15 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (2)

 
Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu

Já, einmitt - það var haldið til vatns á slöngubjörgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar. Þarna sat ég á annarri slöngunni, all óviss um hvernig færi ef báturinn lenti í ókyrrð, að ef á hann kæmi slinkur. Ég tók fljótlega eftir því, að á slöngunni utanverðri var festur kaðall og gerði fastlega ráð fyrir að hann væri ætlaður fyrir tilvik þar sem hætta gat verið á að farþegar hrykkju útbyrðis. Nú, ef illa færi þá væri ég alltaf í vestinu mikla og góða. Helst að ég hefði áhyggjur af hundraðaþúsunda fjárfestingu minni í myndavélarbúnaði. Reyndar hafði mér verið gefið gott ráð, að því er það varðar, áður en haldið var af stað. Ráðið það fólst í að benda mér á, að freista þess að standa bara á vatnsbotninum og halda myndavélinni ofan vatnsborðs og halda þannig áfram að mynda. Ágætis ráð og raunhæft, þar sem Laugarvatn er víst bara að jafnaði um einn metri á dýpt, að sögn. Samt var ég ekkert viss um að ég vildi láta á það reyna. 

Vatnsferðin hefst
Báturinn brunaði út á vatnið móti storminum og öldunum, en ölduhæð var hvorki meira né minna en 30-40 sentimetrar.  Eftir tiltölulega stutta og rólega siglingu sló skipstjórinn af og biðin hófst - biðin eftir því, að forsvarsmenn (já ég sagði forsvarsmenn - enda finnst mér að orðið forsvarsmanneskja um fyrirbærið karl eða konu hreinlega ljótt, ekki síst vegna þess hve líkt það er orðinu sveskja, sbr. forsvarssveskja. Að nota orðið fólk, er ávísun á endalaus vandræði með að nota rétt fornafn í framhaldinu, eins og vel er þekkt úr rétttrúandi fjölmiðlum þessa lands) ræstu fyrsta hóp keppenda. Klukkan varð 11 og svo 5 mínútur yfir 11 og svo 10 mínútur yfir. Í gegnum linsuna sá ég forsvarsmennina standa uppi á heimasmíðuðu útiborði. Annar var augljóslega að fara yfir málin með keppendum og hinn hélt talsvert stóru spjaldi af einhverju tagi, fyrir framan sig.  Annar var kennari og við vitum hver staðalmynd (einstaklega óaðlaðandi orðskrípi)  kennara er, jú, einmitt: þeim finnst gaman að tala. 

Hinir í áhöfninni: Jakob Þór vinstra megin og Andrés.
 Um áhöfnina
Það var farið að kólna á vatninu þar sem við biðum ræsingar, tilbúnir til myndatöku og björgunar.
Til að fylla í eyðuna, sem verður til að biðina, er rétt að geta þess hverjir siglingarfélagar mínir í þessaari fer voru. Sá sem stýrði fleytunni var Andrés Pálmason, frá Bala á Laugarvatni, Laugdælingur að langfeðga- og/eða langmæðginatali og sá sem sat á hinni slöngunni og beindi haukfránum sjónum yfir sviðið bar nafnið Jakob Þór Gíslason, sem ég reyndar hafði aldrei áður fyrir hitt, mér vitanlega og því gat ég ekki staðsett hann, að því er varðar ætt og uppruna, fyrr en ég lagðist í örlitla rannsóknarvinnu. Það gerði ég aðeins vegna þess að ég átti erfitt með að trúa því að hann tengdist Laugardalnum ekki með einhverjum hætti. Og viti menn! Það kom í ljós að afi Jakobs er Bragi Pálmason, frá Hjálmsstöðum. Þar með reyndist áhöfn björgunarbátsins vera að tveim þriðju upprunnin á Hjálmsstöðum. Afi Jakobs og amma Andrésar eru systkin. Þetta gat eiginlega ekki verið öðruvísi, en hjálpi mér allir heilagir, reynist þetta vera rangt.


Ræst
Þar kom, að kennarinn og forsvarsmaður hlaupsins lauk máli sínu og strax í kjölfarið var fyrsti hópurinn ræstur (næstum atvinnumenn allt saman). Skipstjórinn æpti ekki "ræs", en setti í gang og tók stefnuna á fyrsta vaðið sem keppendur þurftu að komast yfir, en það var þar sem Hjállmsstaðaá fellur í vatnið. Ekki varð ég sérstaklega var við að piltarnir, Hjálmsstaðamennirnir í áhöfninni, brygðust við, þar sem við litum ósa þessarar skemmtilegu ár (eða læks).  

Púðinn
Á leiðinni að ósum Hjálmsstaðaár fór ég að líta aðeins í kringum mig í farkostinum og frammi í stefni var svartur púði, sem augljóslega mátti túlka þannig að hann væri ætlaður til að sitja á. Mér fannst auðvitað, að í ljósi stöðu minnar í áhöfninni, væri þarna um að ræða tilvalinn stað til að sitja, öruggur, milli slangnanna þar sem þær mættust og mynduðu stefni bátsins. Ég hugsaði mig ekki lengi um áður en ég skáskaut mér af slöngunni og niður í þetta fína sæti og þóttist aldeilis góður. 
Þar sem ég var að hreiðra um mig, meðan ég var á stöðugu útkíkki eftir góðu myndefni, tók ég eftir að dýfur bátsins voru orðnar það miklar, að hann nánast fór í gegnum öldurnar. Norðan garrinn, sem mér fannst fara vaxandi, hlaut  að valda auknu ölduróti og þar með meiri ágjöf. Svona er sjómennskan víst bara. 
Þú ættir kannski ekki að sitja þarna
Það var engu líkara en húsbóndinn í Bala hefði mælt þessi orð, svo líkur var raddblærinn. Þetta var auðvitað skipstjórinn sem benti mér, einkar kurteislega, á það, að með setu minni í stefninu, vildi það leita neðar í vatnsborðið og þar með ykist öldugangurinn og ágjöfin. Úr þessu glappaskoti mínu og nokkurri vanþekkingu á slöngubátum, varð ekkert mál. Ég vippaði mér aftur upp á slönguna og ágjöfin minnkaði umsvifalaust. 

Fyrsti ósinn
Við tókum land við ósa árinnar, en þá stukku aðrir en ég í áhöfninni úr bátnum þegar hann nálgaðist land og drógu hann (og mig) upp í fjöru, þannig að ég gat stigið (virðulega að sjálfsögðu) frá borði þurrum fótum, rétt í þann mund er fyrstu keppendurnir létu vaða í Hjálmsstaðaárósinn. Enn var enginn farinn að taka afgerandi forystu, en ljóst af svipbrigðum, að nú skyldi skrækur skjálfa og hlaupinu rústað. Þarna fremst var,eins og áður er sagt, keppnisfólkið.  Síðan nokkru síðar komu meðaljónarnir (í jákvæðri merkingu, auðvitað) fólkið sem stundaði hlaup að umtalsverðu marki, en í hófi. Í síðasta hollinu voru svo skemmtiskokkararnir - fólkið sem hefur gaman af að vera úti í náttúrunni, og nýtur þess að skokka um fagurt og sérstakt umhverfi.  Við leystum landfestar áður en skemmtiskokkararnir voru farnir að sjást að einhverju ráði. 
Aftur var siglt til vatns og nú lá leiðin til suðurs.

---------
Þar sem eitthvað virðist ætla að teygjast á þessu hjá mér, verð ég að setja saman þriðja hluta þessarar frásagnar. Hann mun koma - æsilegri en nokkuð það sem hér hefur þegar verið greint frá.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...