
Um þetta segir Skúli í áðurnefndu viðtali í Litla Bergþór:
Árið 1945 frétti ég af lausri lóð hér í Laugarási sem var til sölu. Lemmingsland var það kallað, en danskur maður, sem Lemming hét hafði verið þar með garðyrkju. Þessa lóð keypti ég og það voru skrítin kaup. Ég þurfti ekki að borga krónu, heldur fékk bunka af víxlum, sem voru svo að falla allan ársins hring. Það var Steindór Gunnlaugsson, bróðir Skúla í Tungu, sem hafði milligöngu um kaupin og hann skrifaði uppá hjá mér. Svo var framlengt og borgað inná, þar til tókst að borga upp. Þetta var strembið, þótt 45.000,- þætti ekki stór upphæð í dag. En þetta var árið 1945 og þá var þetta þó nokkur upphæð

Þannig fór það, að Skúli og Guðný keyptu Lemmingsland, sem svo hlaut nafnið Hveratún, að tillögu sr. Eiríks á Torfastöðum.

Framhaldið bíður þangað til næst.


05 september, 2018

Að efna í aldarminningu (4)

Í síðustu þrem færslum var fjallað um fyrstu sex árin í lífi Skúla Magnússonar og þætti líklega mörgum vel í lagt. Umfjöllunin hefur að mestu verið um foreldra hans, þau Ingibjörgu og Magnús, þar sem þau voru eðlilega gerendur í þeirri atburðarás allri.
Skúli gerði fátt nema vera til og ekki til neinar frásagnir af honum sem einstaklingi á þessum tíma. Það verður þó að gera ráð fyrir, svona miðað við allt og allt, að ekki hafi hann fæðst inn í þennan heim með silfurskeið í munni. Hann var, eins og sagt er stundum, af alþýðufólki kominn, fólki sem barðist til að eiga í og á sig og börnin sín. Ekki hefur mér heyrst annað en það hafi tekist hjá foreldrunum þó víst hafi það oft verið tæpt.


Þegar skilið var við Freyshólafjölskylduna síðast var Skúli mikið til kominn í fóstur í Mjóanes til þeirra Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Fjölskyldan að öðru leyti var flutt í Víkingsstaði, þar sem hún skóp sér líf svona eins og fólk gerir. Ekki verður frekar fjallað um lífið á Víkingsstöðum hér og nú, enda heimildir af skornum skammti. Hvað síðar verður, verður tíminn að leiða í ljós.

Sigrún Blöndal við skriftir
Það er fjallað um ævi Sigrúnar Blöndal hér og það látið duga. Hún og Benedikt, eiginmaður hennar voru frumkvöðlar í uppeldismálum á Íslandi og eftir að þau höfðu kennt um hríð við Alþýðuskólann á Eiðum ákváðu þau að söðla um og setjast að í Mjóanesi, en Sigrún  hafði þá erft þá jörð.  Þetta var árið 1919. Þar fæddist þeim sonurinn Sigurður árið 1924 og eftir því sem Skúli hefur frá sagt, var hann fenginn í Mjóanes til að vera leikfélagi Sigurðar. Ekkert skal fullyrt um það hér, en Skúli var einum sex árum eldri en Sigurður og ekki alveg ljóst hvernig þeir hafi átt að ná saman sem leikfélagar svona fyrstu árin, en látum það vera.
Sigrún og Benedikt Blöndal
með þeim Sigurði, standandi og Skúla sitjandi.
Við að verða fósturbarn í Mjóanesi breyttist margt í lífi Skúla. Sannarlega hefur það tekið á ungan dreng að yfirgefa fjölskyldu sína og það mátti heyra á Skúla á efri árum að það hafi ávallt blundað með honum eftirsjá, að hafa ekki fengið að alast upp með systkinum sínum á Víkingsstöðum.  Við þessa breytingu hvarf hann úr þeim heimi þar sem lífið snérist um að afla sér og sínum viðurværis með hefðbundnum búskap, yfir í heim uppeldis og menntunar. Þó aldrei hafi hann beinlínis orðað það, frekar en svo margt annað úr uppvexti sínum, var alltaf ljóst að þakklæti hans til fósturforeldranna var ómælt.

