Sýnir færslur með efnisorðinu málfar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu málfar. Sýna allar færslur

31 mars, 2025

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Það er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna að leggja örlítið lóð á þá vogarskál, þar sem vegast á varðveisla íslenska tungumálsins og afskiptaleysi af þróun hennar.

Ég tók mig, sem sagt til, og sendi tölvupóst á alþingismenn, alla með tölu. Þeir urðu fyrir barðinu á mér, vegna þess, að ég tel þá afskaplega mikilvæga í viðgangi tungunnar. Ekki bara vegna þess að þeir geta samþykkt lög og reglugerðir, eða skipað í nefndir til hins og þessa, heldur vegna þess að málfar þeirra smitar út í samfélagið. Áður en við er litið, festast einhverjar rökleysur í málfarinu, vegna þess að þingmenn hafa komið þeim á í hugsunarleysi.

Já, ég sendi á þá tölvupóst, sem varðar tvær klárar vitleysur sem nú eru óðum að breytast í venjulegt mál.
Svona er þessi tölvupóstur:

28. mars, 2025

 

Ágæti þingmaður

Ég ætti ef til vill að byrja á því að biðjast velvirðingar á að trufla störf þín í þágu lands og þjóðar en þar sem erindið er í þágu lands og þjóðar, læt ég það vera.

Málið varðar íslenska tungu, bæði þróun hennar og hlutverk og einnig ábyrgð alþingismanna í því sambandi.

Þegar fólk er kjörið til ábyrgðarstarfa, eins og seta á Alþingi felur í sér, hlýtur það að hafa í huga, að í framhaldinu er gerðar meiri kröfur til þess, að ýmsu leyti. Þetta vitum við öll. Ábyrgð þingmanna felst, meðal annars, í því að þeir verða að fyrirmyndir þjóðarinnar. Einn þáttur þessarar ábyrgðar felst í notkun tungunnar; málfarinu.

Þá kem ég að erindinu, en það einskorðast við tvennt (margt fleira kæmi til greina):

1. Í viðtölum við þingmenn, sem eru daglegt brauð (ráðherrar koma þar oftar við sögu en aðrir, reyndar), tjá þeir skoðanir sínar og freista þess að færa rök fyrir máli sínu. Þeim finnst oftar en ekki nauðsynlegt að tilgreina fleiri en eina ástæðu fyrir skoðun sinni á einhverju tilteknu málefni. Þeir segja, til dæmis: „Það er bæði vegna þess að ...., en líka vegna þess að ...“

Í þessu samhengi langar mig að vísa á þetta, sem er að finna í íslenskri nútímamálsorðabók:


Þarna kemur skýrt fram, að ef maður er að tala um eitthvað tvennt, skal notast við OG, en ekki EN LÍKA. Hverjum dytti í hug að segja, t.d. „Þarna voru bæði Jón, en líka Gunna“.
Ef fólki finnst OG ekki nógu öflugt eða flott, til að koma máli sínu til skila, er ekkert auðveldara en sleppa bara BÆÐI úr röksemdum símum, t.d. “Þarna var Jón, vissulega, en líka Gunna“

2. Eignarfallsflótti verður stöðugt algengari í máli þingmanna. Þar á ég t.d. við setningar eins og: „Vegna byggingu hússins þurfti að hagræða.“
Eins og okkur öllum er ljóst, þegar grannt er skoðað, ætti þarna að segja: „Vegna byggingar hússins þurfti að hagræða.“ Okkur dytti aldrei í hug að segja sem svo: „Ég kom bara vegna hana / henni“.

Aftur vísa ég í orðabókina:




Það er reyndar ekki svo, að ég láti mig dreyma um að þessi póstur minn breyti einhverju, en ég er allavega búinn að reyna.

------------------------------------------

Ég er kennari/aðstoðarskólameistari á eftirlaunum* og áhugamaður um verndun íslenskrar tungu. Mér finnst hún vera smám saman að gliðna í sundur fyrir augum mér. Ég veit að málfar ykkar þingmanna hefur áhrif á það hvernig tungan þróast og beini því orðum mínum til ykkar þessu sinni. Það er hreint ekki sama hvernig málinu er beitt.

* Aukageta: Þegar fólk er búið að greiða í eftirlaunasjóð alla sína starfsævi, bíður þess, að verða ellilífeyrisþegar, eins og það kallast í lögum. Þetta orð hljómar eins og maður sé að þiggja eitthvað, sem er nánast ölmusa og þar með hrein vanvirðing við fólk sem er að fá greitt úr sjóðum sem það lagði í vegna efri ára. Það á, að mínu mati, að hætta að nota hugtakið ELLILÍFEYRIR og taka þess í stað upp heitið EFTIRLAUN í þessu sambandi.

Njóttu dagsins, alþingismaður góður

Páll M. Skúlason


Svona var þetta nú. Nú hafa 10 þingmenn brugðist við, með því að svara þessum pósti á afar jákvæðan hátt. Alliri eru þeir, utan einn, nýir þingmenn á Alþingi. Ég mun allavega hlusta grannt eftir því hvort breyting verður á málfari þingmanna, en geri mér samt engar grillur um eitthvað umtalsvert.









16 nóvember, 2018

Vonir standa til um það að það takist

Ég er í stöðugri klemmu, sem er að stórum hluta til komin vegna tvenns. Í fyrsta lagi aldurs og í öðru lagi einhverskonar áhuga á tungumálum, og þá ekki síst íslensku.

Klemman snýst einfaldlega um það, hvort ég á að vera að láta fjölmargar og sívaxandi ambögur sem daglega birtast í ræðu og riti, fara í taugarnar á mér. Rökleg lausn er auðvitað sú að láta bara eins og ekkert sé, ekki síst vegna þess, að ekki ber ég ábyrgð á þessu. Það að auki veit ég það fullvel að málfarsfjas mitt á þessum vettvangi breytir engu til eða frá. Fjasið í mér skiptir líklegast engan neinu máli, nema mögulega sjálfan mig. 
Ofan á þetta bætist síðan, að það mun vera eitthvað að hjá fólki sem finnur hjá sér þörf fyrir að setja út á málfar. Það hafa ónefndar rannsóknir sýnt svo ekki verður um villst, að sögn. Þetta er þekkt aðferð við að þagga niður í fólki, að gera lítið úr því.

Ég fæ ekki staðist það að hnýta í nýupptekinn og rétthugsaðan stíl hjá RUV, að tala nota alltaf þau þar sem venjan var að tala um þá, eða það. Það komust nefnilega einhverjir að því að þessi karlkynsmynd ætti upptök sín í feðraveldinu svokallaða.
Látum það vera. Ekki nenni ég að fara að fjasa um einhverjar kynjaðar feðraveldisstaðalmyndir. 

Málfarsrétthugsun RUV
Vandinn hjá RUV felst í því að þar á bæ hefur fólki ekki tekist að halda þessu fornafni stöðugu í fréttaflutningi sínum, enda er þarna um eitthvað alveg nýtt að ræða sem laga verður sig að. Það kemur ekki síst til af því, að  þau nafnorð sem notuð eru um fólk (af báðum kynjum), eru af ýmsum kynjum og tölum:

Manneskja er kvenkynsorð og þar með skal nota HÚN eða ÞÆR þegar vísað er til þeirra. (örugglega mæðraveldislegur uppruni í þessu orði).

Fólk er hvorugkynsorð og er bara til í eintölu, þó það vísi bara til fleirtölu og þar með skal nota ÞAÐ þegar vísað er til þess.

Einstaklingur (hjálpi okkur allir heilagir, ef við föllum í þá gryfju að nota þetta orð) er karlkynsorð og þar með skal nota HANN eða ÞEIR þegar vísað er til þeirra.

