Sýnir færslur með efnisorðinu vísur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vísur. Sýna allar færslur

04 janúar, 2016

Gamanvísur um Skitu-Lása

smella til að stækka
Ég var að leita að einhverju þegar ég rakst á vélrituð, samanheftuð blöð í pappírum sem foreldrar mínir skildu eftir sig.  Ég blaðaði í gegnum þetta og fannst kveðskapurinn eitthvað undarlegur þar til ég áttaði mig á að þarna voru vísur til söngs við sama lag og Bílavísur sem er þekkt revíulag og byrjar svona:
Halló þarna bíllinn ekki bíður.Æ, blessuð flýtið ykkur tíminn líður.Sæti, fröken, sestu þarna manni. Þau ætluðu nefnilega rétt sem allra snöggvast að skreppa suður í Hafnarfjörð og auðvitað  íleyfisleysi og banni.
Nafn höfundarins var skráð undir vísunum. Ég reiknaði í fyrstu með að það væri dulnefni.  Ég ákvað samt að gúgla,  með þeim árangri að þarna reyndist vera um að ræða raunverulegan einstakling: Hjörmund Guðmundsson 
Hjörmundur Guðmundsson (1876-1960) var fæddur á Hjálmsstöðum í Laugardal, vinnumaður á Hjálmsstöðum, síðar verkamaður í Hafnarfirði. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum og kona hans Gróa Jónsdóttir.
Í minningargrein Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti um Hjörmund segir:
Hjörmundur var sérstaklega skemmtilegur, kátur og glaður, hagorður í bezta lagi, enda mikið um vísna- og ljóðagerð á Hjálmsstöðum á þeim árum, oft orti hann af munni fram, og fauk þá margt sem ekki var ætlazt til að lifði, en oft voru orðatiltækin hnittin og vöktu kátínu og gleðskap. Hann var sérstakur geðprýðismaður, og ég fullyrði að ég sá hann aldrei reiðan.
Í framhaldi af þessum fundi ákvað ég að prófa að gúgla Skitu-Lása og viti menn:
Hann var sagður förumaður, tómthúsmaður og hjónabandsmiðlari.Það mun vera þáttur um þennan mann í bókinni "Grímsnes: búendur og saga"
Nikulás Helgason "Skitu-Lási" var fæddur 5. apríl 1855 í Ölvaðsholtshjáleigu í Holtum. Foreldrar hans voru Helgi Jónsson (1822-1894) og k.h. Guðríður Magnúsdóttir (1821-1894). Nikulás giftist Sigríði Jónsdóttur (1861-?) og áttu þau tvö börn. Hann andaðist 18. janúar 1929 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Með alla þessa vitneskju fengu þessar vélrituðu vísur allt aðra merkingu og ég fór að reyna að átta mig á hvenær þær hefðu verið ortar. Nafn einnar konu í vísunum kannast ég við, en það er Sigríður Tómasdóttir í Brattholti. Hún fæddist 1874 og af því má álykta að vísurnar hafi verið samdar 1923-24, þar sem Sigríður er sögð vera á "fimmtugasta ári".

Það væri ekki leiðinlegt ef einhver kynni betri skil á þessum vísum og því fólki sem þar er tilgreint.

Gamanvísur um Skitu-Láka

Hjörmundur Guðmundsson

Það þekkja flestir farfuglinn hann Lása,
sem flögrar milli sveita rödd með hása.
Hans starf er nú að kynna konur mönnum.
Honum þykir það afturför í landinu hve lítið að unga fólkinu giftir sig og ungu piltarnir líta varla við
fagur leitum svönnum.

Hann sér að fólkið síst er glatt í lyndi
og seglunum það hagar eftir vindi,
en hugsar sér að bíða og sjá hvað setur.
Svo hefur hann tekið eftir að stúlkurnar eru hálf daufar og niðurdregnar þegar 
kemur fram á vetur.

En sumir fóru að segja Lása í hljóði
hvort sæi hann nokkurstaðar völ á fljóði,
sem gæti þénað búskapsþörfum bráðum,
bara að hún væri snotur útlits, og ekki mjög gömul og 
sniðug vel í ráðum.

Hann Lási sagðist lítið hafa að gera
og líklegur til útréttinga vera.
Já, þetta er eitt sem þarf í hasti að laga,
svo þaut hann upp og fór í bestu flíkurnar, setti upp harða hattinn og hvítan flibba sem tók honum 
langt niður á maga.

Og bílstjórinn á Borg hann fyrstur sendi
og bíður honum gjaldið strax í hendi,
ef kæmi hann með konu til sín fríða.
Ég er kominn undir fertugt, alveg uppgefinn á lausamennskunni 
og hálfþreyttur að bíða.