Sigurður Blöndal og Skúli Magnússon
Sigurður, Skúli og Doddi/Daddi? 1931.
Mynd frá Sigrúnu Blöndal yngri.
Áfram með smjörið.
Allt þróaðist þetta þannig, að ákveðið var að stofna húsmæðraskóla á Hallormsstað. Hann var byggður á árunum 1929-30 og yfirsmiður var Guðjón Jónsson (Guðjón snikkari), föðurbróðir Skúla.
Skólinn tók til starfa haustið 1930 og Sigrún var ráðin til að stýra honum og fjölskyldan flutti í Hallormsstað og Skúli orðinn 12 ára gamall, en Sigurður átta ára.
Næstu árin hafa vísast farið í skólagöngu og allskyns stúss á stóru heimili. Ekki fjölyrti Skúli um hvernig líf hans þróaðist á þessum árum, utan það að hann upplýsti um hve óskaplega honum hefði leiðst að reyta rjúpur á haustin. Þar með var komin skýringin á því að aldrei voru rjúpur í matinn í Hveratúni.  Hann fjallaði einnig um samskipti sín við sumt af því fólki sem starfaði einnig við og í kringum skólann. Bróðir hans, Haraldur, var vinnumaður á Hallormsstað árið 1937 og má reikna með að hann hafi komið þar að hluta til vegna þess að veturinn 1937-8 var Skúli sendur til náms í Menntaskólanum á Akureyri, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi.
Úr skólaspjaldi MA 1938
Austfirski sveitamaðurinn í þessari merku skólastofnun þurfti auðvitað að gera sig gildandi. Eins og sjá má á meðfylgjandi skólaspjaldi er þarna kominn ungur maður með dálítið töffaralegt yfirbragð. Skúli minntist alloft á dvöl sína í MA  síðustu ár ævinnar, Sigurð Guðmundsson skólameistara og beinið sem hann tók nemendur á. Ítrekaðar fyrirspurnir um hvort hann hefði verið tekinn á beinið einhverntíma, leiddu ekki til neinnar niðurstöðu, nema angurværs glotts, sem túlka mátti á hvaða veg sem var.  Grunur leikur þó á að beinið hafi komið við sögu á þessari skólagöngu.

Skólaspjald Hallormsstaðaskóla 1937-8
Veturinn 1937-38 var 17 ára stúlka úr Flóanum nemandi á Hallormsstað. Þetta var Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum. Í bréfi til Skúla síðar, segir hún:
Þar sá ég þig fyrst. Ég man ennþá eftir þér þar sem þú sast á móti mér við borðið hjá Guðrúnu Jens. Manst þú eftir því?
Ekki er óvarlegt að áætla að augnagoturnar yfir borðið hjá Guðrúnu Jens hafi orðið kveikjan að því sem síðar varð. Hver veit? Mikil er þá ábyrgð hennar Guðrúnar Jens.

Eftir menntaskóladvölina var kominn tíma til að velta fyrir sér hvað við skyldi taka. Um þetta segir Skúli í viðtali í Litla Bergþór:
Þá var ákveðið að gera úr mér garðyrkjumann. Fóstri minn hafði mikinn áhuga á að nýta orku með heimarafveitu og vildi setja upp garðyrkjustöð, sem hituð yrði upp með rafmagni. Úr því varð aldrei, en það var sótt um skólavist fyrir mig í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Ég komst þó ekki inn strax, því ákvæði var um að nemendur yrðu að hafa starfað í a.m.k. eitt ár í ylræktarstöð, áður en þeir fengu inngöngu í skólann.
Skúli þurfti að fara í eins árs starfsþjálfun. Þar með hófst flétta sem reynt verður að gera grein fyrir í næsta hluta þessarar pistlaraðar.

Áður en af því varð að Skúli héldi suður, varð fjölskyldan á Hallormsstað fyrir miklu áfalli. Benedikt, fóstri Skúla varð úti í janúar 1939. Frá þessu var svona sagt í Tímanum þann 14. janúar:

Benedikt Blöndal á Hallormsstað varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Skriðdals, síðastliðinn mánudag. Hann var á heimleið frá Reyðarfirði. Fylgdi maður frá Reyðarfirði honum upp á miðja heiðina, en snéri þar við, því að Benedikt taldi sér ekki þörf á fylgd lengra. Éljaveður var þennan dag og gekk að með dimmviðri, er á kvöldið leið og dróg úr frosti. Menn vissu ógerla um ferðir Benedikts og var hans því eigi leitað strax. Hríð var hinn næsta dag. 
Á miðvikudag var tekið að undrast um Benedikt og leit hafin að honum, en eigi bar hún árangur. Á fimmtudagsmorgun var enn leitað og fannst lík Benedikts þá um morguninn, eigi langt frá bæjum í Skriðdal. Hafði hann grafið sig i fönn og stungið skíðum sínum og stöfum á endann niður í skafl. Var nálægt klukkutíma gangur að Hallbjarnarstöðum frá þeim stað sem Benedikt hafði orðið til á, en 1½—2 klukkutima gangur þangað, sem fylgdarmaðurinn sneri til baka. Lík Benedikts var flutt að Mýrum í Skriðdal, og þaðan heim til Hallormsstaðar í gær. 
Lífið varð nú samt að halda áfram, eftir því sem kostur var.

