Sýnir færslur með efnisorðinu biskupshús. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu biskupshús. Sýna allar færslur

27 febrúar, 2019

Trú, völd og hagsmunir á biskupsstóli

Séð frá minnisvarða um Jón Arason.
Nei, það er nú ekki þannig, að ég ætli mér að gera einhverja lærða úttekt á þeirri samþættingu trúar, valda og hagsmuna af ýmsu tagi sem birtist þegar maður rennir í huganum yfir málefni Skálholtsstaðar. Ég er nú bara einn nágranni, sem hef stærstan hluta ævinnar átt heima í túngarði biskupsstólsins, rétt handan Keldunnar.
Ég hef afrekað það að:
- að vera kirkjuvörður þá er Sveinbjörn Finnson var staðarráðsmaður og fulltrúi þeirra "fyrir sunnan".
- að kenna við Lýðháskólann þegar sr. Heimir Steinsson var og hét.
- að hafa setið í sóknarnefnd og náð því, meira að segja, að verða sóknarnefndarformaður í nokkur ár.
- að þenja tenórröddina svo áratugum skiptir í Skálholtskórnum, bæði þeim eldgamla, gamla og nýja.
- nú síðast, að vera valinn til að setjast í varastjórn Skálholtsfélagsins hins nýja.

Þakskífur

Altarisverk Nínu Tryggvadóttur
Líf mitt allt og lítið brot sögu Skálholts í gegnum aldirnar, hafa átt samleið, svo um munar (fyrir mig, en ekki Skálholt).

Lái það mér hver sem vill, en þessi samleið hefur afskaplega oft gert mig afhuga Skálholtsstað og því starfi sem þar hefur verið unnið, en á sama tíma, hvort sem ég hef haft um það eitthvert ákörðunarvald eða ekki, þá hef ég ávallt haft og hef enn sterkar taugar til þessa staðar, vísast sterkari en margur sá sem um staðinn vélar eða hefur vélað.

Skálholt var endurreist eftir langan tíma niðurlægingar. Dómkirkjan reis og skólahús var byggt. Það var byggt yfir sóknarprestinn, organistann/kantorinn og rektorinn. Hvernig gátu þessar byggingar annað en upphafið Skálholt til fyrri stórfengleika?
Þarna voru allir möguleikar.
Það hefur hinsvegar ekki enn tekist að nýta þá svo sem vonir stóðu til.

Sannarlega lifir Skálholt á fornri frægð, og er þekkt um heiminn sem einn þeirra staða sem ferðamenn þurfa að heimsækja. Þekkt um hinn kristna heim. Þekktur sögustaður. Þekktur menningarstaður.

Það hafa margir lagt hönd á plóg í Skálholti, af alúð og heilum hug. Þar hefur margt ágætt verk verið unnið. Ég verð að viðurkenna að mér er það vart skiljanlegt hve mörgu góðu hefur verið komið þar til leiðar, þrátt fyrir það umhverfi sem staðnum er búið.

Skálholtshátíð 2018
Ekki treysti ég mér til að telja fram alla þá aðila, stofnanir, ráð, nefndir, félög, einstaklinga, fyrirtæki,   -  sem hafa með málefni Skálholts að gera, eða telja sig vita hvað staðnum er fyrir bestu. Þarna er um að ræða afskaplega ósamstæðan hóp, sem sjaldnast getur orðið einhuga um skipan mála í Skálholti í nútíð eða framtíð.
Allir þessir aðilar vilja vel, hver á sinn hátt og þar má segja að hnífurinn standi í vorri kú.
Það er tekist á um flest sem hugsast getur í tengslum við staðinn. Það takast á hagsmunir af ýmsu tagi, hagsmunir sem tengjast fjármagni, skipulagi, trú, nágrenni, lífsskoðun, ferðaþjónustu, landbúnaði, .....  Ég sé ekki tilgang með að reyna að telja saman alla þá hagsmuni sem hægja á málum sem tengjast Skálholti, en þessi staður er þess eðlis að það er mjög auðvelt að vera ósammála um hann og þegar þannig er háttað, er enginn hörgull á ósamrýmanlegum skoðunum.

Sú skoðun er talsvert algeng í mínu umhverfi að það hljóti að hvíla einhver álög á "Skálholtstorfunni", þar sé aldrei friður. Ég hef heyrt fólk halda þeirri skoðun fram að þetta eigi uppruna sinn í þeirri stund þegar Jón Arason og synir hans voru hálshöggnir árið 1550.  Til þessa vil ég ekki taka afsöðu svo sem, en verði ekki málefnum Skálholts skipað með skilvirkari hætti, munu þessi átök (jæja, mismunandi skoðanir eða sýn) halda áfram.
Það er nú mín auðmjúka skoðun, að ákvörðunarvald um málefni staðarins þarf að vera hjá einum aðila, sem "að bestu manna yfirsýn" leggur þær línur sem feta skal. Þessi aðili þarf að vera í afar góðum tengslum við staðinn, þekkja sögu hans og mikilvægi fyrir þjóðina og nágrennið mjög vel.

Biskupshúsið / Gestastofa
Það er vel þekkt máltæki sem segir, að því verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Ekki tek ég nú svo stórt upp í mig að vilja halda þessu fram þegar málefni Skálholtsstaðar eru annars vegar, fjarri því, en hinsvegar tel ég að málefnum staðarins sé ekki vel komið með svo marga álitsgjafa og/eða ákvörðunaraðila sem raun ber vitni.

Svo er það þetta með Biskupshúsið eða Gestastofuna, sem nú stendur þarna á hlaðinu og bíður framtíðarhlutverks síns.
Í hvers/hverra höndum er að ákveða hvert það verður?  Hvað dvelur?




Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...