Sýnir færslur með efnisorðinu frásögn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu frásögn. Sýna allar færslur

01 apríl, 2017

Laugarás hvelfingin

Skrifa myndatexta
Þessi pistill átti rétt á sér þann 1. apríl, 2017, en hefur nú tapað tilgangi sínum. Hann mun hafa verið ótrúlegri en svo að nokkrum manni hafi dottið í huga á mæta á fundinn sem boðað var til.  
Hugmyndin að hvelfingu yfir Laugarás er ekki ný, en Páll Dungal, garðyrkjubóndi í Ásholti í Laugarási varpaði henni fram á sínum tíma. Hann átti það til a hugsa út fyrir kassann.

Það hefur ekki farið framhjá Laugarásbúum, að eitthvað mikið stendur til á sláturhúslóðinni. Stór hluti sláturhússins hefur verið rifinn, mikil girðing hefur verið sett upp umhverfis lóðina og beltagrafa er búin að athafna sig á svæðinu vikum saman. Gríðarlegir haugar hafa hlaðist upp og grafan hverfur smám saman ofan í hyldýpis skurð.  Sú saga hefur gengið meðal fólks, að þarna eigi að rísa hótel, en fregnir hafa verið afar óljósar og allar upplýsingar sem komið hafa fram hafa reynst stangast á. Þetta hefur leitt hugann að því að ef til vill sé þarna ekki allt sem sýnist.
Í morgun  þegar ég opnaði póstinn minn sá ég að mér hafði borist póstur frá einhverjum sem augljóslega vildi ekki að á hann yrðu borin kennsl. Í þessum pósti voru eftirfarandi upplýsingar:
Dear Mr. Skulason
This is not spam. I feel compelled to provide you with this information. Laugaras is about to become the center of some operation of a huge scale, involving well known Icelandic businessmen. I'm sorry I can't give you more details, but if you follow the  link you will find out more. You will only be able to use the link once, after that it will become unresponsive.
www. HMS1911705719PH2201603789BTB1903673479HS251167ÓÓ2301575619FI0808543829.eu
Best wishes
Anonymous
Ég var afar hikandi, en ákvað samt að taka áhættuna af því að smella á hlekkinn. Það sem þá blasti við mér var eiginlega of rosalegt til að þegja bara yfir því. Það er ástæða þess að ég greini hér frá þessu.  Risafjárfestar hafa tekið saman höndum og virðast ætla að byggja risavaxna hvelfingu yfir Laugarás. Þegar maður skoðar  þetta nánar fellur ýmislegt í einhverjar skorður og ýmis mál taka að skýrast. Þessi helst:
1. Þar sem nú er grafið í sláturhúslóðinni á að koma ein stoðin undir hvelfinguna, en ekki hótel eins og talið hefur verið.

2. Óvenju mikið hefur verið um mannaferðir eldsnemma á morgnana hér efst í holtinu fyrir ofan Kvistholt, en þar virðist, samkvæmt teikningunni, eiga að reisa miðjufót hvelfingarinnar.

3. Nánast öll hús eða býli sem seld hafa verið í Laugarási undanfarin allmörg ár, hafa verið keypt undir því yfirskini að þar ættu að vera frístundahús.

4. Sveitarfélögin sem eiga Laugaráslandið enn, að nafninu til, hafa smátt og smátt verið að snúa baki við þessari eign sinni.

5. Viðhaldi á opinberum svæðum hefur verið mjög ábótavant.

6. Símasamband við þorpið reynist mjög stopult og kvartanir íbúa fá lítinn hljómgrunn.

7. Íbúar í Laugarási til margra ára, eru byrjaðir að hugsa sér til hreyfings. Síðast í gær birtist auglýsing um garðyrkjubýli sem er til sölu. Þessi auglýsing er auðvitað bara formsins vegna, enda ljóst að núverandi íbúar munu ekki kemba hærurnar í þessu þorpi í skóginum.

Hér býr eitthvað undir, sem ekki má þegja um.  Því er boðað til íbúafundar í dag kl. 15:00 í Slakka þar sem þetta mál verður til umræðu og vel kann að vera að einhver viti meira en aðrir og geti upplýst um það sem þarna virðist vera framundan.

Fjölmennum á fundinn í Slakka.

Kvistholti 1. apríl, 2017
Páll M. Skúlason

ps. ég velti lengi fyrir mér hvort einhver merking fælist í hlekknum sem leiddi mig að áformunum sem uppi virðast vera. Ég tel mig geta séð út frá honum hverjir það eru sem standa að þessum fyrirætlunum. Nánar um það á fundinum.


Mögulegt útlit hvelfingarinnar.




26 mars, 2017

"Við vorum ekkert hræddar"

Við skelltum okkur á leiksýningu nemenda Menntaskólans að Laugarvatni í Aratungu í gærkvöld, ég og tvær sonardætur: Júlía Freydís (8) og Emilía Ísold (5).  Þær fengu að sitja á fremsta bekk, en ég kom mér fyrir aftast, með EOS-inn í næsta nágrenni við fólkið sem stýrði ljósum, hljóði og tónlist.
Þá er ég búinn að setja upp aðstæðurnar.

Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að setja mig á einhvern hest, sem leiklistargagnrýnanda og geri það ekki heldur hér, en auðvitað tek ég mér það bessaleyfi, að hafa skoðun samt.
Ég fékk fljótlega á tilfinninguna, að leikstjórnini væri mjög fagmannleg, enda vanur maður, Guðjón Sigvaldason, sem sá um þann mikilvæga þátt. Sviðssetningin var öll hin ágætasta.

Það þekkja nú flestir söguna um Konung ljónanna, hann Simba, foreldra hans, vini og þann hættulega heim sem hann fæddist inn í og því fjalla ég ekkert um söguþráðinn.

Hvernig komu ML-ingarnir þessu svo frá sér?
Sonardæturnar og önnur börn sem þarna voru, en þau hafa verið 20-30, voru greinilega þeirrar skoðunar, að  vel væri gert. Hópurinn sat kyrr í sætum sínum allan tímann og lifði sig inn í verkið. Gerði stundum athugasemdir, hló og klappaði.  "Mér fannst Skari, skemmtilegastur og svo var hann líka góður leikari með góða rödd", sagði önnur sonardóttirin í leikdómi sínum. "Stelpuhýenan er góður leikari, hún er svo falleg", sagði hin.  Þær eru búnar rifja upp atriði úr verkinu, hafa jafnvel brostið í sönginn "Hakuna Matata". við og við.

Aparnir voru einstaklega apalegir og hýenurnar fáránlega hýenulegar, gnýirnir gný(s)legir. Jamm, dýrin sem birtust á sviðinu voru bara sérlega dýrsleg.

Það sem ég tók eftir, standandi aftast í salnum, var hver framsögnin var skýr. Það er ekki sjálfgefið á þessum tímum, þegar maður heyrir ungt fólk oft tala álíka skýrt og Gettu betur keppndur í hraðaspurningum.  Svei mér ef ég heyrði ekki hvert orð sem barst frá sviðinu.
Framsögnin var líka afar eðlileg, lifandi og tjáningarrík við hæfi.

Ég gæti alveg farið að fjalla um frammistöðu einstakra leikenda. Ég sé engan tilgang með að fara að reyna að gera þar upp á milli, Langflestir stóðu sig með afbrigðum vel og skólanum er sómi að því að sýna myndina sem þarna birtist af hæfileikaríkum nemendum hans.





Nú skuluð þið, lesendur góðir, drífa ykkur á sýningu í nágrenni við ykkur, en Konungur ljónanna verður sýndur sem hér segir:
Sun. 26 mars kl. 14:00 í Aratungu, Reykholti
Þri. 28. mars kl. 20:00 í Þingborg
Mið. 29. mars kl. 20:00 í Félagsheimili Seltjarnarness
Fös. 31. mars kl. 20:00 í Hvoli, Hvolsvelli
Lau. 1. apríl kl. 16:00 í Hvoli, Hvolsvelli 
Sun. 2. apríl kl. 19:00 í Leikskálum, Vík

Sonardæturnar vilja fara aftur og hyggjast reyna að fá foreldra sína með.