30 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (3)

Hér kemur framhald af þessu (1) og þessu (2)

Hér er um að ræða tilraun mína til að útbúa svo rétta lýsingu á æviferli föður míns sem mér er unnt, án þess að fara grafa mig á djúpt kaf í skjalasöfn. 

Þegar síðasta hluta lauk var fjölskyldan sem um ræðir, að flytja frá Rangárlóni í Jökuldalsheiði, að ættaróðalinu Freyshólum í Vallahreppi á Fljótsdalshéraði, en þaðan höfðu þau einmitt flutt vorið 1918. Nú voru börnin orðin fimm í stað tveggja. Alfreð (7), Haraldur (6) (sem hafði reyndar verið tvö síðustu árin á Freyshólum hjá ömmu sinni), Skúli (3), Björg (2) og Sigfríður, ekki orðin eins árs.

Áður en lengra er haldið er rétt að setja hér inn mynd eða kort þar sem sjá má þessa helstu bæi í Vallahreppi sem koma við sögu í framhaldinu, svona fyrir þau ykkar sem ekki eruð staðkunnug á Héraði. Þetta er gert til að freista þess að sjá til þess að ykkur takist að fylgja fléttunni sem birtist í framhaldinu.

Helstu bæirsem við sögu koma í frásögninni.

Hvervegna aftur í Freyshóla?
Um ástæður þessa flutnings vorið 1922 er hægt að setja fram ýmsar tilgátur þó mis auðvelt sé að rökstyðja þær. Hér er ein, sem telja verður bara þó nokkuð vel ígrundaða.

Árið 1922 varð Guðmundur Jónsson 62 ára, en hann var bóndi á Freyshólum og mágur Magnúsar,(kvæntur Sigurbjörgu systur hans).  Sigurbjörg kona hans var allmiklu yngri eða  43ja ára. Son áttu þau, Jón Björgvin sem var 18 ára og því ekki tilbúinn að taka við búi af foreldrum sínum strax. Þá var á bænum móðir Magnúsar og Sigurbjargar, Ljósbjörg sem var þarna komin vel á áttræðisaldur.

Það varð úr, í ljósi aldurs bóndans, og ómegðarinnar hjá Magnúsi og Ingibjörgu, að þau hjónin Guðmundur og Sigurbjörg færu í vinnumennsku að Strönd og Rangárlónshjónin tækju að sér búskapinn í Freyshólum, þar til sonurinn á bænum, Jón Björgvin, væri búinn að ná sér í konu og svona og kominn með nægilegan aldur og þroska  til að til að taka að sér búið. Þannig má segja að um hafi verið að ræða nokkurskonar bráðabirgðaráðstöfun. Hvað síðan tæki við hjá Magnúsi, Ingibjörgu og börnunum var látið bíða síðari tíma.

Á Freyshólum
Á Freyshólum þetta ár, 1922, voru skráð til heimilis, auk fjölskyldunnar, Ljósbjörg (74), móðir Magnúsar og Jón Björgvin (18) sonur Sigurbjargar og Guðmundar, sá sem síðar átti vísast að taka við búinu.
Árið leið og þau komu sér þarna fyrir og búskapurinn væntanlega ekki jafn strembinn og í heiðinni, þó ekki verði það fullyrt.
Árið eftir voru bæði Jón og Ljósbjörg farin af heimilinu. Hann fór í vinnumennsku að Strönd og síðar Ketilsstöðum. Ljósbjörg gerðist húskona á Gunnlaugsstöðum í tvö ár og síðan á Ketilsstöðum í önnur tvö.
Um miðjan október fæddist Magnúsi og Ingibjörgu sjöunda barnið, dóttirin Fanney, en hún lést í desember sama ár.

Ekkert bar til tíðinda á Freyshólum árið 1924, svo vitað sé. Í Mjóanesi fæddist hinsvegar þeim hjónum Sigrúnu og Benedikt Blöndal sonurinn Sigurður, en sá atburður hefur mikil áhrif á framvindu þessarar aldarminningar. Lesendur verða bara að bíða rólegir.

