27 febrúar, 2020

Allir á sviði í uppnámi

Til að taka af allan vafa þá er hér ekki um að ræða leikdóm, þannig séð, heldur bara lítilmótlegar hugrenningar Kvisthyltings, sem nálgast það að teljast genginn í hóp eldri borgara, eða eftirlaunaþega. Ef til vill er það einmitt besta ástæðan til að taka mark á þessum skrifum, enda ekkert fólk sem uppi er á hverjum tíma sem býr yfir þeirri reynslu og yfirsýn sem einmitt fólkið sem hefur lagt að baki svo marga áratugi lífs.

Hér er fjallað um leiksýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu. Verkið sem um ræðir, ber heitið "Allir á svið" og er komið höfði náunga að nafni Michael Frayn, en það var Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson. Leikarar eru 9 og hver um sig leikur tvö hlutverk. Sem nærri má geta eru ýmsir aðrir sem að þessu verki koma.

"Fjallað um", já. Við getum alveg kallað það það.
Við fD fylgjumst vel með fréttum og vitum nánast frá mínútu til mínútu hvað er á seyði í veröldinni. Af þessum sökum vissum við í gær, að veiran væri að öllum líkindum á leið til landsins. Við fylgjumst ekki bara  með fréttum, heldur erum við með eindæmum ábyrg gagnvart okkur sjálfum, ekki síður en öðrum.  Við skulum halda því fram að þekking okkar og ábyrgð hafi ráðið því að við ákváðum að skella okkur á þessa leiksýningu leikdeildarinnar í gærkvöld frekar en síðar.

"Allir á svið" er verk í þrem þáttum, þar sem sá fyrsti gerist á tækni- eða lokaæfingu á verkinu: "Nakin á svið". Strax þarna fann ég  fyrir ákveðnum óróleika. Mátti ég búast við þessum sveitungum mínum spígsporandi, jafnvel klæðalausum á sviðinu í Aratungu? Þeirra vegna og mín gerðist það svo auðvitað ekki, en saga hefði það verið til næsta bæjar.
Í þessum þætti gerist auðvitað margt skrítið og skemmtilegt, enda skrattast leikararnir milli hlutverka sinna og hlutverkanna sem þeir eru að leika og stundum erfitt að gera sér grein fyrir hvort um leik er að ræða eða leikleik.
Svo kemur annar þáttur sem gerist mánuði síðar, þegar verið hefur verið flutt allvíða og farið að reyna talsvert á samstarfið, svo ekki sé meira sagt. Þessi þáttur gerist baksviðs meðan verkið er leikið á bakvið leiktjöldin.
Þriðji þáttur, lokaþátturinn gerist síðan á lokasýningu í Aratungu einum og hálfum mánuði eftir frumsýningu. Þarna er nokkuð farið að bera á þreytu leikendanna og listrænn metnaður hefur vikið fyrir ýmsu öðru, þ.e. listrænn metnaður leikaraanna sem eru í hlutverkum leikaranna, ef það skildi skiljast.

Það skal ég segja ykkur, að ég ætla ekki að fara að fjalla um frammistöðu einstakra leikara í þessu verki. Þeir stóðu sig allir með ágætum og komu sínum hlutverkum og hlutverkahlutverkum ágætlega til skila. Framsögn var skýr og góð. Einn leikarnna mótaði, með eftirminnilegum hætti, einskonar ofursjálf úr sjálfum sér í loka þættinum og ég læt fólk um að reyna að velta fyrir sér hver það skyldi nú hafa verið.

Fernt vil ég segja til viðbótar:

1. Á þessum tíma árs (mánuður frá þorrablóti) hafa ákveðnir andlitsvöðvar fengið of mikla hvíld og sannarlega tími kominn til að nota þá. Ég er með harðsperrur í andlitinu í dag.

2. Þetta leikverk er sannarlega ekki til þess fallið að dregnar séu af því djúpar ályktanir eða yfir því sé vöngum velt fram og til baka. Það hefur í rauninni bara einn tilgang: að kalla fram bros og hlátur. Það reynir ekki einusinni að vera eitthvað annað.

3. Ef einhver lítur á tengingu mína milli COVID-19 verunnar og daglegra ákvarðana okkar fD, sem raunveruleika þann sem við búum við, þá er það misskilningur og þessi tenging  eingöngu sett fram til að búa til smá stofudrama.

4. Það er aðdáunarvert að leggja á sig alla þá vinnu sem liggur að baki svona uppsetningu, með tilheyrandi álagi á fjölskyldur þátttakenda og þá sjálfa. Fyrir þetta er ekki greitt með peningum. Hvaða máli skipta peningar svosem í þessu samhengi.

Ég þakka fyrir mig, ekki síst vegna þess að nú er margt orðið svo miklu bjartara og léttara en það var.


Þetta er hlekkur að Facebooksíðu leikdeildarinnar, en þar má alltaf sjá upplýsingar um þær sýningar sem eru framundan.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...