Barn er hvorugkynsorð og þegar vísað er til slíkra eintaka af menneskju er notað ÞAÐ eða ÞAU.

Nú er mér spurn:
Hvaða nafnorð er það í íslensku, til í eintölu og fleirtölu, sem hægt er að vísa til bæði með ÞAÐ og ÞAU?
 
Auðvitað detta mér nokkur í hug:
Hús, ríki, lamb, tröll, eintak ..... fullt af hvorugkynsnafnorðum sem til eru í eintölu og fleirtölu.
Hvaða orð er hægt að nota í íslensku um fólk eða manneskjur eða einstaklinga af báðum kynjum, sem hægt er að nota bæði í eintölu og fleirtölu? Jú, orðið KYN, auðvitað.
Ég finn slatta þar fyrir utan, en ekkert sem er hlutlaust og hægt að nota um bæði kyn í senn. Ég viðurkenni að ég er að vísu ekki búinn að leita lengi.

Í þessu kristallast rétthugsunartilburðirnir hjá RUV.
Það eru alltaf einhverjir (einstaklingar) að lenda í einhverju og rata fyrir þær sakir í fréttir. Hvernig skal tekið á því, svo ekki þurfi að nota karlkynsfornafnið hann?
Niðurstaða RUV er að þvælast bara einhvernveginn í gegnum þetta, enda virðist það ekki skipta neinu máli, svo fremi að karlkynsfornöfn komi ekki við sögu (nema búið sé að ganga úr skugga um að viðkomandi hafi allir verið karlkyns og tryggt að á meðal umræddra sé ekki að finna neitt hán).

Eðlileg niðurstaða, þegar um er að ræða hóp fólks/einstaklinga/manneskja, er að nota orð sem er í hvorugkyni. Þar með sitja menn (vá, hvað ég er vogaður!) uppi með hvorugkynsorðið FÓLK. Afskaplega gott orð bara, sem þó er gallað að því leyti, að það er ekki til í fleirtölu og þar með er ekki hægt að nota um það fornafn í fleirtölu. Svo einfalt er nú það. 

Málfarsspekúlantar RUV hafa kosið að umgangast orðið fólk eins og það sé til í fleirtölu og segja sem svo í fréttum eða umfjöllun þar sem um er að ræða einhverja (já, ég sagði það) sem ekki hafa verið kyngreindir:
Fjöldi fólks lét lífið, þau voru af báðum kynjum.
Þar með er RUV búið að ákveða að nafnorðið FÓLK sé til í fleirtölu, þó ekki sé það svo. Þar með hefur rétthugsunin borið tungumálið ofurliði, enda tungumálið væntalega til orðið á forsendum feðraveldisins, ef að líkum lætur. Ég bíð þess í ofvæni að framundan sé tíminn þegar þetta falleg orð fólk, fer að birtast í æ ríkari mæli: Fólkin sem létust hétu..... Það var haft eftir fólkunum að....

------------------------

Fyrirsögnin á tilvísun í fréttir á Stöð tvö í gærkvöld þar sem fjallað var um skýli fyrir unga, heimilislausa karlmenn í fíknivanda/fíkla.  Orðrétt sagði fréttaeintakið:
"Vonir standa til um að það verði hægt að taka þetta nýja skýli í notkun......". Ég spurði sjálfan mig (og fD), til hvers UMMIÐ væri. Við því fengust engin svör.

Hvaða fornafn notar maður með orðinu fíkill?
Jú, mikið rétt: HANN og ÞEIR í fleirtölu. Má það?


Lof sé þér sem komst í gegnum þetta og skildir inntakið.

Þetta er í tilefni af degi íslenskrar tungu.