Það er sagt að Lási svæfi ei vært þá nóttu,
hann sveif á burtu löngu fyrir óttu
og barði á dyr um fótaferð í Hólum,
spurði hvað framorðið væri, flensaði snjóinn burt af 
slitnum göngutólum.

En heimasætuna Hildi vildi hann finna
og henni þessa málaleitan kynna,
en samningurinn síður er mér kunnur,
en svo mikið er víst að Lási hrópaði "halló" og 
opinn var hans munnur.

Hann Sigurð, karlinn setti dáltið hljóðan,
þeir sögðu hann ýmist hvítan eða rjóðan.
Hann tók á líku traustum karlmannshöndum
það tekur ei að æðrast út af svona smámunum 
svo sem ljón í böndum.

Hann tekur Lása á eintal úti í kofa
því inni fyrir sá til skýja rofa,
og biður hann í Brattholt strax að hlaupa
og biðja fyrir sig heimasætuna þar - þeir 
óðar þessu kaupa.

En ef þér lukkast ferðin, frændi góður,
þá færðu Grána strax og allt hans fóður
og þrettán ærnar þrifa og kosta gildar.
Þú skalt svei mér ekki ver haldinn hjá mér, en þeim sem 
sendi þig til Hildar.

Hann Lási brá sér leiðina inn með Hlíðum,
í léttum göngumannabúning víðum
og barði svo í Brattholti að dyrum
og bóndadótturina Sigríði
Tómasdóttur spyr um.

Það segir ekki af Siggu og Lása fundum,
því samtal oft eru heimulegt með sprundum.
Hún sendi aftur silfur lokk af hári,
sem sagður fullur meter á lengd, en Sigríður nú á
fimmtugasta ári.

Í bakleið aftur Efstadal hann finnur,
þar ekkja býr hún Guðný mest sem vinnur.
Hann býður henni að bjarga henni í skyndi,
semsé að útvega henni mannsefni, sem veiti
henni skjól og yndi.

En þetta gjörðu þau ei lengur ræða,
en þegar hann var búinn sig að klæða
þá skaust hann eins og kólfur eða kúla,
kom hvergi á bæi, kokkaði málið og trúlofaði hann 
Ingvar bónda í Múla.

Svo brá hann sér í Borgar háa ranninn
og býður Hrefnu að útvega henni manninn.
Hún var hálf treg og gaf þó síðar svarið:
"Mér er alveg sama hvort eða síðar
tekið verður af skarið".

Hann Lási þurfti þarna ekki meira
og þessi svörin hrópar Karli í eyra,
en Kalli sá að happ var honum hlotið.
Það var hreinasta undur
hve vel hann fór með skotið.

Að Gýgjarhóli gekk hann einhvern daginn
og guðaði að kvöldlagi á bæinn.
Hann hafði mér sér umboð ýmsra sveina
að inna að því við heimasæturnar þar
hvort þeir mættu reyna.

Því gullæðin um Gýgjarhólinn streymir,
um gullnar vonir marga pilta dreymir,
Og gullhár hefur heimasætan bjarta.
Það kvað hafa töluverð áhrif á
mannlegt auga og hjarta.

Hann bauð henni Magnús, búfræðinginn unga,
sem bragna og meyja lofar sérhver tunga.
En stúlkan hafði ei bónorð fegnið betri,
hún bara vildi giftast honum sem fyrst,
helst á þessum vetri.

Svo hélt hann áfram út um sveitir allar
og alltaf hann um sama málið fjallar,
uns sextán pör hann saman hefur bundið.
Það kostaði hann talsverða fyrirhöfn og skófatnað og 
margra að því fundið.

Hann þreytist ekki góðverkin að gera,
fyrir giftingunum vill hann agitera.
Hann sjálfan vantar aðstoð þó í elli,
það eru helst efnaðar piparmeyjar og ríkar ekkjur sem
þar í kramið félli.

Og sjálfan hafði hann sig á bak við eyra
svona jafnvel lét það á sér heyra,
að ef sér yrði gerður dáldill greiði,
þá gæti hugsast að Tjarnarkot í Tungum fari ei
næsta vor í eyði.



15 apríl, 2012

Sálin er ægileg eyðimörk


Þau tíðindi hafa gerst að hrafnapar er búið að byggja sér laup hér í Laugarási. Mikil og vönduð smíð, eins og myndin ber með sér.
.........
Gamli unglingurinn heldur fram að velta fyrir sér forsetaframbjóðendum -  horfir yfirleitt bara á eina myndanna. Ég hef nú bent honum á hinar líka, þar sem það sé mikilvægt að kynna sér fleiri möguleika.
Hann leit stuttlega á myndina af karlframbjóðanda nokkrum, sem ég leyfi lesendum bara að giska á, og sagði að, jú, hann tæki sig svo sem ágætlega út á mynd, en sálin væri óttaleg eyðimörk.  Þessi yfirlýsing kom mér talsvert á óvart, enda sá gamli ekki vanur að fella neikvæða dóma yfir fólki, öllu jöfnu. Þá kom skýringin:

Þinn líkami er fagur sem laufguð björk 
en sálin er ægileg eyðimörk.

Þetta mun vera eftir Davíð Stefánsson

Mig grunar að sá gamli hafi téð álit á frambjóðandanum, þótt hann gripi til þess að vísa í Davíð.

Meira úr smiðju Þórðar Kárasonar

Halla og Eyvindur eru aðalpersónurnar
í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, 

Fjalla-Eyvindur: Leikrit í fjórum þáttum.
Sænski kvikmyndaleikstjórinn Victor Sjöström
(1879-1960) gerði kvikmynd eftir leikriti
Jóhanns árið 1918 og heitir hún á sænsku
 
Berg-Ejvind och hans hustru.
Þar fór Sjöström sjálfur með hlutverk Eyvindar.
Það kann vel að vera að einhversstaðar sé haldið saman kveðskap Þórðar Kárasonar frá Litla Fljóti í Biskupstungum. Það virðist þó ekki vera í því formi að hægt sé að finna í þessum rafræna miðli. Í gær skellti ég hér inn sálmi eftir Þórð, nú bæti ég aðeins við af blöðum þeim sem ég fékk úr fórum gamla unglingsins:

Vísur úr eftirsafni 1942

Drjúgum jóar teygja tær
traust með hófa blökin.
Nokkrir menn með tíkur tvær
tóku að hirða rökin.

Á Hveravöllum

Hefst upp þungur hugurinn
hrindir drunga gráum.
Verðum ungir í annað sinn
ef við sungið fáum.

Skyldi þetta ganga greitt
þó gott sé í meðlætinu.
Vilja rommið aðeins eitt
en ekki neitt af hinu.

Veisla er næg sem vera ber
við skulum hafa gaman
einu sinni á ári hér
er við komum saman.

Hér er maður hírgaður
húsa kostir góðir,
ólíkt því er Eyvindur
einn var hér um slóðir.

Á beinahólnum

Minjar treinast, maður sér
og mikinn gerði skaða,
þegar beinin báru hér
bræður Reynisstaða.

Þöglum huga ég hólinn lít
hér í veldi fanna.
Bera vitni beinin hvít
byljum öræfanna.

Veður grimmd og hörku hjarn
höfðu völd og ráðin,
þegar Einar, aðeins barn,
ævi sleit þar þráðinn.

...................

Alltaf hressir huga minn
heiða blærinn tæri.
Flýti ég  mér í faðminn þinn
fjallahringur kæri.

Fyrst veröldin slíkt veitir hnoss
oss vermir þessi skál.
Við skulum bara skemmta oss,
já, skemmta af lífi og sál.

Veginn ríðum við í kveld
varla kvíðum trega.
Okkur líður, að ég held,
alveg prýðilega.

Ekki verða kjörin köld
það kætin yljar geði.
Syngdu þessa alveg öld
út, og haltu gleði.

Við lestur bókar

Finn ég streyma andans yl
út frá þessum brunni.
Ég hef fengið, af og til,
ást á kerlingunni.



14 apríl, 2012

Til huggunar ógiftum bændum

Í fórum gamla unglingsins fann ég nokkur blöð með vísum eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti. 
Þrátt fyrir ítrekað gúgl, finnst sálmur þessi ekki:

Einn lítill sálmur til huggunar nokkrum ógiftum bændum.
(Mig grunar hverjir sumir þeirra, sem hér ert ort um, eru, en þætti afskaplega gott að fá um þetta upplýsingar, því ég veit að þær eru til)

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því
ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð en öðrum kær.

Jón einn tel ég mektarmann
marga vegi ryður hann
aura því hann eignast sand
en enga hann fær í hjónaband.
Undarlegar eru stúlkur oft í bland.

Drengja hefur Siggi sveit
sá kann bæði margt og veit,
kvonbænir þó kennt ei fær
kunnað aldrei hefur þær
ellegar þá engin vill hann ógift mær.

Lindi eignast kindur kann
konu bara vantar hann.
Þær vilja honum ekki leggja lið
þótt liðugt dansi hann þær við.
Öfugt verður einhvernveginn átakið.

Gvendur var að gá að þeim
og gera sér ferð til þeirra heim,
en þær litu ekki við,
allavega gengu á snið
og svartan skugga settu yfir sjáaldrið.

