fD í hlutverki sínu. |
Svona er erlendi ferðamaðurinn, svona var okkur sýndur hann á leiksýningunni í Borgarleikhúsinu sem var hluti helgardagskrár okkar fD um liðna helgi.
Þannig var það, að í tilefni af helgardvöl í höfuðborginni, eða borg óttans, eins og einhverjir kjósa að kalla Reykjavíkurborg, var það gert af einum liðnum í dagskránni, að leyfa okkur að líða um stræti hins víðfræga hverfis sem kallast oftast 101, þar sem latte lepjandi borgarbúarnir vilja víst helst halda sig.
Síðast þegar við áttum þarna leið um var það til að mótmæla og auðvitað var full ástæða til.
Nú gerðumst við túristar.
Áttum reyndar ekki húfu með skúf eða 66°N alklæðnað. Við áttum samt húfur, trefla og einhverja jakka - og auðvitað myndavél.
Í sem stystu máli féllum við afar vel í hópinn, enda ekki allir túristarnir með húfu með rauðan skúf, í peysu.
Leið okkar lá af Sóleyjargötu inn Fríkirkjuveg, þá Lækjargötu, upp Bankastræti, upp Skólavörðustíg, þar sem við heyrðum fyrstu íslensku orðin í ferðinni en hún kom úr munni afgreiðslumanneskju sem er af erlendu bergi brotin (eins og okkur finnst svo gaman að segja; maður sér þá fyrir sér Alpana eða klettana í Dover, eða Kákasusfjöllin, Alpana eða Kilimanjaro).
Íslenskan var samt betri en hjá mörgum þeirra sem þó eru af íslensku bergi brotnir, t.d. Vörðufelli, Esjunni eða Efstadalsfjalli.
Inn í Hallgrímskirkju þar sem áð var um stund.
Síðan var haldið niður Frakkastíg, þá Laugaveg, Bankastræti aftur, Austurstræti, (fish n´chips á sjúskuðum Hressó, "Table for two?" "Já takk, borð fyrir tvo" "Fyrirgefiði, það koma eiginlega bara útlendingar hingað").
"Ég hef aldrei komið í þetta fræga Hafnarhús" - nú auðvitað fórum við þangað (sjá hér).
Eftir þá reynslu lá beint við að fara í Kolaportið, en ég ætla ekki einu sinni að anda út úr mér fordómaflækjunni sem varð til í höfðinu á mér við þá reynslu. Út, út, út!
Við tók Pósthússtræði og Austurvöllur, hljóður og mannlaus. Þar ættu að vera mótmæli alla daga, af nógu er að taka. Þar stóð túristi með götukort og horfði í kringum sig.
Þegar við nálguðumst sagði hann: "Hey, you are a native. Could you....?" Þá var hann að tala við mann sem gekk fyrir aftan okkur, en ekki við okkur. Dulargerfið virkaði. En, "native!". Í gamla daga var þetta orð notað um frumstæða ættbálka í svörtustu Afríku, ekki um hin göfugu þjóð sem byggir land elds og ísa. Svona breytist veröldin.
Tjörnin með máva- og álftager og einhver slatti af öndum.
Einhvernveginn er ekkert merkilegt að taka myndir af fuglum á Reykjavíkurtjörn. Fuglarnir virka á mann eins og ódýr leikmynd.
Svo var það eiginlega bara Fríkirkjuvegur, Fjólugata (þar sem húsin vinstra megin standa við Fjólugötu en húsin hægra megin við Sóleyjargötu.
Æ, hve ég var nú hvíldinni feginn eftir fjögurra klukkustunda túristaskap.
Aumingja, blessaðir erlendu ferðamennirnir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli