02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...