Sýnir færslur með efnisorðinu þúsund. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu þúsund. Sýna allar færslur

23 maí, 2019

Þúsund eru þeir (1000)


Ég var nú búinn að sjá fyrir mér að þegar ég settist niður til að skrifa þúsundasta pistilinn minn á þessum einkamiðli, yrði umfjöllunarefnið tímamótaverk, sem yrði lengi í  minnum haft, ja, í það minnsta mínu minni. Ég ákvað síðan að leyfa honum að verða bara sama lágstemmda lognmollan og svona yfirleitt.

Það liggur við að um þessa pistla megi segja að þeir hafi snúist um að fara aldrei yfir þá línu sem hugurinn kallar eftir hverju sinni. Ég hef reynt að fara aldrei yfir þessa ósýnilegu línu milli þess að má og ekki má, án þess í rauninni að vita hvað það er sem má. Vissulega held ég nú að þau ykkar sem þetta hafa lesið að einhverju marki, vitið í stórum dráttum helstu skoðanir mínar á hinu og þessu. Það væri nú líka eitthvað undarlegt við það ef þær væru enn duldar eftir allan þennan tím og allan þennan pistlafjölda.
Ég ætla ekkert að neita því, að oft hef ég verið kominn á fremsta hlunn með að láta frá mér skoðanir á mönnum og málefnum sem hefðu gengið lengra, en áður en af því hefur orðið hefur mér oftast tekist að bremsa mig af, með í huga framgöngu þeirra sem tjá sig í athugasemdum á samfélagsmiðlum og sem mér hefur verið í nöp við.
Ég á þó margt ósagt og hver veit nema ég tjái mig með afdráttarlausari hætti þegar ég verð ekki lengur sakaður um eiginhagsmunapot.

Pistlarnir 1000


Tölfræðin segir mér, að þessum pistlum mínum hafi verið flett um 220.000 sinnum frá því í febrúar 2008 þegar ég byrjaði að feta mig inn á þessa braut með þessum orðum:
Upphafið - endirinn?
Það sem hér er skráð er fyrst og fremst athugun á því hvernig þessi undarlegi heimur bloggsins virkar - hvort framhald verður nokkurntíma á skrifum af þessu tagi af minni hendi, verður að ráðast af því hvort ég tel þennan tjáningarmáta henta mér. Eins og staðan er nú tel ég svo ekki endilega vera.
Þarna varð ekki aftur snúið. Ríflega 4000 dögum síðar eru pistlarir orðnir þetta margir, sem þýðir að í þessi 11 ár hef ég skrifað pistil á fjögurra daga fresti að jafnaði. Mig undrar það dálítið, velti því fyrir mér hvort hér sé um að ræða einhverskonar þráhyggju eða athyglissýki. Vangavelturnar um það verða ekki langar, enda þykist ég þess fullviss, að hér sé bara um að ræða eðlilega tjáningarþörf, sem finnur sér auðveldari leið í gegnum ritað mál en mælt.

Reglulegir lesendur hafa nú ekki verið fleiri en svona 200 oft talsvert undir hundraðinu. Aðeins í júni 2017 náði lesendafjöldinn umtalsverðum hæðum, en það var þegar ég, í sakleysi mínu að sjálfsögðu, skrifaði pistil undir fyrirsögninni "Aumingja konurnar". Til þessa dags hafa 5672 lesið hann, langflestir í kjölfar athugasemda nafntogaðs einstaklings við hann. Næst flesta lesendur (2583) fékk svarpistill, "Til Hildar" sem ég skrifaði þessum nafntogaða einstaklingi skömmu síðar.  

Ekki meira um það.

Framhaldið

Framundan er tími breytinga. Ætli ég verði ekki að reikna með því að sá tími verði mér tilefni til tjáningar af ýmsu tagi, það vona ég í það minnsta. Ég lít á þessi pistlaskrif sem mögulega leið til að viðhalda starfsemi heilans, en á sama tíma efast ég um hvort ýmislegt það sem ég læt frá mér fara, hæfi þeim aldri sem ég hef náð. Þeim efasemdum sópa ég jafnskjótt út af borðinu, tilbúinn að hætta að taka mið af þeim einstaklingum úr fortíðinni sem þá voru á mínum núverandi aldri. 

Ég þakka tryggum lesendum gegnum tíðina fyrir lesturinn og vonast til að halda einhverjum þeirra við efnið um ókomna framtíð.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...