FLEIRI MYNDIR - ef vill

18 mars, 2017

Um miðjuna á mannslíkamanum

Ef ég væri kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim. En þó fD sendi stundum frá sér vísbendingar um að ég þurfi, í það minnsta að fara að láta mæla í mér heyrnina, hefur ekki komið til þess enn, og þó svo votti fyrir stöðugu suði, þá heyri ég bara alveg ágætlega. Það skal enginn mótmæla því.
En væri ég kominn með heyrnartæki, hefði ég slökkt á þeim um tíma í gærkvöld.

Við vorum á samkomu, þar sem meirihluti gestanna var á aldrinum 16 ára til tvítugs, en síðan nokkur fjöldi árabilinu frá því um þrítugt og vel fram á áttræðisaldur. Ég tilheyri þessum síðarnefnda hópi.

Þetta var glæsileg samkoma og mikið í hana lagt, allir í sínu fínasta pússi, forréttur, aðalréttur og eftirréttur og allt það.  Þegar haldnar eru vandaðar samkomur af þessu tagi er venjan að fá veislustjóra til að halda utan um dagskrána og fara með gamanmál, eins og sagt var eitt sinn,

Þarna var sem sagt veislustjóri. Kyn hans skiptir ekki máli í þessu samhengi. Hann hélt utan um dagskrána. Hann stóð sig bara nokkuð vel í þeim þætti starfs síns.

Undir rós eða ofan á
Ekki þykist ég ætla að vera sá sem veit allt um hvernig gamanmál veislustjóra eiga að vera. Veit bara hvernig ég vil hafa þau, þannig að mér sé skemmt. Gamanmálin mega gjarnan fara út á jaðar þess sem boðlegt er, þau mega gjarna varpa í hugann myndum sem fá hláturinn til að ískra í manni, þau mega fela í sér einhvern snúning sem fær mann til að skellihlæja vegna þess hve sniðug þau eru, þau mega jafnvel fela í sér orð sem alla jafna eru ekki sögð. Það sem þau eiga að fela í sér er ákveðin hugsun, eitthvað sem búið er að pæla í og setja síðan saman þannig að gaman geti verið að.

Það var þarna sem veislustjórinn kallaði fram þá tilfinningu hjá mér að það væri betra að vera með heyrnartæki, svo ég gæti bara slökkt á þeim. Í staðinn sat ég þarna, sem dæmdur, starði á dúkinn og fitlaði við borðskrautið. Ég hugsaði sem svo, að gamanmálum veislustjórans væri ekki beint að mér og minnihlutanum sem ég tilheyrði og þar með væri þetta í raun ekki mál sem kom mér mikið við. En ég var þarna og gat ekki annað, úr því sem komið var - heyrnartækjalaus.

Hingað til hef ég ekki talið mig vera neina tepru og hef verið tilbúinn í hitt og þetta án þess að fella um það dóma.

Þegar maður les skáldsögu reynir á ímyndunaraflið. Textinn birtist manni og það verða til myndir í höfðinu af persónunum, umhverfinu, samskiptunum og tímanum.  Maður sér kvikmynd í höfðinu, sem rennur í rólegheitum fyrir hugsskotssjónum manns.  Textinn er þarna handa lesandanum og hver og einn túlkar hann á sinn hátt.
Veislustjórinn skildi ekkert eftir fyrir ímyndunaraflið, en birti áheyrendunum nákvæma sýn á allt það sem gerist á miðju mannslíkamans, hvort sem var aftan á þeim hluta líkamans, framan á eða neðan á. og það var það eina sem hann hafði fram að færa sem gamanmál - svona nokkurn veginn.

Hann hefði getað gert þetta svo miklu betur og mér er til efs að gamanmál af þessu tagi sé það sem helst höfðar til ungs fólks. Jú, sannarlega hlógu þau. En fannst þeim þetta fyndið?

28 febrúar, 2017

Einn af þeim

Þetta er reyndar ekki ég, heldur bara einhver kennari
í eldri kantnum.
Ég er einn þeirra kennara sem eru að stíga af sviðinu þessi árin.
Ég byrjaði í þessum bransa haustið 1979, eftir að hafa lokið tilskildu námi í sérgrein minni í háskóla, auk þess að leggja stund á uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda.
Allt í lagi með það.
Ég var tiltölulega ákveðinn í því að kennari skyldi ég verða. Í 30 ár gekk það síðan svo, að á nánast hverjum virkum degi hvern vetur þurfti ég að vera klár í slaginn, hvernig sem á stóð. Klár í slaginn þýddi auðvitað að ég þurfti að vera undirbúinn fyrir það sem dagurinn myndi bera í skauti sér. Ég þurfti að reyna að vera búinn að sjá fyrir hvernig mismunandi hópar brygðust við því ég bar á borð fyrir þá. Ég hafði lært kennslufræði, sem gerði ráð fyrir því að nemendur væru alltaf tilbúnir að ganga í takt við það skipulag sem ég setti upp.
Það komu tímar þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að kennsla væri ekki starf við mitt hæfi, velti því fyrir mér hvern andsk. ég væri búinn að koma mér út í. Það komu tímar sem ég naut starfsins og fannst ég vera að gera gagn.

Ég hóf þennan kennsluferil minn fyrstu sex árin í grunnskóla. Undir lok þess tíma var ég orðinn talsvert þreyttur á því hve stór hluti tíma míns fór í að sinna öðru í kennslustundum en starfinu sem ég var ráðinn til að sinna. Agastjórnun hefur aldrei verið meðal uppáhaldsverkefna minna og því greip ég tækifærið þegar það baust og flutti mig yfir á framhaldsskólastigið. Það gerði ég haustið 1986.

Veturinn sá leið eins og í þoku og ég veit raunar ekki enn hvernig mér tókst að halda andlitinu í stórum dráttum. Þennan fyrsta vetur kenndi ég 37 tíma á viku, efni sem ég hafði aldrei kennt áður. Daganir liðu þannig að eftir að hafa kennt átta til níu tíma, þurfti ég að taka til við að undirbúa næsta dag, útbúa verkefni og fara yfir verkefni. Á þessum tíma var skóli annan hvern laugardag og það má segja að ég hafi verið í fríi annan hvern laugardag. Aðrir dagar voru vinnudagar.
Því get ég ekki neitað að þennan vetur komu þeir tímar að mig langaði að leggja upp laupana.
Ég gerði það ekki og næsti vetur var heldur viðráðanlegri þar sem undirbúningurinn frá þeim fyrsta nýttist, kennslustundafjöldinn breyttist ekki. Síðan varð þetta smám saman auðveldara og viðráðanlegra og það hlýtur að hafa gengið sæmilega úr því ég hélt mig við þetta starf í 30 ár, en árið 2010 hætti ég að kenna og hef meira og minna setið við tölvur síðan.

Ég held að í augum nemenda hafi ég að stærstum hluta talist þolanlegur, sumir veit ég, voru bara nokkuð ánægðir við mig, en aðrir áttu erfitt með að láta sér lynda við mig.  Mér sjálfum fannst ég mistækur, það komu tímar sem mér fannst ég vera fæddur í þetta starf og síðan aðrir tímar þar sem ég nánast ákvað að hætta eftir veturinn.

Það sem ég tel vera jákvæðast við kennslustarfið er samskipti við ungt fólk á hverju einasta ári. Mér fannst ég aldrei fá tækifæri til að eldast, var alltaf í einhverskonar sambandi við það nýjasta á hverjum tíma, eins viturlegt að það var nú oft.  Ég fann það fljótt eftir að ég hætti kennslunni og fór að fylgjast meira með svona utanfrá, að ég missti taktinn við unglingana og fór frekar að beina sjónum annað.

Það versta við kennarastarfið voru stærstan hluta starfsferilsins, hörmulega léleg laun.  Þó þau hafi skánað talsvert held ég að ef á að takast að særa metnaðarfullt fólk inn í kennarastéttina, þurfi launakjör að batna enn frekar. Ef fólk leggur í 5 ára háskólanám þá þarf eitthvað að bíða sem er þess virði. Hugsjón er ágæt í sjálfu sér, en hún verður ekki sett á matarborðið.
Ég ímynda mér síðan aðra ástæðu fyrir lítilli aðsókn í kennaranám, en hún snýr að agaleysi í samfélaginu og bjargaleysi kennara til að takast á við það.

