16 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (3)

Siglingaleiðin, í sem stærstum dráttum.
(var sennilega miklu flóknari en myndin sýnir)

Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu.

Eftirlitið
Nú tók við almennt eftirlit björgunarsveitarmannanna í áhöfninni, með hlaupurunum og skokkurunum, sem var sannarlega ekki heiglum hent. Þeir fyrstu voru, áður en við var litið orðnir að litlum punktum í fjarska fyrir framan okkur, en skemmtiskokkararnir sem síðastir höfðu verið ræstir mynduðu litla punkta í fjarskanum fyrir aftan. Þetta þýddi aðeins eitt: Björgunaraðilar, sem þurftu að vera til staðar í báðum fjörskunum, þurftu að bruna fram og til baka meðfram vatnsbakkanum og meta hvar þörfin væri mögulega mest. 

Vandkvæði
Þar sem ég var þarna með það hlutverk að festa viðburðinn á myndflögu, freistaði ég þess að smella af í hvert sinn sem báturinn var kyrr litla stund. Þegar hann var á siglingu var borin von að á myndum sæist annað en einhver afmynduð litaklessa.  Sem betur fer var öldugangur fremur lítill þarna norðan megin á vatninu, svo einstaka sinnum tókst mér að grípa þátttakendur við hinar og þessar aðstæður, en oftar ekki. Mér fannst að einhverjir hefðu nú alveg mátt lenda í einhverjum áhugaverðum aðstæðum, en það var lítið sem ekkert um það. 

Hindranir
Eftir Hjálmsstaðaárós þurfti að fara yfir ós markaskurðs milli Hjálmsstaða og Miðdals og eftir talsverð hlaup eftir það yfir ósa Skillandsár og Hólaár. Þeir ósar eru dálítið sérstakir vegna þess að Skillandsá rennur í Laugarvatn en Hólaá úr því og ós og upptök eru á sama stað.  Þannig gæti maður ætlað, að ef hlaupari félli í vatnið í þessum ósum, væri undir hælinn lagt hvort hann bærist með Skillandsá út í Laugarvatn, eða með Hólaá áleiðis í Apavatn.  Mér kom til hugar, að þarna gæti myndast áhugavert myndefni, en ég var farþegi í björgunarsveitarbát, þar sem hlutverk björgunarsveitarmannanna var að fylgjast náið með þeim hundruðum hlaupa- og skokksfólks sem liðaðist eftir vatnsbakkanum og ótrúlega mismunandi hraða.

Hlífar
Það segir ekki mikið af minni persónu meðan á þessu krussi fram og til baka um vatnið stóð. Vissulega hefði ég alveg viljað að bátnum hefði verið siglt inn að ósi Skillandsár og upptökum Hólaár, en ég reikna með að það hefði endað með strandi fleytunnar. 
Þegar við vorum farnir að þeysast fram og til baka meðfram austurbakka vatnsins (Úteyjarmegin) tók ég eftir því, að þegar leið okkar lá undan norðanþræsingnum, hlýnaði umtalsvert og þegar þar kom, að lofthitinn utan hanskanna sem ég hafði á höndum, var orðinn meiri, en innan þeirra, tók ég það til bragðs að fara bara úr þeim og freista þess að koma þeim fyrir í jakkavasanum, sem var hreint ekki auðvelt. Vestið stóra og öfluga, huldi alla vasa og ég þurfti af augljósum ástæðum að halda mér við bátinn öllum stundum. Eftir nokkurt bras og úthugsaða aðgerð, hurfu hanskarnir ofan í jakkavasann. Þangað voru þeir varla komnir þegar skipstjórinn snéri við og tók eindregna stefnu aftur í norður, þar sem við fengum heimskautagarrann beint í fangið og ég fór að sjá eftir því að hafa farið úr hönskunum og engan veginn fannst mér ásættanlegt að þurfa að fara að berjast við að ná þeim úr vasanum aftur. Það hefði bara verið vandræðalegt. Treysti á að þegar næsti leggur til baka yrði farinn, myndi sólinni takast að verma kalda fingur, sem raunin varð ekki, Ekki reyndi ég að klæðast hönskunum aftur í þessari ferð.


Fram og til baka
Eftirlitið hélt áfram, fram og til baka og við og við náði ég að smella af  með misjöfnum árangri. Fyrstu kepperndurnir voru löngu komnir í mark þegar þeir síðustu voru að nálgast Útey.  Þar kom, að eftirlitið beindist að suður eða suðvestur bakkanum og þar var ölduhæðin orðin talsvert meiri en við norðurbakkann. Áhöfnin fylgdist grannt með hlaupurunum sem aftastir voru og sem fóru æ hægar yfir, en reyndu þó sitt ítrasta til að líta vel út þegar við áttum leið hjá.  Fram og til baka, fram og til baka og ég fann  æ minna fyrir fingrunum, en eins og gefur að skilja var ekki um það að ræða að ég styngi höndunum í vasa til að fá smá hlýju. Önnur höndin var bundin við að halda í kaðalinn utan á slöngunni, en hin hafði fundið sér festu í álgrind sem var í miðjum bátnum. Við þessa grind var stýri bátsins fest, svo og ýmis stjórntæki, eins og inngjöf og annað slíkt. Báðar hendur mínar voru, sem sagt uppteknar við að halda mér innan báts - "í kulda og trekki". 

