Sýnir færslur með efnisorðinu kveðskapur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kveðskapur. Sýna allar færslur

04 nóvember, 2019

Þorrablót Þorvaldsdætra á blómatíma hressleikans

Þorvaldsdætur 2010, f.v. Dröfn, Auður, Sóley, Pálína (Palla)
Sú var tíð, að Þorvaldsdætur höfðu þann sið að skiptast á að halda þorrablót á heimilum sínum. Sú var tíð, en síðan eru nú liðnir einir þrír til fjórir áratugir og margt hefur breyst, eins og gengur.
Það var þó nokkuð gert úr þessum samkomum, matarborð svignuðu, það var sungið og trallað og flutt skemmtidagskrá og þar fram eftir götunum. Jú, það voru allir í stuði.

Á þorra árið 1991, þegar eyðimerkurstormurinn "Desert Storm" gekk yfir á Arabíuskaganum, Heklugos stóð yfir og eitt mesta fárviðri í manna minnum gekk yfir á Íslandi, var þorrablót Þorvaldsdætra haldið í Kópavogi.

Við fD vorum bara flott á því og fengum okkur hótelherbergi á Holiday Inn í Sigtúni og þar samdi ég, það sem ég taldi að gæti talist einhverskonar skemmtiatriði á samkomunni. Samsetningur þessi rataði síðan í hendurnar á mér nú fyrir skömmu. Til þess að þessi andans arfur úr fortíðinni glatist nú ekki, set ég hana hér inn.

Annarsvegar er um að ræða kveðskap undir Pálshætti, sem ég kalla svo og í kjölfarið fylgir prósaljóð.

Það þykir víst þjóðlegt og flott.


Það þykir víst þjóðlegt og flott
og þjóðinni ekki til ama
að þykjast ver' að geraða gott
en, Guð minn, bara´ öllum er sama.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
og þekkilegt flestöllum konum,
að kreista fram karlmannlegt glott
og kalla fram virðing hjá sonum.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
þó þrælar það fái' ekk'i að reyna,
á hóteli að hafa það gott,
ja, helvíti, já það ég meina.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
en þekkir samt ekki þjóðin,
að gantast og gera sér gott
og glettast við Þorvaldsfljóðin

Ég ákvað að birta ekki tvö erindi samsetningsins þar sem ritskoðun aldurs og reynslu telur þau ekki birtingarhæf.


Svo er það prósaljóðið:

Nú, þegar ...


, þegar sólargeislarnir eru að safna kröftum fyrir vorið,
, þegar lömbin eru að gerjast í mæðrum sínum,
, þegar þjónar stríðsguðsins mæta örlögum sínum í eyðimörkinni,
, þegar tilvonandi landsfeður reyna að gera sig gáfulega í fjölmiðlum,
, þegar gróðurinn vaknar austur í Biskupstungum í skini gervisóla,
, þegar árið 1991, ár eldgosa, jarðskjálfta og stórstyrjalda er nýhafið,
hittast Þorvaldsdætur í makindum með slekti sínu
og blóta þorra, eins og ekkert hafi í skorist.
Ekki nema það þó.


Já, það eiga allir sína sögu. 😉

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...