Svo er auðvitað þessi eilífi sannleikur, að annaðhvort er fólk kennarar í eðli sínu eða ekki. Ég hef unnið með sprenglærðum kennurum sem hafa ekki ráðið við starfið  og réttindalausum kennurum sem hafa fallið við það eins og flís við rass - og allt þar á milli.   Það er ekki lengd námsins sem ákvarðar hæfni kennarans heldur eðliseiginleikar hans.

16 febrúar, 2017

Túristi í 101

fD í hlutverki sínu.
Það er búið að búa til ákveðna "staðalmynd" (leiðinlegasta og þvældasta orð sem til er í íslensku, að mínu mati) af erlendum ferðamönnum á Íslandi. Klæðnaður þeirra felst í prjónahúfu með dúski og eyrnaskjóli, úlpu og vindbuxum frá 66°, með myndavél og borgar- eða landakort.
Svona er erlendi ferðamaðurinn, svona var okkur sýndur hann á leiksýningunni í Borgarleikhúsinu sem var hluti helgardagskrár okkar fD um liðna helgi.

Þannig var það, að í tilefni af helgardvöl í höfuðborginni, eða borg óttans, eins og einhverjir kjósa að kalla Reykjavíkurborg, var það gert af einum liðnum í dagskránni, að leyfa okkur að líða um stræti hins víðfræga hverfis sem kallast oftast 101, þar sem latte lepjandi borgarbúarnir vilja víst helst halda sig.
Síðast þegar við áttum þarna leið um var það til að mótmæla og auðvitað var full ástæða til.
Nú gerðumst við túristar. 
Áttum reyndar ekki húfu með skúf eða 66°N alklæðnað. Við áttum samt húfur, trefla og einhverja jakka - og auðvitað myndavél.
Í sem stystu máli féllum við afar vel í hópinn, enda ekki allir túristarnir með húfu með rauðan skúf, í peysu.
Leið okkar lá af Sóleyjargötu inn Fríkirkjuveg, þá Lækjargötu, upp Bankastræti, upp Skólavörðustíg, þar sem við heyrðum fyrstu íslensku orðin í ferðinni en hún kom úr munni afgreiðslumanneskju sem er af erlendu bergi brotin (eins og okkur finnst svo gaman að segja; maður sér þá fyrir sér Alpana eða klettana í Dover, eða Kákasusfjöllin, Alpana eða Kilimanjaro).
Íslenskan var samt betri en hjá mörgum þeirra sem þó eru af íslensku bergi brotnir, t.d. Vörðufelli, Esjunni eða Efstadalsfjalli.
Inn í Hallgrímskirkju þar sem áð var um stund.
Síðan var haldið niður Frakkastíg, þá Laugaveg, Bankastræti aftur, Austurstræti, (fish n´chips á sjúskuðum Hressó, "Table for two?" "Já takk, borð fyrir tvo" "Fyrirgefiði, það koma eiginlega bara útlendingar hingað").
"Ég hef aldrei komið í þetta fræga Hafnarhús" - nú auðvitað fórum við þangað (sjá hér).
Eftir þá reynslu lá beint við að fara í Kolaportið, en ég ætla ekki einu sinni að anda út úr mér fordómaflækjunni sem varð til í höfðinu á mér við þá reynslu.  Út, út, út!
Við tók Pósthússtræði og Austurvöllur, hljóður og mannlaus. Þar ættu að vera mótmæli alla daga, af nógu er að taka.  Þar stóð túristi með götukort og horfði í kringum sig.
Þegar við nálguðumst sagði hann: "Hey, you are a native. Could you....?" Þá var hann að tala við mann sem gekk fyrir aftan okkur, en ekki við okkur. Dulargerfið virkaði.   En, "native!". Í gamla daga var þetta orð notað um frumstæða ættbálka í svörtustu Afríku, ekki um hin göfugu þjóð sem byggir land elds og ísa. Svona breytist veröldin.

Tjörnin með máva- og álftager og einhver slatti af öndum.
Einhvernveginn er ekkert merkilegt að taka myndir af fuglum á Reykjavíkurtjörn. Fuglarnir virka á mann eins og ódýr leikmynd.

Svo var það eiginlega bara Fríkirkjuvegur, Fjólugata (þar sem húsin vinstra megin standa við Fjólugötu en húsin hægra megin við Sóleyjargötu.

Æ, hve ég var nú hvíldinni feginn eftir fjögurra klukkustunda túristaskap.

Aumingja, blessaðir erlendu ferðamennirnir.







06 febrúar, 2017

Hvernig var vírunum komið fyrir?

Ekki neita ég því, að oft velti ég því fyrir mér, hér áður fyrr, hvernig vírunum sem halda brúargólfinu á Iðubrúnni (Hvítárbrú hjá Iðu). Viti menn, rakst ég ekki á frásögn af því í Mogganum frá því í ágúst 1957, Þar voru á ferð þeir Sverrir Þórðarson, blaðamaður (handahafi blaðamannaskírteinis nr. 3) og Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.   
Ég birti hér umfjölllun þeirra.






GÓÐU DAGSVERKI LOKIÐ

Við Iðubrú er verið að leggja 12 burðarvíra sem vega 4,5 t. hver. Brúin opnuð í vetur

Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Þegar hlé var gert á smíði Iðubrúar, var lokið við að steypa báða turna hengibrúarinnar, beggja vegna hinnar straumþungu Hvítár. Eru turnarnir um 20 metra háir. Gera þurfti rammbyggilegar undirstöður, sem í fóru um 500 tonn af sementi og sandi, og í brúna eru nú komin um 70 tonn af steypustyrktarjárni. „Við komum hingað austur fyrir nær hálfum mánuði“, sagði Jónas Gíslason yfirsmiður og hófst þá undirbúningur að því verki, sem nú er verið að vínna þar, að koma fyrir burðarvírum brúarinnar. Verða þeir alls 12, sex hvorum megin. Er hver vír 3 1/8 tomma (8 cm) í þvermál.

Á vestari bakka árinnar er bækistöð brúarsmiðanna, og þar standa tjöld þeirra hlið við hlið og mötuneytisskáli með eldhúsi. Efni er geymt á þessum bakka árinnar, og þar standa t.d. nokkur stór kefli, sem burðarvírinn er undinn upp á. Er á hverju kefli nákvæmlega sú lengd, er með þarf til þess að strengja hann á milli akkeranna, sitt hvorum megin árinnar og er vírinn 173 metrar á lengd. Á hvorum enda er „skór", sem vírinn er fastur í, en skórinn er svo settur á tvær festingar í akkerinu, en síðan er hann festur með tveim heljaröflugum róm.

Vírinn dreginn yfir Hvítá

Við eystri bakka árinnar var allt tilbúið til að hefja vírdráttinn yfir er við komum. Fyrir aftan brúarturninn er togvinda. Frekar grannur stálvír er dreginn yfir ána á vestri bakkann og þar taka nokkrir ungir menn við honum og læsa í burðarvírinn.

Jónas gefur nú merki með handauppréttingu yfir á hinn árbakkann, um það að láta vinduna byrja að vinna. Strákar við vírkeflið hafa það verk með höndum að standa tilbúnir við bremsurnar. — Þetta eru handbremsur, tvö löng járn, sem þeir leggjast á þegar hægja eða stöðva þarf vírkeflið, og er það stálvir sem grípur utan um hjólin á keflinu. — Hraðinn gæti fljótt orðið óviðráðanlegur ef slíkir hemlar væru ekki hafðir á. Uppi yfir okkur — ofan á turninum — standa nokkrir menn tilbúnir við tvær nokkurra tonna krafttalíur til þess að taka á móti vírendanum.

