14 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárnákvæmt. Auk þess verð ég æ oftar var við það, að öðru fólki finnst ég vera eldri en upplifun mín segir til um.  Eini tölulegi mælikvarðinn á aldur minn er sá sem mæla má í lífárum, en á þessu ári verða liðin 68 ár frá því ég gladdi foreldra mína (og nánast veröld alla) með því að koma í heiminn.  
Ég neita því ekki, að stundum verður mér hugsað til baka um nokkra áratugi, til þess fólks sem þá var um sjötugt. Það fólk var bara hreinlega orðið gamalt og slitið. Aldur nú til dags er með einhverjum hætti öðruvísi en hann var. Reyni einhver að mótmæla því, er mér að mæta.
Ekki meira um það.

Aðdragandinn (fyrir þann 12.)
Fyrir nokkrum dögum fékk ég skilaboð á Facebook frá fyrrum samstarfsfélaga til áratuga, Grímu Guðmundsdóttur, sem voru á þessa leið:
Viljið þið fd ekki bara skreppa á Laugarvatn á laugardaginn og taka myndavélina með? 😉
Þar sem ég var tiltölulega léttur í sinni á þá stundina, svaraði ég um hæl:
Jú, jú  😊Tími, stund og staður?
Gullsprettur, start kl. 11 en gott að koma tímanlega til að fanga stemninguna fyrir hlaup 😊
Þarna ákvað ég að ögra lítillega:
Það þarf að finna stað þar sem er mesta atið, er það ekki?
Jú, á bát eða við Hólaá.
Þarna voru mér sem sagt gefnir tveir kostir, annar sem ég hafði áður prófað, en það var árið 2015 (MYNDIR) og þá við Hólaá. Þar sem ég vil, alla jafna, síður endurtaka mig, fór ég strax að renna hýru auga til fyrri valkostsins.  

Gullspretturinn
Fyrir þau ykkar sem ekki vita neitt um Gullsprettinn, þá eru þetta nokkurnveginn þær upplýsingar sem þarf:
Gullspretturinn er hlaup í kringum Laugarvatn sem fram fer þann 12. júní og hefst kl. 11 við gróðurhúsið niður við vatn. Uppselt er í hlaupið og ekki er lengur skráð á biðlista.
Vegalengd og leið: Hlaupið verður í kringum Laugarvatn yfir ár, mýrar, móa með frjálsri aðferð. Vegalengdin er ca. 8,5 km og drykkjarstöð verður við Útey eftir að Hólárós hefur verið vaðinn.Tímataka fer fram með flögum
Hámarksfjöldi þátttakenda er 300 manns í forskráningu. Eftir að hámarksfjölda er náð, þá verður hægt að skrá sig á biðlista.
Þátttökugjald er kr. 4.000. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála.
Keppt verður í karla og kvennaflokki.
Þátttakendum boðið upp á hverabrauð Erlu, Egils gull, Kókómjólk, Hleðslu og reyktan silung frá Útey að loknu hlaupi.
Til að forðast umferðaröngþveiti niður við vatn er þátttakendum bent á að leggja bílum sínum á malarvellinum sunnan við íþróttahúsið.
Aðdragandinn (þann 12. nokkuð árla)
Laugardagurinn 12. júní rann upp.
- dagurinn þegar keppendur í Gullsprettinum skyldu ræstir. Um var að ræða 16. skiptið sem fólk var ræst til þessa spretts.
- dagurinn þegar ég yrði öðru sinni, hugsanlega, formlega skipaður ljósmyndari.
- dagurinn þegar í ljós kæmi hvort ég myndi lenda í viðlíka ævintýri og þegar ég, fyrir þrem árum, lenti í talsverðum háska í hafinu fyrir vestan Afríku.

Sérann (C-HR) flutti okkur fD og tvær sonardætur mjúklega á Laugarvatn og þar sem leið lá niður að tilgreindu bílastæði.  
Jú, þar sem það blundar í mér einhver ævintýramaður, þó fáum geti komið það til hugar, sem kannast við mig, renndi ég nokkuð hýru auga til hugmyndarinnar um að þeysa með björgunarbát þvers og kruss um Laugarvatn og taka myndir af keppendum við ýmsar aðstæður.  Samt var ég svo sem alveg reiðubúinn til þess líka, að rölta á bakkanum og taka myndir af rúgbrauðinu og silungnum, fólki með glampa í augum hefja hlaupið, og örþreyttu fólki nota síðustu kraftana til að líta vel út við markið. Ég var opinn fyrir flestu.
Gríma að sannfæra sjálfa sig um að mér
sé treystandi til að fara með bátnum.