Svo var það í júlí, 1925, að Ingibjörgu og Magnúsi fæddust tvíburar, sem segja má að hafi verið fyrirburar. Þetta voru tvær agnarsmáar stúlkur og voru skírðar Guðfinna og Pálína í höfuðið á uppeldisforeldrum Ingibjargar, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Páli Geirmundssyni sem bjuggu á Borgarfirði eystri. Guðfinna lést nokkrum dögum eftir fæðingu.
Pálína var svo smávaxin að faðir hennar gat smeygt giftingarhringnum upp á fótlegginn á henni.

Heyskapurinn spurði ekki um aðstæður fólks og Ingibjörg þurfti að ganga þar til verka eins og annað verkfært fólk. Þá passaði Haraldur systur sína, en hún var geymd í kartöfluméli,  vafin flóneli og ull. Yst voru flöskur með heitu vatni  sem þurfti að passa upp á að kólnuðu ekki. Verklaunin voru vasahnífur þegar farið var í kaupstað um haustið.

Þegar hér var komið höfðu hjónin eignast 9 börn og misst þrjú í eða skömmu eftir fæðingu. Hvort þau voru í raun 10, skal ekki fullyrt hér.
Ekki eignuðust Ingibjörg og Magnús fleiri börn.

Nú líður að því, að lokið verði að rekja sögu Magnúsar og Ingibjargar og fimm barna þeirra, en haldið áfram með þriðja elsta soninn, Skúla. Hvað verður um skráningu á sögu Víkingsstaðaættingja minna síðar, veit ég bara ekki, en hún er harla áhugaverð.

Líkast til var það vorið 1927 að fjölskyldan flutti frá Freyshólum í Víkingsstaði, en sú jörð hafði þá losnað til ábúðar.
Jón Björgvin Guðmundsson (23) systursonur Magnúsar, sem áður er nefndur, flutti þá í Freyshóla ásamt konu sinni Hildi Stefánsdóttur (30), eins ár syni, Stefáni, foreldrum sínum og ömmu, Ljósbjörgu (79)

Sigurður Blöndal situr, Skúli Magnússon hægra megin,
Tryggvi Blöndal (?) sendur bak við Sigurð.
Mynd frá Sigrúnu Blöndal, líklega tekin í lok þriðja
áratugar síðustu aldar.
Í Mjóanes
Í viðtali í Litla Bergþór frá 2003 sagði Skúli: "Á 5. ári fór ég í Mjóanes, til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Var upphaflega fenginn að láni, sem leikfélagi Sigurðar, sonar þeirra, en ílentist þar og varð fóstursonur þeirra".
Sigurður Blöndal fæddist í nóvember 1924, þegar Skúli var sex ára og því stenst þetta ekki alveg og breytir svo sem engu. Það má ljóst vera, að samgangur milli heimilanna í Mjóanesi og Freyshólum hefur verið mikill, enda bara þrír kílómetrar milli bæjanna og má reikna með að Skúli hafi verið tíður gestur hjá þeim Benedikt og Sigrúnu.
Ef við gefum okkur, að þegar Sigurður var á öðru eða þriðja ári hafi það smám saman þróast svo að Skúli dvaldi æ oftar í Mjóanesi þar til skrefið var tekið til fulls. Sú tilgáta er sett hér fram að það skref hafi verið tekið þegar Freyshólafjölskyldan flutti í Víkingsstaði. Í sóknarmannatali Vallanesóknar 1926 er Skúli skráður til heimilis á Freyshólum, en árið eftir sem fórsturbarn í Mjóanesi. Þar var þá einnig Tryggvi Gunnar Blöndal, hálfbróðir Benedikts, samfeðra, 13 ára gamall.

Svo heldur þessi frásögn áfram næst.






24 september, 2016

Var Macbeth framsóknarmaður?

