Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur

10 ágúst, 2016

"Þessvegna flýgur þú betur með Icelandair", er manni sagt

Ég velti því fyrir mér, eins og sjálfsagt margir sem ekki fá þá þjónustu sem þeir greiða fyrir, hvort réttast væri bara að þegja og halda áfram með lífið, eða láta vita af óánægju minni með þjónustuna.
Ég ákvað að létta á mér, með réttu eða röngu, eftir flug með Icelandair frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur þann 21. júlí. s.l.  Þann 25. júlí sendi ég félaginu bréfið sem birtist hér fyrir neðan. Síðan er liðinn hálfur mánuður og ég hef engin viðbrögð fengið, enda átti ég svo sem ekki von á þeim.  Að mínu mati hefur félagið haft ágætan tíma til að senda mér línu og þar sem hún hefur ekki borist, set ég sendinguna frá mér hér inn.

Póstur til Icelandair, 25. júlí 2016


Komiði sæl Icelandairfólk

Ég sendi þennan póst á þrjú netföng, sem mér fannst líklegust. Ef ekkert þeirra er rétt, óska eg eftir því að þessum pósti verði komið á þann eða þá aðila sem sjá um mál af þessu tagi.
Inngangur

Tilefni þess að ég ákvað að senda ykkur línu er ferð okkar hjónanna frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dagana 21.-22. ágúst s.l. Flugnúmer FI217. Ég reikna nú með að þið fáið slatta af sendingum að þessu tagi og þar með að þið munið sennilega henda þessu í ruslið og halda síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samt sendi ég þetta nú, ef ekki til annars, þá til að losa mig við það sem mér finnst ég þurfa að segja um þetta flug.

Sonur okkar býr með fjölskyldu sinni í Álaborg og þangað fórum við í heimsókn. Við vildum ekki bóka flug fram og til baka, þar sem óvíst var um hvenær af heimferðinni myndi verða. Við keyptum miða fyrir okkur bæði alla leið frá Keflavík til Álaborgar, með tveim flugfélögum, með 3ja daga fyrirvara á samtals kr. 67.941 (+ 4000 fyrir eina tösku) og vorum alveg sátt við að greiða þá upphæð, en ekki meira um það.

Miðakaupin
Svo kom að því að bóka flugið heim. Það var ekkert mál frá Álaborg til Kaupmannahafnar, á verði sem var bara mjög eðlilegt.

Þann 17. júli lá fyrir að við stefndum á að fara heim 21. eða 22. júlí og þá var vaðið í að panta.

Við leit að hentugu flugi frá CPH til REK fundum við eitt sem hentaði ágætlega að því er tímasetningu varðaði: Icelandair kl. 22:30 á kvöldi, sem þýddi að við gætum verið komin heim til okkar í Laugarás kl, ca 02:00 í síðasta lagi. Það réði einnig talsverðu við ákvörðun okkar, að af einhverjum ástæðum hefur það síast inn í huga okkar gegnum tíðina, að þó Icelandair sé ekki ódýrasti möguleikinn í flugi, þá sé um að ræða flugfélag sem veitir góða, örugga þjónustu.
Við bókuðum flug með Icelandair frá CPH til REK í gegnum tripsta.dk og greiddum fyrir það kr. 126.433 eða um 63.000 á mann á Economy-class. Sannarlega fannst okkur þetta yfirgengilega há upphæð fyrir flug til Keflavíkur, en létum okkur þó hafa það, kannski ekki síst vegna þess að það hafði verið okkar ákvörðun að kaupa ekki miða báðar leiðir í upphafi.
Síðan rökstuddum við þetta fyrir sjálfum okkur með þeim hætti að Icelandair væri traust og gott, íslenskt flugfélag með nýjan flugflota – sem sagt ekkert lággjaldaflugfélag sem enga þjónustu veitti um borð nema gegn aukagjaldi. Þarna myndum við fá þægileg sæti, gætum horft á kvikmynd, þyrftum ekki að greiða aukalega fyrir farangur og þar fram eftir götunum.

Í flugstöðinni
Ég orðlengi aðdragandann ekki frekar. Við vorum mætt á Kastrup kl. 20:30, fimmtudagskvöldið 21. júli. Á skiltum gátum við séð að flugið okkar væri á áætlun. Fórum í gegnum það sem fara þarf í gegnum og þar sem við komum í gegnum öryggisskoðunina blasti við okkur að ný áætlun fyrir flugið okkar sem átti að vera kl. 22:30 var 23:50, eða seinkun frá upphaflegri áætlun, um klukkutíma og tuttugu mínútur. Ætli það hafi ekki verið sérstaklega í ljósi þess verðs sem við höfðum greitt (kr. 63.000 á mann), en við þessar upplýsingar gerði all nokkur pirringur vart við sig. Við gátum þó huggað okkur við það að framundan var ferð í þægilegum sætum með skjá fyrir framan okkur þar sem við gætum smellt á einhverja þeirra ótal kvikmynda sem í boði væru í tæknilega fullkomnu afþreyingarkerfi vélarinnar.

Um kl. 10 var verslunum í flugstöðinni lokað, einni af annarri og einnig veitingastöðum.