Innan stundar er keflið farið að snúast hægt áfram og vírinn er lagður af stað upp á turninn. Við heyrum skarkalann frá vindunni á hinum bakkanum og drunurnar í loftpressunni, sem dælir lofti í vinduna. Vírendinn er kominn upp undir vinnupallinn mjóa, sem mennirnir uppi á turninum standa á og Jónas gefur stöðvunarmerki yfir ána meðan þeir uppi á stöplinum lyfta vírendanum upp á turninn og fara með hann yfir.

Við höfum orð á því við Jónas yfirsmið, að hann og menn hans séu heppnir með veðrið við þetta erfiða og vandasama verk, því ekki væri neinn öfundsverður af því að þurfa að vinna við þetta í hvassviðri og rigningu.

Kemst upp í vana

Það er satt, sagði Jónas, en það kemst ótrúlega fljótt upp i vana að vinna í nokkurri hæð, en að auki eru þessir menn allir þaulvanir orðnir slíkri háloftavinnu, því margir þeirra eiga að baki alllangan brúðarsmíðaferil En sjálfur þekkir Jónas manna bezt slíka vinnu, því hann hefur verið við smíði fjölda brúa, t. d á Selfossi, Þjórsárbrú og eins austur á Jökulsá á Fjöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Enn gefur Jónas merki og mennirnir uppi á turninum fyrir ofan okkur hafa komið vírnum yfir. — Nú liggur vírinn í hjóli, sem auðveldar dráttinn, en þann þyngist nú óðum. Vírendinn hefur farið alveg niður undir vatnsborðið. Úti yfir miðri ánni, sem er rúmlega 90 m breið, hækkar vírinn sig aftur í stefnu á turninn á vestri bakkanum. Nú fer hann rétt fetið áfram, því þyngslin aukast nú mjög, en vírinn vegur sjálfur 4.5 tonn.

Metdagur

Jónas sagði okkur að vírdrátturinn hefði gengið mjög vel þennan dag. Senn var kvöld og þetta var þriðji vírinn á einum og sama degi, sem þarna var kominn alla leið yfir. Það þykir gott að geta gengið frá tveim vírum á einum degi.

Jónas gaf strákunum á keflinu enn merki um að nema staðar. Hann hafði aldrei augun af vírendanum, sem nú var kominn upp að turnbrúninni á vesturbakkanum. Mennirnir, sem verið höfðu í turninum fyrir ofan okkur, voru nú komnir yfir ána til að taka á móti vírnum. Það tekur kringum eina klukku stund að draga vírinn á milli, en metið sögðu strákarnir okkur væri 57 mínútur. Er þá eftir að ganga frá vírunum í akkerunum, sem er erfitt verk og margar hendur þarf við með aöstoð handsnúinna spila, er lyft geta nokkrum tonnum. Það var gaman að sjá þetta verk unnið. Þarna var hver mað- ur á sínum stað og vissi nákvæm lega hvað hann átti að gera. Var þetta mjög vel skipulagður og samhentur vinnuflokkur, allt unnið fumlaust. Hann sagðist vonast til að vírarnir væru allir komnir upp á miðvikudaginn, þ. e. a. s. í gærkvöldi.
— Hvað liggur þá næst fyrir að gera?
Gekk Jónas nú með okkur þangað sem margir járnbitar lágu.
— Þetta eru þverbitarnir undir brúargólfið, sem hver vegur um 650 kg., 24 talsins. Það liggur næst fyrir að koma þeim fyrir í burðarjárnunum, sem aftur eru fest í vírana.
— Þá þurfið þið að fara út á þá?
— Jú, en það er eiginlega með öllu hættulaust, þvi strákarnir standa í kláfferju. Síðan verður svo langbitunum komið fyrir. Þeir eru ekkert smásmíði, þriggja tonna bitar, og síðan hefst smíði sjálfs brúargólfsins og verður það steinsteypt. Vona ég að hægt verði að opna brúna til umferðar í nóvembermánuði næstkomandi.

Hjá ráðskonunum

Að lokum þáðum við hressandi kaffisopa hjá ráðskonunum tveim, sem ýmist eru með mat eða kaffi handa vinnuflokknum, sex sinnum á sólarhring. Það er orðin nokkurra ára reynsla mín. að óvíða fæ ég eins gott kaffi og meðlæti og hjá ráðskonum vegavinnumanna, og þannig var það hjá þeim við Iðubrú. Strákarnir létu vel yfir fæðinu, en ráðskonurnar voru að matbúa kvöldmatinn, sem verða átti kjöt. Á olíukyntri eldavél, sem í eina tíð var sennilega kolavél, stóðu kjötkatlar og súpupottar.
- Þeir fengu saltfisk í dag, sagði önnur ráðskonan, en báðar sögðust þær kunna vel við sig eystra, og hafði önnur verið vestur í Dölum en hin uppi í Hvalfirði. Hún sagði að sér hefði þótt fallegt hjá Fossá, en þar var bækistöðin.
Við kvöddum Jónas Gíslason og menn hans. Einn strákanna ferjaði okkur yfir ána á vestri bakkann, þar sem bíllinn okkar stóð.

Skálholt — Hlöðufell

Ferjumaður sagði okkur að vinnuflokkurinn hefði ákveðið það skömmu eftir komuna austur, að flokksmenn skyldu nota einhvern sunnudaginn, sem ekki yrði farið til Reykjavíkur, til þess að ganga á Hlöðufell, en enn hefðu menn ekki gefið sér tíma til þess. Sumir hefðu ekki enn heimsótt hinn fræga stað helgi og sögu, Skálholt. Frístundirnar hafa farið í að „þjónusta" sjálfan sig, þvo galla, stoppa og annað þess háttar. Við erum ekki á förum héðan, og það gefast vafalaust tækifæri til þess að stunda fjallgöngur og koma í Skálholt, sagðí ferjumaðurinn um leið og hann ýtti kænunni fram í straumharða ána.

Þegar við gengum framhjá akkerinu voru brúarmenn þar að streitast við að festa níunda burðarvírinn fyrir Iðubrú og þann þriðja á sama degi. — Góðu dagsverki var senn lokið.

Sv. Þ.
Sverrir Þórðarson
Gunnar Rúnar Ólafsson

28 janúar, 2017

Minni kvenna - á minn hátt

Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fólk hefur matast og notið þess að syngja saman og fara með gamanmál.
Ég trúi því varla að það sé ég sjálfur sem skrifaði þetta. Ég, sem einu sinni sótti böllinn af engu minni krafti en aðrir á mínum aldri. Nú er bara öldin önnur  og einhvernveginn er maður þannig forritaður að hvert aldursskeið kallar á misjafnar kröfur til þess sem kalla má skemmtun.

Við fD ákváðum fyrir nokkru, að skella okkur á þorrablót eldri borgara í Aratungu, en það er alla jafna haldið viku eftir aðal þorrablótið, þar sem aðal fólkið er sagt að finna.  Við höfum farið nokkrum sinnum á þetta "ellibelgja blót" og hefur líkað ágætlega. Þetta hafa verið fremur lágstemmdar samkomur og ekki hefur skemmt fyrir þegar skemmtiatriði af aðalblótinu hafa fylgt með, en það er upp og ofan hvernig því hefur verið háttað - heldur lítið þessu sinni.

Hvað um það. Á miðvikudag fékk ég símtal frá formanni félags eldri borgara, Guðna Lýðssyni, þar sem hann fór þess á leit við mig að ég flytti minni kvenna á blótinu, þar sem ekki yrði um að ræða að endurflutt yrði það minni sem flutt var á aðalblótinu.  
Eftir talsverðar mótbárur varð það úr að ég gekkst inn á þetta, án þess að hafa hugmynd um hvernig hægt væri að fjalla um konur á svona samkundum án þess að fara yfir ásættanleg mörk. Ég huggaði mig við það, að þarna yrðu sennilega bara konur á aldur við mig, eða eldri, sem hefðu meira þol gagnvart því að "meðtaka lof og prís" úr munni manns á mínum aldri.
Hér fyrir neðan er síðan samsetningurinn, sem auðvitað er ekki hálfur án flutningsins. Mig grunar nú að margir þeirra um það bil 60 sem voru á blótinu í gærkvöld, hafi hreint ekki skilið hvað ég var að fara oft á tíðum, en svoleiðis er það bara.