Um þessa mynd: sjá neðst.
Það getur verið gaman að samsæriskenningum, þó sannarlega séu þær oftast bara kenningar.  Nýjustu vendingar innan framsóknarflokksins kölluðu fram í huganum ákveðið samhengi milli þess sem átti sér stað í leikritinu hans Shakespeares, Macbeth og tilrauna núverandi formanns framsóknarflokksins til að halda völdum. Þarna er auðvitað ekki um algera samsvörun að ræða, en samt að mörgu leyti keimlíka atburðarás. Hér reyni ég að koma þessu heim og saman,

Leikritið hefst á því að Macbeth, sem ber titilinn Thane of Glamis, er á leið yfir heiði í Skotlandi, eftir frækinn sigur í orrustu, ásamt vini sínum Banquo. Þar verða á vegi þeirra 3 nornir eða seiðkonur, sem spá honum glæstri framtíð. Annarsvegar að hann hann hljóti titilinn Thane of Cawdor, sem er talsvert merkilegri en sá sem hann þegar ber og hinsvegar að hann verði konungur Skotlands.  Þeir félagar halda síðan áfram för sinni og mæta þá konungsmönnum sem segja Macbeth að hann sé orðinn Thane of Cawdor. Nornirnar höfðu sagt rétt fyrir um þá upphefð. Þetta kveikir í Macbeth. Banquo varar hann þó við:
BANQUO
                                   But 'tis strange:
And oftentimes, to win us to our harm,
The instruments of darkness tell us truths,
Win us with honest trifles, to betray's
In deepest consequence.
Lauslega segir hann hér, að til þess að skaða okkur, lofi myrkraöflin okkur einhverju smáræði, sem gengur eftir, en svíki okkur síðan þegar mest á ríður.

Í stuttu máli þá drepur Macbeth Duncan Skotakonung og nær þannig krúnunni. Í framhaldinu hefst síðan blóðugur ferill hans í hásæti og hann sér óvin í hverju horni. Hann lætur meðal annars drepa Banquo vin sinn, þar sem nornirnar sögðu að hann yrði faðir konunga. 

Loks stendur hann frammi fyrir því að nornirnar höfðu verið að plata hann með orðaleikjum. Sem dæmi um það má nefna, að þær sögðu honum að enginn sá sem kona hefði fætt myndi geta sigrað hann.  Það fór hinsvegar svo að Malcolm, eldri sonur Duncan's, drap hann, eftir að hafa tjáð Macbeth að hann hefði verið tekinn úr kviði móður sinnar, fyrir tímann.

Mér hefur fundist að hjá framsóknarmönnum sé skiplögð atburðarrás í gangi, sem nær síðan hámarki á flokksþingi. Formaðurinn átti leið um heiðina sína Norðanlands þar sem hann hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sæti framboðslistans (hann er, sem sagt, Thane of Cawdor).  Nornirnar sem spáðu honum æðstu metorðum tel ég vera þau VH, SM og GBS.
Hver vinur hans er, sem síðan er fórnað þar sem í honum á að felast ógn, veit ég ekki hver er, en hann gæti vel líkamnast í HÞÞ, með góðum vilja. Ekki veit ég heldur hvernig varaformaðurinn, sem nú hefur skorað hann á hólm, er annar en formaðurinn hafði búist við. Kannski varð það faðmlagið og loforðið sem reynist þýða annað en formaðurinn taldi.

-------------------------
MYNDIN
Myndin sem fylgir er jólagjöf sem ég gaf föður mínum árið 2009. Þar hafði ég búið til viðtal við hann um Framsóknarflokkinn í fortíð og nútíð, sem byggði að miklu leyti að því sem hafði komið fram í samræðum okkar um þann flokk.
Honum fannst jólagjöfin bara nokkuð fyndin. 
Ég hyl andlit systkina minna þar sem ég hef ekki beðið þau leyfis að fá að birta þau í samhengi við svona texta. 