"Treystirðu þér til að vera í bátnum?"
spurði Gríma, sem stýrði þarna bara öllu, held ég. 
Ekki neita ég því að við þessa spurningu tók ég sekúndubrot til að velta því fyrir mér, hvort ég treysti mér til þess arna. Ég rifjaði upp  hvernig fólk í kringum sjötugt var fyrir nokkrum áratugum, ég man eftir ævintýri mínu í bananabátum fyrir rúmum þrem árum. Ég gerði mér fulla grein fyrir því, að ég er engin horrengla. Sekúndubrotið leið og þar sem ég er búinn að leggja stund á krefjandi heilsurækt með hópi eldra fólks á Selfossi í tæpt ár og þar að auki stundað Crossfit og fylgt fD  og morgunkörlum í göngum þvers og kruss um götur og skóga, stóð ekki á svarinu: Kva, auðvitað!

Ef ég hefði haldið að umhyggja Grímu fyrir velferð minni næði ekki lengra, þá hefði það verið misskilningur. "Það er örugglega kalt á vatninu. Á ég ekki að finna hlýrri föt handa þér?  
Enn þurfti ég sekúndubrot, sem ég nýtti til að komast að því hvort klæðnaðurinn sem ég hafði valið mér, í ljósi þeirra upplýsinga sem vedur.is hafði fært mér um veðrið sem búast mætti við á þessum sólríka degi, væri fullnægjandi. Ég hafði bara valið mér þann fatnað sem ég nota oftast við göngur á Selfossi og í nágrenni. Fyrst hann var nægilega skjólgóður þar, myndi hann hlífa mér vel á siglingu um Laugarvatn. Þessi dagur var sannarlega bjartur, en hann blés á norðan, vindstreng sem ættaður var frá heimskautasvæðum jarðar. Skjannabjört sólin myndi örugglega duga til að vega upp kaldan gustinn. 
Nei, nei, þetta er ekkert mál. Svo er ég með húfu og hanska!

Björgunarbátnum ýtt á flot.
 Aðdragandinn 
(þann 12. - ræsing nálgast)
Þarna hafði ég, sem sagt, verið ráðinn sem formlegur bátsljósmyndari Gullsprettsins. Græjurnar mínar voru EOS-inn og stóra linsan. 

Svo fóru þeir að bjástra við björgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar og ég fór nú að reyna að kynna mér hvað framundan væri og neita því ekki að það fór aðeins um mig, þegar ég leit augum piltana sem báru það með sér að ætla að stjórna bátsferðinni. Ekki aðeins fannst mér þeir heldur ungir til að taka að sér þetta verkefni (annan man ég eiginlega síðast sem grunnskólapjakk á Bala) heldur voru þeir klæddir eins og þyrluflugmenn sem kallaðir hafa verið til björgunarstarfa á Svalbarða.  Ég var reyndar fljótur að hætta að efast um hæfni þeirra til þess ábyrgðarstarfs sem beið þeirra, enda handtökin við að búa bátinn til siglingar um úfið vatnið, fumlaus.  
Mér var afhentur verklegur flotjakki (en ekki hjálmur), líklega til þess ætlaður að koma í veg fyrir að ég drukknaði í Laugarvatni við það að falla útbyrðis. Með þessum flotjakka tel ég að ég hafi verið orðinn harla vígalegur, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka orð þeirra sem ég þarna þekkti til og sem settu fram skoðanir sínar og mynduðu herlegheitin í bak og fyrir. Held að ég hafi mögulega verið farinn að minna á Svein Þormóðsson (þekktan ljósmyndar hér áður fyrr). 

Til báts 
Þar sem klukkan nálgaðist 11 fyrir hádegi, fékk ég merki um að ég skyldi fara að ganga til báts, sem ég og gerði. Þetta var það sem kallað er slöngubátur með utanborðsmótor (sem bilaði þegar hæst stóð,við samskonar aðstæður í fyrra, ).  Þar sem ég var kominn að bátnum, velti ég fyrir mér, hvar ég ætti nú helst að sitja, því engin augljós sæti var að sjá um borð. Í stefninu var vænlegur púði, en að öðru leyti bara slöngurnar sitthvorumegin.  

Það er best að þú komir um borð af bryggjunni. 
Það var kannski best, enda hefði ég að öðrum kosti þurft að ösla út í, sem mér hefði ekki hugnast sérstaklega. Með góðum vilja, hefði ég getað túlkað þessi orð til komin vegna aldurs míns, en það gerði ég ekki. Þarna var bara um að ræða umhyggjusemi við ljósmyndara, sem átti auðvitað ekki að þurfa að bleyta sig í fæturna.

Ég steig um borð, svo virðulega sem mér var unnt (einhhver væri kannski að fylgjast með) og tók mér sæti á annarri slöngunni, en aðrir skipverjar (tveir) tóku til við að ýta bátnum af grynningunum, svo hægt væri að setja mótorinn niður. Að því búnu stukku þeir um borð og það var haldið til vatns.


Ætli verði bara ekki úr því að síðari hluti birtist áður en langt um líður, ef ekki verður sett lögbann á frekari birtingu.

Engin ummæli:

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn.  Nú get ég hinsvegar staðfest...