"Til hvers ertu nú að ergja þig yfir þessu? Það breytir engu."
Auðvitað er þetta alveg skiljanleg athugasemd hjá fD. Fyrir mér snýst þetta hinsvegar ekki um vonina um að snúa einhverju til betri vegar. Ég er svo sem ekkert að ergja mig yfir einu eða neinu, miklu fremur að undrast þann hugsunarhátt sem við búum við og sem felur í sér stöðugt ýktari lítilsvirðingu gagnvart tungumálinu sem þessari kynslóð sem og öðrum á undan hefur verið trúað fyrir.
Af einhverjum ástæðum dettur mér Hreinn Ragnarsson, heitinn, (kennari við Menntaskólann að Laugarvatni og þar áður Héraðsskólann), í hug þegar ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd, að það sem mér finnst vera rétt og eðlilegt málfar er smám saman að víkja fyrir hálfgerðu barnamáli.
Auðvitað þykist ég vita hverjar megin ástæður þessarar þróunar eru, og þær pælingar mínar hef ég fjallað um áður. Varnarleysið er algert og ég er smám saman að sætta mig við það og reyna að fara bara að hugsa um eitthvað annað. Ég hef samt enga trú á öðru en að ég muni henda inn við og við athugasemdum við misþyrmingu samborgaranna á tungunni.
Það er einmitt það sem ég ætla að gera núna:
Ég hef áður nefnt "af hverju?" |
Við höfum í það minnsta tvær leiðir til að inna eftir ástæðu einhvers. Annars vegar er "hversvegna?" og hinsvegar "af hverju?". Það er sjálfsagt smekksatriði hvort er valið, en ég lít svo á að "af hverju" sé óformlegra og hafi frekar verið notað af börnum og unglingum, þá oftast borið fram með þessum hætti: "AKKURU?". Þeir sem eldri voru og notuðu þessa aðferð sögðu þá frekar "af hverju?" og það var og er einnig ritmálstjáningin.
Jæja.
Svarið við "Hversvegna? er, "Vegna þess að...."
dæmi: Hversvegna sagði hann af sér? Vegna þess að hann klúðraði viðtali."
Svarið við "Af hverju?" er "(af) því (að)..."
dæmi: Afhverju/Af hverju sagði hann af sér? Af því hann klúðraði viðtali.
Af þessum tveim aðferðum við að leita skýringa og svara, tel ég það fyrra vera umtalsvert betra mál, en hitt er auðvitað einnig nothæft.
BERNSKUN TUNGUNNAR
Hvert er þá vandamálið?
Því er auðsvarað og þar kemur til það sem ég vil kalla "bernskun tungunnar". Bernskun þýðir það einfaldlega að það sem eitt sinn einkenndi málfar barna á máltökuskeiði er að verða málfar lærðustu vísindamanna.
Hér eru nokkur dæmi af handahófi til útskýringar á þessu:
Ræðumaður á 1. maí:
Einn sagði af sér sennilega bara út af því að hann klúðraði viðtali í alþjóðlegum fjölmiðli.
Viðskiptamaður:
Og við skulum bara vona að menn hafi ekki tekið rangar ákvarðanir varðandi þætti sem tengjast til dæmis ferðaþjónustu, út af því að krónan hefur verið kerfisbundið of veik.
Handknattleiksmaður:
Þeir búa eitthvað til út af því að þetta er sjónvarpsleikur
Haffræðingur:Hvert skyldi nú vera hlutverk þessa "ÚT"?
Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land,” segir Jón. “Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði.”
Engin ummæli:
Skrifa ummæli