Sýnir færslur með efnisorðinu Varadero. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Varadero. Sýna allar færslur

04 apríl, 2019

Kúba: lokahnykkur

Fjölnota poki með einu af átrúnaðargoðum táningsáranna
Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að skrifa rúm 14.000 orð um þessa Kúbuferð, 81.000 slög hef ég átt á lyklaborðið og blaðsíður í A4 með 12 pt letri eru orðnar 33 - fyrir utan myndir..

Þetta er komið nóg og jafnvel talsvert umfram það. En hversvegna í ósköpunum hef ég nú verið að eyða stórum hluta lífs míns frá því við komum heim, í að rifja upp þessa ferð?
Það er í sjálfu sér áhugaverð spurning.
Ég reikna með að skásta svarið sé þau áhrif sem þessi ferð hafði á mig. Mér fannst einhvern veginn ómögulegt að skilja hana bara eftir í höfðinu, ekki síst vegna þess að ég fæ stundum að heyra það að minnisstöðvarnar séu eitthvað byrjaðar að gefa sig.


Þá er að fara að klára þetta.
Morguninn eftir þríhjólsævintýrið yfirgáfum við Havana og héldum sem leið á austur á bóginn til mikils hótelasvæðis og baðstranda í Varadero.
Við Niagarafossa
Það beið síðan ríflega tveggja daga dvöl í lúxus, á Hotel Iberostar áður en flugið var tekið til Toronto, en þar nýttum við þrjú tækifærið til að skoða okkur aðeins um í tvo daga, m.a. Niagara fossa og CN turninn. Að því búnu flugum við bara heim svona eins og gerast vill í ferðalok.

Svona í lokin þetta:
Ég tel mig mæla fyrir munn okkar fD beggja þegar ég lýsi ánægju með og þakklæti fyrir samfylgd fR (Ragnheiðar Jónasdóttur). Ég held, svei mér þá, að indælli ferðafélagi sé vandfundinn.

Í CN-turninum í Toronto
Þá er full ástæða til að gera mikið úr þætti félaganna Guðna og Carlosar, forsvarsmanna Kúbuferða, fyrir að bjóða upp á svona ferð, og fylgja síðan sjálfir með alla leið. Guðni "dílaði" við landa sína, en Carlos var öllum hnútum kunnugur á sínu föðurlandi. Glimrandi gott teymi þar á ferð. Auk þeirra komu tveir öndvegismenn að ferðinni allan tímann, leiðsögumaður og bílstjóri.
Ég vona að Guðni og Carlos endist sem lengst í að fara með hópa í svo persónulegar ferðir sem þessa.

Auðvitað er ég einnig ánægður með ágætt samferðafólk, annað, venjulega og vandaða Íslendinga af ýmsum toga.

Nú er ég búinn að tryggja það, að ég geti, þegar fram líða stundir og minnið fera að gefa sig enn frekar, leitað í þessa samantekt og yljað mér við minningarnar á dimmum og köldum vetrarkvöldum, kannski með VR við höndina ... hver veit?. 


20 mars, 2019

Kúba: Lending

Helstu viðkomustaðir á Kúbu.
Það er ekki endilega víst að allir vegir séu nákvæmlega rétt valdir, en í stóum dráttum
var ferðalagið svona frá 2.- 12. mars.

Áður en lengra er haldið, er rétt að geta þess að ekkert okkar þriggja sem lögðum í þessa för sem hluti af 30 manna hópi, getur talist til róttækra hægri manna, hægri manna yfirleitt, eða kapítalista. Hvað við erum í stað þessa læt ég liggja milli hluta, enda ekki mitt að skilgreina lífsskoðanir samferðafólks míns.
Ætli megi ekki segja að við séum svona fólk sem er löngu búið að átta sig að að ismar í hvaða átt sem er, ganga ekki upp, einfaldlega vegna þess hvernig mannskepnan er innréttuð. Þeir hljóma oft óskaplega vel, ismarnir, en mannlegt eðli afskræmir þá undantekningarlaust þegar fram í sækir.  Fleira segi ég ekki um þetta, en vona að það sem ég hef sagt, varpi litlu ljósi á það sem kemur hér til umfjöllunar, en ég veit svo sem ekki enn hvað það verður. 