Einhverntíma um það leyti komu nýjar upplýsingar á skjái sem greindu frá því, að nýr brottfarartíma væri áætlaður kl. 00:10, eða 1 klst og 40 mín seinna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta varð ekki til að auka jákvæðni okkar hjónakornanna í gerð flugfélagsins.

Svo fór, að upp úr 23:30 gengum við að tilgreindu hliði og þá kom í ljós, að síðasta áætlun um brottför myndi standast, sem hún síðan gerði, nokkurnveginn.

Í flugvélinni
Í flugvélinni, TF-FIW, Boeing 757 27B, sem er 26 ára gömul og ber nafnið Búrfell, tóku við ný vonbrigði og pirringsefni sem ég leyfi mér að lista hér fyrir neðan:


1. Í sætisbökum var ekkert afþreyingarkerfi. Þar fór vonin um að geta dundað sér við eitthvað slíkt í þessu næturflugi. Vissulega má geta þess, að eftir að græjan var komin á loft og slökkt hafði verið á sætisbeltaljósum keyrðu flugþjónar um með vagn og hófu að dreifa iPad spjaldtölvum á einhverja farþega, virtist eins og þar væru börnin í fyrirrúmi, en okkur var ekki boðið að fá græju að láni.

2. Sætin voru grjóthörð og bara verulega óþægileg, þannig að maður gat enganveginn verið og ég náði ekki einusinni að festa blund, sem oftast gerist.

3. Við vorum með sæti í röð 9, næstfremstu sætaröðinni fyrir aftan innganginn í vélina. Maður í sætaröðinni fyrir framan mig teygði sig upp í spjald fyrir ofan sig, sjálfsagt bara af forvitni. Þetta spjald reyndist vera skröltandi laust. Ég vissi ekki á þeim tímapunkti að um væri að ræða 26 ára gamla flugvél og neita því ekki, að þarna fann ég fyrir umtalsverðum ónotum.

4. Flugstjórinn baðst velvirðingar á töfinni sem átti að hafa verið tilkomin vegna þess að þessi vél kom seint inn til Keflavíkur einhversstaðar frá. Auðvitað vissi flugfélagið um þá seinkun með nægum fyrirvara til að geta sent skilaboð tímanlega til farþega (að minnsta kosti þeirra sem höfðu greitt kr. 63.000 fyrir farið), svo þeir gætu þá bara dvalið lengur í Kaupmannahöfn. Engin slík skilaboð bárust og vorum við þó bæði með síma á okkur.

5. (afleiðing upphaflegs pirrings) Ég gætti þess auðvitað að láta ekki í ljós óánægju mín við starfsfólkið í vélinni, enda engan veginn við það að sakast. Hinsvegar var, við upphaf þessarar flugferðar, búið að opna aðgang að skúmaskotum í höfðinu á mér, sem varð til þess, að ég fann flestu eitthvað til foráttu. Þar má til dæmis nefna, að flugþjónninn sem tók brosandi við farþegunum þar sem þeir gengu um borð, var hreint ekki brosandi, nema bara með vel þjálfuðum andlitsvöðvum. Þar sem hún sagði „Góða kvöldið“ við hvern og einn, rak hún út úr sér tunguna á báðum „ð“-unum í góÐa og kvöldiÐ. Ég er eiginlega alveg hissa á sjálfum mér að hafa látið þetta fara í taugarnar á mér, en svona var það samt og lái mér hver sem vill. Annar flugþjónn, sem ekkibrosti stöðugt, var beðinn um kodda. Leitaði ekkibrosandi í hverri hillunni á fætur annarri, án árangurs. 
Viljið þið vera svo væn að gera ekki þá kröfu til starfsfólks og ganga stöðugt um með þetta hálfvitalega bros á vörum. Bros þarf að ná til augnanna, annars er það ekkert bros.

6. (afleiðing upphaflegs pirrings) Farþegum var tilkynnt, að ljósin í vélinni yrðu slökkt, en jafnframt bent á að fyrir ofan sætin væru lesljós. Allt í lagi með það. Ég ýtti á viðkomandi hnapp fyrir ofan mitt sæti. Ég þurfti reyndar að teygja mig beint upp í lofti tið að kveikja. Ljósið kviknaði ekki í fyrstu og reyndar ekki hjá neinum. Aðspurð greindi ekkibrosandi flugþjónninn frá það að þau myndu sennilega kvikna þegar hreyflarnir færu í gang. Viti menn, það gerðist. Ljósið sem átti að lýsa mér var beint fyrir ofan höfuðið á mér og lýsti beint ofan á höfuðið á mér, nánar tiltekið þann hluta þess þar sem hár eru mjög strjál og varla til staðar. Ljósið lýsti sem sagt ekki á bókina sem ég ætlaði að fara að lesa og þar sem ég hafði ekki áhuga á að farþegar fyrir aftan mig fengju að njóta upplýsts höfuðs míns, slökkti ég ljósið aftur og lét mér í staðinn nægja daufa skímu frá ljósi frúarinnar.