28 desember, 2015

Í hvítri og friðsamri sæng - rafræn útgáfa

Skúli Magnússon upp úr 1940
Það sem hér fer á eftir er umfjöllun sem birtist í Litla-Bergþór, 2. tbl., 36. árg, desember 2015. Ég set hana hér inn til að eiga hana á þessu svæði. Ég neita því ekki, að það fór ansi mikill tími í að afla upplýsinga sem gætu varpað meira ljósi að það sem gerðist þarna  fyrir um 75 árum. Flestir þeir sem á þessum tíma voru komnir af barnsaldri eru horfnir af vettvangi, mér tókst ekki að komast í samband við fólk sem mögulega gæti munað þennan atburð, og minni þeirra sem ég ræddi við var auðvitað ekkert sérstaklega skýrt, enda þarna oftast um upprifjun á atburði sem þeir mundu að hefði komið til tals síðar. Það var þannig, eins og við þekkjum mörg, að um erfiða atburði að áföll, var ekki rætt við börn, eða lítið rætt yfirleitt.. 
Þó pabbi hefði verið þarna virkur þátttakandi í leitinni að Olav, var það ekki fyrr en eftir að hann lést á síðasta ári, þegar ég rakst á dagbók sem hann hafði skrifað árið 1940 (fyrsta árið sem hann var á Syðri-Reykjum) að ég fékk vitneskju um  þá hörmung sem þarna hafði átt sér stað. 
Ég leitaði að frásögnum en fann ekkert annað en fréttir í dagblöðum og fannst þessvegna mikilvægt að 
reyna að afla frekari upplýsinga og 
koma dagbókarfærslunum á prentað form. Það tókst á endanum og viðleitni mína má nú finna í ofangreindu tölublaði Litla-Bergþórs. 
_____________________________________________________
M1:Olav Sanden í byrjun árs 1940
Árið 1938 kom ungur Norðmaður, Olav Sanden (f. 29.11.1918 (í skrá um legstaði í Torfastaðakirkjugarði er hann sagður hafa fæðst 29.1.1918 og þarna er líklega um að ræða skrifvillu í annarri heimildinni)), til landsins og hóf störf á Syðri-Reykjum hjá Stefáni Árnasyni (1911-2002) og Áslaugu Ólafsdóttur (1909-1996). Þau áttu tvö börn á þeim tíma sem hér er fjallað um: Ingveldi Björgu (3) og Ólaf (2). 

Það sem hér fer á eftir eru færslur úr dagbók (feitletrað) Skúla Magnússonar, síðar garðyrkjubónda í Hveratúni (1918-2014) frá árinu 1940. Þessar færslur fjalla um aðstæður þegar Olav varð úti á leið sinni frá Efstadal til Syðri-Reykja, 19. febrúar, 1940. 

Veður var ágætt vikuna 11.- 17. febrúar 1940. Framan af var hæg austan átt og hiti um og yfir frostmarki. Um miðja vikuna fór að kólna með norðaustan golu. 

Lífið á Syðri Reykjum gekk sinn vana gang og unnið að undirbúningi fyrir vorið: rör voru fægð og lökkuð, stungið upp og byrjað að planta út tómötum. 
M2:Séð frá S.-Reykjum. Brúará í forgrunni,
Efstidalur ofarlega til hægri
Laugardagurinn 17. Norðaustan kaldi bjart veður 10 gráðu frost. Olav fór upp að Efstadal.
Til þess að fara frá S.-Reykjum upp í Efstadal, var farið á bát yfir Brúará. Erindi Olavs í Efstadal var að hitta þar jafnaldra sína, en einhverjir þeirra voru í íhlaupavinnu á Syðri-Reykjum á þessum tíma. Þá bjuggu í Efstadal II hjónin Jórunn Ásmundsdóttir (59) og Sigurður Sigurðsson (60). Börn þeirra sem þá voru heima voru: Steinunn (22), Magnús (21), Ingvar (20), Björn (19) og Magnhildur (17). Á hinum bænum í Efstadal bjuggu hjónin Sigþrúður Guðnadóttir (43) og Karl Jónsson (35), síðar í Gýgjarhólskoti, ásamt börnum sínum Helgu (11) Jóni (10), Guðrúnu (8), Ingimar (7), Guðna (6), Arnóri (4), Margréti (3) og Gunnari (á fyrsta ári) og bróður Karls, Grími (29).
M3:Róið yfir Brúará um 1940
Sunnudagurinn 18. Norðan og norðaustan gola 2 gráðu frost mikil snjókoma með morgninum. Olav var ókominn frá Efstadal. 
 Mánudagurinn 19. Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson, Bergur og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoma og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar vorum komnir norður fyrir Brúará var kl. 9:50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt læri og mitti og jafnvel enn þá meira sumstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var. Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan, sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl. 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hversu veðrið var ískyggilegt. Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20 mín til hálftíma) og vorum flestir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um, við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman, lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir um kl. 5. Jón fer með Guðmundi til baka aftur því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri. Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.
Mennirnir fjórir voru Stefán Árnason (28), Skúli Magnússon (21), Ingibergur Sæmundsson (19) og Jón Guðmundsson (28) frá Blesastöðum, en hann hafði komið að Syðri-Reykjum nokkru fyrr til að leggja miðstöð í gróðurhús.

M4:Afstöðumynd: Efstidalur, S.-Reykir,
Böðmóðsstaðir
Í dagbókinni er talað um að fjórmenningarnir hafi verið búnir að ganga „æði spöl“ í átt að Efstadal þegar þeir mættu pilti þaðan. Á meðfylgjandi korti er mögulegur staður þar sem þeir hittu piltinn (merktur með A). Þessi piltur mun hafa verið Ingvar Sigurðsson, þá tvítugur og var hann ríðandi. Það má teljast líklegt að þeir hafi valið stystu leiðina að Böðmóðsstöðum frá þeim stað sem þeir mættust og er möguleg leið sýnd á kortinu með mjórri punktalínu frá A. Vissulega er hér um ágiskun að ræða.

