Sýnir færslur með efnisorðinu Ég er kominn heim. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ég er kominn heim. Sýna allar færslur

29 júlí, 2016

Líklega betra að koma ekki heim

Fyrrverandi forsætisráðherra steig inn í ljós fjölmiðlanna fyrir nokkrum dögum og tilkynnti endurkomu sína. Hvaða endurkoma er það? Hann situr á Alþingi sem fyrr. Er það þá endurkoma í forsætisráðuneytið?
Endurkomu sína tilkynnti hann þannig, að hann væri kominn heim, með tilvísum í lag og texta sem tengist aðallega glæstum árangri íslenskra landsliða í íþróttum þessi misserin.  Ég leyfi mér hér, aðallega, auðvitað að gamni mínu, að heimfæra texta Jóns Sigurðssonar upp á þessa meintu endurkomu fyrrverandi forsætisráðherra.

------------------------------



Er völlur grær og vetur flýr,
og vermir sólin grund.
Kem ég heim og hitti þig,
verð hjá þér alla stund.


Í þessari vísu er augljóslega verið að fjalla um að heimkoman verði næsta vor og það  skýrir sannarlega hversvegna sá sem segist vera kominn heim, hefur tjáð sig á öðrum vettvangi um að það skuli kosið í vor. 
Annarrar persónu fornafnið vísar augljóslega til þjóðarinnar og ber með sér að hann telji ástæðu til þess að hún hlakki til. Hann gerir einnig ráð fyrir því, að þegar kann kemur, verði það til frambúðar.


Við byggjum saman bæ í sveit,
sem brosir móti sól.
Þar ungu lífi landið mitt
mun ljá og veita skjól.


Hér er talað um bæ í sveit, sem bendir þá til þess, að um verði að ræða bæinn Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð, sem einmitt má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð
Þar er þá líklega meiningin að sitja á pallinum og brosa með bænum mót austfirskri sólinni. 
Það er áhugavert, að samkvæmt þessu gerir sá sem segist vera kominn heim, ekki ráð fyrir að búa í Skrúðási 7 í Garðabæ, eins og gera hefði mátt ráð fyrir, enda verður það hús seint talið til sveitabæja. 
Að öðru leyti má lesa út úr þessari vísu, að við heimkomuna muni nýjum samflokksmönnum fjölga og þeir muni njóta þess að sá sem segist vera kominn heim, verði kominn heim. Sú framtíðarsýn kann að höfða til einhverra. Þá er þarna talað um "landið mitt" og þar með það slegið út af borðinu, að um land einhverra annarra sé að ræða, nema
Skrúðaás 7, Garðabæ
auðvitað um sé að ræða jörðina Hrafnabjörg út af fyrir sig.

Sól slær silfri á voga,
sjáðu jökulinn loga.
Allt er bjart yfir okkur tveim
því ég er kominn heim.

Hér er sleginn nokkuð rómatískur strengur og þar með þess freistað að höfða til tilfinninga lesandans. Vissulega má segja að Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð standi ekki fjarri Héraðsflóa (kort) og þar megi mögulega líta dans sólageislanna, en þá þarf auðvitað að hafa það í huga að Héraðsflói er flói en ekki vogur. Með því að kalla hann vog, er verið að gera lítið úr honum, en einmitt sú yfirlýsing gæti bent til þess að sá sem segist vera að koma heim, sé talsvert hrokafullur í eðli sínu.  
Tilvísunin í jökulinn sem logar í geislum kvöldsólarinnar er dálítið dularfull, enda engir jöklar á Norð-Austurlandi. Þarna er sá sem segist vera kominn heim að öllum líkindum að freista þess að höfða til víðari hóps, ekki síst á þeim landsvæðum þar sem einhverjir jöklar sjást, þar með höfuðborgarsvæðinu, þar með í Garðabæ, sem síðan má túlka sem tilboð til þeirra sem hallast frekar til hægri í stjórnmálum.

Sá sem segist vera kominn heim telur að allt verði bjart yfir honum og þjóðinni þegar hann kemur heim, en fjallar ekkert frekar um hvað það er, sem gefur tilefni til þeirrar yfirlýsingar. Birta getur verið svo margt: 
- birtan sem stafar frá sólinni og er grundvöllur lífs á jörðinni, 
- birtan sem verður til innra með fólki vegna einskærrar lífshamingju, 
- birtan sem verður til þegar frelsarinn snýr aftur frá himni (money heaven, ef til vill) 
- birtan sem leggst yfir þjóð sem hefur kosið réttan stjórnmálaflokk til valda, 
- birtan sem lýsir frá öflugum stjórnmálaleiðtoga. 
Það er mörg birtan, en ekki verður ráðið af vísunni hverskonar birtu sá sem segist vera kominn heim er að tala um.

Að ferðalokum finn eg þig,
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.

Ekki er ljóst af samhenginu, úr hvaða ferð sá sem segist vera kominn heim, er að koma. Hvert var tilefni ferðar rhans? Hvert fór hann? Hvað gerði hann á þeim tíma sem hann var í ferðinni?  
Hér kemur auðvitað ótalmargt til greina. Það sem telja verður líklegustu skýringuna, svona í heildarsamhenginu er, að sá sem segist vera kominn heim, hafi flúið út úr ofbeldissambandi, þar sem hann var helsti gerandinn og farið í ferðalag þar sem hann tókst á við sjálfan sig, leitaði skýringa á því hvernig fór sem fór og lausna á því hvernig bætt yrði úr.  Margt bendir til þess að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu og það sem gerðist í aðdraganda ferðarinnar hafi með engu móti mátt rekja til þess að hann hafi gert eitthvað rangt, þvert á móti.  Hann er þess því fullviss að honum verði tekið opnum örmum þegar hann snýr til baka. Hann telur sig hafa verið fórnarlamb þess sem hann ávarpar í textanum, en hefur fyrirgefið af stórmennsku sinni. Hann er þess fullviss, að endurkomu hans verði fagnað.

Sá sem segist vera kominn heim, sendi textann á undan sér, fullur bjartsýni á að óbreytt nálgun hans að heimilislífinu muni vera hið eina rétta til að endurnýja sambandið.  

Það er ekki óvarlegt að ætla, að hann geti hafa metið stöðuna rangt.

ÉG ER KOMINN HEIM (FERÐALOK) - ÓÐINN VALDIMARSSON
Erlent lag en textinn eftir Jón Sigurðsson

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...