Ekki neita ég því, að ég hefði viljað að skokkararnir hlypu hraðar, en dáðist samt nokkuð að þeim fyrir að leggja þessi ósköp á sig. 
Þegar skipstjórinn tók sig svo til og gerði sig líklegan, að mér fannst, til að sigla til lands fyrir framan Vígðulaug, fór um mig ákveðin tilfinning léttis og þakklætis og ég sá fram á að komst í kaffisopa og hverabrauð með reyktum silungi. Við vorum sem sagt komnir í grennd við Fontana heilsulindina og þetta leit vel. Síðustu skokkararnir og fylgdarmenn þeirra voru við það að vaða Djúpá, sem er eina áin sem rennur í vatnið sunnan megin. Þá ákvað skipstjórinn að snúa við aftur við.

Næstsíðasti leggurinn
Það má alveg kalla þennan næst síðasta legg siglingarinnar einhverskonar hápunkt á þessu ævintýri og skiljanlegt, að vissu marki, að þessi lokahnykkur hafi verið tekinn með talsvert meira trukki en það sem á undan var gengið.  Í sem stystu mál þá var farkosturinn tekinn til kostanna eða "staðinn" og stefnan tekin á Útey á ógnarhraða. Loppnir fingur mínir gripu um kaðalinn og álrörið, sem áður er lýst, og einbeiting mín við að halda mér innanborðs var algjör. Augljóslega gerði ég mitt ítrasta til að aðrir í áhöfninni sæju ekki á mér nein svipbrigði sem gætu bent til þess að mér stæði nú ekki á sama. Ég þakkaði þarna fyrir að ég hef eytt liðnum (eða líðandi) vetri, milli kófhléa í mikla líkamsrækt (heilsueflingu 60+) og jafnvel gengið svo langt að stunda crossfit æfingar um tíma. 

Björgunarsveitarbáturinn þeysti áfram milli öldutoppanna beint inn í ískaldan norðanblásturinn. Hann fór reyndar ekki "milli" öldutappanna, heldur var meira eins og hann fleytti kerlingar frá einum þeirra til annars þannig, að þegar hann tók á loft af einum, þurfti ég að beita afli við að halda mér niðri (það loftaði samt milli rass og slöngu sem nam 20- 30 cm, líklegast, Þegar hann lenti síðan á næstu öldu þurfti ég að taka á öllu mín til að skoppa ekki af slöngunni eins og bolti eitthvert út í buskann, rétt áður en ég þurfti aftur að koma í veg fyrir að ég flygi upp í loft eins og flugeldur á gamlárskvöldi. Á ákveðnum tímapunkti fannst mér báturinn vera farinn að hiksta. Það skiptist á inngjöf og afsláttur, eins og skipstjórinn væri stöðugt að gefa inn og slá af.

Þarna er verið að tilkynna mér að ég skuli 
mæta að verðlaunapalli til að mynda
sigurvegara.

Þú ættir að færa höndina. 
Mér varð þá litið á rörið sem vinstri höndin hélt í og áttaði mig á því að þar, rétt hjá var inngjöfin (þar sem hraða bátsins var stýrt). Ég hafði sem sagt, ómeðvitað verið farinn að hafa áhrif á hraða bátsins, þar sem höndin færðist upp rörið þar sem ég freistaði þess að halda mér niðri og færðist síðan niður þegar ég lenti aftur.  Þetta atriði er nokkuð flókið frásagnar og líklegt að lesandi átti sig ekki fyllilega á þeim aðstæðum sem kölluðu fram ofangreind orð skipstjórans frá Bala. Ég varð við tilmælum hans.

Síðasti leggurinn
Síðasti leggurinn fól síðan í sér margslungna blöndu af tilhlökkun yfir að nú skyldi haldið til hafnar, þakklæti fyrir að ekkert fór úrskeiðis, eftirsjá þar sem nú væri þessu ævintýri að ljúka, virðingu fyrir æðruleysi björgunarsveitarmannanna í áhöfninni og sannarlega einhverskonar æðruleysi og þreki sem ég hafði þarna sýnt sjálfur.

Við bryggju beið síðan forsvarsmaður hlaupsins og tilkynnti mér að ég ætti að taka myndir af verðlaunahöfum í hlaupinu, núna strax.  Sjóriðan var minni en ég hafði búist við. Mér tókst að skipta um linsu og hlaupa síðan til verðlaunaafhendingar með EOS-inn.

Eftir um það bil 20 mínútur var ég farinn að finna fyrir fingrunum aftur.

---------------------------

Sigurvegarar í kvennaflokki

Sigurvegarar í karlaflokki

Svona í lokin.
Eins og einhver ykkar gætu ímyndað sér, þá er ýmislegt í frásögninni nokkuð fært í stílinn, þó svo í grundvallaratriðum sé um sanna frásögn að ræða.
Forsvarsmenn Gullsprettsins og allt fólkið sem kemur að framkvæmdinni á lof skilið fyrir þennan viðburð (hér tala ég ekki sem hlaupari eða skokkari). Þarna er um að ræða samfélagslegt verkefni sem hefur nú verið stundað í 16 ár samfellt. Það fé sem inn kemur vegna þessa, rennur til góðgerðarmála.
Guttarnir á björgunarbátnum voru svo bara engir guttar, heldur sérlega ábyrgðarfullir björgunarsveitarmenn í sínum mikilvæga þætti í þessu og ég er þeim þakklátur fyrir hve vel þeir fóru með mig í þessari ævintýraför. 
Svo var það fD og sonardæturnar, sem biðu mín þolinmóðar og milli vonar og ótta (reikna ég auðvitað með) á bakkanum, Þeim er hér með þakkað fyrir það. 😉

Segir nú ekki fleira af hlutverki mínu við framkvæmd 16. Gullsprettsins . Kannski verð ég í þyrlu næst.


Engin ummæli:

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn.  Nú get ég hinsvegar staðfest...