08 september, 2018

Fé og fjárrekar

Í gær var dagurinn þegar fjallalömb Tungnamanna lögðu að baki síðasta spottann á leið sinni ofan af afréttinum niður í Tungnaréttir, þar sem eigendurnir vitja þess í dag.  Yfir þessu öllu er einhver töfraljómi sem maður smitast örlítið af, en hefur bara hreint ekkert með að gera. Þarna rann féð niður eins og fljót sem ekki verður stöðvað, hópurinn í heild sinni næstum ógnvænlegur, á sama tíma og hver einstaklingur er sakleysið uppmálað.

 Mér kom það lítillega á óvart að það skyldu ekki sjást neitt fólk með  mótmælaskilti við Tungufljótsbrúna í gær. Það hefði allt eins mátt búast við því í ljósi þess hve áberandi framganga kjötneysluandstæðinga er orðin. Ef til vill leggja þeir ekki enn í að keyra langt úr fyrir höfuðborgarsvæðið til að berjast fyrir málstað sínum.  Þarna hefði maður getað búist vvið að sjá hópa fólks með skilti. Ég gæti tínt til fjölmargt sem á svona skiltum gæti staðið, t.d.:
Strjúktu - meðan enn er tími.
Endirinn nálgast.
Ekki fara undir hnífinn.
Láttu ekki blekkja þig.
Komdu til mín, ég skal passa þig.
Ekki treysta lambrekunum.
Aldrei aftur lambakjöt.

Nú er ég kominn aðeins úr leið og reyni að finna aftur sporin sem ég fetaði mig eftir þegar ég lagði af stað. Með öðrum orðum: Það er best að hætta þessari vitleysu áður en hún fer út yfir einhver mörk.

Í gær var dagurinn þegar við fD ákváðum að njóta eftir föngum þess árvissa viðburðar þegar féð kemur af fjalli í aðdraganda eins mesta hátíðisdags ársins hjá því fólki sem byggir afkomu sína að mestu eða allavega að einhverju leyti á sauðfjárrækt, börnum þeirra og barnabörnum og fjölskyldum öllum.
Ég skil vel þá gleði sem þarna er um að ræða. Þetta er dagurinn þegar í ljós kemur hvernig uppskeran er, svona rétt eins og þegar garðyrkjubóndinn gengur um kálgarðinn sinn til að skoða hvort hvernig blómkálshausarnir koma undan sumri.
Svo er alltaf spurt: "Hvernig kemur svo fé af fjalli?" Þá er svarað: "Það virðist nú vera nokkru vænna en í fyrra". Hryggir eru þuklaðir, undir áhyggjufullu jarmi mæðra og afkvæma sem hafa misst sjónar hvert á öðru í atganginum öllum.
Já, þetta er hápunktur ársins sjá sauðfjárbændum og full ástæða til að óska þeim til hamingju með daginn.

Okkur fD var orðið kalt. Höfðum meðtekið upplýsingar um stað og tíma, sem reyndust úr úr öllu korti. Föttuðum auðvitað ekki að fylgjast með beinum útsendingum fjallmanna og þeirra sem "fóru á móti safninu".  Hefðum við gert það, hefði ekki beðið okkar þriggja klukkutíma bið eftir að fyrsta fjallalambið skokkaði örþreytt yfir Tungufljótsbrúna.  Ekki hef ég tölu á þeim fjölda skipta sem það hvarflaði að mér að láta gott heita og fara bara heim. Það var helst að leyndur áhugi og spenna fD hafi komið í veg fyrir að þessar pælingar mínar kæmust í framkvæmd.  Einhversstaðar á Einiholtsmelum ákvað ég stað sem hentugur gæti verið til myndatöku. Þar ákvað ég einnig að ég skyldi bíða þess sem framundan var, án þess að hvika. fD tók hinsvegar heilsubótargöngu dagsins og var komin langleiðina niður í réttir þegar ég hafði smellt af eins og þurfti.


Við Tungufljótsbrú tók síðan við enn frekari bið, alveg óendanleg bið. Það kom að því að sást til fjallmanna og fjár í fjarska. Þessi sérstaki hópur nálgaðist síðan hægt og ofurrólega, alltof rólega. Það var farið að kólna, en úr þvi sem komið var, varð niðurstaða um að fylgja málinu til enda, svona að mestu leyti.

Loks fór að birtast fjallbarið fólk á reiðskjótum sínum. Það reið með keisaralegri tign yfir Tungufljótsbrúna sem hefur tengt eystri Tunguna við þá vestari í næstum níu áratugi.
Þetta er skemmtileg brú.
Svo fór að sjást æ betur í safnið sem þokaðist stöðugt nær og loks svo nálægt að það byrjaði að feta sig yfir brúna. Sumt skokkandi, annað haltrandi, margt jarmandi, í öllum litum íslensks sauðfjár.
Ég smellti af í hita þessa auknabliks, bara til þess að geta haft úr fleiri myndum að velja þegar heim væri komið.
Þarna rann féð yfir brúna og sú upplifun varð fljótlega eins og flugeldasýning á gamlárskvöld: eftir skamma stund var maður búinn að sjá þetta allt áður. Það sem á eftir kæmi yrði aldrei nema meira af því sama. Þar með héldum við fD heim og elduðum dýrindis blómkálssúpu, sem sannarlega kom hita í kroppinn eftir útivist dagsins.

Við erum ekki í réttum í dag.
Viljum leyfa þeim sem til þess hafa unnið, að njóta þessa hátíðisdags með sínu fólki.
Við ætlum bara að samfagna með okkar hætti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...