13 mars, 2017

Froðufellandi, sjálfskipuð málfarslögga með fingurinn á lofti


Í lok Kastljóss þann 9. mars flutti Þórdís Gísladóttir nokkur, pistil um íhaldssemi sumra gagnvart íslensku máli undir fyrirsögninni "Síðasta orðið".
Upplýsingar sem ég fann um bakgrunn Þórdísar eru þessar helstar:
Þórdís Gísladóttir fæddist árið 1965. Hún er með próf í íslensku frá Háskóla Íslands og licentiat-gráðu í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Hún er rithöfundur, þýðandi og ljóðskáld sem bæði hefur samið fyrir fullorðna og börn. Þá hefur hún einnig samið námsbækur.Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra árið 2010.

Pistillinn sem Þórdís flutti er á þessa leið:
Fjölmiðlafólk og við sem tjáum okkur stundum opinberlega fáum oft eitraðar pillur frá froðufellandi málfarslöggum. Það fer í fínustu taugar margra að reka augun í ambögur eða heyra kæruleysislega meðferð móðurmálsins. Hvernig stendur á því að tungumálið er jafn eldfimt og hættulegasta sprengiefni?
Málnotkun vekur sterkar tilfinningar. Facebooknotendur krækja á greinar og benda á ónákvæma orðanotkun og illa orðaðan vaðal, internetið er gullnáma fyrir fólk sem alltaf er með fingurinn á lofti! En hvers vegna eru sjálfskipaðar málfarslöggur svona pirraðar, hvers vegna nennir fólk að standa í því að hnýta í það sem því finnst óvandað málfar, þegar það er nokkuð ljóst að það hefur varla nokkur áhrif? Jú, fólk er skeptískt á breytingar, það vill halda hlutunum og þar með tungumálinu eins og það þekkir það og telur að heimurinn sé á leið til andskotans ef bátnum er ruggað. Og auðvitað þurfum við öll að læra allskonar reglur. Líka málfarsreglur, það er nauðsynlegt að menn setji sér viðmið um hvað sé viðurkennt tungutak. En tungumál breytast, sama hvað hver segir. Enginn á tungumálið og sem betur fer eru ekki til lög um hvernig við eigum að nota það. Mér finnst leiðréttinglaðir beturvitar oft missa af skemmtilegum og skapandi þætti þess að snúa upp á málið, sveigja reglur og semja ný orð. Kannist þið við sögnina að hámhorfa, dagaheitið millari, verðurfarslýsinguna rónablíða og nafnorðið blandinavíska? Þessi orð eru öll nýskráð í slangurorðabókina og þið fáið rokkprik ef þið kannist við þau.

 Það er væntanlega þeim ljóst, sem hafa lesið það sem ég hef látið frá mér fara um íslenskt mál, að ég fell í þennan flokk Þórdísar, þar sem er að finna froðufellandi sjálfskipaðar málfarslöggur
Ég lít á það sem heiður að fá að fylla þann flokk, í stað flokksins sem flokkar allt það sem víkur frá því málkerfi sem íslenskan byggir á, sem "eðlilega þróun tungunnar".  
Ef ekki hefði verið til svokallaðar málfarslöggur gegnum sögu íslenskunnar, fullyrði ég, að hún væri ekki lengur til sem sérstakt tungumál.

Sannarlega er það rétt hjá Þórdísi að tungumál breytist hvað sem hver segir. Þjóðfélagið breytist og og tungutakið tekur auðvitað mið af því. Þannig var orðið bifreið ekki til í eina tíð, eða sími, tölva, eða sjónvarp - það segir sig sjálft.
Sem betur fer, er á öllum tímum til fólk sem býr yfir skapandi hugsun til að þróa tunguna áfram í takt við aðra þróun.  Ef tungumál fengi ekki að þróast, ætti það sér ekki viðreisnar von. Með sama hætti: ef meginreglur málkerfis tungumáls riðlast, t.d. beygingakerfið, á það sér ekki heldur viðreisnar von. Í því efni er ábyrgð þeirra sem halda tungumálinu að þjóðinni, í ræðu og riti, mikil. Í þann flokk falla rithöfundar, fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn, listamenn, kennarar og bara allir þeir sem fara með málið í ræðu eða riti.
Mér finnst það afskaplega dapurlegt þegar rithöfundar eða kennarar ganga fram fyrir skjöldu og viðhafa niðurlægjandi orðfæri til að skapa  neikvæða mynd sem þeim sem láta eitthvað frá sér um ambögur í málfari á opinberum vettvangi. Þannig reynir rithöfundurinn að upphefja sjálfan sig, sem ofurfrjálslyndan, þar sem það fellur víst í kramið. 
Ég skil ekki ástæður þessa. Það má ræða þessi mál án þess að kalla fólk nöfnum.

Það er munur á eðlilegri þróun og hreinum ambögum. Þróun verður til vegna þess að umhverfið kallar á hana. ambögurnar verða til vegna leti, metnaðarleysis og (þó það megi varla segja það) vanþekkingar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að það sem ég segi um þessi mál breytir líklegast engu, en ég get í það minnsta haldið því fram með sjálfum mér, að ég hafi reynt. Tungumálið skiptir meira máli en ég og mínar skoðanir. Þannig er ég búinn að gera mér grein fyrir því, að í stað þess að segja "ég hlakka til" segir maður "mig hlakkar til" og að í stað þess að sem "mig langar í ís" segir maður "mér langar í ís".  Það er orðinn til einhverskonar þjóðarsátt um að svona skuli þetta vera, að því er virðist.


Ég á enn eftir að sættast við fjölmargt og tek hér þrjú dæmi.

Dæmi 1:  
"Þegar ég hitti fólkið, voru þau köld og hrakin".  
Það er svo, að íslenska orðið fólk hefur til þessa talist vera hvorugkynsorð í eintölu. Í ensku er samsvarandi orð "people", sem er hinsvegar fleirtöluorð. Þarna erum við farin að taka upp ensku myndina. Vandinn er hinsvegar sá að ákveðni greinirinn sem við setjum á "fólk" er ennþá "-ið" - "fólkið", en ekki "fólkin". Hvenær ætlum við, rithöfundar og aðrir, að stíga skrefið til fulls, að þessu leyti?

Dæmi 2:
"Ég talaði við hana vegna byggingu hússins"
Þetta er bara lítið dæmi um það að fólk er farið (eru farin?) að forðast eignarfall. Ég held nú að flestum sé það fullljóst að íslenskan gerir ráð fyrir því að  "vegna" tekur  með sér nafnorð eða fornafn í eignarfalli. Þar með ætti maður að segja "vegna byggingar hússins", er það ekki, annars?  Ef svarið er neikvætt, hvernig förum við þá með setningar af þessu tagi?:
"Hún kom hingað aðeins vegna mig". eða "Hann hringdi vegna Guðmundi".

Dæmi 3:
"Ásdís grýtti spjótinu 62 metra".  
Auðvitað hefur þarna orðið rof við uppruna sagnarinnar "að grýta" sem er komið af nafnorðinu grjót. Ég trúi varla öðru en fréttamaðurinn hafi verið að gera að gamni sínu með þessu vali á sögn, en þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem samhengið við upprunann rofnar.


Sumt fólk hefur beinlínis það hlutverk að vera skapandi. Þar sem tungan er annarsvegar hvílir ábyrgðin á skapandi notkun á herðum rithöfunda, ekki síst. Það er mikil og mikilvæg ábyrgð.  
Þegar rithöfundur tjáir sig með þeim hætti sem Þórdís gerði í lok Kastljósþáttarins er það, að mínu mati, varasamt. Þó ég telji (voni) að hún hafi fyrst og fremst verið að vísa til skapandi notkunar tungumálsins að því er varðar myndun nýrra og frumlegra orða, þá geri ég ráð fyrir að margur hafi talið þarna vera stiginn fram enn einn bandamann sinn í baráttunni gegn þeim sem tala fyrir vandaðri notkun tungunnar. 
Ég trúi því ekki að rithöfundurinn hafi verið að tylla sér þar.