Einar, bæði í hljóði og hátt,
huga snýr til meyja þrátt,
en þær brúka svona sið
að setja upp kamb og líta ei við.
Kynlegt er hvað kalt er stundum kvenfólkið.

Þraut er fyrir Þorsteins skinn
þrátt að steita piparinn
og bágt er meðan fullt er fjör
að fljóðin séu á blíðu spör.
Kannski hann giftist áður en hann kemst í kör.

Konu vantar Eirík enn
ætli það geti lagast senn
þó að það gangi þetta seint?
En þeir vita sem hafa reynt
að það er vont að eiga ekki eina, alveg hreint.

Dóri fær hjá drengjum lof
en drósa skorti hylli um of.
Veit ég ei hvað valda kann,
þær vilja ei slíkan dánumann.
Hann einhvern veginn aldrei á þeim lagið fann.

Páll er dauður æðum úr
ungar þó hann líti frúr.
Eitt sinn þó hann ungur var
eða það héldu meyjarnar,
en allt var sama, ekki nokkurn ávöxt bar.

Þyljið, piltar, þennan söng
þegar nótt er myrk og löng
og ykkur verður lífið leitt
og lundin bæði körg og þreytt.
Það er betra að eiga eina, en ekki neitt.

Kosningaáróður og hrákasmíði

Í morgun tók ég á mig rögg og bjó til hafragraut handa gamla unglingnum, sem var nú reyndar farinn að kólna þegar hann kom sér framúr.
Börnin hans, elskuleg, eru farin að tjá skoðanir sínar á hinum ýmsu frambjóðendum til embættis forseta Íslands með því að prenta út myndir af, væntanlega, uppáhalds frambjóðendum sínum og stilla upp á áberandi stað.
Sá gamli hefur nú ekki nýtt kosningarétt sinn í afar mörg ár, þannig að ég tel að þarna sé frekar um að ræða að Hveratúnsbörnin séu að ögra hvert öðru, því varla telja þau að húsráðandinn fáist á kjörstað í lok júní.
Hann talar mikið um hve vel honum líst á "þessa konu".

Vísan sem rann upp úr gamla unglingnum í morgun, eftir að hann hafði rennt hafragrautnum niður ("Þetta er nú bara góður grautur hjá þér. Þú ert bara húslegur, Það sópar af þér í eldhúsinu") reynist við gúglun vera eftir Dýrólínu Jónsdóttur (1877-1939)

Meyjan keypti meðalið
sem mýkti fegurð líkamans.
Hún var að reyna að hressa við
hrákasmíði skaparans.



Tildrög: Stúlka nokkur, sem Dýrólína kannaðist við keypti, fegrunarkrem sem í þann tíð gekk undir nafninu 'fegrunarmeðal'. Þá orti Dýrólína vísu þessa.

22 mars, 2012

Loðfirðingarógur

Nýjasta vísan sem gamli unglingurinn skellti fram nú áðan fjallar um rógburð, sem ekki verður nægilega hefnt fyrir.

Að launa það þú laugst á mig,
Loðfirðingarógur,
hrykki ekki að hýða þig
Hallormsstaðaskógur.

Loðfirðingur mun vera einstaklingur frá Loðmundarfirði.

Tildrög:Við skoðun reyndist þessi vísa vera eftir Pál Ólafsson. Ekki er vitað hverju séra Sigurður Gunnarsson á Valþjófsstað á að hafa logið á Pál en ekki hefur Páll verið ánægður með það. Um það ber þessi ferskeytla hans vott.

27 janúar, 2012

Kjaftasaga úr fortíðinni

Gamli unglingurinn fer oft með vísur af ýmsu tagi, meðal annars þessa,s em hann segir vera eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti (d. 1968):
Margt er skrítið mannheimi í,
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Ég hef nú auðvitað innt þann gamla eftir því um hverja er verið að yrkja, en hann hefur löngum ekkert þóst vita um það. Í gær lét hann þó vaða, en ég er ekki viss um það sé rétt af mér að upplýsa um þau nöfn sem þarna er um að ræða. Ég læt því nægja þessu sinni gefa það upp, að um er að ræða karla sem allir áttu heima rétt fyrir neðan miðja sveit, annarsvegar heilmikinn kvennamann (að sögn gamla) með upphafsstafina G.I. en hinsvegar bræður tvo sem aldrei voru kvæntir og jafnvel ekki við konu kenndir, hvað veit ég?

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

05 nóvember, 2011

Dæmir þær úrhrök

Í morgunsárið fór gamli unglingurinn með fyrstu vísuna, ég fann síðan framhaldið með mínum aðferðum.





Ég þekki konur með eld í æðum 
frjálsar í skapi, fyndnar í ræðum,
sem þekkja lífið og lífsins sorgir
en minnast aldrei á brunnar borgir.


Æskan er svívirt og eiðar lognir
en brennumennirnir í burtu flognir.
Heimurinn dæmir þær hyggju spilltar
um nætur bestar, í nautnum villtar.

Dæmir þær úrhrök og einskis virði
og dræpi þær eflaust ef hann þyrði.
"Heimur, skolaðu hendur þínar,
ég þekki sjálfur systur mínar."

Konur sem dansa með dauðann í hjarta.
Þær kunna að elska en ekki að kvarta.
Konur sem hlægja og hylja tárin,
þær brosa fegurst þá blæða sárin

Böðvar Guðjónsson frá Hnífsdal


Nú er ekkert annað fyrir áhugamenn en að velta fyrir sér hvað hér býr að baki.

18 júní, 2011

...og þá fer hún að mala

Ég hef áður skráð á þessum síðum vísur sem gamli unglingurinn fer með, eftir því sem honum þóknast. Oft nefnir hann hvað honum finnst gott þegar er komin kona í eldhúsið, en hefur jafnframt takmarkað álit á því þegar ég er að bardúsa þar, enda telur hann slík verk ekki vera við hæfi karlmanna.

Þessi vísa spratt fram þegar fD kom til að hafa til kaffið:


Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu þá hjá frúnni' um stund án þess að tala,
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.


Á vefnum skagafjörður.is er vísan, en þar er hún svona:

Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu við hjá frúnni og stilt þig um að tala
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.

Höfundur:
Guttormur J. Guttormsson skáld í Vesturheimi f.1878 - d.1966

Fleiri eru vísurnar sem hafa verði skráðar eftir þeim gamla í minnisbók sem liggur frammi.

Ekki fann ég höfund þessarar:

Austur í sveitum býr ágætis fólk,
með úttroðinn maga af skyri og mjólk.
Þar er mörg jómfrúin, þjóðleg og spræk
og þaðan er Einar frá Geldingalæk.

Þessi vísa Þórðar Kárasonar kemur alloft fyrir:

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eiga tvær,
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Þarna mun Þórður hafa verið að yrkja um einhverja sveitunga. 
Ég fann ekki staðfestingu á að vísan væri eftir Þórð.

Þessi er eftir einhvern gárunga á S.-Reykjum, á þeim tíma sem sá gamli var þar við störf:

Lúter og Jensen líða þraut,
þau lífsins börn.
Elta báðir, eins og naut,
Ernu á Tjörn.
(Lúter hét Marteinn Lúther (Sk.M.) og Jensen var aldrei kallaður annað en Jensen í mín eyru. Erna er náttúrulega Erna Jensdóttir, húsfreyja á Tjörn í Biskupstungum)

Loks er vísa sem ég hef ekki fundið höfund að, og því ekki upplýsingar um hver Ingibjörg var:

Ingibjörg er aftandigur,
en örmjó að framan.
Skyld'ekki mega skera'na sundur
og skeyta'na saman?

18 apríl, 2011

Auðs þótt beinan akir veg

Til umræðu hjá gamla unglingnum var ásókn fólks í veraldleg verðmæti og völd. Þá rann þessi vísa upp úr honum:
Auðs þó beinan akir veg
ævin treinist meðan,
þú flytur á einum eins og ég
allra seinast héðan.
Við rannsókn mína á uppruna þessarar komst ég að því á vef Skjalasafns Skagfirðinga að vísan er eftir Einar Andrésson. Tildrög hennar munu vera þessi:
Einar fór einhesta að sækja sér björg í bú og mætti þá sveitunga með klyfjaða lest. "Þú flytur þá á einum, karltetrið" sagði sveitunginn, en Einar svaraði með þessari vísu. 
 Það var nú ekki mikil framsóknarmennska í annarri vísu sem sá gamli skellti fram í tengslum við yfirgang og frekju í samfélaginu, með sérstakri tilvísun í síðasta útspil ákveðins, valdamikils þjóðfélagshóps:
Ef að kraftur orðsins þver
á andans huldu brautum
gefa á kjaftinn verðum vér
vorum skuldunautum. 
Þessi vísa er eftir Káin. - K.N. - Kristján Níels Jónsson

Ekki fæ ég betur séð en þarna sé flytjandi vísunnar að hvetja til  uppreisnar gegn auðvaldinu í landinu.
Sko til! - Margt vitlausara.

