Í gær (20. ágúst) lá leiðin á tána, ilina og hælinn á Reykjanesskaga í mikilli blíðu. Formlega hófst ferðin ekki fyrr en við síðasta hringtorgið á Reykjanesbraut, torgið þar sem maður velur venjulega þriðja legginn, en við tókum þann sem var númer tvö og brunuðum inn í Sandgerði og þaðan í Garð, þar sem táin er. Þar urðu á vegi okkar tveir vitar og byggðasafn. Handan Faxaflóa blasti Snæfellsjökull við og í hlaðinu var að finna Byggðasafnið á Garðskaga. Þar hafði fD orð á því að um væri að ræða skemmtilegt safn, engir kambar, strokkar, askar eða þvíumlíkt. Ég gat svo sem tekið undir með frúnni að þessu leyti. Þarna var að finna ýmislegt frá æskuárum okkar og þannig gátum við tengt við safnmunina, betur en í flestum öðrum byggðasöfnum (auðvitað var þarna líka um að ræða áminningu um að árin líða).Það yrði langt mál að telja hér upp allt það sem athyglisvert þótti, en ég verð að nefna safnvörðinn, Þórarin Magnússon. Pilturinn fylgdi okkur eftir um safnið að sagði frá og sýndi margt af því sem það geymir. Ég hef ekki áður komið í byggðasafn sem veitir svo öfluga þjónustu – og svo var enginn aðgangseyrir, en safnbúð fyrir þá sem versla vildu og styrkja þannig þessa skemmtilegu og lifandi starfsemi.
Ferðalagið byrjaði vel.
![]() |
Snæfellsjökull |