14 apríl, 2012

Kosningaáróður og hrákasmíði

Í morgun tók ég á mig rögg og bjó til hafragraut handa gamla unglingnum, sem var nú reyndar farinn að kólna þegar hann kom sér framúr.
Börnin hans, elskuleg, eru farin að tjá skoðanir sínar á hinum ýmsu frambjóðendum til embættis forseta Íslands með því að prenta út myndir af, væntanlega, uppáhalds frambjóðendum sínum og stilla upp á áberandi stað.
Sá gamli hefur nú ekki nýtt kosningarétt sinn í afar mörg ár, þannig að ég tel að þarna sé frekar um að ræða að Hveratúnsbörnin séu að ögra hvert öðru, því varla telja þau að húsráðandinn fáist á kjörstað í lok júní.
Hann talar mikið um hve vel honum líst á "þessa konu".

Vísan sem rann upp úr gamla unglingnum í morgun, eftir að hann hafði rennt hafragrautnum niður ("Þetta er nú bara góður grautur hjá þér. Þú ert bara húslegur, Það sópar af þér í eldhúsinu") reynist við gúglun vera eftir Dýrólínu Jónsdóttur (1877-1939)

Meyjan keypti meðalið
sem mýkti fegurð líkamans.
Hún var að reyna að hressa við
hrákasmíði skaparans.



Tildrög: Stúlka nokkur, sem Dýrólína kannaðist við keypti, fegrunarkrem sem í þann tíð gekk undir nafninu 'fegrunarmeðal'. Þá orti Dýrólína vísu þessa.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...