Þessi 26 ára gamla vél fór í loft og flutti okkur til Keflavíkurflugvallar með þeim þægindum eða óþægindum sem í boði voru. Þægindin fólust aðallega í kaffibollanum sem ég fékk án þess að greiða fyrir. Gat líka fengið gosdrykk eða vatn ókeypis (jeij).

7. (afleiðing upphaflegs pirrings) Þar sem vélin var lent í Keflavík var það fyrsta sem flugþjónn sagði í hátalarakerfið: Góðir farþegar, VELKOMIN HEIM! , og hrópaði nánast síðasta hlutann (feitletraða). Er þarna um að ræða einhverja stefnu sem var tekin eftir að Lars Lagerbäck tjáði sig um hve yndislegt væri að heyra „velkomin heim“ í hvert sinn sem lent væri í Keflavík? Ég er sammála því, að það er yndislegt, svo lengi sem það er ekki hrópað. Ég beið eiginlega eftir að farþegarnir tækju sig til, lyftu upp handleggjunum og hrópuðu „HÚH“. Þeir gerðu það ekki.

8. (afleiðing upphaflegs pirrings) Flugvélinni var lagt talsvert langt frá flugstöðinni í Keflavík og farþegar síðan ferjaðir með rútum í flugstöðina, sem er svo sem allt í lagi. Það sem var ekki allt í lagi var, að rúturnar settu farþegana út eins langt frá komusal flugstöðvarinnar og mögulegt er. Ég geri mér grein fyrir að þarna er varla við félagið að sakast, en engu að síður, ofan á annað smátt og stórt varð ekki til að fegra myndina að þessu ferðalagi.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það eru miklar annir í flugi á þessum árstíma og skiljanlegt að það geti orðið tafir á flugi. Ég geri mér líka grein fyrir því, að þið þurfið að nýta allar vélar sem þið eigið til að flytja alla þá farþega sem bóka með ykkur flug um allan heim, ekki síst til Íslands. 
 Það sem ég er ósáttur við, fyrst og fremst er, að hafa greitt kr. 63.000 fyrir flugferð sem var eins og ég hef lýst hér að ofan. Að mínu mati er það algerlega út úr korti, en byggir sjálfsagt á því að einhverjir þurfi að greiða hluta miðaverðsins fyrir þá farþega sem fengu miða á lága verðinu, sem hægt er að auglýsa daginn út og inn.

Ég sló inn af rælni einhverja daga í september og þar kom í ljós eftifarandi verðlagning á flugsætum:

Miðinn er 47.000 kr. ódýrari en það sem ég þurfti að greiða. Það er að mínu mati algerlega ótækt. Mér er sama hvað ykkur finnst um það. Í mínum huga væri það eins og ég þyrfti að borga þrefalt verð í búð fyrir mjólk sem er að verða búin.

Eitt jákvætt vil ég nefna. Við lentum á CPH kl. 09:30 að morgni 21. júli og áttum síðan flug kl. 22:30, eins og áður er nefnt. Við vorum búin að hafa áhyggjur af hvernig við gætum geymt farangur á flugvellinum. Svo komumst við að því, að það var hægt að tékka hann strax inn og þar með var það mál leyst.
___________________________________________________________

Þessi sending hefur tvennan tilgang:

1. Að fá útrás fyrir pirringinn vegna þessarar flugferðar og síðan geta haldið áfram fullur jákvæðni og bjartsýni.

2. Leggja fram kvörtun, sem líklegast lendir bara í ruslakörfunni, en hefur samt verið lögð fram.

Ég veit ekkert hvað ég geri við þessi skrif ef þið svarið mér ekki með einhverjum hætti: útskýrið fyrir mér hversvegna ég þurfti að greiða kr. 63.000 (126.000 alls) fyrir þessa flugferð. Ef ég hefði greitt um kr. 20.000 á mann hefði ég þagað yfir þeim vonbrigðum sem þessi ferð var okkur. Ég vænti svars/viðbragða sem allra fyrst.

Með góðri kveðju

02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

14 maí, 2016

Síðasta áminning Töru

Fyrir nokkrum árum.
Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum
Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum.
Tíkin Tara (Rexdóttir frá Hveratúni?) frá Sólveigarstöðum sá til þess að húsmóðir hennar fékk nauðsynlega hreyfingu í, á annan áratug. Hún hafði einnig góða nærveru, var afar skynug og fljót að læra bestu aðferðina við að fá fólk til að gefa sér að éta.  Þegar maður spurði: "Viltu mat?" Svaraði hún umsvifalaust með gelti sem mátti vel túlka sem "Já, já, já".
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.

Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.
 Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.
Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.

Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa  fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru  grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki.  Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.

Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
 Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.

Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.

Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.

Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.