Í útlöndum er ekkert skjól

Kvisthyltingar þeir að hafa kosið að dvelja til skemmri eða lengri tíma erlendis, koma stundum til tals í samræðum við gamla unglinginn, sem alloft hefur átt sinn þátt í að efla andagift við þessi skrif.  Það bregst ekki, þegar 'útlendingana' ber á góma, að sá gamli skýtur þessu að, á einhverjum tíma:


Ja, í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
sagði skáldið.

Hann vissi nú ekkert hvaðan þetta var komið og uppi hafa verið kenningar í samræðunni um, að hér hafi verið á ferðinni einn úr fyrri bylgju útrásavíkinga okkar, sem gisti kóngsins Kaupmannahöfn á einhverjum tíma, áður fyrr.

Myndin sem var þarna dregin upp, var af Íslendingnum, sem fór utan í leit að fé og frama, en reyndist  þegar upp var staðið, hafa dottið í það þar ytra og legið úti allan veturinn fyrir hunda og manna fótum, síðan komið heim í heiðardalinn og gert lítið úr því að dvelja ytra vegna þeirra aðstæðna sem að ofan er lýst.
Forvitni mín um uppruna þessara lína hefur aukist jafnt og þetta og loks tók ég mig til og gúglaði. Niðurstaðan var hreint ekki sú sem ég átti von á.
Hér er um að ræða línur úr vögguljóði eftir Nóbelsskáldið, en vissulega virðist það ort til að dásama dýrð og fegurð föðurlandsins og allt það skjól og öryggi sem það veitir þegnum sínum:
Íslenskt vögguljóð (á Hörpu)
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
meðan óttan rennur rjóð,
roðakambinn bláa,
og Harpa syngur hörpuljóð
á hörpulaufið gráa.

Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga:
var ekki' eins og væri' um skeið
vofa' í hverjum skugga?
Fáir vissu að vorið beið
og vorið kemur að hugga.

Sumir fóru fyrir jól.
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja' á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.

Þar er auðsýnt þurradramb
þeim sem út er borinn,
engin sól rís yfir kamb
yfir döggvuð sporin.
Þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.

Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa,
í túninu þar sem trippið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.

Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest sem hleypur og skín
hleypur og skín með sóma,
ég skal gefa þér upp á grín
allt með sykri og rjóma.

Eins og hún gaf þér íslenskt blóð,
ungi draumsnillingur,
megi loks hin litla þjóð
leggja' á hvarm þinn fingur
á meðan Harpa hörpuljóð
á hörpulaufið syngur.
HALLDÓR LAXNESS

20 febrúar, 2011

Í tilefni dagsins

"Ja, hart es í heimi" sagði gamli unglingurinn í dag, í tilefni af óróa í samfélaginu. 
Ekki hélt hann áfram, en auðvitað gerði ég það:
Hart er nú í heimi,
helvíti' er það gaman.
Guð, í alheimsgeimi
grettir sig í framan.


Ef sá gamli hefði haldið áfram á með vísuna sem hann byrjaði á, hefði það verið með þessum hætti:
Hart es í heimi
Hórdómr mikill
Vindöld, vargöld
áðr veröld steypisk
Þetta kemur úr Völuspá og er væntanlega lýsing á aðdraganda heimsendis.



17 september, 2010

Minningabókavísur - fornrit

Einhvern veginn birtist, fyrirvaralaust, glósubók á eldhúsborði gamla unglingsins. Þegar henni var flett kom margt í ljós, sem virðist engan veginn fara saman. Þar á meðal voru uppskriftir af hinu og þessu, ýmsir listar, dagbókarskráningartilraun og fleira og fleira, eins og t.d. minningabókavísur (allavega eru einhverjar þeirra þess eðlis). Mér finnst ég ekki hafa skrifað þær þarna niður, og er nánast viss um að svo er ekki, þó mig gruni að ég eigi þarna dagbrókarbrot og langur listi yfir vísur, ljóð og sögubækur. Þessi bók er frá því á árunum 1966-69 að mér sýnist.

Ég ætla að skella þessum vísum hér, þó þær séu sjálfsagt flestar vel þekktar þeim sem á annað borð eru komnir til vits og ára. Ég "gúkkla" þær (þetta er frb. gamla unglingsins) og get höfunda ef ég finn þá.

Gleymdu aldrei gömlum vin
þótt aðrir gefist nýir. 
Þeir eru eins og skúra skin,
skammvinnir og hlýir.
(fannst ekki)

Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)

Ég bið af hjarta, vina mín,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.

Eins og allir sjá, þá gengur þetta nú ekki alveg upp þar sem stuðlasetning er röng og einnig rímið.
Vísuna fann ég og þá var hún svona og heldur skárri að formi til, allavega.:


Ég bið af hjarta, barnið mitt,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.
(höf. ekki getið)

Varaðu þig á veginum,
víða er hann sleipur.
Er dimma tekur deginum
dettur sá sem hleypur.

Þessi fannst svona á vefnum og mun vera gamall húsgangur:

Drjúgum hallar deginum
dettur sá er hleypur.
Varaðu þig á veginum
víða er hann sleipur.
Mig grunar að hér hafi ég ætlað
að hefja dagbókarskrif.

Vorið kemur, vegir skilja,
vökna tárin, fölnar kinn.
Og ég bið að blessað vorið
blómum strái á veginn þinn.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Í þeim fagra fjallasal 
fékkstu menninguna.
(fannst ekki - þetta er góðubarnaútgáfan)

Allt sem gleðin geymir
gangi þér í hönd.
Bíði þín í fjarska
fögur draumalönd.
(fannst ekki, enda varla von - þvílík steypa)

Sæt er ástin, satt er það,
sérstaklega fyrst í stað, 
svo er hún svona sitt á hvað
og súr, þegar allt er fullkomnað.
(vísan fannst en ekki höfundur)

Sæt er heit og saklaus ást
sárt er hana að dylja.
Eins og það er sælt að sjást,
sárt er líka að skilja
(Páll Ólafsson)

Á Laugarvatni í Laugardal
læðast menn um nætur.
Í þeim fagra fjalla sal
fólkið illa lætur.
(fannst ekki)

Vendu þig á að vera stillt
vinnusöm og þrifin.
Annars færð þú engan pilt
ef þú gengur rifin.
(fannst en ekki höf. - góð ráð til ungra stúlkna :))

Mundu héðan allt og alla,
ég man þig ef þú manst mig.
Í haust, er lauf af greinum falla
ég vona að hann hitti þig.
(fannst ekki - ekki heldur von)

Vertu gætin, vertu stillt
vina mín, þótt sjáir pilt.
Horfðu ekki á glerið gyllt
það getur stundum sjónir villt.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(fannst ekki - svona minningabókaútgáfa)

Fylgi gæfan fagra þér
fram, um veginn bjarta.
Blærinn ætíð beri þér
bestu ósk míns hjarta.
(úff - fannst ekki)

Vertu sæl og þakka þér
þessa liðnu daga.
En þeir hafa orðið mér
eins og ævisaga.
(fannst ekki og ekki von)

Brautin þín verði bein og greið,
brosi þér sólin móti.
Verði öll þín ævileið
umkringd vinahópi.
(leitaði nú ekki einu sinni að þessari)

Ofurlítið ástarbrall
hann mun vilja reyna.
Það getur orðið henni meira fall
en má í fyrstu greina.
(ha ha ha  - þvílíkt!)

Þetta gat nú varla verið svona, enda fann ég vísuna, sem er sögð eftir Guðríði Björnsdóttur, sem var lengi húsfreyja í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi.

Ofurlítið ástarbrall
allir vilja reyna.
En það er mörgum meira fall
en má í fyrstu greina.

Auðtrúa þú aldrei sért,
aldrei tala um hug þinn þvert.
Það má kalla hygginn hátt
að hugsa margt en tala fátt.
(Hallgrímur Pétursson)

Þó að kali heitur hver
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda Rósa)

Aldrei skaltu nota púður,
aldrei skaltu reykja fýl/fíl?
Aldrei hlusta' á ástarslúður,
aldrei kyssa strák í bíl.
(fannst ekki - en þessi er sérstök þó ekki sé nú rétt)

Að hryggjast og gleðjast
hér um lífsins (fáa) daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
(Páll J. Árdal - fáa mun vera rétt)

Þó að leiðin virðist vönd
vertu aldrei hryggur.
Það er eins og hulin hönd
hjálpi' er mest á liggur.
(fannst en ekki höf.)

Ég kveð þig, kæra vina,
svo klökkur í hinsta sinn.
Þig Guð og gæfan geymi
og greiði veginn þinn.
(fannst ekki - sniff sniff)

Nú kveðjum við skólann og höldum héðan 
     og hugsandi spyrjum við að:
"Komum við aldrei á ævinni hingað 
     aftur á þennan stað?
Fáum við aldrei aftur að líta 
     alla sem dvöldust hér?"
Þessi spurning er ofar öllu 
     öðru í huga mér.
(fannst ekki)

Þó þig leiki lífið grátt 
og lítið veiti gaman,
saltu bera höfuð hátt
og hlæja' að öllu saman.
(fannst ekki)

Ef þú eignast eiginmann
og ótal marga krakka
mundu þá að það er hann / Hann
sem þú átt allt að þakka.
(fannst ekki - spurning hvort 'hann' á að vera með stórum staf, með trúarlegu ívafi, eða bara með litlum og þá með talsverðum karlrembutóni)

Það er skemmtilegt að geta þess, að þær vísur sem fundust á vefnum voru flestar hluti af minningagreinum, sem segir margt um dramtíkina sem einkennir unglingsárin.

