10 júní, 2017

Forsetaheimsókn í máli og myndum

Í gær var tekið á móti Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni í Bláskógabyggð. Um heimsóknina verður vísast fjallað annarsstaðar.  Forsetinn kom í Laugarás, ásamt konu sinni Elízu Reid og heilbrigðisráðherranum Óttarri Proppé. Tilefnið var undirritun samnings um Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð.
Þessi heimsókn í Laugarás fór nú ekkert sérlega hátt og ekki mikill mannfjöldi á staðnum, en þetta var samt hin ágætasta viðkoma þjóðhöfðingjans og heilbrigðisráðherrans.
Þarna hafði ég reyndar hlutverk, sem fólst í því að renna yfir sögu heilsgæslu á svæðinu. Til þess voru mér ætlaðar 5-10 mínútur, en það má telja fremur knappan tíma, en reyndist niðurskurður efnis fremur strembið verkefni.
Úr því ég lagði í þessa vinnu, birti ég hér það sem ég þarna hafði fram að færa, auk ýmissa þátta, sem ég sleppti, tímans vegna.

Hlekkur á myndir frá heimsókn í Laugarás og Aratungu

Sigurjón Kristinsson, Anna Ipsen og forsetahjónin
Saga læknisseturs/ læknasetur og heilsugæslu í Laugarási hefur ekki enn verið skrifuð nema að hluta, en Bjarni Harðarson, sem á hér rætur,  birti ágæta samantekt í riti Sögufélags Árnesinga fyrir rúmum 20 árum.
Ég ætla að stikla á stóru í samantekt Bjarna og bæta við eftir því sem mér finnst hæfa.

Laugarás er ekki sérstaklega þekktur sögustaður, enda hefur staðurinn staðið í  skugga Skálholts frá fyrstu tíð. Líklega er eitt það merkilegasta sem nefnt hefur verið um staðinn, að hér lést Ketill biskup Þorsteinsson í laug árið 1145. 
Þá hefði verið gott að hafa lækni á staðnum.
Laugin er ófundin en leit stendur yfir.

Það má halda því fram, að heilsugæsla hafi hafist í Laugarási með Guðmundi Vigfússyni hómópata (smáskammtalækni) 1883, en þá keypti hann jörðina og bjó hér fram að aldamótum. Hann hvarf þá á braut, en átti jörðina til 1917, en þá keypti hana Guðmundur Þorsteinsson, sonur Þorsteins bónda í Höfða og Guðrúnar Guðmundsdóttur, konu hans. Guðmundur var móðurbróðir Guðrúnar Víglundsdóttur, en hún bjó í Höfða til 1980.

1875 var stofnað með lögum læknishérað Árnessýslu, en 1896 var settur læknir í aukalæknishéraði Árnessýslu með aðsetur á Kiðjabergi í Grímsnesi. 
Magnús Ásgeirsson var skipaður í embættið. Hann þjónaði því svæði sem nú kallast alla jafna uppsveitir Árnessýslu.

1899 var Grímsneshérað stofnað og fyrsti læknirinn var Skúli Árnason. Hann tók Skálholt á leigu og var þar með heilmikinn búskap til 1927 og gegndi stöðu héraðslæknis til 1921.
Þegar hann lét af störfum þurfti að finna stað fyrir læknissetur og Laugarás varð fyrir valinu, enda landfræðilega miðsvæðis.
Jörðin var keypt af Guðmundi Þorsteinssyni fyrir 11000 krónur. Hann mun hafa fengið bakþanka og reynt að rifta sölunni þear honum hafði verið bent á að líklega væri mikið verðmæti í jarðhitanum.  
Á fjárlögum 1922 fékk  Sýslunefnd Árnessýslu kr.10.000, til kaupa á Laugarásjörðinni. Í ræðu sem Jón Eiríksson í Vorsabæ flutti 1977 segir að framkvæmdanefndin, sem oddvitar uppsveitahreppanna höfðu valið til að gera tillögu að jarðakaupum, hafi keypt LAugarásjörðina á kr. 11.000. Ekki kemur fram hvaðan það fé er komið, en hafi það komið úr ríkissjóði í gegnum sýslunefnd Árnessýslu, sýnist mér líklegt að uppsveitahrepparnir hafi lagt fram kr. 1000 af þeim 11000 sem jörðin kostaði.
Það var einn hængur á þessari staðsetningu læknisseturs. Það var engin brú  á Hvítá milli Ölfusárbrúarinnar við Selfoss og Brúarhlaða, en við Brúarhlöð hafði verið sett bráðabuirgðabrú vegna konungskomunnar 1907. 
Það kom ekki akvegur milli Laugaráss og Spóastaða fyrr en 1931. Til að komast yfir Hvítá að öðru leyti, þurfti að nota ferju og við Laugarás voru tvær lögferjur. Milli Skálholtshamars og Iðuhamars, þar sem brúin stendur nú og við Auðsholtshamar.

En Laugarás var keypt og fyrsti læknisbústaðurinn var hús sem hafði verið byggt vegna konungskomunnar 1907, við Geysi.  Það var tekið niður og flutt í Laugarás. Það var bárujárnsklætt að utan en panilklætt að innan. Flutningarnir fóru fram í kalsarigningu og panillinn verptist. Þetta hús hun ekki hafa reynst vel, var víst hálfgerður hjallur, en var samt  eitt af fyrstu húsum hér á landi sem hitað var með hveravatni.
Á síðari hluta fjórða áratugarins var byggt hús á tveim hæðum þar sem læknirinn bjó á efri hæðinni og læknastofa á þeirri neðri.
Þannig var þetta til 1966 þegar tekin var í notkun sambyggð heilsugæslustöð og læknisbústaður hér í Launrétt . Enn var bara einn læknir starfandi og hann sá um alla læknisþjónustu á svæðinu auk þess að reka lyfsölu. 