23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

13 september, 2015

Réttasaga

Tungnaréttir 2015: Myndin er tekin áður en allt fylltist af fólki.
Svitinn perlaði á enni margra þeirra sem greindu mörkin og sviftu fénu síðan í rétta dilka. Það var oftar en ekki peli í rassvasanum, svipurinn fól í sér innri spennu og einbeitingu þannig að ekkert komst að nema koma þessari í dilkinn og ná í næstu. Kappið og einbeitingin skein úr andlitunum og það var engu líkara en dáttarfólkið fengi greitt fyrir hvern haus. Meginmarkmið þessa dags var að reka féð inn í almenninginn og deila því síðan á dilkana í samræmi við eyrnamörkin. Svo voru ótal undirmarkmið sem ég kann eðlilega ekki skil á, verandi sá sem ég er.
Mikilvægi dagsins fyrir þá sem þarna heimta fé af fjalli er ótvírætt. Þó svo stór hluti þeirra lífvera sem þarna voru  og sem hafa notið lífsins í frelsi óbyggðanna í tvo til þrjá mánuði, verði orðnar að kjöti á diskum landsmanna eða í frystikistum þeirra innan nokkurra vikna, er réttadagur, hátíðisdagur.
Réttir af einhverju tagi 1980:
Egill Árni skellti sér á bak. Oddný á
Brautarhóli atast í fénu.
Hann er ekkert sérstakur hátíðisdagur fyrir mig, eins og nærri má geta. Vildi gjarnan að svo væri, en hlutverk mannanna á lífsgöngunni eru misjöfn og gæðum misskipt. Okkur kann að finnast það ósanngjarnt, en þannig er lífið víst: ósanngjarnt.  Þegar hugsað er með þessum hætti lítum við kannski framhjá því að þó  við njótum ekki gæða sem aðrir njóta, þá njótum við ýmissa gæða sem aðrir ekki njóta. Svona er það nú bara.

Það var ekki laust við að gætti dálítils pirrings meðal einhverra þeirra sem þarna drógu féð í dilka, í garð þeirra sem þarna voru staddir með ekkert annað hlutverk en að hitta fólk, taka myndir, þvælast (aðallega fyrir), upplifa sérkenni íslenskrar sveitamenningar eða kannski bara til að fá tækifæri til að setja í pelann og dreypa á honum að morgni dags og fram eftir degi og/eða taka þátt í víðfrægum réttasöng.
Það var mikill mannfjöldi í Tungnaréttum í gær, eiginlega á mörkum þess sem hægt er að koma fyrir án þess að hreinlega trufla það starf sem þurfti að eiga sér stað. En veðrið var með allra besta móti.



Tungnaréttir 1984: Þorvaldur Skúli á hestbaki
á örlagaári í lífi Kvisthyltinga.
Ég hef oft farið í réttir, allt frá barnæsku. Þegar ég leiði hugann að réttarferðum barnæskunnar er það ekki sauðféð sem kemur fyrst í hugann, heldur rigning í Skeiðaréttum (við kölluðum þær það) og fullir kallar að slást, veltandi í drullipolli. Næst kemur í hugann lamb á réttarvegg sem hafði verið skorið á háls.  Já, nærtækustu minningarnar eru ekki beinlínis fallegar, en þær brenndu sig í barnshugann. Nú er öldin önnur. Ég hef ekki séð fulla kalla slást í réttum áratugum saman.

Við Kvisthyltingar fórum oftast í réttir þegar börnin voru ung (þrátt fyrir áfallaröskun föðurins á æskuárum). Það var auðvitað gaman að leyfa þeim að upplifa það sem þarna fór fram; gerast áæðnari eftir því sem árin liðu, fá jafnvel að taka þátt í að draga.  Þegar þau voru síðan sjálf farin að átta sig á því hve hlutverk þeirra var lítilfjörlegt, minnkaði áhuginn á þessum ferðum.




Tungnaréttir 1985: Guðný Rut nýtur sín á hestbaki.
Ég ætla ekki að halda því fram, að tilgangurinn með réttaferðum sé enginn. Það er með þær, fyrir fólk eins og mig, eins og fermingarveislur og jarðarfarir, þú hittir þar fólk sem þú sér sjaldan. Í gær hitti ég til dæmis fyrrum Laugarásbúa sem ég hafði ekki séð síðan um miðjan sjöunda áratuginn. Slíkt gerir það þess virði að kíkja í réttir, þó ekki sé annað.

EOS-inn var með í réttum í gær, mér til halds og trausts. Ég notaði hann óspart og hann brást mér ekki frekar en fyrri daginn.




Tungnaréttir 1996. Brynjar Steinn ásamt föður sínum,
Hilmari, Hófí og Helga í Hrosshaga

31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

08 febrúar, 2015

Betra seint


Ég hef ekki haft mörg orð um dugnað minn til verklegra framkvæmda, en nú get ég ekki orða bundist. Ég er búinn að koma sjálfum mér ítrekað á óvart undanfarnar vikur, svo oft reyndar, að dugnaður minn er hættur að koma á óvart.  Það hefur komið í ljós að verklegar framkvæmdir henta mér að mörgu leyti mjög vel. Mig hefur reyndar alltaf grunað að í mér leyndist dugnaðarforkur, en ég hef passað mjög vel að gefa honum ekki lausan tauminn. Undanfarnar vikur hef ég létt af honum öllum hömlum og það er ekki að sökum að spyrja. Það stefnir í að það verði til íbúð í kjallaranum ef áfram heldur sem horfir. Hver veit nema innan skamms verð fD komin á kaf í ferðaþjónustu með útleigu á 50 fermetra túristaíbúð. Ég veit um að minnsta kosti tvær slíkar nú þegar í Laugarási.