Þorrablót eldri borgara föstudag 27. janúar, 2017

Ágætu konur og aðrir gestir

Ég hef mikið hugsað um það hvernig ég get mögulega nálgast þetta viðfangsefni, svona miðað við allt og allt. Ég var á tímabili að hugsa um að hringja í Guðna og tjá honum þá niðurstöðu mína að ég treysti mér ekki í verkið. Augljóslega gerði ég það ekki og tel mig sýna af mér heilmikinn hetjuskap með því að standa hér nú, á þorra árið 2017 og mæla fyrir minni kvenna.

Fósturlandsins Freyja, fagra Vanadís
Móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár
Þú ert lands og lýða, ljós í þúsund ár.

Svona tjáði Matthías Jochumsson virðingu sína fyrir íslensku konunni fyrir vel á annað hundrað árum.
Enn syngjum við karlarnir þennan texta Matthíasar á þorrablótum. 
Vitum við allir hvað við erum að syngja eiginlega? Hvernig túlka nútímakonur þennan fallega og vel meinta texta? Ég held að þær séu bara sáttar – eða vona það, í það minnsta.

Eftirfarandi er skoðun ritstjóra barnablaðsins Sólaldar, árið 1918, en hann var karlmaður:
Matthías Jochumsson orti þetta um íslenzka kvenfólkið; um íslenzku mömmurnar, íslenzku konurnar, íslenzku stúlkurnar, og engin þjóð á til eins fallegt erindi um kvenfólkið sitt. Þið eigið öll að læra þetta erindi og kenna það hinum börnunum.
------- 
Við eigum að vita að Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Við vitum ef til vill síður, að Vanadís er annað nafn á Freyju, en hún tilheyrði þeim flokki goða sem kallast Vanir, hinn flokkurinn er Æsir.

Annað það sem fram kemur í textanum sem sunginn verður á eftir, læt ég liggja milli hluta, enda er þarna um að ræða orð Matthíasar og hann þar með ábyrgur fyrir þeim.

Ég get glaður tekið undir þau öll, en er hinsvegar alveg tilbúinn að draga stuðning minn við innihald vísunnar til baka, telji Freyjur nútímans orðavalið ekki við hæfi þar sem það dragi upp aðra mynd af konum en þær geta sætt sig við.

Ætli sé ekki best að ég fari að byrja á minninu – MINNI KVENNA.

Það get ég sagt ykkur og það vitum við, að minni kvenna er hreint ágætt öllu jöfnu, en getur þó birst með ýmsum hætti eftir því hvernig viðrar.

Áður en ég held lengra vil ég halda því til haga, eins og fram hefur komið áður, að ég veit fullvel að minni kvenna snýst ekki um minni kvenna, heldur nokkurskonar lofgjörð um konur.

Mig grunar nú að þetta orð í þessari merkingu, sé eitt þeirra orða á íslensku sem eru að hverfa með tímans straumi og gæti vel trúað því að innan ekki svo langs tíma muni þeir (eða þau) sem fá það hlutverk að flytja minni kvenna (eða karla), tala um minni þeirra í stað þess að flytja minni þeirra. Mig grunar að sá tími sé ekki fjarri, að sá sem beðinn verður um að flytja minni kvenna muni spyrja hvernig hann eigi nú að fara að því og hvert hann eigi þá að flytja það.

Þannig hefði það getað verið, þegar Guðni formaður bað mig að flytja minni kvenna hér í kvöld, að ég hefði einmitt byrjað að velta fyrir mér hvert ég ætti nú helst að flytja þetta merka fyrirbæri. Þá kæmi mér mögulega fyrst í hug að flytja það til mín. Þar með yrði tilvera mín hugsanlega að mörgu leyti einfaldari og þægilegri.

Með því móti yrðu svona orðaskipti úr sögunni:
„Jæja, ljúfur. Ert‘ ekki tilbúinn?“
„Tilbúinn? Til hvers, ljúfan?“
„Þú ætlar þó ekki að segja mér, að þú sért búinn að gleyma því að við erum að fara í afmæli hjá systurdóttur minni, henni Töru Mist, litlu!“
„Þú hefur aldrei minnst á að við værum að fara í eitthvert afmæli!“
Ó, jú. Ég sagði þér frá því að fimmtudaginn var, klukkan korter yfir sex.“
„Aldeilis ekki!“
„Jú, ég er nú hrædd um það.“

Þegar hér er komið er það yfirleitt niðurstaðan, að minni mitt hafi brugðist mér og ég segi:
„Jæja“.
Því segi ég það, að hefði ég færi á að sameina minni konunnar mínu minni, yrði ég í góðum málum.

Mér er samt til efs að Guðni sé í aðstöðu til að biðja mig að flytja minni kvenna á einhvern stað, þó svo Guðni sé maður yfirvegaður, rólyndur og djúpur.

Eftir sem áður öfunda ég konur af minni þeirra, sem er þannig fyrir komið, að það er í mörgum hólfum. Hverju hólfi getur konan síðan lokað, eða opnað, eftir því sem við á hverju sinni. Það er þannig hjá mér að annað hvort man ég eða ég man ekki. Það er bara eitt hólf og ekki um það að ræða að ég geti lokað fyrir eitt við einhverjar tilteknar aðstæður og opnað fyrir annað, sem hentar þá aðstæðunum betur. Þannig getur t.d. þetta samtal átt sér stað:

„Dúllan mín. Ég er þá farinn. Á að vera mættur eftir korter.“
Þarna lokar konan því minnishólfi sem geymir upplýsingar um fundinn í félagi eldri borgara sem ég er að fara á og sem ég var sannarlega búinn að ssegja henni frá,  og opnar í staðinn sérstakt hólf sem geymir óvænta minnispunkta.
„Farinn? Farinn hvert, dúllinn minn? Þú varst ekki búinn að segja mér að þú væri að fara eitthvert í kvöld. Við ætluðum að kúra, krúsídúllinn minn. Ertu búinn að gleyma því?
„Þetta var ég sko búinn að segja þér, ítrekað.“
„Ó, nei. Þetta hefurðu ekki nefnt einu orði. Við ætluðum að kúra í kvöld.“

Þarna varð, sem sagt, félag eldri borgara af vænum sauð.

Ég ætlaði hreint ekki að tala hér um minni kvenna, heldur flytja minni kvenna eins og mér var uppálagt.
Nú er ég hinsvegar búinn að koma mér í þá aðstöðu að fara talsvert fram úr þeim tímamörkum sem mér voru sett:
„Bara svona nokkur orð“, var sagt. „Bara stutt“, svar sagt.
Eftir á að hyggja, er ég líklega bara búinn að tala um minni kvenna, flytja minni kvenna og mæla fyrir minni kvenna.
Það sem meira er, þá er ég búinn að mæra konur í aðdáun minni á kraftinum, sem geislar af þeim, þar sem þær stíga fram þessi árin til forystu hvar sem er í þjóðlífinu.


16 janúar, 2017

Masterclassmaðurinn, ég.

Ég var nú ekki búinn að vera lengi í kór þegar kórstjórinn (ætli það hafi ekki bara verið Glúmur Gylfason) lagði á það áherslu og söngfólkið syngi með opnn munninn. Þetta tileinkaði ég mér strax, en komst auðvitað fljótlega að því, að það er hreint ekki viðtekin venja að opna með þessum hætti fyrr það undrahljóðfæri sem mannskepnan býr yfir. Þetta uppgötvaði ég eiginlega fyrsta sinni þegar ég sá mynd af kórnum sem ég syng í, fyrir allmörgum árum. Þar var greinilega verið að syngja einhvern opinn sérhljóða, t.d. A,  Á þessari mynd var ég sá eini sem opnaði aldeilis upp á gátt og hleypti (væntanlega undrafagurri) tenórröddinni út til áheyrenda. Þar sem ég hef engan sérstakan áhuga á að standa  allt of mikið út úr, hef ég lengi stefnt að því að freista þess að aðlaga opnun míns munns öðrum munnum, en það bara hreinlega gleymist yfirleitt í hita leiksins. Þetta er svona eins og með að læra að hjóla, þú getur eiginlega ekki aflært það.
Ég reyni auðvitað að halda í réttlætinguna fyrir nálgun minni með því að bera saman hljómgæðin sem koma annarsvegar úr mínum munni og hinsvegar úr munni annarra kórfélaga. Þennan samanburð má sjá á myndinni hér fyrir ofan. Það þarf ekki lengi að velta því fyrir sér þeim óhemju mun sem er á hátalara í farsíma og alvöru græju, sem getur "blastað" silfurtærum tóni í hvaða styrkleika sem er.

