Skúli gerði fátt nema vera til og ekki til neinar frásagnir af honum sem einstaklingi á þessum tíma. Það verður þó að gera ráð fyrir, svona miðað við allt og allt, að ekki hafi hann fæðst inn í þennan heim með silfurskeið í munni. Hann var, eins og sagt er stundum, af alþýðufólki kominn, fólki sem barðist til að eiga í og á sig og börnin sín. Ekki hefur mér heyrst annað en það hafi tekist hjá foreldrunum þó víst hafi það oft verið tæpt.
Þegar skilið var við Freyshólafjölskylduna síðast var Skúli mikið til kominn í fóstur í Mjóanes til þeirra Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Fjölskyldan að öðru leyti var flutt í Víkingsstaði, þar sem hún skóp sér líf svona eins og fólk gerir. Ekki verður frekar fjallað um lífið á Víkingsstöðum hér og nú, enda heimildir af skornum skammti. Hvað síðar verður, verður tíminn að leiða í ljós.
Sigrún Blöndal við skriftir |
Sigrún og Benedikt Blöndal með þeim Sigurði, standandi og Skúla sitjandi. |
Sigurður Blöndal og Skúli Magnússon |
Sigurður, Skúli og Doddi/Daddi? 1931. Mynd frá Sigrúnu Blöndal yngri. |
Allt þróaðist þetta þannig, að ákveðið var að stofna húsmæðraskóla á Hallormsstað. Hann var byggður á árunum 1929-30 og yfirsmiður var Guðjón Jónsson (Guðjón snikkari), föðurbróðir Skúla.
Skólinn tók til starfa haustið 1930 og Sigrún var ráðin til að stýra honum og fjölskyldan flutti í Hallormsstað og Skúli orðinn 12 ára gamall, en Sigurður átta ára.
Næstu árin hafa vísast farið í skólagöngu og allskyns stúss á stóru heimili. Ekki fjölyrti Skúli um hvernig líf hans þróaðist á þessum árum, utan það að hann upplýsti um hve óskaplega honum hefði leiðst að reyta rjúpur á haustin. Þar með var komin skýringin á því að aldrei voru rjúpur í matinn í Hveratúni. Hann fjallaði einnig um samskipti sín við sumt af því fólki sem starfaði einnig við og í kringum skólann. Bróðir hans, Haraldur, var vinnumaður á Hallormsstað árið 1937 og má reikna með að hann hafi komið þar að hluta til vegna þess að veturinn 1937-8 var Skúli sendur til náms í Menntaskólanum á Akureyri, en þaðan lauk hann gagnfræðaprófi.
Úr skólaspjaldi MA 1938 |
Skólaspjald Hallormsstaðaskóla 1937-8 |
Þar sá ég þig fyrst. Ég man ennþá eftir þér þar sem þú sast á móti mér við borðið hjá Guðrúnu Jens. Manst þú eftir því?Ekki er óvarlegt að áætla að augnagoturnar yfir borðið hjá Guðrúnu Jens hafi orðið kveikjan að því sem síðar varð. Hver veit? Mikil er þá ábyrgð hennar Guðrúnar Jens.
Eftir menntaskóladvölina var kominn tíma til að velta fyrir sér hvað við skyldi taka. Um þetta segir Skúli í viðtali í Litla Bergþór:
Þá var ákveðið að gera úr mér garðyrkjumann. Fóstri minn hafði mikinn áhuga á að nýta orku með heimarafveitu og vildi setja upp garðyrkjustöð, sem hituð yrði upp með rafmagni. Úr því varð aldrei, en það var sótt um skólavist fyrir mig í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Ég komst þó ekki inn strax, því ákvæði var um að nemendur yrðu að hafa starfað í a.m.k. eitt ár í ylræktarstöð, áður en þeir fengu inngöngu í skólann.Skúli þurfti að fara í eins árs starfsþjálfun. Þar með hófst flétta sem reynt verður að gera grein fyrir í næsta hluta þessarar pistlaraðar.
Áður en af því varð að Skúli héldi suður, varð fjölskyldan á Hallormsstað fyrir miklu áfalli. Benedikt, fóstri Skúla varð úti í janúar 1939. Frá þessu var svona sagt í Tímanum þann 14. janúar:
Benedikt Blöndal á Hallormsstað varð úti á Þórdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Skriðdals, síðastliðinn mánudag. Hann var á heimleið frá Reyðarfirði. Fylgdi maður frá Reyðarfirði honum upp á miðja heiðina, en snéri þar við, því að Benedikt taldi sér ekki þörf á fylgd lengra. Éljaveður var þennan dag og gekk að með dimmviðri, er á kvöldið leið og dróg úr frosti. Menn vissu ógerla um ferðir Benedikts og var hans því eigi leitað strax. Hríð var hinn næsta dag.
Á miðvikudag var tekið að undrast um Benedikt og leit hafin að honum, en eigi bar hún árangur. Á fimmtudagsmorgun var enn leitað og fannst lík Benedikts þá um morguninn, eigi langt frá bæjum í Skriðdal. Hafði hann grafið sig i fönn og stungið skíðum sínum og stöfum á endann niður í skafl. Var nálægt klukkutíma gangur að Hallbjarnarstöðum frá þeim stað sem Benedikt hafði orðið til á, en 1½—2 klukkutima gangur þangað, sem fylgdarmaðurinn sneri til baka. Lík Benedikts var flutt að Mýrum í Skriðdal, og þaðan heim til Hallormsstaðar í gær.Lífið varð nú samt að halda áfram, eftir því sem kostur var.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli