Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarvatn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarvatn. Sýna allar færslur

17 febrúar, 2023

Hilmar Einarsson - minning

"Fleiri nýjungar litu dagsins ljós og voru til marks um þá viðleitni stjórnvalda og skólayfirvalda að endurskipuleggja starfsemi menntaskólanna og bæta úr því sem aflaga hafði farið á undanförnum árum. Þegar um haustið 1970 var ráðinn sérstakur starfsmaður til að hafa umsjón með nemendabústöðum, umgengni þar og heimilisháttum. Var það gert á grundvelli nýrra laga um menntaskóla frá sama ári og var meira en tímabært ef tekið er mið af rekstri skólans á undanförnum árum. Nýi starfsmaðurinn var Hilmar Einarsson trésmíðameistari og hafði hann reyndar unnið að byggingu og frágangi heimavistarhúsanna allt frá því fyrsta skóflustungan var tekin.  Annálaritari skólans  þóttist hinsvegar vita allt um það,  til hvers leikurinn var gerður: "Hann á að passa að nemendur drekki ekki brennivín og að þeir gangi vel um húsin". Nú var líka kjörið tækifæri fyrir nemendur, að sýna snyrtimennsku í hvívetna." 

 (Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson: Menntaskólinn að Laugarvatni, forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Sögusteinn 2001, bls 193)

Það má kannski segja, að haustið 1970 standi, að vissu leyti, upp úr í sögu Menntaskólans að Laugarvatni og kemur þar þrennt til: Hilmar var ráðinn til að hafa umsjón með heimavistunum, nýr skólameistari, Kristinn Kristmundsson, hóf störf, og ég settist í 1. bekk. Þetta þrennt átti síðan fljótlega eftir að búa til þá sögu sem hér verður frá greint, eftir stuttan inngang.

Ungt fólk á þessum árum var, svona þegar litið er til baka, ekkert sérlega leiðitamt, ef svo má að orði komast. Ekki vil ég segja að það hafi verið uppreisnargjarnt, en allavega vildi það, mögulega umfram aðrar kynslóðir ungs fólks, gjarnan fara sínar eigin leiðir. Mér verður stundum hugsað til þeirrar stöðu sem þeir Kristinn og Hilmar voru búnir að koma sér í með því að taka við rekstri skólans þetta haust. Þarna beið þeirra starf með, eða fyrir, all kraftmikið ungt fólk.

Þetta vor lauk ég námi í Héraðsskólanum, þar sem Benedikt Sigvaldason var skólastjóri. Dvölin í héraðsskólanum var að mörgu leyti eftirminnileg, er hún er ekki umfjöllunarefnið hér, utan að geta þess, að ekki fór hjá því að ég hlakkaði dálítið til þess að komast í hóp menntskælinganna, sem nutu talsvert meira frelsis til ýmissa athafna, en dvölin í héraðsskólanum bauð upp á. 

Hvað um það, þarna héldu þeir Kristinn, 33 ára og Hilmar, þrítugur, inn í haustið og voru búnir að setja upp hvernig þeir hygðust nú halda utan um hópinn sem lagði leið sína á staðinn. Þeir voru búnir að setja upp nokkuð ákveðið kerfi um það hvernig tekið skyldi á málum, ef nemendur vikju af tiltekinni braut siðprýði og ásættanlegrar hegðunar.  Einn hluti áætlunarinnar fólst í því, að Hilmar fékk bók í hendur, þar sem skráð skyldu frávik frá því sem hægt væri að sætta sig við, að því er hegðun varðaði. Þannig var það hugsun þeirra (tel ég), að með bókhaldi af því tagi yrði hægt að kortleggja hvernig landið lægi hverju sinni og bregðast við með fyrirfram ákveðnum hætti við ítekuð brot á þeim reglum sem giltu á heimavistinni.