Ég þykist viss um að engir nema algerir nördar hafa lesið hingað niður. Það er í góðu lagi því ég setti þetta hér svona til minnis.






13 júní, 2010

Oft er það gott sem gamlir kveða

Gestir gamla unglingsins hafa sumir tekið upp á því að skrá niður vísur sem hann dælir upp úr sér við aðskiljanlegustu tækifæri. Hann kveðst hafa lært flestar vísnanna hjá manni sem hét Einar Long, sem var honum samtíða á Hallormsstað, væntanlega á 3ja og/eða 4ða áratug síðustu aldar. Sá maður hafði þann starfa m.a. að spinna ull á stóra spunavél og þá fór hann gjarnan með allskyns vísur eftir sig og aðra, sem sá gamlli telur hafa síast inn í sig smám saman.
Hann fer með þessar vísur við ýmis tækifæri sem gefast, t.d. þegar hann hefur fengið mig til að segja að ég hafi enga samvisku af því þegar hysknir nemendur falla á prófum, þá kemur jafnan þessi fyrripartur:


Samviskuna get ég grætt
og gefið henni sitthvað inn
 - botninn er svona:
en aldrei getur ástin hætt
og af henni stafar kvensemin.
                          Páll Ólafsson


Oftar en ekki þá verður stutt hlé á samræðum og þá skellir hann þessu oftar en ekki fram:


Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða
  -  svona er framhaldið:
sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.
      - ég hef ekki komist að því eftir hvern þetta er, né heldur hvað 'lausakaupamet' er.


Þessi vísa Bólu-Hjálmars heyrist alloft:
Oft hefur heimsins gálaust glys
gert mér ama úr kæti.
Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti.
Sagt er að Bjarni amtmaður hafi upphaflega ort fyrri hluta vísunnar en þá var hann svona:
Margur heimsins girnist glys
og gálaust eftirlæti

...en Hjálmar botnað. Sagt er að Hjálmar hafi síðan ort þennan þegar hann datt á leið úr búð í Grafarósi. Sbr. uppl. úr Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.


Þessa fer sá gamli stundum með:
Latur maður lá í skut,
latur var 'ann þegar hann sat.
Latur oft fær lítinn hlut.
Latur þetta kveðið gat.


Ekki hef ég fundið þessa vísu svona, heldur:
Latur maður lá í skut.
Latur var hann þegar hann sat.
Latur fékk oft lítinn hlut.
En latur gat þó étið mat.



Þessa segir hann vera eftir Guðjón snikkara (Guðjón Jónsson frá Freyshólum, bróðir Magnúsar Jónssonar, afa míns, föður gamla unglingsins), sem skellti henni fram þegar hann var búinn að ljúka skipalæginu á Reyðarfirði:
Loks er bryggjan búin,
bæði skökk og snúin,
dvergasmíði dánumanns.
Þar voru stólpar steyptir
og stöplar niður greyptir,
alla leið til andskotans.

Þessi mun vera eftir Káinn:
Lesið hef ég þitt lærdómsstef þótt ljót sé skriftin
og síst ég efa sannkleikskraftinn
að sælla er að gefa en þiggja - á kjaftinn

Ekki fann ég neitt um þessa, sem oft er farið með, en hlýtur að hafa orðið til á bannárunum:
Andinn er oft í vanda,
yndis er stopull vindur.
Brandur, hvað ertu að blanda?
bindindis jarma kindur.

Ekkert veit ég heldur um þessa:
Það endar verst sem byrjar best
og byggt  á mestum vonum.
Svo er með prest og svikinn hest
og sannast á flestum konum.

Fljótsdalurinn fær heldur á baukinn í þessari, sem ég veit heldur ekki hver orti:
Í Fljótsdalnum er fegurst byggð
á foldar engi,
en enginn maður iðkar dyggð
sem er þar lengi.


Þessar heyrast oft við borðstofuborðið, en upplýsingar um þær fann ég hér:
Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:

Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims. En nú er frá því að segja að í sveitinni var annar bóndi og líkaði illa við prestinn. Hann heyrði þessa vísu og var tæp þrjú ár að læra hana og fór með hana svona:
 Mikið er hvað margir lof ´ann
 að ofan
 menn sem aldrei hafa séð´ann
 að neðan.

Læt ég þessu kveðskaparbloggi lokið, en lesendur mega gjarnan leggja til sögur bakvið vísurnar, þekki þeir þær, svo og, auðvitað höfunda.

Góðar stundir.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...