10 september, 2018

Að efna í aldarminningu (5)

Þar sem síðasta hluta lauk var komið að heilmikilum þáttaskilum í lífi Skúla. Benedikt Blöndal, fóstri hans hafði undirbúið að senda hann í Garðyrkjuskólann í Hveragerði, en jafnframt lá fyrir að til þess að fá inngöngu þar þyrfti Skúli að starfa í eitt á ár garðyrkjustöð. Benedikt hafði hugmyndir um að byggja upp garðyrkju á Hallormsstað og þarna var á heimilinu ungur maður á krossgötum sem myndi geta aðstoðað við að koma þeim áætlunum í framkvæmd.

Eins og segir í lok síðasta hluta, varð Benedikt hinsvegar úti í janúar 1939. Þetta breytti þó ekki fyrirætlunum um að Skúli færi suður til starfa á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar og Áslaugar Ólafsdóttur á Syðri-Reykjum. Það má reikna með því að frú Sigrún Blöndal hafi ekki tekið annað í mál en að af þessu yrði þrátt fyrir áfallið og forsendubreytinguna sem varð við brotthvarf Benedikts.


Áður en lengra er haldið, er rétt að greina frá því, að ekki hefur mér tekist enn, á fá það staðfest hvar Skúli ól manninn veturinn 1938-9. Það liggur fyrir að hann lauk gagnfræðaprófi frá MA vorið 1938, en fór ekki suður fyrr en síðla árs 1939. Þetta skiptir svo sem ekki máli nema vegna þess að Guðný Pálsdóttir, sem áður er nefnd og á eftir að koma meira við sögu, var nemandi í Hallormsstaðaskóla frá hausti 1937 til vors 1939. Hafi kynni þeirra Skúla og hennar ekki verið meiri en augngotur á þeim tveim árum sem þarna er um að ræða, er fremur ólíklegt að Skúli hafi dvalið á Hallormsstað veturinn 1938-9. Hann er þó skráður þar til heimilis í sóknarmannatali þennan vetur.  Hitt er rétt að hafa í huga, að það er vel þekkt úr framhaldsskólum, að fólk sem er jafnvel í sama bekk í fjögur ár nær ekki saman fyrr en eftir að skólagöngunni lýkur. Ég hyggst freista þess að komast að þessu og fjalla um það, þegar líður að aldarminningu eftir tvö ár.

Suður á bóginn
En, áfram með Skúla.
Þegar rúmir þrír mánuðir voru liðnir frá því síðari heimsstyrjöldin hófst með innrás Hitlers í Pólland, kom Skúli suður. Það var hinn 6. desember, 1939.  Hann var 21 árs gamall þegar hann kom að Torfastöðum í Biskupstungum til þeirra frú Sigurlaugar Erlendsdóttur og sr. Eiríks Þ. Stefánssonar.  Þetta liggur fyrir, þar sem hann ákvað að skrá dagbók um þá nýju lífsreynslu sem þarna beið hans.
Einhver kann að spyrja hversvegna Skúli fékk fyrst inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði áður en hann kom að Syðri-Reykjum. Líklegast hefur Stefán ekki haft þörf á vinnufólki fyrr en um mánaðamótin janúar febrúar og svo hitt að ekki er ólíklegt að frú Sigrún hafi viljað sjá til þess að hann færi í nokkurskonar aðlögun hér sunnanlands áður en hann hæfi störf. Torfastaðir voru auðvitað hentugur staður, því þar bjó vinkona frú Sigrúnar, frú Sigurlaug. Þær höfðu verið samtíða í  Kvennaskólanum kringum aldamótirn og haldið tengslum síðan.