Ég læt frekari greiningu á þessu eiga sig, en hún er til komin vegna þess að á samfélagsmiðlum hafa verið að birtast myndir þar sem ég læta vaða við hliðina á heimsfrægum söngvara, honum Paul Phoenix (frb. /fíniks/), sem gerði garðinn frægan með  "The King's Singers", söng í þeim hópi í ein 17 ár, allt til 2014. Hann rekur nú eigið fyrirtæki þar sem hann ferðast um heiminn og heldur námskeið, svokallað "Masterclass" með sönghópum af ýmsu tagi.

Um helgina sem nú er nýliðin var ég,sem sagt á Masterclass námskeiði hjá þessum fræga manni, ásamt mínum kór og þrem öðrum sönghópum. Þarna bættist í reynslubankann, en það sem einkenndi mjög nálgun nafna að verkefninu var, að hann hrósaði heil ósköp, en laumaði síðan með athugasemdum um það sem betur mætti fara. Það er manninum eðlislægt að taka til sín fremur hinar neikvæðu athugasemdir en þær jákvæðu. Ég hef ákveðið, eftir þessa helgi, að hlusta bara á þær jákvæðu, enda tel ég að þær séu að mestu tilkomnar vegna framgöngu minnar.  Ég þykist vita að þessi niðurstaða mín muni ekki falla í frjóan jarðveg hjá öðrum kórfélögum, svo ég dreg hana umsvifalaust til baka.  Kórinn hlýtur allur að taka til sín það jákvæða sem nafni sagði, en einnig ábendingarnar um það sem betur má fara. Þó nú væri!

Nú er bara framundan að vinna úr reynslunni og heita því að gera enn betur. Í mínum huga er það mikilvægasta sem vinna þarf í tvennt: meiri agi og meiri metnaður. Maður á aldrei að sætta sig við að vera kominn á einhvern stað og vera síðan bara ánægður með að vera þar. Það er alltaf pláss fyrir meira og hærra.

Þessi helgi var ánægjuleg og mér fannst gott að fá svona utanaðkomandi aðila til að segja okkur hvað væri gott og hvað megi bæta.

Hér fyrir neðan er tvær þeirra mynda ég nefndi hér efst. Þarna syng ég með "King's Singers" manninum. Augsýnilega afar einbeittur og geri umtalsvert meira úr sérhljóðanum sem sunginn er, en meira að segja hann. Kannski er rétt að loka munninum áður en það er um seinan.
Deiling: Pálína Vagnsdóttir, Veirunum

Deiling: Sigrún Elfa Reynisdóttir, Skálholtskórnum

Masterclass með Paul Phoenix í Seltjarnarneskirkju, 
13.-15. janúar, 2017
Skálholtskórinn
Veirurnar
Góðir grannar
Kvartettinn Barbari

Nokkrar myndir:







29 desember, 2016

"Ein frá Sólveigarstöðum!"

Flugeldur sem KvisturArt hyggst setja á loft á áramótum,
á miðnætti og nokkrir furðu lostnir furðufuglar.
Þá fóru allir út á miðnætti og fylgdust með flugeldaskotum annarra íbúa í þorpinu. Í Kvistholti var, heldur minna um stóra flugelda en hjá þeim sem betur voru stæðir. Það var reynt að stíla frekar upp á magnið en stærðina, enda í rauninni það mikilvægast sem næst manni var; það sem maður fékk sjálf(ur) að kveikja í.
Elstu pjakkarnir tveir voru farnir að sýna áhuga á að skjóta rakettum og þá komu ílurnar litlu í góðar þarfir, afar margar og ódýrar.

Hjá ýmsum öðrum var þetta allt stórfenglegra og þegar einhver skaut var hrópað, svo enginn missti nú af:
"Þarna kemur ein frá...." (svo var bærinn nefndur). Allir snéru sér þangarð. "VÁÁÁÁ þessi var flott!" "Þarna kemur ein frá...." (bærinn aftur nefndur). Allir snéru sér þangað. "Þessi var ekkert sérstök". 
Og svona gekk þetta. Raketturnar flugu á loft hver af annarri og ávallt var tekið eftir hvaðan þær komu. Það var hægt að sjá hver væri stórtækastur, sem var auðvitað ákveðið merki um velgegngni á árinu. Í Auðsholti mun hafa verið einhver sjómaður, sem skaut alltaf upp skiparakettu.

KvisturArt lýkur flugeldasýningu sinni
með kvenskörungum.
Svo liðu árin. Fjárhagurinn í Kvistholti fór heldur batnandi og þar með varð mögulegt að veita meira fé til flugeldakaupa. Börnin stækkuðu líka og jafnframt því minnkaði áhugi þeirra "fíriverki". Það sem einnig gerðist var að að trén sem Laugarásbúar höfðu plantað af dugnaði fyrir áratugum, stækkuðu og þar með varð erfiðara að greina hvaðan hvaða flugeldur, eða bomba, kom. Þetta gat jafnvel leitt til rökræðna, þegar fólkið var ósammála um uppruna flauganna.

Nú eru börnin auðvitað flogin úr hreiðrinu, en eftir situr einhver lítil neisti frá fyrri tíð og af þeim sökum, en þó aðallega til að styjða björgunarstarf í landinu, er alltaf keypt eitthvert fíriverk í Kvistholti. Einnig núna, en þessu sinni í nafni nýja gæluverkefnisins sem ber heitið KvisturArt.

Það má sem sagt segja, að Laugarásbúum og þeim sem eiga leið um Laugarás, hvort sem það er vegna þess að þeir hafa beinlínis komið af þessu tilefni eða af öðrum ástæðum, er boðið að horfa á þessa flugeldssýningu og njóta.  Auk þess sem þessum flugeldi verður skotið á loft, af fD sjálfri, verður lítilsháttar annað fíriverk beint í kjölfarið.

Svo tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum.

25 desember, 2016

Sópraninum krossbrá

Messur eru nú yfirleitt þess eðlis að fátt kemur á óvart. Það stefndi í eina slíka á þessum degi í Skálholti, nema ef til vill að því leyti, að nokkrum mínútum fyrir upphaf messunnar lá fyrir hvað sálmar eða verk yrðu sungin, en þannig er það bara.
Svo hófst messan, reyndar ekki alveg eins og til stóð, en kór og kirkjugestir fengu fyrirmæli um að ganga í kringum jötu sem komið hefur verið fyrir í kirkjunni í tilefni jólanna og syngja á meðan öll fjögur erindi sálmsins "Nóttin var sú ágæt ein". Látum vera, þetta var, eins og maður segir öðruvísi, þó fD hafi haft um það orð eftir á.
Að þessu búnu hófst síðan messan samkvæmt því ritúali sem finna má í bók séra Bjarna sem kallast "Messa á jólum". Allt eins og við var búist.
Þá kom að prédikun.
Prédikanir eru þannig í Skálholti, að kórinn heyrir allajafna vart orðaskil fyrir glymjanda og það var ekkert óvenjulegt við það. Í stað þess að lyftast í andanum undir kraftmikilli prédikun var sett í hvíldargírinn þar til kæmi að sálmi eftir prédikun.
Þetta fór nú talsvert á annan veg þessu sinni; byrjaði allt svo sem venja er til, en skyndilega, þegar nokkuð var á liðið prédikunina "blöstuðu" tenórarnir þrír vísunni "Fjármenn hrepptu fögnuð þann"  af slíkum krafti, að hárið á saklausum sópraninum bærðist, en hvort það var vegna kraftsins í ténórunum, eða skelfingarefans sem heltók þær, skal ekki fullyrt. Það hefði verið gaman að sitja í kirkjunni sem gestur og sjá hvernig andlitsdrættir þeirra endurspegluðu líðanina.
Til útskýringar á þessari mikilfenglegu innkomu tenórsins í miðja prédikum, skal geta þess, að tveim mínútum fyrir messubyrjun kom presturinn að máli við einn tenórinn og fól honum og hans mönnum að bresta í söng  á tilteknum stað í prédikuninni, svo sem lýst er hér að ofan. Sá sem tók við fyrirmælum prestsins leiddi síðan félaga sína tvo í allan sannleik um hvað til stæði, í þann mund er messa hófst með kraftmiklu orglespili.
Sópranarnir flettu í huganum í gegnum gögn um framgang messunnar og fundu innkomunni í prédikunina engan stað. Þegar tenórarnir stukku síðan aftur inn á tilteknum stað með annað erindi úr sama sálmi, varð ljóst að allur ketill sóprananna hafði fallið í eld og það mátti greina vantrúar- og uppgjafar fas í titrandi hárinu, sem var þeð eina sem tenórarnir, heldur sperrtir í glæsileik sínum, gátu nýtt til að meta innibyrgð viðbrögðin í sætaröðinni fyrir framan.