Hvað um það. Kjallarinn í Kvistholti hefur verið nánast óhreyfður í 30 ár, svo það var í raun tími til kominn að huga að framtíðarnýtingu hans. Svo varð ákveðin opnun, með látlausum flutningi  vinnustofu fD upp á efri hæðina, sem áður hefur verið fjallað um hér og hér. Með þeirri aðgerð varð bara ekki aftur snúið, og undanfarnar helgar hafa verið undirlagðar. Nú er komið öndvegis gólfefni á tvö herbergi og innan skamms verða komnar hurðir fyrir öll dyraop.  Svo hefur verið ýjað að því að taka snyrtinguna í gegn og þá er ekkert eftir nema eldhúsið.
Kva, það verður nú lítið mál fyrir Pál, sem nú þegar hefur komið sjálfum sér á óvart með parketlagningu sem hefði verið hverjum húsasmíðameistara til sóma. Enn augljósari varð snilldin þegar hurðakarmar voru settir í. Eitt baðherbergi og eldhús verða sennilega tertusneið í ljósi þess sem lokið er. Reyndar á eftir að setja hurðirnar í rammana og enn liggur ekki fyrir hvort þær passa, en til þess standa þó vonir.

17 janúar, 2015

Viltu bækur? Vertu snögg(ur).

Sýnishorn

Þegar allt kemur til alls, gagnstætt því sem ýmsir gætu ímyndað sér, virðist húsnæðið í Kvistholti ekki fullnægja rýmisþörf. Í tengslum við aðgerðir vegna þessarar stöðu stendur nú fyrir dyrum að fækka bókum á heimilinu svo um munar. Meðal þeirra bóka sem nú bíður það hlutskipti að fara úr húsinu með einhverjum hætti, eru um 70 kiljur: skáldverk íslenskra höfunda og þýdd skáldverk erlendra höfunda.

Mér varð það á fyrir áratugum að ganga í bókaklúbb sem síðan sendi mér bækur mánaðarlega þar til loks ég áttaði mig á hvert þetta myndi leiða.

Samviska mín bannar mér að henda bókum, en vilji enginn þiggja þær bíður þeirra bara endurvinnslan.

Langi einhvern í bækur 
má hann koma og taka það sem hann vill. 

Vilji enginn þessar bækur verður samviskan örlítið hreinni þegar ég fer með þær í gáminn.

Netfangið mitt er pallsku@gmail.com - sími: 8989152


11 janúar, 2015

Dyngjupúl

Tannstönglavasi
Ég áttaði mig ekki strax á því hvað fD fara að fara þegar hún, upp úr þurru, á laugardagsmorgni, hóf umræðu um að flytja svefnsófann úr dyngju minni niður í kjallara. Þar hlaut að búa annað undir en beinlínis það hún teldi of þröngt hjá mér og þar með skert vinnuumhverfi og síðri aðstaða til að sitja og blogga eða stunda aðra tómstundaiðju.
Það bjó sannarlega annað undir.
Upphafleg hugmynd hennar snérist um það, að í stað sófans, sem færi niður, myndi hún flytjast úr vinnustofunni sinni í kjallaranum og setjast að í minni dyngju og myndi þar með gera hana að sinni.
Ég neita því ekki, að þessari hugmynd tók ég fremur fálega, eins og reyndar hugmyndinni um að flytja sófann yfirleitt. Ég er nefnilega ekki mikið fyrir það að vera sífellt að breyta umhverfi mínu; finnst það virka bara ágætlega. Þar fyrir utan kalla breytingar yfirleitt á aðkomu mína með einhverju tilteknu vinnuframlagi á sviðum sem ég vil sem minnst koma nálægt, einfaldlega vegna þess að það felur í sér erfiðleikastig sem mér hugnast ekki eða er, að mínum mati afar óskemmtilegt og tilgangslaust.

Ég vissi hinsvegar strax og umræðan hófst, hverjar lyktirnar yrðu. Ég hafði þó mitt fram að því leyti, að fD myndi ekki leggja mína aðstöðu undir sig, heldur tæki hún yfir annað herbergi á efri hæðinni, sem hefur haft takmarkað hlutverk siðustu allmörg árin.

Niðurstaðan lá fyrir, og ég var, áður en ég vissi af kominn í hlutverk sem ég hafði ekki séð fyrir þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og sá fyrir mér rólegheita dag. Það þurfti að rífa í sundur sófa og burðast með hann í frumeindum niður í kjallara, þar sem hann mun fá, þegar loksins gefst færi á að reyna að koma honum saman aftur, hlutverk í nýrri svefnaðstöðu fyrir börn og barnabörn í heimsókn, í verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD.