Dvölin á Torfastöðum reyndist Skúla bara ljúf. Hann greinir frá því í dagbókinni að það hafi ekki verið fyrr en mánuði eftir að hann kom þangað að hann þurfti að vinna eitthvað að ráði. Þá var baðað fé frá Torfastöðum, Miklaholti og Torfastaðakoti.  Á  sama tíma og Skúli dvaldi á Torfastöðum var Jón Sveinsson frá Miklaholti þar vinnumaður og þeir bardúsuðu ýmislegt saman, m.a. fóru þeir á skauta í Hrosshagavík. "Tungnamenn virðast engan áhuga hafa á skautaíþróttinni og er leitt til þess að vita", skráði hann í dagbókina af þessu tilefni.
Skúli á Syðri Reykjum
Annars tók Skúli bar þátt í því sem fyrir bar á Torfastöðum þann tíma sem hann var þar og væri of langt mál að fara að tína það allt til. Hann gekk í stúkuna Bláfell og hann mun hafa átt að læra á orgel  hjá frú Sigurlaugu, en aldrei heyrðist hann fjalla um það nám sitt og aldrei sýndi hann  takta sem bentu til að hann hafi lært á hljóðfæri. Þarna hefur líkast til verið um að ræða tilraun fóstru hans til að smita hann af menningu.

Að Syðri-Reykjum
Þann 27. janúar er þessi færsla í dagbókinni:
"Ég kvaddi hér á Torfastöðum og lagði af stað til Syðri Reykja fyrir fullt og allt. Upp frá þessu mun ég eiga við (meina) Syðri-Reyki þegar ég  segi "heima" hér í þessari dagbók minni.
Við Olav prikluðum úr nokkrum kössum, sáðum í þrjá kassa tómötum og blönduðum mold og áburði".
Um hálfum mánuði síðar var Olav Sanden allur. Hann varð úti milli Syðri-Reykja og Efstadals í miklu óveðri. Skúli fjallaði ítarlega um þetta hörmulega mál í dagbókinni og samantekt á þeirri frásögn er að finna hér.  Má nærri geta að þetta hafði áhrif á hann ekki síður en annað heimilisfólk á Syðri-Reykjum. Þarna var rétt um ár síðan Skúli hafði misst fóstra sinn með sama hætti.