Það var síðan þegar síðustu tónar orgelsins hljóðnuðu í lok messunnar, sem flóðgáttir brustu. Allt sem sópranana hafði langað að segja var þá sagt og meira að segja á kjarnyrtri íslensku. Sumir héldu áfram að tjá sig um það sem gerst hafði, langleiðina heim.

Hver var svo að tala um að messur væru fyrirsjáanlegar?

14 desember, 2016

Eftir síðustu andartökin

Fremst má sjá færibandið sem fjallað er um
og í baksýn er flegið af krafti
ÞESSI FRÁSÖGN ER EKKI FYRIR VIÐKVÆMA (í alvöru)

Við tímamót verður manni hugsað til baka. Nú er hafið niðurrif á sláturhúsinu sem hefur staðið hér í Laugarási frá 1964. Það hús hefur séð tímana tvenna, bæði góða og slæma, en nú er komið að leiðarlokum. Það væri gaman að segja sögu þessa húss og starfseminnar þar, en það verður ekki gert hér og nú. Ég ætla hinsvegar að láta hugann reika til um það bil 1970, en þá starfaði ég í sláturhúsinu eitt eða tvö haust fram í lok september. Skólinn byrjaði 1. október í þá daga.


Á þeim tíma var ég einhversstaðar á bilinu 15 - 17 ára (trúi ekki að foreldrar mínir hafi leyft mér að vinna þarna yngri en það). Fyrstu störf mín fólust í að flytja lömbin milli hólfa í réttinni. Þar var réttarstjóri sem skipaði fyrir um úr hvaða hólfi lömbin skyldu færð, hvert og hvenær, en alltaf voru þau rekin í hólf sem var nær skotklefanum. Ég færðist líka stöðugt nær skotklefanum og áður en ég var fluttur til, inn í slátursalinn var ég kominn með það hlultverk að draga lömbin síðasta spölinn í lífi þeirra, inn í klefann þar sem Ásgeir á Kaldbak tók við og aflífaði þau með byssu sem var einhvern veginn þannig gerð, að hann þurfti að setja nýja patrónu í hana eftir hvert skot. Skotið fólst síðan í því að pinni skaust fram úr byssunni og vann sitt verk, en ég held að tveir menn hafi leitt hvert lamb til fullnustu á þeim dómi sem þau höfðu hlotið á einhverjum bænum. Mennirnir skelltu skrokknum síðan upp á færiband. Þar varð ég fyrir afar áhrifamikilli reynslu, sem ég ætla að reyna að koma í orð.  Mig grunar að sú tegund fólks sem staðið hefur með mótmælaspjöld fyrir utan SS á Selfossi að undanförnu, geti átt erfitt með að kyngja því sem þarna fór fram.

Ég fékk, sem sagt, eftir að hafa verið í réttinni, það hlutverk að fylgjast með færibandinu og því sem þar fór fram. Mig minnir að færiböndin hafi verið tvö, í sitthvora áttina út frá skotklefanum. Ég man ekki hvort ég þurfti að sinna þeim báðum, minnir það þó hálfpartinn.
Meðfram færibandinu endilöngu, var renna og niðurfall úr henni niður í kjallara. Þegar Ásgeir hafði unnið sitt verk var skrokkunum skellt á færibandið, eins og áður segir, fyrst í stað stífnuðu þeir upp og við þeim tók maðurinn með hnífinn, sem ég man því miður ekki hver var, en hann skar fumlaust á hálsæðrnar og blóðið  fossaði úr sárinu og ofan í rennuna. Í þann mund hófust dauðateygjurnar sem voru mismiklar, stundum svo kröftugar, að skrokkarnir flugu af bandinu niður á gólf. Mitt hlutverk var, meðal annars að sjá til þess að koma þeim aftur upp á bandið, sem var mjög miserfitt, enda skrokkarnir misþungir. Bandið var á að giska 5-6 m. langt. Eftir að blóðgunin hafði átt sér stað tók við að losa höfuðið frá búknum og ég heldað sami maðurinn hafi gert hvottveggja. Skrokkarnir sprikluðu æ minna eftir því sem nálgaðist endann á færibandinu, en þegar þangað var komið þurfti ég að vippa þeim yfir á fláningshringinn (minnir að það hafi verið hluti af starfa mínum, en er ekki viss) þar sem fláningsmennirnir tóku við og unnu hratt og örugglega að því að flá skrokkinn þannig, að hver hafði sitt hlutverk, svona eins og í bílaverksmiðju, ef svo má segja.  Aðrir eru betur til þess fallnir að segja frá þessum verkþætti.

Eftir fyrsta daginn við þetta verk verk var ég alveg búinn á sál og líkama; sál vegna þess sem fyrir augu bar og í höfðin hrærðist, líkama, vegna þess að þetta var skratti erfitt. Svo vandist þetta bara. Ég hætti smám saman að líta þannig á að það væri verið aflífa dýr, sem hugsanlega ættu að fá að halda áfram að lifa. Lömbin sem þarna voru leidd til slátrunar urðu bara hluti að verkferli; breyttust úr jarmandi ungviði í girnileg læri og hryggi áður en við var litið.
Margt af störfum mínu í sláturhúsinu er hulið gleymskuhjúp. Ég var einhvern tíma í vömbunum og eitthvað kom ég í kjallarnn hjá Gústa á Löngumýri, en þarna niðri voru innyflin orðin svo fjarlæg lífinu sem þau þjónuðu áður, að þau höfðu engin áhrif á mig. Það gerði vinnan við færibandið hinsvegar.
Núr er hafði niðurrif  á þessu sögulega húsi.


18 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)

Bókin

Hér held ég áfram að skella inn köflum og kaflabrotum úr sömu bók og síðast. margt að því sem þarna er að finna er eilífur sannleikur, annað hefur breyst með breyttum lífsháttun, tækniþróun og öðru.  Það var þannig að allt í einu vantaði mig bók til að lesa og renndi í gegum bókastaflann á heimilinu. Nennti ekki að byrja á Laxness safninu eða Íslendingasögunum og endaði því á óhefðbundnari ritverkum, þar sem ég fann þessa bók. Húnvar gefin út í íslenskri þýðingu Jóns Þórarinssonar árið 1917 af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og var prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Titill hennar er BÖRN og undirtitill Foreldrar og kennarar og hún er eftir einhvern D.C. Murphy sem mun hafa verið "skóla umsjónarmaður í Ameríku" Um bókina segir þýðandinn m.a.: "þar þykir mikið til hennar koma og séð hef ég hana nefnda »kennslubók kennaranna og húslestrarbók heimilanna«.

Alþúðubl. 11.09.1943
Ökuskírteini Guðmundar, gefið út um ári áður en hann lést.