Úr verðandi, fyrrverandi vinnuaðstöðu fD kom ég síðan að flutningi vinnuborðs upp á efri hæð inn í verðandi vinnuaðstöðu hennar og flutningi annars vinnuborðs, sem ég hafði sett upp í verðandi fyrrverandi vinnuaðstöðu fD, þegar ég útbjó mér vinnuaðstöðu þar fyrir ævalöngu. Það vinnuborð (níðþungt) þurfti að skrúfa niður, enda veggfast, og burðast með upp í núverandi vinnuaðstöðu mína, þar sem niður þurfti að taka verðandi fyrrverandi vinnuborð mitt, sem eftir þá aðgerð varð borð án hlutverks (þó eg eigi ekki von á að svo verði lengi). Borðið þunga þurfti ég síðan að setja upp í vinnuaðstöðu minni í stað þess sem tekið hafði verið niður, eftir að ég hafði þurft að aftengja allan tölvubúnað, án þess að vita hvernig ég færi að því að tengja hann allan aftur, sem tókst á endanum undir Spykids II á RUV.

Nú situr fD í nýju vinnuherbergi, sem enn ber keim að fyrrverandi íbúa, sem er löngu fluttur að heiman (glitstjörnur límdar á veggi og loft). Þangað er hún komin með hljómtæki og spilar aríur og dúetta, mundar pensla og heldur því fram að hún þurfi betri lýsingu.

Ég er, þegar upp er staðið ekki ósáttur með að vera kominn með öflugt borð og ágætt pláss, en sannarlega hefði ég viljað vera án allrar þeirrar fyrirhafna sem breytingarnar kölluðu á.

Ég samgleðst auðvitað fD með að þurfa ekki lengur að brölta niður snarbrattan stigann í hvert sinn sem hún fær góða hugmynd.  Nú erum við að komast á þann aldur að við göngum helst ekki niður hann nema kveikja stigaljósið og styðja okkur við handriðið ;).


30 desember, 2014

Af sprengiþroska

Traustu og öflugu kaupin
Á síðustu árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér hafi mistekist að ala upp í börnum mínum áhuga á áramótasprengingum. Fyrir hver áramót hef ég "þurft" að standa í því að velja og kaupa "fíriverk" til að nota til hátíðarbrigða á gamlárskvöld og eitthvað inn í nýársnótt. Aðrir Kvisthyltingar hafa yfirleitt látið sér fátt um finnast:
  • jú-það-er-svo-sem-allt-í-lagi-að-kaupa-eitthvað, 
  • mér-er-alveg-sama, 
  • ég-get-svo-sem-kveikt-í-þessu, 
  • ætli-maður-verði-ekki-að-fara-út-í-dyr-til-að-kíkja-á-þetta-úr-því-búið-er-að-kaupa-það 
Ég átti ekkert von á að á þessu yrði breyting nú og í nauðsynlegri áramótaferð í höfuðborg Suðurlands í dag þurfti ég, eins og venjulega, að minna á að "fíriverkið" væri ókeypt. Þá þegar var fD búin að sjá til þess að komið væri við í sérstakri búð til að kaupa leir.
Þar sem ég stöðvaði Qashqai fyrir utan Björgunarmiðsöðina spurði ég, sem oft áður, hvort farþegarnir ætluðu að bíða í bílnum. Mér til nokkurrar undrunar, þó svo ég léti á engu bera, voru þrennar aðrar dyr opnaðar og allir áramótaheimaverandi Kvisthyltingarnir stigu frá borði og fylgdu mér inn í spengihöllina.

Ég hef það fyrir sið við þessar aðstæður að taka mér stöðu nokkuð frá afgreiðsluborðinu og velta fyrir mér því sem fyrir augu ber og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað gæti verið við hæfi. Markmið mín, sem ég lét auðvitað ekki uppi við nokkurn mann, voru að trappa mig niður í "fíriverkskaupum" þetta árið, en vanda frekar valið.

Sem fyrr breytti það engu þó ég stæði úti á gólfi og horfði á hillurnar og þar  með nálgaðist ég afgreiðsluborðið í fullvissu um að þar myndu mér verða gefin góð ráð. Á þessu varð engin breyting nú. Ég veit af fyrri reynslu að skoðanir fæ ég ekki upp á yfirborðið frá þeim sem eru með í för. Á því varð ekki breyting nú.

Það varð hinsvegar bylting.

fD-kaupin
Hægra megin við mig, þar sem mæðgurnar stóðu í hnapp heyrði ég eitthvert hvísl og síðan gerðist það, að afgreiðslumaður seildist upp á vegg eftir flugeldapakka. Því næst heyrði ég fD gefa eftirfarandi yfirlýsingu: "Það er svo fallegt nafn á þessari. Ég ætla að fá hana". Þar með náði afgreiðslumaðurinn í Melkorku Mýrkjartansdóttur upp í hillu. "Eigum við ekki líka að kaupa svona löng stjörnuljós?" sagði hún þessu næst, en ekki við mig.  
Þarna var um að ræða einhver ótrúlegustu umskipti sem ég hef reynt í fari fD. Nú sé ég fram á að þurfa ekki framar að hafa áhyggjur að neyða neinn óviljugan til "fíriverkskaupa". 

Sannarlega hafði kaupæði fD ekki áhrif á skýr markmið mín og að ráði afgreiðslumanns festi ég kaup á afar traustum og öflugum sprengjum.

Ég hafði verið búinn að sjá fyrir mér að þetta yrðu áramótin sem Kirkjuhyltingar myndu bera sigur úr býtum, en með leikfléttu fD varð ljóst, að enn eitt árið munu þeir þurfa að hneigja sig í lotningu á brekkubrúninni.
---------------------------------------------

Styrkjum björgunarsveitirnar með því að kaupa "fíriverk" af þeim, en ekki öðrum.