Skúli og Stefán Árnason (mynd frá S-Reykjum)
Eftir þessa harkalegu byrjun í starfsþjálfuninni á Syðri-Reykjum tók við hreint ágætur tími í lífi Skúla. Hann segir svo frá honum í viðtali sem Geirþrúður Sighvatsdóttir átti við hann í Litla Bergþór 2003:
Dvölin á Syðri-Reykjum var góður skóli. Þar var þá önnur stærsta garðyrkjustöð á landinu á eftir Garðyrkjuskólanum og var stunduð fjölbreytt ræktun. Þar vann fjöldi manns, meðal annarra mjög færir ræktunarmenn, danskir, hollenskir, norskir og sænskir, auk margra Tungnamanna, sem unnu ýmis störf og við uppbyggingu mannvirkja, því alltaf var verið að byggja og stækka. Unnu þarna milli 15 og 20 manns þegar mest var. Allt var mjög skipulagt og þegar ég byrjaði að vinna, man ég að við vorum sérstaklega áminntir um stundvísi. En svo gekk allt mjög ljúfmannlega fyrir sig enda Stefán og Áslaug alveg einstakir húsbændur. Stefán sá til þess að ég og annar strákur, sem höfðum mikinn áhuga á blómarækt, fengum sérstaka kennslu hjá hollenska garðyrkjufræðingnum. Og eftir árs dvöl þarna þóttist ég bara vera orðinn nokkuð menntaður maður og fór ekki á garðyrkjuskólann.
Skúli og Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)
Tíminn á S-Reykjum var einhver allra besti tími sem ég hef upplifað, bæði skemmtilegur og lærdómsríkur vegna þess fjölmennis, sem þar var og þarna kynntist ég fjölda Tungnamanna, sem varð til þess að ég fór að sækja mannfagnaði og fundi og falla inn í umhverfið. Ég átti gott með að kynnast þeim, því þá var ekki síminn, tölvur eða sjónvarp, og maður var manns gaman. Þá var líka allt handrukkað og forsvarsmenn yfirvalda, eins og Þorsteinn á Vatnsleysu, Einar í Holtakotum og Skúli í Tungu komu a. m. k. einu sinni á ári að rukka verkafólkið um tryggingar, skatta og þess háttar
Með samstarfsfólki á S-Reykjum. Skúli þriðji f.v.
(Mynd frá S-Reykjum)
Benedikt Blöndal hafði haft  fyrirætlanir um að Skúli skyldi vera á Syðri-Reykjum í eitt ár, en færi eftir það í Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Að því búnu skyldi hann koma aftur austur á Hérað til að byggja upp garðyrkjustöð á Hallormsstað. Líklegast hefur Skúli haft þetta í hyggju þegar hann kom suður, en að Benedikt gengnum virðist þrýstingurinn á að svona skyldi þetta verða hafa minnkað.  Þarna var frú Sigrún komin um sextugt og mögulegt að Skúli hafi ekki endilega séð fyrir sér framtíðina fyrir austan.  Frú Sigrún lést síðan í nóvember 1944.
Önnur ástæða fyrir því að ekkert varð úr, má síðan segja að hafi verið augngotur yfir borð á Hallormsstað nokkrum árum áður.  Það liggur fyrir að Skúli og Guðný voru farin að hittast á árunum 1941-2 og það þróaðist svona eins og gengur og kemur allvel fram í bréfum sem þau skildu eftir sig og sem ekki verður farið í að fjalla um hér.  Það var síðan fyrir tilstuðlan Skúla að Guðný fékk vinnu á Syðri-Reykjum haustið 1945. Í aðdraganda þess segir Skúli í bréfi frá september 1945:
Stefán talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín að Sigríður hefði alveg neitað sér, og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú  geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú mundir geta komið, en það vissi ég ekki. 
Með samstarfskonum (Mynd frá S-Reykjum)
Í framhaldinu var svo frá málum gengið, að Guðný kæmi að Syðri Reykjkum og skyldi vera þar Áslaugu til aðstoðar.
Þennan vetur fór að vatna undir Skúla og Guðnýju á Syðri Reykjum og þráin eftir því að verða örlagavaldar í eigin lífi fór vaxandi. Dæmi um þessar pælingar þeirra er eftirskrift í bréfi Guðnýjar frá janúarlokum 1946, en þá var hún stödd í Reykjavík:

ps. Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun:  Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni eða manni sem gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín, annað var það nú ekki.
Þann 2. apríl kemur fram í bréfi Skúla:
Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi. Ég hringdi til Steindórs (umboðsmannsins) þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann um að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og bað hann mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerði ég með þvi að senda Elís Péturss. á hann um síðustu helgi. Þá var nú kallinn [......] og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá.
.... 
Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri leitt að missa mig einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæti hann ekkert við því sagt fyrst svona stæði á. 
Um þetta segir Skúli í áðurnefndu viðtali í Litla Bergþór:
Árið 1945 frétti ég af lausri lóð hér í Laugarási sem var til sölu. Lemmingsland var það kallað, en danskur maður, sem Lemming hét hafði verið þar með garðyrkju. Þessa lóð keypti ég og það voru skrítin kaup. Ég þurfti ekki að borga krónu, heldur fékk bunka af víxlum, sem voru svo að falla allan ársins hring. Það var Steindór Gunnlaugsson, bróðir Skúla í Tungu, sem hafði milligöngu um kaupin og hann skrifaði uppá hjá mér. Svo var framlengt og borgað inná, þar til tókst að borga upp. Þetta var strembið, þótt 45.000,- þætti ekki stór upphæð í dag. En þetta var árið 1945 og þá var þetta þó nokkur upphæð

Þannig fór það, að Skúli og Guðný keyptu Lemmingsland, sem svo hlaut nafnið Hveratún, að tillögu sr. Eiríks á Torfastöðum.

Framhaldið bíður þangað til næst.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...