Eigandi bókarinnar

Bókin er merkt Guðmundi Þórarni Runólfssyni (1918-1943), en hann lést í slysinu sem lesa má um hér til hliðar. Bókin var gefin út ári áður en hann fæddist og hann hefur líklega eignast hana alllöngu seinna. Í Kvistholt barst bókin úr dánarbúi foreldra fD, en Guðmundur var föðurbróðir hennar.
Ekki vitum við margt um lífshlaup Guðmundar, annað en að hann fæddist í Heiðarseli á Síðu og að hann starfaði á Hvanneyri um það leyti sem hann lést. Það væri nú fengur í því ef einhver vissi eitthvað um Hvanneyri í kringum 1940, eða einhver gögn um lífið þar á þeim tíma.



 Guðmundur (fjórði f.v.), móðir hans, Sigurbjörg
Þórarinsdóttir og bræður, um 1925,
Gísli, f. 19. nóv. 1911, d. 23. apr. 1932,
Þorsteinn, f. 22. okt. 1913, d. 30. sept. 1991,
Ólafur, f. 16. des. 1914, d. 13. jan. 1939,
Guðmundur, f. 2. júní 1918, d. 9. okt. 1943 og
Þorvaldur, f. 4.1.1920, d. 15.3.2007.


 Úr bókinni

Ég ætlaði, sem sagt, að setja inn nokkur gullkorn úr þessari bók, en þar kemur í ljós, eins og búast mátti við, að manneskjan breytist ekki mikið, þó umhverfi hennar breytist. 

Foreldrar og kennarar

1. Sambandið milli foreldra og skóla.
Sumir hafa þá skoðun, að skólinn sé staður þar sem börnum sé komið fyrir til pössunar, en að öðru leyti er þeim lítið hugarhaldið um skólann eða kennarann. En þetta er röng hugsun. Verki foreldranna er ekki lokið með því að klæða börnin og sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum; þeir hafa heldur ekki gert alla skyldu sína með því að láta þau ganga reglulega í skóla. Ef foreldrunum er áhugamál að börn þeirra komist  vel áfram og njóti svo góðrar skólafræðslu sem kostur er, þá verða þeir að neyta allra ráða til að gera þeim kost á því, búa sem allra best í haginn.

2. Hugmyndir foreldra um kennara
Foreldrar hafa mjög ólíkar skoðanir um það, hvað geri kennarann góðan fræðara. það minnir á munnmælasöguna um riddara, sem deildu um skjöldinn, hvað efni væri í honum; annar sagði að í honum væri silfur, en hinn að hann væri úr gulli. Þrátt þeirra endaði í einvígi. Þeir skilmdust langa stund, en með því að áþekt var um vígfimi þeirra og hreysti, bar hvorugur sigur úr býtum. Loks féllu báðir, örmagna af þreytu. Þá bar að þriðja riddarann, og báðu þeir hann að skera úr, hvor hefði rétt fyrir sér. Þegar hann fór að rannsaka skjöldinn reyndist hann öðru megin úr  gulli, en úr silfri hinumegin.

3. Tvennskonar foreldrar
Einhver hefur sagt að öllum foreldrum megi skifta í tvo flokka, skynsama og óskynsama. Ekki er allur sannleikurinn sagður með því, en það gefur fyllilega hugmynd um hvað er sannleikur í þessu efni. Fyr nefndi flokkurinn er langt um fjölmennari; en hinn síðarnefndi veldur öllum erfiðleikunum. Meðal óskynsamra foreldra eru þeir, sem hafa þá mölétnu hugmund að »kennarinn verði að fara eins með öll börn«.   Mörg ár eru síðan þessi hugmynd reyndist jafn óheilbrigð eins og hún er gömul. 
Kennarinn verður að fást við mjög ólíkt eðlisfar barna, sum þarf svo sem ekkert að aga; sum er auðvelt að aga, og við sum veitir ekki af að beita öllum þeim ráðum sem kennarinn kann. Læknir sem gæfi öllum sjúklingum sama lyf, myndi lækna suma en drepa suma.

4. Áhugaleysi foreldra
Hversu mjög gætu foreldrarnir stutt að því að skólinn ynni gott gagn, ef þeir fengju svo mikinn áhuga á skólavinnunni að þeir létu börn sín vera við nám í það minsta stundarkorn á hverjum degi! Foreldrar eru stundum algerlega hirðulausir um uppeldi barna sinna, og þó er gott uppeldi besti arfurinn sem þeir gætu leift þeim.  Eitt af verstu meinum vorrar þjóðar er slæpingshátturinn.
Á engan hátt geta heimilin stutt skólann að starfi betur en þann, að gæta barnanna sem best þann tímann, sem þau eru ekki í skólanum - varna því að þau leggist í iðjuleysi; að þau séu með góðum leiksystkinum og að ekkert hindri þau frá að sækja skólann reglulega.

5. Hirðulausir foreldrar.
Foreldrar sem eru hirðulausir um það, hvort börn þeirra sækja skóla reglulega, eru versta hindrun í starfi kennarans. Sumir foreldrar sýna aldrei að þeir skeyti  mikið um börn sín - fyr en þeim er refsað í skólanum, eða önnur börn tekin fram yfir þau; þá ranka þeir við sér; og mörg börn í barnaskólunum okkar fá litla hjálp eða upphvatningu heima fyrir. Það er eins og foreldrarnir segi við kennarann: »Ég fæði barnið og klæði, hitt verðið þér að gera« Fyrir getur það komið, að foreldrar undrist yfir því að ekkert heyrist um óþekt barna þeirra í skólanum, þó þeir ráði ekkert við þau heima.

6. Aðfinslur foreldra.
Annað er það sem oft angrar kennara en það eru aðfinslur foreldra barnanna, sem oft eru á reiðum höndum. Einn sagði: »Ekki gest mér að hvernig sá kennari kennir reikning; alt öðru vísi var mér kent«.  Drengurinn hans festr orðin í minni af því að faðir hans sagði þau, og honum þykir fremur gaman að því að eitthvað er út á kennarann að setja. Þegar hann fer í skólann, hljóma orð föður hans  í eyrum honum  og í reikningstímanum ber hann með sjálfum sér brygður á að kennarinn fari rétt með reikningsdæmin.  Hefði faðir hans verið skynsamur maður, þá hefði hann getað sagt sem svo:  »Aðferðirnar eru öðruvísi nú, en þær, er ég vandist, og líklega betir, því að allar kennsluaðferðir eru betri nú en áður.«  Þá hefði drengurinn farið í skólann með sannfæringu um að kennarinn hans segði betur til en kennarar föður hans höfðu gert.  
Stundum þarf að ávíta barn fyrir eitthvað í skólanum. Barnið fer heim og segir frá ofanígjöfinni, og gerir svo lítið úr misgjörð sinni sem það þorir. Foreldrarnir hafa heyrt einungis annan málsaðilann, hugsa að kennarinn hafi haft rangt  fyrir sér og segja það til allrar óhamingju svo barnið heyrir. Það fer aftur í skólann næsta dag, er nú í uppreisnarhug, gerir meira fyrir sér en fyrri daginn og er refsað þunglega. Þá er ekki einungis grátur í skólastofunni, heldur gnístran tanna á heimilinu.

7. Vinátta og heimsóknir
Milli kennara og foreldra ætti að vera innilegt vináttusamband og ef svo er ekki, þá er eitthvað athugavert, annaðhvort við kennarann eða foreldrana, og þá ættu þeir þegar að skilja að skiftum.
Í of mörgum sveitum má kennarinn heita ókunnur maður foreldrum barnanna. Sumstaðar koma foreldrar aldrei til kennarans, nema til að kæra yfir einhverju. Engin eftirtekt er veitt starfi hans, nema þegar eitthvað ber út af. Góð áhrif sem hann hefur á börnin eru skoðuð sem sjálfsagður hlutur; aldrei heyrir hann hlýtt orð fyrir það; en verði honum eitthvað á, þá hljóma áfellisdómar fjöldans bæði hátt og djúpt.

------------------------
Ég sé til hvort ég set inn eitthvað fleira úr þessari bók, en nú sem fyrr skiptir aðkoma foreldra að uppeldi barna sinna höfuðmáli, ekki aðeins til þess að vernda þau frá öllu illu, heldur til að beina þeim inn á þær brautir sem best munu gagnast þeim þegar þau vaxa úr grasi.

29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...