Sýnir færslur með efnisorðinu Leikdeild Umf. Bisk.. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Leikdeild Umf. Bisk.. Sýna allar færslur

18 október, 2025

Leikdeild Umf. Biskupstungna: 39 og ½ vika

Þegar kynslóðirnar mætast í sameiginlegu verkefni, verður til einhver galdur. Maður eflist í þeirri trú, að  framtíðin feli ekki bara í sér dauða og djöful, heldur heim, þar sem mannfólkið sinnir uppbyggilegri verkefnum en þeim sem efst eru á baugi í veröldinni þessi árin.  Það kallar fram einhverja sannfæringu um að það hljóti að vera bjart framundan, að setjast niður fyrir framan leiksviðið í Aratungu eina kvöldstund og njóta samþættingar kynslóðanna, ekki síst þegar umfjöllunarefnið er tilurð lífsins, allt frá sameiningu tveggja frumna, til lífsdansins sem fylgir þeirri sameiningu.
  
Jæja, þetta var nú kannski heldur háfleyg byrjun, en þá er bara að taka því. 

Ég var viðstaddur frumsýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu, á leikritinu/gamanleiknum/farsanum 39 og ½ vika, eftir Hrefnu Friðriksdóttur, sem þarna var viðstödd. Sýningin fjallar um aðdraganda barneigna og ýmis vandamál og misskilning sem því ferli tengjast. Þetta fer allt fram í farsakenndum stíl þar sem tilurð, meðganga og úrvinnsla nokkurra barna er umfjöllunarefnið. Sviðið er annars vegar skrifstofa félagsráðgjafa, þar sem félgsráðgjafinn er mikið til í fríi, en námsmaður í Landbúnaðarháskólanum leysir hann af stærstan hluta verksins.  Á hinum helmingi sviðsins er svo biðstofa  og inngangur í fæðingastofu. Að öðru leyti er efnið þess eðlis, að fólk verður bara að skella sér í leikhús til að fá botn í þær flækjur allar. Ég er enn að reyna að fá í þetta endanlegan botn og sé ekki betur en þetta gangi allt upp, með einhverjum hætti.

Vissulega er það bara eitt skrifborð sem bjargar því, að ekki þurfti að taka fyrir augun á saklausum börnum og sannarlega er orðfærið ekki alltaf við hæfi viðkvæmra einstaklinga, en samhengið gerir þetta allt svo sjálfsagt. Ég neita því ekki, að stundum varð mér hugsað til þess hvernig t.d. frú Anna hefði brugðist við, en gerði mér jafnframt grein fyrir því, að nú eru aðrir tímar.

Það gildir auðvitað það sama um Leikdeild Umf. Bisk. og aðra leikhópa áhugafólks, að hún á alla mína aðdáun fyrir að halda úti, ár eftir ár metnaðarfullum leiksýningum, sem sannarlega geta tekið á alla aðstandendur sýningarinnar á undirbúningstímanum (svo ekki sé minnst á aðstandendur aðstandendanna).  Það sem kemur á móti, er hinsvegar ómetanlegt, fyrir þátttakendurna, sveitungana og aðra sem njóta þess að eyða kvöldstund í leikhúsi.  Ég finn til ákveðinnar skyldu að sækja sýningar af þessu tagi, ekki síst hreinlega til að samgleðjast aðstandendum sýningarinnar, sem eru komnir í mark, eftir mikla vinnulotu og fórnir. Ég má þó alveg vera duglegri við þetta, svo því sé haldið til haga.

Þessi sýning rennur vel og hiklaust og lausnir leikstjórans trúverðugar. Það er helst, einstaka sinnum, heldur mikið kraðak á biðstofunni, eða biðstofan heldur lítil, þegar allt er á fullu, en það kemur ekkert að sök.