Það sem fer hér á eftir, skrái ég eftir nokkrar vangaveltur um réttmæti þess að varpa ljósi á gamlar syndir. Hilmar hafði gaman af að rifja upp þessa sögu í heyranda hljóði, eftir að ljóst var orðið að ég, með framgöngu minni á fullorðinsárum, hafði sýnt fram á að ég hafði komist tiltölulega óskaddaður frá þessu öllu saman. Þetta er saga sem hvorugur okkar gleymdi og fyrir mér er hún einkar ljóslifandi. Ég treysti mér til að segja hana frá minni hlið, vegna þess að nú nýt ég eftirlaunaáranna og ekkert getur snert mig lengur þannig að skaða megi.  Vissulega er sumt í þessari sögu ekki alveg skýrt, en það verður að vera svo. Nú er ég einn eftir til frásagnar og frásögn mín er svona:

Haustið 1970 kom ég, ásamt öðrum nýnemum inn í þennan nýja heim, sem heimavist ML var. Vissulega hafði ég þá kynnst heimavistarlífi ágætlega, eftir þrjá vetur á heimavist héraðsskólans í skjóli Benedikts Sigvaldasonar og hans fólks. Ég vissi auðvitað, að um dvölina á vistinni giltu reglur. Ég var einnig kominn á þá skoðun og deildi henni með skólafélögunum, að reglurnar væru þess eðlis, að ef brot á þeim færu "undir radarinn" teldist ekki um raunverulegt brot að ræða. 

Þar sem þessi saga hefst minnir mig að framundan hafi verið Busaball. Við busarnir (nýnemar) sem ekki höfðum aldur til, fengum eldri og reyndari skólafélaga til og kaupa fyrir okkur það sem til þurfti, svo ballið gæti "farið vel fram". Þarna hafði ég gert nauðsynlegar ráðstafanir. Þegar þeir sem tóku að sér að kaupa inn fyrir mig komu síðan úr innkaupaferðinni, þurfti ég að fara út í bílinn til þeirra til að nálgast varninginn. Þarna var um að ræða einskonar uppmjóa vodkaflösku af tiltekinni tegund.  Ég fékk flöskuna í hendur á bílaplaninu fyrir utan NÖS og kom henni fyrir undir úlpunni. Síðan hélt ég glaður í bragði inn í vistina. Þar var herbergið mitt  á efri hæðinni, í þeim hluta sem næstur er skólahúsinu. Það var tveggja manna, hægra megin á ganginum, líklegast fyrsta eða annað herbergi frá snyrtingunum. 

Ég átti ekki von á því að heimavistarhúsbóndinn Hilmar yrði neitt á ferðinni á þeim tíma dags sem þarna var um að ræða og var því mögulega full kærulaus (eða saklaus) í umgengni minni við flöskuna. Það næsta sem ég vissi var, að á móti mér, í anddyrinu þegar ég kom inn, kom Hilmar. Væntanlega með áðurnefnda bók í vasanum og væntanlega þegar farinn að fá lítilsháttar kvíðahnút í magann vegna ballsins sem framundan var.  Auðvitað áttaði hann sig á því, að þarna var ég ekki með allt mitt uppi á borðinu; varð ljóst að ég hafði ólöglegan varning falinn undir úlpunni og gerði mér ljóst hvað það þýddi.  Auðvitað fylltist ég þarna talsverðri skelfingu og sá, á örskotsstund, hvað þetta myndi hafa í för með sér og ég reikna með að Hilmar hafi séð, afar skýrt hvernig mér varð við. 

Við vorum bara þarna tveir í anddyrinu, svo engin voru vitnin. Hilmar sagði þá, að við skyldum koma upp í herbergi og fara þar yfir málið, sem við síðan gerðum. Þar áttum við einhver samskipti, þar sem ég reikna með að ég hafi verið talsvert miður mín, og Hilmar í nokkurri klemmu með stöðuna. Ég sá sennilega fyrir mér viðbrögð móður minnar, þar sem sonurinn kæmi heim með skottið á milli lappanna eftir örskamma dvöl í menntaskóla. Þá er ekki ólíklegt að ég hafi líka séð fyrir mér handónýtt busaball, eða bara ekkert ball.  
Klemma Hilmars fólst hinsvegar í því, annarsvegar, að fyrir framan hann var heldur aumur nýnemi, sem ekki hafði áður sýnt af sér ósæmilega hegðun og, hinsvegar, að í vasnum var bókin, bókin þar sem skráð skyldu öll þau brot sem framin væru og áfengisnotkun á heimavistinni taldist meðal verstu brota. Hann yrði að greina skólameistara frá, sem síðan myndi þurfa að taka afstöðu til sakarefnisins, mögulega þannig, að um brottvikningu úr skóla yrði að ræða, í lengri eða skemmri tíma.  

Eitthvað var málið rætt áfram, en hvaða orð féllu, nákvæmlega, man ég ekki lengur, enda má reikna með að fátt hafi brennt sig fast í minnisstöðvarnar annað en yfirþyrmandi skelfing yfir þeirri stöðu sem ég var þarna kominn í.  Hilmar tjáði mér, eins og honum bar, að hann yrði að gera vodkaflöskuna upptæka og auðvitað átti ég ekki von á öðru, þó líklega hafi ég gert málamyndatilraun til að malda í móinn. 
Augljóslega þurfti að ná einhverri niðurstöðu þarna og hún náðist, með nokkurskonar Salómonsdómi Hilmars: Hann spurði mig hvort ég væri með eitthvert ílát í herberginu og sú var raunin. Þá opnaði hann flöskuna og hellti vænum slurk úr henni, skrúfaði síðan tappann á aftur og tjáði mér að ég gæti vitjað flöskunnar hjá honum þegar skóla lyki vorið eftir og sjálfsagt fylgdu föðurlegar leiðbeiningar um tilgang lífsins og heimavistardvalarinnar, en ekki man ég það. 

Svona lauk þessum eftirminnilegu samskiptum, og úr varð sameiginleg minning okkar Hilmars. Hann skráði brotið í bókina, eins og þeir Kristinn höfðu ákveðið. Ég veit hinsvegar ekki hvort þeir áttu samtal um málið í framhaldinu, en finnst það líklegt, vegna þess, að Hilmar sagði mér síðar, að nafn mitt hefði verið það eina sem rataði í þessa bók. Þetta skráningarkerfi var aflagt eftir þetta, en ekki finnst mér ólíklegt að þeir félagar hafi skemmt sér konunglega í umfjöllun um málið. 

Ég fór svo heim til Hilmars vorið eftir og fékk flöskuna í hendur aftur og reikna með að innihaldið hafi komið í góðar þarfir á einhverju Mánaballi í Aratungu sumarið 1971. 
Bókina geymdi Hilmar hinsvegar, með þessu eina nafni brotamanns og mér finnst nú alveg við hæfi, að ég fái hana í hendur, rúmlega hálfri öld síðar og með henni nokkurskonar "uppreist æru".

Eftir þetta lauk ég mínum fjórum árum í ML og fór að sinna hinu og þessu eins og gengur, en örlögin leiddu mig  aftur á Laugarvatn um miðjan 9. áratuginn og þá í hlutverki kennarans. Það gekk svo sem áfallalaust. Eðlilega áttu börn Hilmars og Lindu leið í gegnum skólann og það leiddi síðan til þess að ég fékk að reyna það, að fortíð manns getur bankað upp á hvenær sem er. Þannig gerðist það, að eitt sinn uppljóstraði eitt barnanna, í heyranda hljóði um atburðinn sem ofanskráð saga lýsir. Þá hafði viðkomandi mögulega verið að gramsa í gömlu dóti frá föður sínum og fundið þar þessa bók, með einu nafni og líklega atvikalýsingu. Ég er ekki frá því að uppljóstrunin hafi frekar komið mér til góða í samskiptum mínum við nemendur. Þau áttuðu sig kannski betur á því að ég var einusinni á þeirra aldri og hafði reynt svipaðar aðstæður og þau voru stundum í sjálf.



Mér finnst þessi saga lýsa Hilmari afar vel. Hann bjó yfir sterkri siðferðiskennd og manngæsku, naut þess ekkert sérstaklega setja öðrum stólinn fyrir dyrnar, en ef það reyndist nauðsynlegt, valdi hann til þess leið sem allir gátu sætt sig við.  
Bæði hann og Linda störfuðu lengi við ML og þeirra beggja minnast þeir nemendur skólans, sem kynntust þeim í störfum þeirra, með mikilli hlýju, því þau voru (og eru) fyrst og fremst gott fólk. Fólk eins og þau er vel til þess fallið að vinna með ungu fólki á mikilvægu þroskaskeiði.

Hilmar lést þann 10. febrúar síðastliðinn. Úför hans var gerð í dag frá Selfosskirkju og hann mun hvíla í Laugarvatnskirkjugarði.

-----------------------

Ef ofangreind frásögn af hálfrar aldar gömlum atburði (frekar en atviki) víkur í einhverju verulegu frá því sem telst satt vera og rétt, þá er engu um að kenna nema einhverri gloppu í minni mínu. Við slíku er víst fátt að gera.

Myndirnar sem birtar eru með þessari grein tók ég við ýmis tækifæri þar sem við Hilmar vorum báðir á ferð og ég með myndavélina, Þarna er um að ræða t.d. Íslendingaslóðir í Kanada, Bayern í Þýskalandi og  Helsinki í Finnlandi og Ísland. 

Vettvangurinn


16 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (3)

Siglingaleiðin, í sem stærstum dráttum.
(var sennilega miklu flóknari en myndin sýnir)

Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu.

Eftirlitið
Nú tók við almennt eftirlit björgunarsveitarmannanna í áhöfninni, með hlaupurunum og skokkurunum, sem var sannarlega ekki heiglum hent. Þeir fyrstu voru, áður en við var litið orðnir að litlum punktum í fjarska fyrir framan okkur, en skemmtiskokkararnir sem síðastir höfðu verið ræstir mynduðu litla punkta í fjarskanum fyrir aftan. Þetta þýddi aðeins eitt: Björgunaraðilar, sem þurftu að vera til staðar í báðum fjörskunum, þurftu að bruna fram og til baka meðfram vatnsbakkanum og meta hvar þörfin væri mögulega mest. 

Vandkvæði
Þar sem ég var þarna með það hlutverk að festa viðburðinn á myndflögu, freistaði ég þess að smella af í hvert sinn sem báturinn var kyrr litla stund. Þegar hann var á siglingu var borin von að á myndum sæist annað en einhver afmynduð litaklessa.  Sem betur fer var öldugangur fremur lítill þarna norðan megin á vatninu, svo einstaka sinnum tókst mér að grípa þátttakendur við hinar og þessar aðstæður, en oftar ekki. Mér fannst að einhverjir hefðu nú alveg mátt lenda í einhverjum áhugaverðum aðstæðum, en það var lítið sem ekkert um það. 

Hindranir
Eftir Hjálmsstaðaárós þurfti að fara yfir ós markaskurðs milli Hjálmsstaða og Miðdals og eftir talsverð hlaup eftir það yfir ósa Skillandsár og Hólaár. Þeir ósar eru dálítið sérstakir vegna þess að Skillandsá rennur í Laugarvatn en Hólaá úr því og ós og upptök eru á sama stað.  Þannig gæti maður ætlað, að ef hlaupari félli í vatnið í þessum ósum, væri undir hælinn lagt hvort hann bærist með Skillandsá út í Laugarvatn, eða með Hólaá áleiðis í Apavatn.  Mér kom til hugar, að þarna gæti myndast áhugavert myndefni, en ég var farþegi í björgunarsveitarbát, þar sem hlutverk björgunarsveitarmannanna var að fylgjast náið með þeim hundruðum hlaupa- og skokksfólks sem liðaðist eftir vatnsbakkanum og ótrúlega mismunandi hraða.

Hlífar
Það segir ekki mikið af minni persónu meðan á þessu krussi fram og til baka um vatnið stóð. Vissulega hefði ég alveg viljað að bátnum hefði verið siglt inn að ósi Skillandsár og upptökum Hólaár, en ég reikna með að það hefði endað með strandi fleytunnar. 
Þegar við vorum farnir að þeysast fram og til baka meðfram austurbakka vatnsins (Úteyjarmegin) tók ég eftir því, að þegar leið okkar lá undan norðanþræsingnum, hlýnaði umtalsvert og þegar þar kom, að lofthitinn utan hanskanna sem ég hafði á höndum, var orðinn meiri, en innan þeirra, tók ég það til bragðs að fara bara úr þeim og freista þess að koma þeim fyrir í jakkavasanum, sem var hreint ekki auðvelt. Vestið stóra og öfluga, huldi alla vasa og ég þurfti af augljósum ástæðum að halda mér við bátinn öllum stundum. Eftir nokkurt bras og úthugsaða aðgerð, hurfu hanskarnir ofan í jakkavasann. Þangað voru þeir varla komnir þegar skipstjórinn snéri við og tók eindregna stefnu aftur í norður, þar sem við fengum heimskautagarrann beint í fangið og ég fór að sjá eftir því að hafa farið úr hönskunum og engan veginn fannst mér ásættanlegt að þurfa að fara að berjast við að ná þeim úr vasanum aftur. Það hefði bara verið vandræðalegt. Treysti á að þegar næsti leggur til baka yrði farinn, myndi sólinni takast að verma kalda fingur, sem raunin varð ekki, Ekki reyndi ég að klæðast hönskunum aftur í þessari ferð.


Fram og til baka
Eftirlitið hélt áfram, fram og til baka og við og við náði ég að smella af  með misjöfnum árangri. Fyrstu kepperndurnir voru löngu komnir í mark þegar þeir síðustu voru að nálgast Útey.  Þar kom, að eftirlitið beindist að suður eða suðvestur bakkanum og þar var ölduhæðin orðin talsvert meiri en við norðurbakkann. Áhöfnin fylgdist grannt með hlaupurunum sem aftastir voru og sem fóru æ hægar yfir, en reyndu þó sitt ítrasta til að líta vel út þegar við áttum leið hjá.  Fram og til baka, fram og til baka og ég fann  æ minna fyrir fingrunum, en eins og gefur að skilja var ekki um það að ræða að ég styngi höndunum í vasa til að fá smá hlýju. Önnur höndin var bundin við að halda í kaðalinn utan á slöngunni, en hin hafði fundið sér festu í álgrind sem var í miðjum bátnum. Við þessa grind var stýri bátsins fest, svo og ýmis stjórntæki, eins og inngjöf og annað slíkt. Báðar hendur mínar voru, sem sagt uppteknar við að halda mér innan báts - "í kulda og trekki". 

Ekki neita ég því, að ég hefði viljað að skokkararnir hlypu hraðar, en dáðist samt nokkuð að þeim fyrir að leggja þessi ósköp á sig. 
Þegar skipstjórinn tók sig svo til og gerði sig líklegan, að mér fannst, til að sigla til lands fyrir framan Vígðulaug, fór um mig ákveðin tilfinning léttis og þakklætis og ég sá fram á að komst í kaffisopa og hverabrauð með reyktum silungi. Við vorum sem sagt komnir í grennd við Fontana heilsulindina og þetta leit vel. Síðustu skokkararnir og fylgdarmenn þeirra voru við það að vaða Djúpá, sem er eina áin sem rennur í vatnið sunnan megin. Þá ákvað skipstjórinn að snúa við aftur við.

Næstsíðasti leggurinn
Það má alveg kalla þennan næst síðasta legg siglingarinnar einhverskonar hápunkt á þessu ævintýri og skiljanlegt, að vissu marki, að þessi lokahnykkur hafi verið tekinn með talsvert meira trukki en það sem á undan var gengið.  Í sem stystu mál þá var farkosturinn tekinn til kostanna eða "staðinn" og stefnan tekin á Útey á ógnarhraða. Loppnir fingur mínir gripu um kaðalinn og álrörið, sem áður er lýst, og einbeiting mín við að halda mér innanborðs var algjör. Augljóslega gerði ég mitt ítrasta til að aðrir í áhöfninni sæju ekki á mér nein svipbrigði sem gætu bent til þess að mér stæði nú ekki á sama. Ég þakkaði þarna fyrir að ég hef eytt liðnum (eða líðandi) vetri, milli kófhléa í mikla líkamsrækt (heilsueflingu 60+) og jafnvel gengið svo langt að stunda crossfit æfingar um tíma. 