Ég ætla að halda áfram að vera froðufellandi, sjálfskipuð málfarslögga og málfarsfasisti, eða leiðréttingaglaður beturviti með fingurinn á lofti. 
Aðrir finna sér sína hillu.

(Ég vona að það séu ekki margar ásláttarvillur, Lóa 👮)

24 febrúar, 2017

Hversvegna? Vegna þess...

"Til hvers ertu nú að ergja þig yfir þessu? Það breytir engu."
Auðvitað er þetta alveg skiljanleg athugasemd hjá fD.  Fyrir mér snýst þetta hinsvegar ekki um vonina um að snúa einhverju til betri vegar. Ég er svo sem ekkert að ergja mig yfir einu eða neinu, miklu fremur að undrast þann hugsunarhátt sem við búum við og sem felur í sér stöðugt ýktari lítilsvirðingu gagnvart tungumálinu sem þessari kynslóð sem og öðrum á undan hefur verið trúað fyrir.
Af einhverjum ástæðum dettur mér Hreinn Ragnarsson, heitinn, (kennari við Menntaskólann að Laugarvatni og þar áður Héraðsskólann), í hug þegar ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd, að það sem mér finnst vera rétt og eðlilegt málfar er smám saman að víkja fyrir hálfgerðu barnamáli.
Auðvitað þykist ég vita hverjar megin ástæður þessarar þróunar eru, og þær pælingar mínar hef ég fjallað um áður.  Varnarleysið er algert og ég er smám saman að sætta mig við það og reyna að fara bara að hugsa um eitthvað annað. Ég hef samt enga trú á öðru en að ég muni henda inn við og við athugasemdum við misþyrmingu samborgaranna á tungunni.  

Það er einmitt það sem ég ætla að gera núna:

Ég hef áður nefnt "af hverju?"
Við höfum í það minnsta tvær leiðir til að inna eftir ástæðu einhvers. Annars vegar er "hversvegna?" og hinsvegar "af hverju?".  Það er sjálfsagt smekksatriði hvort er valið, en ég lít svo á að "af hverju" sé óformlegra og hafi frekar verið notað af börnum og unglingum, þá oftast borið fram með þessum hætti: "AKKURU?". Þeir sem eldri voru og notuðu þessa aðferð sögðu þá frekar "af hverju?" og það var og er einnig ritmálstjáningin.
Jæja. 
Svarið við "Hversvegna? er, "Vegna þess að...."  
dæmi: Hversvegna sagði hann af sér?  Vegna þess að hann klúðraði viðtali."
Svarið við "Af hverju?" er "(af) því (að)..." 
dæmi: Afhverju/Af hverju sagði hann af sér? Af því hann klúðraði viðtali.
Af þessum tveim aðferðum við að leita skýringa og svara, tel ég það fyrra vera umtalsvert betra mál, en hitt er auðvitað einnig nothæft.

BERNSKUN TUNGUNNAR

Hvert er þá vandamálið?
Því er auðsvarað og þar kemur til það sem ég vil kalla "bernskun tungunnar". Bernskun þýðir það einfaldlega að það sem eitt sinn einkenndi málfar barna á máltökuskeiði er að verða málfar lærðustu vísindamanna.

Hér eru nokkur dæmi af handahófi til útskýringar á þessu:
Ræðumaður á 1. maí:
Einn sagði af sér sennilega bara út af því að hann klúðraði viðtali í alþjóðlegum fjölmiðli.
 Viðskiptamaður: 
Og við skulum bara vona að menn hafi ekki tekið rangar ákvarðanir varðandi þætti sem tengjast til dæmis ferðaþjónustu, út af því að krónan hefur verið kerfisbundið of veik.

Handknattleiksmaður:
Þeir búa eitthvað til út af því að þetta er sjónvarpsleikur
Haffræðingur:
Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land,” segir Jón. “Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði.”
Hvert skyldi nú vera hlutverk þessa "ÚT"?