14 desember, 2014

Hverabrauð í Laugarási

Það er einhver sérstakur ilmur í loftinu í Laugarási um þessar mundir (enda logn), ekki ósvipaður þeim sem maður finnur við að aka framhjá Hellisheiðarvirkjun. Ástæðu þessa má rekja til veglegs smíðisgrips Benedkts bónda í Kirkjuholti, en það er bökunarpottur fyrir hverabrauð sem nú er orðinn hluti af landslaginu á hverasvæðinu. Potturinn er úr ryðfríu stáli og hinn vandaðasti að allri gerð.

Auðvitað tóku Laugarásbúar við sér, tíndust út úr skóginum með mjólkurfernur í fanginu og hófu að baka brauð.

Það gerðum við Kvisthyltingar einnig.  Við vildum hinsvegar vera öðruvísi og fundum okkur blikkdunk og freistuðum þess þannig að vikja ekki mjög frá þeirri bakstursaðferð sem notuð var hér fyrir um 60 árum. Uppskriftin sem notuð var, var sú sama og þá, einnig.

Það var hálfgerð helgistund að fara með brauðið í pottinn; skrúfa lokuna lausa og lyfta lokinu með þar til gerðu handfangi og koma blikkdunknum fyrir á stálgrindinni í botni pottsins. Þegar þetta gerðist voru ein 8 brauð í bökun, öll í 1s lítra mjókurfernum með álpappír í toppin sem gegndi óræðu hlutverki.  Þrátt fyrir mikinn brauðafjölda komst blikkdunkurinn vel fyrir. Þarna hófst síðan sólarhringsbið eftir að brauðið bakaðist. Þegar heim var komið var tiltekið símtææki stillt á tíma svo brauðið yrði nú sótt þegar það væri tilbúið.

Síminn klikkaði auðvitað og fD vaknaði til meðvitundar um brauðið skömmu eftir tilsettan tíma, en ég vaknaði ekki. Það varð síðan mitt hlutskipti, eða það kom í minn hlut að ná í nýbakað og ilmandi hverabrauðið. Segir ekki af leiðangrinum fyrr en heim var komið og athugað hvernig áferðin á brauðinu væri, svo ekki sé nú talað um bragðið og ilminn.

Það gekk treglega að ná brauðinu úr dunknum, en það gekk. Svo var skorin sneið, sem gekk þokkalega, utan velþekkta límáferð nýbakaðs hverabrauðs, sem veldur erfiðleikum við beitingu á hefðbundnum hnífum. Hér þyrfti að koma til vírskurðargræja (nenni ekki að útskýra það nánar).
Bragðið færði mig 50 ára aftur í tímann, en mér fannst brauðið heldur skorta sætleika í samanburði við nútíma hverabrauð.

Þetta var fyrsta tilraun og þær verða líklega fleiri þar til fullkomnun verður náð, því alltaf skal stefnt að fullkomnuun.

Merki Kvisthyltinga

Merkið á sínum stað á húsinu.
Upp úr 1980 hófst bygging íbúðarhússins í Kvistholti. Það verkefni tók talsverðan tíma, ekki síst vegna tregðu þáverandi byggingafulltrúa Marteins Björnssonar til að samþykkja teikningarnar. Bréfaskipti mín og Marteins frá þeim  tíma eru gullmolar (að mínu mati).

Framkvæmdir hófust og ég fékk Böðvar Inga á Laugarvatni til að slá upp fyrir sökklinum. Síðan tók Steingrímur Vigfússon við og gegndi hlutverki byggingameistara úr því.

Þegar kom að því að slá upp fyrir kjallaranum þótti mér það tilvalin hugmynd að útbúa merki innan á mótin og dundaði mér við það verk í pökkunarskúrnum í Hveratúni. Þarna sagaði ég niður, heflaði og pússaði trélista sem ég negldi síðan innan á mótin áður en steypubílarnir frá Steypustöð Suðurlands renndu í hlað.

Merkið sem síðan hefur blasað við hverjum þeim sem í Kvistholt hefur komið, hefur mér þótt nokkuð vel heppnað, en því var ætlað að tákna einhverskonar gróður, enda vorum við þá búin að rækta rófur, kínakál og eitthvað fleira í einhver ár og það var fyrirhugað byggja gróðurhús, sem síðan reis undir lok 9. áratugarins.  Við hófum einnig strax að landið komst í okkar umsjá að planta trjám vítt og breytt, litlum ræflum sem nú eru orðin að ferlíkjum.

Merking merkisins reyndist vel við hæfi, hér óx allt, gróðurinn og börnin og við sjálf, þó það hefði verið að mestu láréttur vöxtur.

Nú er ég búinn að teikna merkið upp og hyggst nota það sem vörumerki fyrir Kvisthyltinga, hvað sem mönnum getur fundist um það.

Ég hef ekki borið ákvörðun mína um þetta merki undir neinn í fjölskyldunni, þannig að það ágæta fólk verður bara að kyngja því, en hefur frelsi til að nota það að vild í því góða sem það tekur sér fyrir hendur.
Þetta á nefnilega að vera nokkurskonar gæðastimpill.

