21 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (1)

Skúli Magnússon
Þann 29. september, 1918 fæddist í Jökuldalsheiðinni piltur sem hlaut nafnið Skúli og var sonur hjónanna Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur og Magnúsar Jónssonar. 
Sannarlega hefur þessi fæðing, sem átti sér stað í aðdraganda Kötlugoss og loka fyrri heimsstyrjaldar, það í för með sér að á komandi hausti verða liðin hundrað ár frá henni. 
Það er ætlun mín að freista þess að varpa ljósi, eins og kostur er, á æviskeið Skúla föður míns, en hann lést þann 5. ágúst, 2014.
Flest það sem hér birtist á sér stoð í ýmsum gögnum, annað meira í ætt við ályktanir eða jafnvel (ekki mikið þó) ágiskanir.  Pabbi var nú ekkert mikið að fjalla um fortíð sína í einhverjum smáatriðum. Við vissum þetta helsta. Síðan er bara að tengja saman punktana og búa til einhverskonar línu sem telja má trúverðuga.





Aðdragandi fæðingar
Magnús og Ingibjörg
Það var farið að vora, en orðið fullreynt að það væri ekkert jarðnæði að fá á Héraði. Fjölskyldan fór stækkandi og býlið þar sem Magnús fæddist og ólst upp, Freyshólar, stóð ekki undir því að Magnús (30) og Ingibjörg (25) settust þar að til frambúðar. Það voru því breytingar framundan.

-----------

Magnús og Ingibjörg gengu í hjónaband í mars 1913 og það ár eignuðust þau fyrsta barnið sitt, andvana. Það ár var Magnús húsmaður í Vallaneshjáleigu og Ingibjörg bústýra.
Árið eftir, 1914, var Magnús húsmaður á Gunnlaugsstöðum og þar fæddist þeim sonurinn Alfreð (1914-1994).

Þessu næst fluttu þau í Freyshóla og stofnuðu býli úr hluta af jörðinni. (Freyshólar 2. býli)  Þar leit annar sonurinn, Haraldur (1915-1991), dagsins ljós.

Á Freyshólum voru fyrir móðir Magnúsar, Ljósbjörg Magnúsdóttir (1848-1941), sem hafði þá verið ekkja eftir Jón Guðmundsson (1829-1900), föðir Magnúsar í allmörg ár, ásamt systur Magnúsar, Sigurbjörgu (1878-1944), sem var tekin við búinu ásamt manni sínum, Guðmundi Jónssyni (1858-1950) þrem börnum þeirra.
Freyshólar geta ekki talist stór bújörð og ljóst að hún bæri ekki tvær stækkandi fjölskyldur.
Freyshólar

Veturinn 1917-18 var einstaklega erfiður, Frostaveturinn mikli. 

Það var ekki um að ræða annað fyrir Magnús og Ingibjörgu, en leita þá á önnur mið. Þau höfðu frétt af því að eitt heiðarbýlanna í Jökuldalsheiði væri laust til ábúðar. Það var Rangárlón (Rangalón), sem stóð við nyrðri enda Sænautavatns og hafði verið byggt úr landi Möðrudals.
Þau létu slag standa og undirbúningur flutninganna hófst.

Um Rangárlón / Rangalón
Lítið eitt um heiðarbýlin, almennt:
Á vef  Ferðafélags Austurlands eru talin til 26 býli í Jökuldalsheiði, svokölluð heiðarbýli. Á vef Héraðsskjalasafns Austurlands er sagt að 16 býli hafi risið í Heiðinni á 19. öld.

Freyshólar
Skáldsögur Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk og  Jóns Trausta, Halla og heiðarbýlið, sækja yrkisefnið í lífið á þessum heiðarbýlum. Þangað fluttust fólk sem ekki tókst að útvega sér jarðnæði í sveitunum og lifði þar á því sem landið gaf, sem oftar en ekki var af skornum skammti. Fátækt fólk, sem harla oft lagði síðan leið sína til Vesturheims í von um betra líf.
Við Heiðar og Fjallamenn
Á fyrri hluta nítjándu aldar hófst landnám í Jökuldalsheiði. Heiðin liggur upp afnorðanverðum Jökuldal og afmarkast að norðan verðu af Þríhyrningsfjallgarði og Möðrudalsfjallgarði eystri. Að austan rennur hún saman við heiðalöndin inn af Vopnafirði.
Byggðin sem reis í Jökulsdalsheiði á nítjándu öld var að hluta reist á rústum fornbýla og selja. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu seinna byggingarskeiði voru Háreksstaðir en þar var byggt upp árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði það síðasta Lindasel árið 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og byggingatíminn var mjög mislangur. Þannig var aðeins búið í eitt ár á Hólmavatni, en á Sænautaseli stóð byggðin í nærfellt eina öld.
Byggðin í heiðinni byggði mikið á hlunnindum eins og veiði í vötnum, grasatekju og fuglaveiði. Þá voru þar víða góð engjalönd.
Það er víða fallegt í Jökuldalsheiði og á heitum sumardögum er heiðin sannkölluð paradís, en gjörólík þeirri mynd eru vorharðindi sem engu eirðu. Þá var þrautaráðið að reka búsamalann niður á Jökuldal þar sem treysta varð á þegnskap bænda. Rithöfundurinn Jón Trausti notaði heiðabyggðir í Norður-Þingeyjarsýslu sem sögusvið í sögum sínum af Höllu og Heiðarbýlinu. Þar er Aðalsteinn læknir rödd nútímans, hann mætti á hreppsnefndarfund þar sem hann las nefndarmönnum pistilinn, þar segir m.a; „Ég hef minst þar á ýmsa sjúkdóma, en ekki sjúkdóm sjúkdómanna í þessum eymdarkotum, sem sé hungrið,...“ Aðalsteinn heldur áfram „Annað aðalmeinið í kotabúskapnum ... er myrkrið“.                                     - Af vef Héraðsskjalasafns Austurlands
Lífið í Heiðinni gat verið gott, en líka einstaklega erfitt, öfgar í báðar áttir.
Ábúendur
1843-1873 Þessi bær í Jökuldalsheiði byggðist 1843, en það voru hjónin Pétur Guðmundsson (f.1798) og Þorgerður Bjarnadóttir (f. 1818) sem þar voru frumbyggjar.  Pétur lést 1851, en Þorgerður bjó áfram á Rangárlóni, giftist aftur 1855 og skildi eftir 12 ára búskap. Guðmundur Kolbeinsson hét þessi maður hennar. Síðan bjó hún áfram til 1873, en 1876 hvarf hún til Vesturheims.

1873-1875 Næstu ábúendur stöldruðu við í tvö ár 1873-1875, en það voru Sigurður Pétursson (f. 1844) og Þorbjörg Eiríksdóttir frá Ármótaseli. Þau fóru síðan til Vesturheims.
1875-1880 Næstu ábúendur entust í 5 ár, þau Kristján Friðfinnsson (f. 1830) frá Álandi í Þistilfirði og Kristín Árnadóttir (f. 1832) frá Vindbelg í Mývatnssveit. Þau fóru eftir dvölina til Vesturheims ásamt börnum sínum..
1880-1887 Fátt er vitað um næsta ábúanda en hann hét Sigurður Björnsson og stóð við í sjö ár.
1887-1889 Bergþór Jónssonog Vilhelmína Eyjólfsdóttir kíktu við í tvö ár en fluttu síðan til Vesturheims.
1889-1893 Árni Jónsson og Helga Hallgrímsdóttir. Hvert þau fóru eftir fjögurra ára viðdvöl er ekki ljóst
1893-1904: Eyjólfur Marteínsson (1862-1941) og Þuríður Hallgrímsdóttir (1867-1925)  Dvöldu óvenju lengi í heiðinni. Komu þangað með tvær ungar dætur. Þriðja dóttirin bættist við, en sama ár og yngsta barnið fæddist 1904 hurfu þau á braut.
1906-1907: Jón Stefánsson (1880-1971) og Þórunn G. Vilhjálmsdóttir Oddsen (1873-1944) Þau stöldruðu við í eitt ár, hurfu síðan á bráut og hófu að eignast börn, en þau urðu fimm auk einnar fósturdóttur.
1907-1909 Jón Guðmundsson og Guðrún Guðmundsdóttir. Þessir ábúendur héldu það út í tvö ár og ekki er meira vitað um þau.
1910-1917: Haraldur Sigurðsson (1868-1941) Þingeyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (1867-1959) frá Fellsseli S.-Þing. Börn: Sigurður (1893-1966) bóndi að Stuðlafossi og Jóna Þórdís (1902-). Komin á fimmtugsaldur með tvö börn. Virðast síðan hafa flutt til Akureyrar.
1918-1922: Magnús Jónsson (1888-1965) frá Freyshólum og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir frá Seyðisfirði.  Hér er um að ræða fólkið sem nefnt er til sögunnar í upphafi frásagnarinnar.  
1922-1924: Sigurður Haraldsson (1893-1968) og Hróðný Stefánsdóttir (1892-1966).  Börn: Stefán (1917- 1947), , Brynja (1919-1996), Valborg (1922-2008) og Hrefna (1923-1996) Haraldur (1925-).
Hér birtist sonur þeirra Haraldar og Aðalbjargar sem bjuggu á Rangárlóni frá 1910-1917 ásamt fjölskyldu sinni. 1922 fluttu þau að Möðrudal þar sem yngsta barnið fæddist sama ár þaðan fóru þau að Stuðlafossi á Jökuldal og loks til Akureyrar.
Með brottför þeirra Sigurðar og Hróðnýjar frá Rangárlóni lagðist bærinn í eyði og varð smátt og smátt að ójöfunm í landslaginu. 
Þær upplýsingar sem hér eru birtar um ábúendur, byggja að samantekt um Rangárlón sem finna má á vef Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Ég umorðaði örlítið á einstaka stað og bætti aðeins við upplýsingarnar.

Lagt í hann
Teningnum var kastað og best að drífa í flutningnum upp í Jökuldalsheiði. Vænlegast að leggja í hann að vori til að tími gæfist til að undirbúa veturinn.  Búslóðin var líkast til ekki umfangsmikil, engar IKEA mublur, eða annar nútímalegur húsbúnaður. Vegalengdin frá Freyshólum upp í Rangárlón er nú um 85 km. og hefur verið talsvert lengri þegar Magnús og Ingibjörg lögðu í þetta ferðalag þetta vor með synina tvo, Alfreð og Harald, að ógleymdum þeim þriðja, afsprengi frostkaldra nótta Frotsvetrarins mikla, sem ætlaði að fæðast um haustið, í þann mund er það hefði tekið öll völd og vetur í Heiðinni framundan.

Meira um það næst.

ps. þessi skrif eru á mína ábyrgð og reynist eitthvað rangt með farið, mun ég lagfæra það, að sjálfsögðu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...