19 desember, 2015

Áhigjur af f***ing túnguni.

Þetta er bara eitt af því sem ég þarf að losa mig við. Ég veit reyndar að það mun ekki gerast með þessu móti einu, en þetta er örugglega skref í átt að því að ég sætti mig við það sem er og fái betri innsýn í það sem líklega verður.
Eftirfarandi texta skrifaði ég á þessa síðu fyrir nokkru. Hér hef ég freistað þess að sjá fyrir mér hvernig hann gæti litið úr eftir einn til tvo áratugi.
Tilefnið er ræða menntamálaráðherra áðan, menntamálaráðherra.

Framundan eraði flutningur kórar úr uppsveitir með einsöngvarar, orgel, trompet og klarinett á verk eftir sigvaldi kaldalóns kirkja óma öll. það erar ekki á móti mæla að einhverjir tenórar beruðu nokkur kvíðbogi fyrir ein nóta í umrætt verk.
Forsaga málið eraði sú að við upphaf æfingar á þetta verk eraði það eins og hver annar verk sem æfað eraði tenórinn dansaði um nóturnar áreynslulaus þó svo ein nóta undir lok hver erindi hafi takað nokkur á. Það eraði ekkert annar en áskorun og þetta var hinn góðasti mál. Með þessi háttur eraði verkið æfað nokkur sinn og það eraði að koma góður mynd á það.

við þeir aðstæður geraði það allt í einu að einn sópraninn tjáaði þá skoðun sinn að sópranlínan liggjaði of lágur. Einhverjir margari sópran takaði undir þessi skoðun.


-lesendur eru varaðir við að taka mig alltof hátíðlega á þessu stigi. Þó kraumi undir, geri ég mér grein fyrir því að ýmislegt er óumflýjanlegt. Þar má til dæmis telja íslenska tungu.

23 júní, 2015

"Ég er að fara erlendis að versla föt"

 "Ég er að fara erlendis" Við skiljum þann sem þetta segir (með réttu eða röngu) sem svo að hann hyggist halda af landi brott, að hann sé að fara utan, eða að hann sé að fara tíl útlanda.
Erlendis mun vera eitt af þessum orðum sem kölluðust atviksorð og gefa til kynna kyrrstöðu, svona eins og inni eða úti. Þessi orð gefa til kynna að einhver er á einhverjum tilteknum stað.  Þannig segir maður: Ég er inni eða Ég er úti. Í samræmi við það segir maður væntanlega Ég er erlendis. Þá vaknar spurningin: Ef maður getur sagt: Ég er að fara erlendis, getur maður þá einnig sagt Ég er að fara inni, eða Ég er að fara úti?  Fáir held ég að myndu telja svo vera.


"Ég ætla að versla (mér) föt" Þetta skiljum við (með réttu eða röngu) þannig, að viðkomandi ætli að kaupa (sér) föt.  Sögnin að versla felur í sér að eitthvað er látið af hendi í stað einhvers annars. Þannig kaupir maður skyrtu og lætur af hendi einhverja fjárupphæð í staðinn. Í samræmi við það er eðlilegt að segja: Ég var að versla.  Það er einnig hægt að segja að einhver versli með skyrtur og þá merkir það að hann kaupir skyrtur og selur þær síðan aftur.  Sá sem fer út í búð til að versla, sér þar kannski þessa fínu skyrtu og niðurstaðan verður sú að hann kaupir hana og kaupmaðurinn selur hana. Kaupandinn verslar skyrtuna ekki, þó svo kaupmaðurinn versli með skyrtur.  Kaupmaðurinn kaupir skyrtur og selur þær aftur og verslar þannig með skyrtur. Viðskiptavinurinn kaupir skyrtu og greiðir fyrir hana og þannig má segja að hann versli við kaupmanninn, en hann verslar (sér) ekki skyrtuna.


Svo mörg voru þau orð og ég get þó alltaf sagt að ég hafi reynt.

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...