30 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (3)

Hér kemur framhald af þessu (1) og þessu (2)

Hér er um að ræða tilraun mína til að útbúa svo rétta lýsingu á æviferli föður míns sem mér er unnt, án þess að fara grafa mig á djúpt kaf í skjalasöfn. 

Þegar síðasta hluta lauk var fjölskyldan sem um ræðir, að flytja frá Rangárlóni í Jökuldalsheiði, að ættaróðalinu Freyshólum í Vallahreppi á Fljótsdalshéraði, en þaðan höfðu þau einmitt flutt vorið 1918. Nú voru börnin orðin fimm í stað tveggja. Alfreð (7), Haraldur (6) (sem hafði reyndar verið tvö síðustu árin á Freyshólum hjá ömmu sinni), Skúli (3), Björg (2) og Sigfríður, ekki orðin eins árs.

Áður en lengra er haldið er rétt að setja hér inn mynd eða kort þar sem sjá má þessa helstu bæi í Vallahreppi sem koma við sögu í framhaldinu, svona fyrir þau ykkar sem ekki eruð staðkunnug á Héraði. Þetta er gert til að freista þess að sjá til þess að ykkur takist að fylgja fléttunni sem birtist í framhaldinu.

Helstu bæirsem við sögu koma í frásögninni.

Hvervegna aftur í Freyshóla?
Um ástæður þessa flutnings vorið 1922 er hægt að setja fram ýmsar tilgátur þó mis auðvelt sé að rökstyðja þær. Hér er ein, sem telja verður bara þó nokkuð vel ígrundaða.

Árið 1922 varð Guðmundur Jónsson 62 ára, en hann var bóndi á Freyshólum og mágur Magnúsar,(kvæntur Sigurbjörgu systur hans).  Sigurbjörg kona hans var allmiklu yngri eða  43ja ára. Son áttu þau, Jón Björgvin sem var 18 ára og því ekki tilbúinn að taka við búi af foreldrum sínum strax. Þá var á bænum móðir Magnúsar og Sigurbjargar, Ljósbjörg sem var þarna komin vel á áttræðisaldur.

Það varð úr, í ljósi aldurs bóndans, og ómegðarinnar hjá Magnúsi og Ingibjörgu, að þau hjónin Guðmundur og Sigurbjörg færu í vinnumennsku að Strönd og Rangárlónshjónin tækju að sér búskapinn í Freyshólum, þar til sonurinn á bænum, Jón Björgvin, væri búinn að ná sér í konu og svona og kominn með nægilegan aldur og þroska  til að til að taka að sér búið. Þannig má segja að um hafi verið að ræða nokkurskonar bráðabirgðaráðstöfun. Hvað síðan tæki við hjá Magnúsi, Ingibjörgu og börnunum var látið bíða síðari tíma.

Á Freyshólum
Á Freyshólum þetta ár, 1922, voru skráð til heimilis, auk fjölskyldunnar, Ljósbjörg (74), móðir Magnúsar og Jón Björgvin (18) sonur Sigurbjargar og Guðmundar, sá sem síðar átti vísast að taka við búinu.
Árið leið og þau komu sér þarna fyrir og búskapurinn væntanlega ekki jafn strembinn og í heiðinni, þó ekki verði það fullyrt.
Árið eftir voru bæði Jón og Ljósbjörg farin af heimilinu. Hann fór í vinnumennsku að Strönd og síðar Ketilsstöðum. Ljósbjörg gerðist húskona á Gunnlaugsstöðum í tvö ár og síðan á Ketilsstöðum í önnur tvö.
Um miðjan október fæddist Magnúsi og Ingibjörgu sjöunda barnið, dóttirin Fanney, en hún lést í desember sama ár.

Ekkert bar til tíðinda á Freyshólum árið 1924, svo vitað sé. Í Mjóanesi fæddist hinsvegar þeim hjónum Sigrúnu og Benedikt Blöndal sonurinn Sigurður, en sá atburður hefur mikil áhrif á framvindu þessarar aldarminningar. Lesendur verða bara að bíða rólegir.