Björgunarsveitarbáturinn þeysti áfram milli öldutoppanna beint inn í ískaldan norðanblásturinn. Hann fór reyndar ekki "milli" öldutappanna, heldur var meira eins og hann fleytti kerlingar frá einum þeirra til annars þannig, að þegar hann tók á loft af einum, þurfti ég að beita afli við að halda mér niðri (það loftaði samt milli rass og slöngu sem nam 20- 30 cm, líklegast, Þegar hann lenti síðan á næstu öldu þurfti ég að taka á öllu mín til að skoppa ekki af slöngunni eins og bolti eitthvert út í buskann, rétt áður en ég þurfti aftur að koma í veg fyrir að ég flygi upp í loft eins og flugeldur á gamlárskvöldi. Á ákveðnum tímapunkti fannst mér báturinn vera farinn að hiksta. Það skiptist á inngjöf og afsláttur, eins og skipstjórinn væri stöðugt að gefa inn og slá af.

Þarna er verið að tilkynna mér að ég skuli 
mæta að verðlaunapalli til að mynda
sigurvegara.

Þú ættir að færa höndina. 
Mér varð þá litið á rörið sem vinstri höndin hélt í og áttaði mig á því að þar, rétt hjá var inngjöfin (þar sem hraða bátsins var stýrt). Ég hafði sem sagt, ómeðvitað verið farinn að hafa áhrif á hraða bátsins, þar sem höndin færðist upp rörið þar sem ég freistaði þess að halda mér niðri og færðist síðan niður þegar ég lenti aftur.  Þetta atriði er nokkuð flókið frásagnar og líklegt að lesandi átti sig ekki fyllilega á þeim aðstæðum sem kölluðu fram ofangreind orð skipstjórans frá Bala. Ég varð við tilmælum hans.

Síðasti leggurinn
Síðasti leggurinn fól síðan í sér margslungna blöndu af tilhlökkun yfir að nú skyldi haldið til hafnar, þakklæti fyrir að ekkert fór úrskeiðis, eftirsjá þar sem nú væri þessu ævintýri að ljúka, virðingu fyrir æðruleysi björgunarsveitarmannanna í áhöfninni og sannarlega einhverskonar æðruleysi og þreki sem ég hafði þarna sýnt sjálfur.

Við bryggju beið síðan forsvarsmaður hlaupsins og tilkynnti mér að ég ætti að taka myndir af verðlaunahöfum í hlaupinu, núna strax.  Sjóriðan var minni en ég hafði búist við. Mér tókst að skipta um linsu og hlaupa síðan til verðlaunaafhendingar með EOS-inn.

Eftir um það bil 20 mínútur var ég farinn að finna fyrir fingrunum aftur.

---------------------------

Sigurvegarar í kvennaflokki

Sigurvegarar í karlaflokki

Svona í lokin.
Eins og einhver ykkar gætu ímyndað sér, þá er ýmislegt í frásögninni nokkuð fært í stílinn, þó svo í grundvallaratriðum sé um sanna frásögn að ræða.
Forsvarsmenn Gullsprettsins og allt fólkið sem kemur að framkvæmdinni á lof skilið fyrir þennan viðburð (hér tala ég ekki sem hlaupari eða skokkari). Þarna er um að ræða samfélagslegt verkefni sem hefur nú verið stundað í 16 ár samfellt. Það fé sem inn kemur vegna þessa, rennur til góðgerðarmála.
Guttarnir á björgunarbátnum voru svo bara engir guttar, heldur sérlega ábyrgðarfullir björgunarsveitarmenn í sínum mikilvæga þætti í þessu og ég er þeim þakklátur fyrir hve vel þeir fóru með mig í þessari ævintýraför. 
Svo var það fD og sonardæturnar, sem biðu mín þolinmóðar og milli vonar og ótta (reikna ég auðvitað með) á bakkanum, Þeim er hér með þakkað fyrir það. 😉

Segir nú ekki fleira af hlutverki mínu við framkvæmd 16. Gullsprettsins . Kannski verð ég í þyrlu næst.


15 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (2)

 
Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu

Já, einmitt - það var haldið til vatns á slöngubjörgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar. Þarna sat ég á annarri slöngunni, all óviss um hvernig færi ef báturinn lenti í ókyrrð, að ef á hann kæmi slinkur. Ég tók fljótlega eftir því, að á slöngunni utanverðri var festur kaðall og gerði fastlega ráð fyrir að hann væri ætlaður fyrir tilvik þar sem hætta gat verið á að farþegar hrykkju útbyrðis. Nú, ef illa færi þá væri ég alltaf í vestinu mikla og góða. Helst að ég hefði áhyggjur af hundraðaþúsunda fjárfestingu minni í myndavélarbúnaði. Reyndar hafði mér verið gefið gott ráð, að því er það varðar, áður en haldið var af stað. Ráðið það fólst í að benda mér á, að freista þess að standa bara á vatnsbotninum og halda myndavélinni ofan vatnsborðs og halda þannig áfram að mynda. Ágætis ráð og raunhæft, þar sem Laugarvatn er víst bara að jafnaði um einn metri á dýpt, að sögn. Samt var ég ekkert viss um að ég vildi láta á það reyna. 

Vatnsferðin hefst
Báturinn brunaði út á vatnið móti storminum og öldunum, en ölduhæð var hvorki meira né minna en 30-40 sentimetrar.  Eftir tiltölulega stutta og rólega siglingu sló skipstjórinn af og biðin hófst - biðin eftir því, að forsvarsmenn (já ég sagði forsvarsmenn - enda finnst mér að orðið forsvarsmanneskja um fyrirbærið karl eða konu hreinlega ljótt, ekki síst vegna þess hve líkt það er orðinu sveskja, sbr. forsvarssveskja. Að nota orðið fólk, er ávísun á endalaus vandræði með að nota rétt fornafn í framhaldinu, eins og vel er þekkt úr rétttrúandi fjölmiðlum þessa lands) ræstu fyrsta hóp keppenda. Klukkan varð 11 og svo 5 mínútur yfir 11 og svo 10 mínútur yfir. Í gegnum linsuna sá ég forsvarsmennina standa uppi á heimasmíðuðu útiborði. Annar var augljóslega að fara yfir málin með keppendum og hinn hélt talsvert stóru spjaldi af einhverju tagi, fyrir framan sig.  Annar var kennari og við vitum hver staðalmynd (einstaklega óaðlaðandi orðskrípi)  kennara er, jú, einmitt: þeim finnst gaman að tala. 

Hinir í áhöfninni: Jakob Þór vinstra megin og Andrés.
 Um áhöfnina
Það var farið að kólna á vatninu þar sem við biðum ræsingar, tilbúnir til myndatöku og björgunar.
Til að fylla í eyðuna, sem verður til að biðina, er rétt að geta þess hverjir siglingarfélagar mínir í þessaari fer voru. Sá sem stýrði fleytunni var Andrés Pálmason, frá Bala á Laugarvatni, Laugdælingur að langfeðga- og/eða langmæðginatali og sá sem sat á hinni slöngunni og beindi haukfránum sjónum yfir sviðið bar nafnið Jakob Þór Gíslason, sem ég reyndar hafði aldrei áður fyrir hitt, mér vitanlega og því gat ég ekki staðsett hann, að því er varðar ætt og uppruna, fyrr en ég lagðist í örlitla rannsóknarvinnu. Það gerði ég aðeins vegna þess að ég átti erfitt með að trúa því að hann tengdist Laugardalnum ekki með einhverjum hætti. Og viti menn! Það kom í ljós að afi Jakobs er Bragi Pálmason, frá Hjálmsstöðum. Þar með reyndist áhöfn björgunarbátsins vera að tveim þriðju upprunnin á Hjálmsstöðum. Afi Jakobs og amma Andrésar eru systkin. Þetta gat eiginlega ekki verið öðruvísi, en hjálpi mér allir heilagir, reynist þetta vera rangt.