Ég geri mér grein fyrir að það felst talsverður hroki í því að ein fjölskylda eigi sérstakt merki, en læt mér það auðvitað í léttu rúmi liggja.

11 október, 2014

Verkir í lendum og mjaðmargrind.

Ekki var ég nú alveg viss um hvað var framundan þar sem ég sat í stofu D2-106 í Álaborgarháskóla föstudaginn 2. október síðastliðinn. Sannarlega vissi ég að næstelsti sonurinn, Þorvaldur Skúli, myndi þarna verja doktorsverkefni sitt og í framhaldinu líklegast fá doktorsnafnbót. Umrætt verkefni ber yfirskriftina "Lumbopelvic pain - sensory and motor aspects".  Ekki ætla ég mér nú að fara að lýsa innihaldi eða tilgangi verkefnisins, en í sem stærstum dráttum fjallar það um tiltekið verkjamódel sem var notað til að rannsaka hvort og hvernig sársauki í lendum og mjaðmagrind breytir niðurstöðum í tilteknum greiningarprófum.
Í stofu D2-106 var samankominn um 30 manna hópur til að fylgjast með vörninni, bæði fulltrúar fjölskyldnanna sem standa að doktorsefninu og fyrrum og núverandi kollegar hans auk einhverra nema í þeim fræðum sem þarna er um að ræða.
Áður en athöfnin hófst setti yngsti Kvisthyltingurinn, sá sem hefur menntað sig í miðlun, upp samband við internetið, sem olli því auðvitað að áhugasamir gátu fylgst með öllu sem fram fór.

Svo hófst athöfnin með því að Thomas Graven-Nielsen, prófessor, sem hélt utan um athöfnina, bauð fólk velkomið og greindi frá því sem þarna myndi fara fram. Hann kynnti til sögunnar andmælendur eða matsnefnd, þau Dr. Lieven Danneels frá háskólanum í Ghent í Belgíu og Dr. Britt Stuge frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló og formann hópsins Parisa Gazerani, dósent, frá Álaborgarháskóla.
Þessu næst hófst 45 mín. fyrirlestur Þorvaldar, sem var skreyttur með viðeigandi glærum.


Að loknu stuttu hléi tóku andmælendur til máls, fyrst Dr. Britt Stuge. Hún fór yfir ýmsa þætti í verkefninu með gagnrýnum hætti og kallaði eftir svörum og útskýringum, en þetta fór þannig fram að hún talaði úr sæti sínu en Þorvaldur stóð berskjaldaður og þurfti að bregðast við athugasemdum og spurningum.
"Hér stend ég og get ekki annað"
Meðan á þessum þætti stóð vaknaði alloft með móðurinni, sem þarna var auðvitað stödd, þörf á að láta hendur skipta gagnvart andmælandanum, en til þess kom ekki.  Þegar Dr Britt hafði lokið sér af, tók Dr Lieven Danneels við og kallaði sömuleiðis eftir skýringum á ýmsu og gagnrýndi sumt. Þessi hluti athafnarinnar tók upp undir 2 klukkustundir og tók nokkuð á.

Formaður nefndarinnar tilkynnir
niðurstöðu nefndarinnar.
Fv. Parisa Gazerani, Dr. Britt Stuge,
 Dr. Lieven Danneels
Andmælendur drógu sig síðan í hlé til að ráða ráðum sínum, en öðrum viðstöddum var boðið til móttöku í tilteknu herbergi annarsstaðar í húsinu, sem reyndist ekki auðfundið, en fannst auðvitað að lokum. Þar hafði verið komið fyrir léttum veitingum og hópurinn sem þarna var stóð í kringum borðið og beið eftir að niðurstaðan yrði kunngjörð. Eftir um 20 mínútur gengu andmælendur í salinn og formaðurinn tilkynnti að Þorvaldur hefði fullnægt kröfum og væri þar með orðinn doktor.
Þessu næst setti Professor Thomas  þennan undarlega hatt á höfuð Þorvaldar (setti hann ekki rétt á, nema það sé svona sem Danir setja svona hatta á fólk) og íklæddi hann svarta skikkju. Hann flutti síðan ávarp, en hann var leiðbeinandi Þorvaldar í doktorsverkefninu.
Þá gerðu gestirnir veitingum góð skil áður en heim var haldið.

Þarna var hápunktur langs ferils sem hófst í raun með meistaranámi í Perth í Ástralíu og síðar í Osló.
Það sem ekki síst gerði Þorvaldi kleift að vinna að þessu verkefni var ríkulegur styrkur sem hann fékk árið 2012 frá frændum okkar Dönum, en hann kallast EliteForsk rejsestipendium. Þorvaldur hlaut þennan styrk fyrstur Íslendinga og fyrstur sjúkraþjálfara í Danmörku.

Ég þarf væntanlega ekkert að fjölyrða um það, en við foreldrarnir og fjölskyldan öll erum afar stolt af okkar manni og einnig stoð hans og styttu í gegnum þetta, henni Ástu Huldu.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...