Auðvitað er það svo, að leikararnir eru áhugafólk og maður gerir þá ekkert endilega ráð fyrir að allt sé upp á punkt og prik. 
Það hvílir mikið á Þorsteini Pétri Manfreðssyni Lemke í hlutverki afleysingamannsins, en hann leysir hlutverk sitt vel af hendi; skapar trúverðuga mynd af vandræðagangi námsmannsins, sem berst við að reyna að komast að hvað gerðist eða gerðist ekki á sveitahátíðinni.
Sigurjón Sæland er gamalreyndur í leikstarfi í Tungunum og nýtur sín vel í hlutverki harðsoðna kvennabósans, sem reynist svo uppgötva aðra hlið hlið á sjálfum sér.
Runólfur Einarsson fer vel með hlutverk húsvarðarins, sem á sér leyndarmál. Vissulega dansar hann einstaka sinnum á línunni, en þannig á hann bara örugglega að vera. 

Ég get ekki látið hjá líða, að nefna unga fólkið sem mætir til leiks í sýningunni. 
Róbert Þór Bjarndal Ívarsson er einkar sannfærandi sem verðandi faðir í fyrsta sinn, með geislandi látbragði í túlkun á gleði og sorg. Róbert deilir hlutverkinu með Bergi Tjörva Bjarnasyni, sem leysir það örugglega líka vel af hendi á sýningunum sem framundan eru.
Adda Sóley Sæland fer ansi vel með hlutverk verðandi móður, sem hefur meiri áhuga á öðru en barnastandi. Hún deilir hlutverkinu með Vigdísi Fjólu Þórarinsdóttur, sem mun vísast standa sig vel þegar hennar tími kemur.

Aðrir leikarar í sýningunni stóðu vel fyrir sínu. Hinar verðandi mæðurnar, eru í höndum þeirra Kristínar Ísabellu Karlsdóttur og Unnar Malínar Sigurðardóttur. Þær túlka ástandið hreint ágætlega.  
Íris Blandon, verðandi langamman í verkinu, með kristalkúluna sína, hefur marga fjöruna sopið í leiklistinni og bregst ekki frekar en fyrri daginn.

Verðandi amma og afi eru í höndum þeirra Eyrúnar Óskar Egilsdóttur og Skúla Sæland. Það ganga dálítið skotin  á milli þeirra, vegna ákveðinnar hjónabandsþreytu, sem ekki fer framhjá neinum. Hlutverkum sínum skila þau af sóma.
Aðalheiður Helgadóttir, margreynd á sviðinu, leikur hlutverk félagsráðgjafans af öryggi og innlifun, en ráðgjafinn sá er í fríi stærstan hluta sýningarinnar, meðan landbúnaðarskólaneminn leysir hann af.
Lilja Össurardóttir, fer snyrtilega með lítið, en afgerandi hlutverk.





















Leikstjóri þessarar sýningar er Ólöf Sverrisdóttir. Hún er borin og barnfædd í Hrosshaga, og var því á heimavelli, þannig séð. Að langstærstu leyti virðist mér hún hafa leyst það flækjustand sem verkið felur í sér, vel af hendi og það rann hnökralaust í gegn.

Fjölmargir leikhúsgestir skemmtu sér hreint ágætlega, enda var við öðru að búast. 
Takk fyrir skemmtilega kvöldstund. Þessi sýning á skilið að fólk fjölmenni framundir jól 😎


Ég tók nokkrar myndir, sem hér fylgja, en aðstæður til myndatöku hefðu nú getað verið betri og  afraksturinn er í samræmi við það.

27 febrúar, 2020

Allir á sviði í uppnámi

Til að taka af allan vafa þá er hér ekki um að ræða leikdóm, þannig séð, heldur bara lítilmótlegar hugrenningar Kvisthyltings, sem nálgast það að teljast genginn í hóp eldri borgara, eða eftirlaunaþega. Ef til vill er það einmitt besta ástæðan til að taka mark á þessum skrifum, enda ekkert fólk sem uppi er á hverjum tíma sem býr yfir þeirri reynslu og yfirsýn sem einmitt fólkið sem hefur lagt að baki svo marga áratugi lífs.

Hér er fjallað um leiksýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu. Verkið sem um ræðir, ber heitið "Allir á svið" og er komið höfði náunga að nafni Michael Frayn, en það var Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson. Leikarar eru 9 og hver um sig leikur tvö hlutverk. Sem nærri má geta eru ýmsir aðrir sem að þessu verki koma.