Á leiðinni frá Toronto til Varadero flugvallar á Kúbu, sem er rétt hjá karabískum sólarströndum Kúbverja, þurftum við að fylla úr blað. Þetta var eitt blað þar sem við þurftum síðan að skrifa sömu upplýsingarnar tvisvar (sjá til hliðar). Þetta var svona ígildi vegabréfsáritunar fyrir ferðamenn. Þessa blaðs var okkur síðan gert að gæta eins og sjáaldurs augna okkar, því kallað yrði eftir því þegar við færum úr landi aftur.

Flugvöllurinn í Varadero (mynd af vef)

Aeropuerto de Juan Gualberto Gómez


Á flugvellinum í Varadero fór það fram, sem venjulega fer fram á alþjóðaflugvöllum. Við gengum út úr vélinni inn í flugstöðvarbyggingu og byrjuðum þar á að fara í gegnum landamæraeftirlit. Ég ætla ekkert að neita því að vegna ákveðinna fordóma stóð mér ekki alveg á sama þegar að því kom. Ætli maður sé ekki búinn að sjá of margar myndir af neðferð kommúnískra ógnarstjórna á fólki.
Við blasti röð af dyrum. Við þurftu að velja einar dyr, inn í lítinn klefa, eitt og eitt í einu. Í klefanum sat, á bak við hátt borð, landamæravörður. Honum þurfti að afhenda ferðagögn, vegabréf, vegabréfsáritunarmiðann og farmiðann. Hann skoðaði gögnin, ábúðarfullur og alvarlegur og steinþegjandi, meðan maður reyndi að taka svalann (kúlið) á þessar aðstæður, reyndi að gera ekkert sem hugsanlega yrði til þess að hann seildist undir borðið eftir byssu, nú eða til að ýta á neyðarhnapp.
Manni hefur nefnilega verið sagt að húmor, hvaða nafni sem nefnist, eigi ekki við fyrir framan landamæraverði.  Þar sem ég stóð þarna, í húmorsleysi mínu og beið þess sem verða vildi, gaf vörðurinn mér bendingu um að taka af mér gleraugun. Því næst stillti hann myndavél fyrir framan mig og smellti af. Þá skoðaði hann gögnin enn frekar og horfði á tölvuskjáinn hjá sér. Komst loks að þeirri niðurstöðu að föðurlandi hans myndi að öllum líkindum ekki stafa veruleg hætta af heimsókn minni, Stimplaði í vegabréfið, með þeim afleiðingum, að ég mun, að sögn þeirra sem betur þekkja til en ég, ekki fá að heimsækja land hinna hughraustu og frjálsu næstu tvö árin. Margt finnst mér erfiðara að takast á við í heiminum en það.
Að stimplun aflokinni opnaði vörðurinn dyr mínar inn í Kúbu og enn var mér létt. Svei mér eg ég sá ekki votta fyrir örlitlu brosi út í annað, í þann mund er hann rétti mér ferðagögnin.
Reglur um afgreiðslu komugesta við landamæraeftirlit.
Það var auðvitað ekki svo að allt væri nú búið eftir afgreiðsluna í landamæraklefanum. Fyrir innan dyrnar blöstu við nýjar raðir fólks, sem beið þess að komast í gegnum enn eina öryggisleitina, svona eins og maður fer í áður en maður fær að stíga upp í flugvél.  Ég hef mikið velt fyrir mér tilganginum með þessari leit, en hef ekki forsendur til að setja fram eitthvað um ástæður hennar. Það eina sem mér dettur í hug er mögulegur, skaðlegur búnaður af einhverju tagi, sem farþegar gætu hafa aflað sér á flugvellinum í Toronto. Svo kom  auðvitað upp í hugann sú fullyrðing sem ég heyrði, að á Kúbu væri ekkert til sem héti atvinnuleysi. Þarna höfðu einir 15-20 einstaklingar atvinnu af því að skanna þegar skannaða farþega. Ekki geri ég athugasemdir við það. Nánar má lesa þær reglur sem þarna er unnið eftir á myndinni hér fyrir ofan, vinstra megin (smella á hann til að stækka).

Salurinn sem hópurinn kom þarna inn í er afskaplega stór, hátt til lofts og vítt til veggja. Í honum var fremur skuggsýnt og engin skrautljós að óþarfa auglýsingaskilti. Í fjærhorni þessa salar hægra megin voru svo töskufæriböndin og þar hlupu fíkniefnaleitarhundar fram og til baka, þefandi af farangrinum. Það var eins gott að ég skildi grasið eftir heima! - ef svo má að orði komast.

Töskurnar fengum við með skilum og við blasti frjálsmannleg innganga í landið hans Castrós. Hvernig myndi það nú taka við mér?

Næst: Upp í rútu og af stað


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...