15 júní, 2017

Aumingja konurnar.

Ég er ekki enn viss um að ég láti verða af því að senda þennan pistil frá mér þannig að hann birtist hverjum sem lesa vill (það gerðist nú samt). Ég hyggst samt skrifa hann, því ef ég geri það ekki, held ég bara áfram að burðast með efni hans í höfðinu. Þetta efni vill komast út og nú reynir á.
Við lifum tíma þar sem maður þarf að gæta að hvað maður segir og jafnvel hvað maður hugsar. Ég er sammála því að maður eigi að gæta að því hvað maður lætur frá sér og ekki síst HVERNIG maður tjáir það.

Tilefni þessa pistils er svosem ekkert merkilegra en efnisval á útvarpsrás.

Árið 2016 var haldið upp á að það voru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt. Ég tók það ekki og tek það ekki til mín að þær skyldu ekki  hafa fengið hann á sama tíma og með sama hætti og karlar. Það var þá og á ábyrgð annars fólks.

Margt hefur áunnist og ég fæ ekki betur séð, en konur á þessu landi á þessum tíma geti staðið, á heildina litið, við hlið eða framar körlum, alveg nákvæmlega eins og hugur þeirra stendur til. Það sama á við um karla, svona þegar á heildina er litið.
Barátta kvenna fyrir þessari stöðu hefur verið löng og ströng og að mestu skiljanleg.

Hvað um það. Árið 2016 var árið sem minnst var 100 ára kosningaréttar  kvenna. Það var gert með ýmsum hætti eins og gengur.  Ég var búinn að fá upp í kok af dagskrá fjölmiðla, sérstaklega á RUV, sérstaklega Rásar1 (Rásinni þar sem ég, aldurs míns vegna, finn helst eitthvað sem höfðar til mín). Ekki opnaði ég fyrir þá rás öðruvísi en þar væri verið að fjalla um aumingja konurnar, hvað þær ættu nú bágt í þessum heimi þar sem karlar hafa völdin og hafa sett upp glerþök og glerveggi til að halda þeim á viðeigandi stað.  Allt sem stendur í vegi fyrir því að konur fái að njóta sín og vera þær sjálfar, eru víst karlar.

Eftir að hafa, með fjórðungi úr eyra, hlustað á kvartanir yfir þeirri valdníðslu karla og ofbeldi sem á að vera ástæðan fyrir bágri stöðu kvenna, allt árið 2016, hugsaði ég sem svo, að þegar árið 2017 gengi í garð, myndi komast eitthvert jafnvægi á. En það hefur ekki gerst: áfram heldur þessi "væll" um bága stöðu kvenna, sem er körlum að kenna.  Þetta gengur svo langt, að ég er farinn að leita á aðrar rásir frekar, jafnvel "Lindina" frekar en Rás 1.

Þegar hér er komið reikna ég með að einhver lesenda sé þegar farinn að hita fingurna fyrir lyklaborðsásláttinn. Farinn að tína fram orðin sem hægt væri að nota um svona karlrembusvín eins og mig. Farinn að tína til orðin sem lýsa mér og skoðunum mínum, orð eins og "staðalmyndir". 

Í framhaldi af hér að ofan skrifaðri bunu vil ég segja þetta:

Konur, gerið nákvæmlega það sem ykkur langar að gera. Gerið það, en hættið þessum endalausa orðaflaumi um það. 
Fjandinn fjarri mér, að það skipti mig máli eða að ég sé eitthvað mótfallinn því. 

Ef ykkur langar að fella "karlavígi", þá skuluð þið bara gera það. Kynsystur ykkar gegna æðstu embættum meðal þjóðríkja og standa sig alla jafna engu síður en karlar í þeim hlutverkum. Þar héldu engin "glerþök". Kynsystur ykkar eru í forystu stjórnmálaflokka, í æðstu embættum, stýra menntastofnunum, hafa nánast alvald í grunn- og leikskólum.
Kynsystur ykkar eru vélvirkjar, rútubílstjórar, leiðsögumenn, framkvæmdastjórar, bankastjórar, sjómenn. Er eitthvert vígi eftir?

Ef ykkur langar að vera eins og karlar, þá skuluð þið bara gera það. Er einhver sem neyðir ykkur til að klæða ykkur eins og konur hafa klæðst og/eða klæða sig? Er einhver sem neyðir ykkur til að raka á ykkur fótleggina? Er einhver sem bannar ykkur að vera með skegg, eða skalla, eða hrjúfa húð á andlitinu?
Gerið bara nákvæmlega eins og ykkur finnst best henta ykkur.
Ef þið teljið eitthvað hamla ykkur í lífinu, brjótið það þá niður.
Hefur ykkur dottið í hug að vandinn geti legið hjá ykkur sjálfum, frekar en körlum?
Getur það verið að stór hluti kvenna vilji bara vera konur, sjái ekki tilgang í því að reyna að vera eins og karlar og finnist það bara ekki eftirsóknarvert (staðalmyndir)?

Getur það verið að þetta snúist að stórum hluta um ykkur sjálfar? Viljið þið kannski að karlar eða aðrar konur komi til ykkar og færi ykkur allt á silfurfati? Þurfa ekki allir að hafa fyrir hlutunum?
Eigum við ekki öll að fá að vera eins og við erum?
Ykkur finnst kannski að grasið sé eitthvað grænna þarna hinumegin, þar sem typpið er?

Bæði kynin hafa sína djöfla að draga og bæði kynin búa við ýmsa kosti, sem eru bara þeirra. Sjálfsagt er enn talsvert í land með að karlar og konur gangi á þessari jörð sem algerir jafningjar á öllum sviðum. Kannski næst það aldrei fyllilega, einfaldlega vegna þess að þarna er um að ræða tvö kyn sömu spendýrategundar, sem náttúran hefur úthlutað mismunandi eiginleikum og er eitthvað að því?

Ef þið hættið að fella mig inn í einhverjar "staðalmyndir" og hættið að kalla mig nauðgara og ofbeldismann, þá er ég bara sáttur.

Ef ykkur, ágætu konur, finnst að þið séuð órétti beittar, rísið þá upp, á eigin verðleikum og sækið það sem ykkur ber.  Það eru mistök, að mínu mati, að kalla eftir réttindum til handa konum með því að tala út í hið óendanlega um hversu bágt þær eiga vegna mannvonsku karla.  Ég vil nú halda því fram, að bágindi þeirra séu síst meiri en karla. Líklega öðruvísi, en hreint ekki meiri. Ég ræð ykkur að skoða fyrirmyndirnar sem hvarvetna blasa við, og fara síðan þangað sem þið viljið.

Við erum öll mismunandi og engin leið að ætla að setja alla í einhvern einn flokk. Bæði yrði það skelfilega leiðinlegt og litlaust líf, og myndi sennilega ekkert bæta í þessum heimi okkar.

Hér með fer ég fram á það, að þættir um kúgun kvenna verði eingöngu á RÁS 1 einu sinni í viku.

Svo bæti ég því við að ég mun með engum hætti bregðast við athugasemdum við þennan pistil nema einhver troði mér inn í einhverja "staðalmynd".

Ég vona að ef einhver kýs að tjá sig með einhverjum hætti um þetta efni, þá geri hann það á eigin forsendum og málefnalega.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...