"Fjallað um", já. Við getum alveg kallað það það.
Við fD fylgjumst vel með fréttum og vitum nánast frá mínútu til mínútu hvað er á seyði í veröldinni. Af þessum sökum vissum við í gær, að veiran væri að öllum líkindum á leið til landsins. Við fylgjumst ekki bara  með fréttum, heldur erum við með eindæmum ábyrg gagnvart okkur sjálfum, ekki síður en öðrum.  Við skulum halda því fram að þekking okkar og ábyrgð hafi ráðið því að við ákváðum að skella okkur á þessa leiksýningu leikdeildarinnar í gærkvöld frekar en síðar.

"Allir á svið" er verk í þrem þáttum, þar sem sá fyrsti gerist á tækni- eða lokaæfingu á verkinu: "Nakin á svið". Strax þarna fann ég  fyrir ákveðnum óróleika. Mátti ég búast við þessum sveitungum mínum spígsporandi, jafnvel klæðalausum á sviðinu í Aratungu? Þeirra vegna og mín gerðist það svo auðvitað ekki, en saga hefði það verið til næsta bæjar.
Í þessum þætti gerist auðvitað margt skrítið og skemmtilegt, enda skrattast leikararnir milli hlutverka sinna og hlutverkanna sem þeir eru að leika og stundum erfitt að gera sér grein fyrir hvort um leik er að ræða eða leikleik.
Svo kemur annar þáttur sem gerist mánuði síðar, þegar verið hefur verið flutt allvíða og farið að reyna talsvert á samstarfið, svo ekki sé meira sagt. Þessi þáttur gerist baksviðs meðan verkið er leikið á bakvið leiktjöldin.
Þriðji þáttur, lokaþátturinn gerist síðan á lokasýningu í Aratungu einum og hálfum mánuði eftir frumsýningu. Þarna er nokkuð farið að bera á þreytu leikendanna og listrænn metnaður hefur vikið fyrir ýmsu öðru, þ.e. listrænn metnaður leikaraanna sem eru í hlutverkum leikaranna, ef það skildi skiljast.

Það skal ég segja ykkur, að ég ætla ekki að fara að fjalla um frammistöðu einstakra leikara í þessu verki. Þeir stóðu sig allir með ágætum og komu sínum hlutverkum og hlutverkahlutverkum ágætlega til skila. Framsögn var skýr og góð. Einn leikarnna mótaði, með eftirminnilegum hætti, einskonar ofursjálf úr sjálfum sér í loka þættinum og ég læt fólk um að reyna að velta fyrir sér hver það skyldi nú hafa verið.

Fernt vil ég segja til viðbótar:

1. Á þessum tíma árs (mánuður frá þorrablóti) hafa ákveðnir andlitsvöðvar fengið of mikla hvíld og sannarlega tími kominn til að nota þá. Ég er með harðsperrur í andlitinu í dag.

2. Þetta leikverk er sannarlega ekki til þess fallið að dregnar séu af því djúpar ályktanir eða yfir því sé vöngum velt fram og til baka. Það hefur í rauninni bara einn tilgang: að kalla fram bros og hlátur. Það reynir ekki einusinni að vera eitthvað annað.

3. Ef einhver lítur á tengingu mína milli COVID-19 verunnar og daglegra ákvarðana okkar fD, sem raunveruleika þann sem við búum við, þá er það misskilningur og þessi tenging  eingöngu sett fram til að búa til smá stofudrama.

4. Það er aðdáunarvert að leggja á sig alla þá vinnu sem liggur að baki svona uppsetningu, með tilheyrandi álagi á fjölskyldur þátttakenda og þá sjálfa. Fyrir þetta er ekki greitt með peningum. Hvaða máli skipta peningar svosem í þessu samhengi.

Ég þakka fyrir mig, ekki síst vegna þess að nú er margt orðið svo miklu bjartara og léttara en það var.


Þetta er hlekkur að Facebooksíðu leikdeildarinnar, en þar má alltaf sjá upplýsingar um þær sýningar sem eru framundan.


Leikdeild Umf. Biskupstungna: 39 og ½ vika

Þegar kynslóðirnar mætast í sameiginlegu verkefni, verður til einhver galdur. Maður eflist í þeirri trú, að  framtíðin feli ekki bara í sér ...