Ræst
Þar kom, að kennarinn og forsvarsmaður hlaupsins lauk máli sínu og strax í kjölfarið var fyrsti hópurinn ræstur (næstum atvinnumenn allt saman). Skipstjórinn æpti ekki "ræs", en setti í gang og tók stefnuna á fyrsta vaðið sem keppendur þurftu að komast yfir, en það var þar sem Hjállmsstaðaá fellur í vatnið. Ekki varð ég sérstaklega var við að piltarnir, Hjálmsstaðamennirnir í áhöfninni, brygðust við, þar sem við litum ósa þessarar skemmtilegu ár (eða læks).  

Púðinn
Á leiðinni að ósum Hjálmsstaðaár fór ég að líta aðeins í kringum mig í farkostinum og frammi í stefni var svartur púði, sem augljóslega mátti túlka þannig að hann væri ætlaður til að sitja á. Mér fannst auðvitað, að í ljósi stöðu minnar í áhöfninni, væri þarna um að ræða tilvalinn stað til að sitja, öruggur, milli slangnanna þar sem þær mættust og mynduðu stefni bátsins. Ég hugsaði mig ekki lengi um áður en ég skáskaut mér af slöngunni og niður í þetta fína sæti og þóttist aldeilis góður. 
Þar sem ég var að hreiðra um mig, meðan ég var á stöðugu útkíkki eftir góðu myndefni, tók ég eftir að dýfur bátsins voru orðnar það miklar, að hann nánast fór í gegnum öldurnar. Norðan garrinn, sem mér fannst fara vaxandi, hlaut  að valda auknu ölduróti og þar með meiri ágjöf. Svona er sjómennskan víst bara. 
Þú ættir kannski ekki að sitja þarna
Það var engu líkara en húsbóndinn í Bala hefði mælt þessi orð, svo líkur var raddblærinn. Þetta var auðvitað skipstjórinn sem benti mér, einkar kurteislega, á það, að með setu minni í stefninu, vildi það leita neðar í vatnsborðið og þar með ykist öldugangurinn og ágjöfin. Úr þessu glappaskoti mínu og nokkurri vanþekkingu á slöngubátum, varð ekkert mál. Ég vippaði mér aftur upp á slönguna og ágjöfin minnkaði umsvifalaust. 

Fyrsti ósinn
Við tókum land við ósa árinnar, en þá stukku aðrir en ég í áhöfninni úr bátnum þegar hann nálgaðist land og drógu hann (og mig) upp í fjöru, þannig að ég gat stigið (virðulega að sjálfsögðu) frá borði þurrum fótum, rétt í þann mund er fyrstu keppendurnir létu vaða í Hjálmsstaðaárósinn. Enn var enginn farinn að taka afgerandi forystu, en ljóst af svipbrigðum, að nú skyldi skrækur skjálfa og hlaupinu rústað. Þarna fremst var,eins og áður er sagt, keppnisfólkið.  Síðan nokkru síðar komu meðaljónarnir (í jákvæðri merkingu, auðvitað) fólkið sem stundaði hlaup að umtalsverðu marki, en í hófi. Í síðasta hollinu voru svo skemmtiskokkararnir - fólkið sem hefur gaman af að vera úti í náttúrunni, og nýtur þess að skokka um fagurt og sérstakt umhverfi.  Við leystum landfestar áður en skemmtiskokkararnir voru farnir að sjást að einhverju ráði. 
Aftur var siglt til vatns og nú lá leiðin til suðurs.

---------
Þar sem eitthvað virðist ætla að teygjast á þessu hjá mér, verð ég að setja saman þriðja hluta þessarar frásagnar. Hann mun koma - æsilegri en nokkuð það sem hér hefur þegar verið greint frá.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...