1970 höfðu umsvifin aukist, ekki síst vegna byggingaframkvæmda við Búrfell. Þá var ákveðið að bæta við lækni og hjúkrunarfræðingi og byggja annan læknisbústað. Einnig var byggt við lækningaálmu heilsugæslustöðvarinnar.  Þar var hinsvegar ekki aðstaða nema fyrir einn lækni í einu
Frá því á fyrri hluta áttunda áratugarins hafa starfað hér tveir læknar í senn.
  
1997 var þetta húsnæði síðan tekið í notkun og gerbreytti allri aðstöðu heilsugæslunnar, auk þess sem hér er starfsstöð velferðarþjónustu Árnesþings. Gamla heilsugæslustöðin hýsir nú lyfsölu.

2004 var heilsugæsla hér flutt undir hatt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og ekki er því að neita, að það skapaði hér ákveðinn ótta við að þar með færðist læknisþjónusta í uppsveitunum í auknum mæli á Selfoss.
Nú er meiri ástæða en oft til að efla frekar en draga úr.
Íbúarnir á svæðinu voru tæplega 2000 þegar fyrsti læknirinn tók til starfa 1922. Nú eru þeir rétt um 3000.
Það má segja að það sé aðallega þrennt sem kallar á að vel verði haldið á spöðunum hér í uppsveitum:
-          nú eru ríflega 7000 frístundahús á svæðinu, en þeim hefur hefur fjölgað um 3000 á síðustu 20 árum.
-          fjöldi ferðamanna er vel á aðra milljón á ári og þeir leggja hingað leið sína í stórauknum mæli allt árið
-          miklu meiri kröfur fólks til heilsugæslunnar.
  

Læknarnir í Laugarási. 

Það má segja að við höfum verið afar heppin með lækna, svona á heildina litið.
Óskar Einarsson
1922 var Óskar Einarsson skipaður læknir. Þá var ekki búið að ljúka húsbyggingu og til að byrja með var hann með aðsetur í Birtingaholti.
Óskar staldraði stutt við, eða til hausts 1924.  Hann „...., þoldi ekki ferðalög á hestbaki í þvi stóra héraði,...“. – segir í minningargrein um hann.
„Það stóra hérað" er milli 7 og 8000 ferkílómetrar (líklega ríflega 2000 ferkílómetrar í byggð), ívið stærra en hin danska eyja Sjáland.

Við af Óskari tók Sigurmundur Sigurðsson sem var hér í ein 7 ár. Hann barðist fyrir lagfæringum á húsinu. Eftir hann tók Ólafur Einarsson við. Hann starfaði hér í ein 15 ár og tók slíku ástfótri við staðinn að hann byggði hér sumarhús og var hér sumargestur með fjölskyldunni svo lengi sem hann hafði heilsu til.
  
Ólafur H. Einarsson
Sigurmundur Sigurðsson
Knútur Kristinsson
1947 kom Knútur Kristinsson til starfa og stóð við 8 ár á eftir honum Jón G, Hallgrímsson  í tvö ár.  Hann hvarf á braut þrem mánuðum áður en ný brú á Hvítá var tekin í notkun.
Grímur Jónsson varð fyrsti læknirinn í Laugarási sem komst í vitjanir yfir Hvítá á jeppanum sínum, sem var um skeið  Austin Gypsy, sem okkur sumum fannst algjör drusla í samanburði við Land Rover.
Í desember 1957, fyrir 60 árum, var brúin opnuð og með tilkomu hennar breyttist afar margt.
Grímur var hér í 10 ár.
Konráð Sigurðsson var næstur, en hann var síðasti læknirinn til að gegna héraðinu einn. Hann var hér að mestu frá 1967- 1983. Guðmundur Jóhannsson var ráðinn með Konráð 1973 og var hér í um 10 ár.
  
Jón G. Hallgrímsson
Grímur Jónsson
Konráð Sigurðsson
Guðmundur B. Jóhannsson
Eftir það hófst lengsti og ég vil segja farsælasti tíminn í sögu heilsugæslu í uppsveitunum með því Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson komu á svæðið.  Þeir störfuðu hér frá byrjun 9. áratugarins, þar til þeir létu báðir af störfum vegna aldurs á síðasta ári, eða í rúma þrjá áratugi.

Hvað sem má segja um þróunina úr húskofa sem hélt varla vatni eða vindum í glæsibyggingu eins og þessa, þá stendur það eftir sem lýtur að mennskunni í þessu öllu saman.  
Læknir er ekki betri eða verri læknir vegna þeirra aðstæðna sem hann býr við.
Það er manneskjan sem gerir gæfumuninn.
Læknirinn fæst við fólk, oft á erfiðustu og viðkvæmustu augnablikum lífsins. 
Læknir sem býr meðal okkar, þekkir okkur, deilir kjörum með okkur, skilur okkur, leggur sig fram í þágu okkar. Það er læknirinn sem við viljum hafa.  Við höfum lengst af notið þess að hafa lækna af þessu tagi. Þannig viljum við auðvitað að því verði háttað áfram.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...