Svo var það í júlí, 1925, að Ingibjörgu og Magnúsi fæddust tvíburar, sem segja má að hafi verið fyrirburar. Þetta voru tvær agnarsmáar stúlkur og voru skírðar Guðfinna og Pálína í höfuðið á uppeldisforeldrum Ingibjargar, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Páli Geirmundssyni sem bjuggu á Borgarfirði eystri. Guðfinna lést nokkrum dögum eftir fæðingu.
Pálína var svo smávaxin að faðir hennar gat smeygt giftingarhringnum upp á fótlegginn á henni.

Heyskapurinn spurði ekki um aðstæður fólks og Ingibjörg þurfti að ganga þar til verka eins og annað verkfært fólk. Þá passaði Haraldur systur sína, en hún var geymd í kartöfluméli,  vafin flóneli og ull. Yst voru flöskur með heitu vatni  sem þurfti að passa upp á að kólnuðu ekki. Verklaunin voru vasahnífur þegar farið var í kaupstað um haustið.

Þegar hér var komið höfðu hjónin eignast 9 börn og misst þrjú í eða skömmu eftir fæðingu. Hvort þau voru í raun 10, skal ekki fullyrt hér.
Ekki eignuðust Ingibjörg og Magnús fleiri börn.

Nú líður að því, að lokið verði að rekja sögu Magnúsar og Ingibjargar og fimm barna þeirra, en haldið áfram með þriðja elsta soninn, Skúla. Hvað verður um skráningu á sögu Víkingsstaðaættingja minna síðar, veit ég bara ekki, en hún er harla áhugaverð.

Líkast til var það vorið 1927 að fjölskyldan flutti frá Freyshólum í Víkingsstaði, en sú jörð hafði þá losnað til ábúðar.
Jón Björgvin Guðmundsson (23) systursonur Magnúsar, sem áður er nefndur, flutti þá í Freyshóla ásamt konu sinni Hildi Stefánsdóttur (30), eins ár syni, Stefáni, foreldrum sínum og ömmu, Ljósbjörgu (79)

Sigurður Blöndal situr, Skúli Magnússon hægra megin,
Tryggvi Blöndal (?) sendur bak við Sigurð.
Mynd frá Sigrúnu Blöndal, líklega tekin í lok þriðja
áratugar síðustu aldar.
Í Mjóanes
Í viðtali í Litla Bergþór frá 2003 sagði Skúli: "Á 5. ári fór ég í Mjóanes, til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Var upphaflega fenginn að láni, sem leikfélagi Sigurðar, sonar þeirra, en ílentist þar og varð fóstursonur þeirra".
Sigurður Blöndal fæddist í nóvember 1924, þegar Skúli var sex ára og því stenst þetta ekki alveg og breytir svo sem engu. Það má ljóst vera, að samgangur milli heimilanna í Mjóanesi og Freyshólum hefur verið mikill, enda bara þrír kílómetrar milli bæjanna og má reikna með að Skúli hafi verið tíður gestur hjá þeim Benedikt og Sigrúnu.
Ef við gefum okkur, að þegar Sigurður var á öðru eða þriðja ári hafi það smám saman þróast svo að Skúli dvaldi æ oftar í Mjóanesi þar til skrefið var tekið til fulls. Sú tilgáta er sett hér fram að það skref hafi verið tekið þegar Freyshólafjölskyldan flutti í Víkingsstaði. Í sóknarmannatali Vallanesóknar 1926 er Skúli skráður til heimilis á Freyshólum, en árið eftir sem fórsturbarn í Mjóanesi. Þar var þá einnig Tryggvi Gunnar Blöndal, hálfbróðir Benedikts, samfeðra, 13 ára gamall.

Svo heldur þessi frásögn áfram næst.






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...