Á Böðmóðsstöðum bjuggu á þessum tíma hjónin Karólína Árnadóttir (42) og Guðmundur Ingimar Njálsson (45). Börn þeirra, sem komust á legg, voru: Guðbjörn (19), Ólafía (18), Aðalheiður (17) (síðar í Neðra-Dal), Kristrún (15), Jóna Sigríður (14), Valgerður (13), Lilja (11), Fjóla (11), Njáll (10), Ragnheiður (8), Árni (7) (síðar á Böðmóðsstöðum), Guðrún (6), Herdís (5) og Hörður (4) (síðar á Böðmóðsstöðum) og Ólafía Guðmundsdóttir, móðir Guðmundar (72). 

Í ævisögu Páls á Hjálmsstöðum, „Tak hnakk þinn og hest“ sem Vilhjálmur S. Vilhjálmsson færði í letur og sem kom út 1954, er þáttur sem ber heitið „Erfið beitarhúsaferð“. Þar er fjallað ítarlegar um veðrið sem greint er frá í dagbókinni:
…allt í einu bar svo við, á þorranum, að hann fór að snjóa á galauða jörð. Algert logn var, og kyngdi niður snjónum í tvo sólarhringa samfleytt. Ég fór fram í beitarhús og Guðmundur sonur minn með mér. Ætluðum við að gæta að fénu og leita hesta, sem áttu að vera þarna ekki langt frá. Við gáfum á jötur og fórum að því loknu heim með hestana. Enn snjóaði, og nú ákafar en áður, og stóð svo í marga daga. Ég þorði ekki að senda drenginn einsamlan, og tók ég þá það ráð að fara ríðandi ásamt Hilmari syni mínum. Var þá bæði ákafur snjógangur og þoka, en það var óvenjulegt veðurlag. Svo svört var hríðin, að við sáum ekki út úr augunum og snjórinn var í miðjar síður á hestunum. Við fundum þó fjárhúsin um síðir. Þegar við vorum hálfnaðir með gegningar rauk á með hvassviðri og varð moldin svo mikil að varla sáum við niður á hnén á okkur.
og áfram heldur Páll og segir hér frá ferðinni til baka frá beitarhúsunum:
Lausamjöllin var komin í skafla, sem náðu upp fyrir hestana. Þeir brutust um og við gengum með þeim, því að ekkert viðlit var að sitja á þeim. Þarna kútveltumst við og hestarnir í snjónum og okkur fannst að ekkert miðaði.
M5: Mbl 23.02.1940
Áfram héldu þeir þó og á endanum „bókstaflega rákust þeir á bæinn“ fimm tímum eftir að þeir lögðu af stað frá beitarhúsunum. Að lokum segir svo:
Ég held að ég hafi aldrei komist í krappari dans á ævi minni. Þessi ofsi stóð í heilan sólarhring og linnti aldrei. Þá varð danskur maður úti skammt frá beitarhúsi í dalnum. Hann hafði farið frá Efstadal, en ekki náð heim til sín, að Reykjum í Biskupstungum.
Þriðjudagurinn 20. Hvöss norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum mann að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. Austan kaldi úrkomulaust en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs. Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara, áðurnefndra bæja. Var nú tekið að safna liði hér í nágrenni til að leita á morgun.
Fimmtudagurinn 22. Austan strekkingur, krapahríð. Leitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvað afdrep var, var kafald og hin mesta ófærð. Okkur þótti fullvíst að leit væri árangurslaus meðan þessi snjókyngi væri á þessum slóðum, var því ákveðið að geyma hana uns þiðnaði.
 Föstudagurinn 23. Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4 gráðu frost. Við lögðum rör í 4 og 5 en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.
Næstu daga var norðaustan gola, bjart veður og hiti frá -2° niður í -10°, en fimmtudaginn 29. varð breyting á.
Fimmtudagurinn 29. Allhvass að sunnan með dálítilli rigningu 2 gráðu hiti.
Föstudagurinn 1. Hæg suðvestan átt éljaveður en bjart á milli. 1 gráðu frost. Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmveðurs tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Grundarhúsin sem þarna eru nefnd eru að öllum líkindum svokölluð Flatarhús. Ekki ber heimildum saman um hver eða hverjir fundu lík Olavs, né nákvæmlega hvar. Ákveðnasta vísbendingin um þetta greinir frá því að Ingvar Sigurðsson, sem áður er nefndur, hafi verið við gegningar í beitarhúsum í svokölluðum Múla. Hann var með hund með sér. Hundurinn mun hafa tekið á rás niður á mýrarnar þar sem hann fann lík Olavs ekki langt frá Bleikhól, sem er merktur á meðfylgjandi korti. Það er í samræmi við það sem aðrir viðmælendur töldu.
Laugardagurinn 2. Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5 gráðu hiti. Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.
Bergur, sem þarna er nefndur, er Ingibergur Sæmundsson.

Systir Olavs, Liv Gunnhild (1915-1951), hafði, tveim árum fyrr gifst Stefáni Þorsteinssyni (1913-1997), garðyrkjufræðingi, sem þetta ár hóf störf sem kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði að loknu námi í Noregi. Stefán og Liv ráku garðyrkjustöðina á Stóra-Fljóti í Biskupstungum um skeið frá 1946, en Liv lést úr berklum 1951. Þá höfðu þau Stefán eignast 6 börn og var Liv Gunnhild þeirra yngst, fædd árið áður en móðir hennar lést, þá 26 ára að aldri. Önnur börn Liv og Stefáns voru Þorsteinn (1938), Aðalbjörg (1940), Guri Liv (1941), Sigrún (1945) og Birgir (1948). Eftir lát konu sinnar var Stefán á Stóra-Fljóti til 1956. 

Eitt barna þeirra Stefáns og Liv, Birgir, fór í fóstur til Guðnýjar Guðmundsdóttur og Helga Indriðasonar í Laugarási og var hjá þeim til fullorðinsára.
Sunnudagurinn 3. Norðvestan kaldi, 4 gráðu hiti. Ekkert nýtt bar til tíðinda.
Mánudagurinn 4. Norðaustlæg átt bjart veður 5 gráðu frost. Jarðarför fór fram á Torfastöðum.

Eftirmáli

Feitletraði textinn er orðréttur úr dagbók föður míns frá þessum tíma, þeim hluta sem fjallar um veður og Olav. Þess ber að geta, að þegar Olav varð úti var faðir minn búinn að vera hálfan mánuð á Syðri-Reykjum og tæpa tvo þar á undan á Torfastöðum, en hann kom í fyrsta skipti hingað suður, austan af Fljótsdalshéraði, í byrjun desember 1939. Fósturfaðir hans Benedikt Blöndal, varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Héraðs í janúar það ár. 

Ég hef leitast við að fylla í eyður með heimildum úr timarit.is og samræðum við fólk sem mögulega var talið hafa vitnesku um þann atburð sem um ræðir þar á meðal dætur Liv og Stefáns, þær Sigrúnu og Aðalbjörgu. Hjá þeim fékk ég einnig myndina af honum með hestinum. Þá mynd höfðu þær fengið frá Ingveldi Stefánsdóttur frá Syðri-Reykjum. Aftan á myndinni stendur: O Sanden 1940. Hina myndina af Olav fékk ég hjá Ólafi á Syðri-Reykjum, en hún er líklegast tekin 1939.

Ég ræddi einnig við Ólaf Stefánsson á Syðri-Reykjum, Theodór Vilmundarson í Efstadal, Snæbjörn Sigurðsson í Efstadal, Hörð Guðmundsson á Böðmóðsstöðum, Guðnýju og Gróu Grímsdætur á Ketilvöllum, Jón Karlsson og Ragnhildi Magnúsdóttur í Gýgjarhólskoti, Friðgeir Stefánsson í Laugardalshólum og tvö barna Ingvars Sigurðssonar, þau Sigurð og Sigþrúði. Þessu fólki kann ég bestu þakkir fyrir aðstoðina.

M6: Olav Sanden til vinstri. Myndin líklega tekin 1939.
Ekki hef ég nafn hins mannsins.

M7: Skúli Magnússon reynir að hafa stjórn á Ólafi Stefánssyni,
1941-42 (?)

M8: Skúli Magnússon og Stefán Árnason prikla upp úr 1940

Myndirnar á síðunni eru frá Syðri-Reykjum utan M2, M4 og M5. Á frumbýlingsárum Stefáns og Áslaugar voru í það minnst tveir miklir áhugamenn um ljósmyndun, með góð tæki og því mikið myndefni til, sem mér finnst að mikilvægt sé að halda til haga og merkja eftir föngum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...