06 febrúar, 2017

Hvernig var vírunum komið fyrir?

Ekki neita ég því, að oft velti ég því fyrir mér, hér áður fyrr, hvernig vírunum sem halda brúargólfinu á Iðubrúnni (Hvítárbrú hjá Iðu). Viti menn, rakst ég ekki á frásögn af því í Mogganum frá því í ágúst 1957, Þar voru á ferð þeir Sverrir Þórðarson, blaðamaður (handahafi blaðamannaskírteinis nr. 3) og Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.   
Ég birti hér umfjölllun þeirra.






GÓÐU DAGSVERKI LOKIÐ

Við Iðubrú er verið að leggja 12 burðarvíra sem vega 4,5 t. hver. Brúin opnuð í vetur

Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Þegar hlé var gert á smíði Iðubrúar, var lokið við að steypa báða turna hengibrúarinnar, beggja vegna hinnar straumþungu Hvítár. Eru turnarnir um 20 metra háir. Gera þurfti rammbyggilegar undirstöður, sem í fóru um 500 tonn af sementi og sandi, og í brúna eru nú komin um 70 tonn af steypustyrktarjárni. „Við komum hingað austur fyrir nær hálfum mánuði“, sagði Jónas Gíslason yfirsmiður og hófst þá undirbúningur að því verki, sem nú er verið að vínna þar, að koma fyrir burðarvírum brúarinnar. Verða þeir alls 12, sex hvorum megin. Er hver vír 3 1/8 tomma (8 cm) í þvermál.

Á vestari bakka árinnar er bækistöð brúarsmiðanna, og þar standa tjöld þeirra hlið við hlið og mötuneytisskáli með eldhúsi. Efni er geymt á þessum bakka árinnar, og þar standa t.d. nokkur stór kefli, sem burðarvírinn er undinn upp á. Er á hverju kefli nákvæmlega sú lengd, er með þarf til þess að strengja hann á milli akkeranna, sitt hvorum megin árinnar og er vírinn 173 metrar á lengd. Á hvorum enda er „skór", sem vírinn er fastur í, en skórinn er svo settur á tvær festingar í akkerinu, en síðan er hann festur með tveim heljaröflugum róm.

Vírinn dreginn yfir Hvítá

Við eystri bakka árinnar var allt tilbúið til að hefja vírdráttinn yfir er við komum. Fyrir aftan brúarturninn er togvinda. Frekar grannur stálvír er dreginn yfir ána á vestri bakkann og þar taka nokkrir ungir menn við honum og læsa í burðarvírinn.

Jónas gefur nú merki með handauppréttingu yfir á hinn árbakkann, um það að láta vinduna byrja að vinna. Strákar við vírkeflið hafa það verk með höndum að standa tilbúnir við bremsurnar. — Þetta eru handbremsur, tvö löng járn, sem þeir leggjast á þegar hægja eða stöðva þarf vírkeflið, og er það stálvir sem grípur utan um hjólin á keflinu. — Hraðinn gæti fljótt orðið óviðráðanlegur ef slíkir hemlar væru ekki hafðir á. Uppi yfir okkur — ofan á turninum — standa nokkrir menn tilbúnir við tvær nokkurra tonna krafttalíur til þess að taka á móti vírendanum.

Innan stundar er keflið farið að snúast hægt áfram og vírinn er lagður af stað upp á turninn. Við heyrum skarkalann frá vindunni á hinum bakkanum og drunurnar í loftpressunni, sem dælir lofti í vinduna. Vírendinn er kominn upp undir vinnupallinn mjóa, sem mennirnir uppi á turninum standa á og Jónas gefur stöðvunarmerki yfir ána meðan þeir uppi á stöplinum lyfta vírendanum upp á turninn og fara með hann yfir.

Við höfum orð á því við Jónas yfirsmið, að hann og menn hans séu heppnir með veðrið við þetta erfiða og vandasama verk, því ekki væri neinn öfundsverður af því að þurfa að vinna við þetta í hvassviðri og rigningu.

Kemst upp í vana

Það er satt, sagði Jónas, en það kemst ótrúlega fljótt upp i vana að vinna í nokkurri hæð, en að auki eru þessir menn allir þaulvanir orðnir slíkri háloftavinnu, því margir þeirra eiga að baki alllangan brúðarsmíðaferil En sjálfur þekkir Jónas manna bezt slíka vinnu, því hann hefur verið við smíði fjölda brúa, t. d á Selfossi, Þjórsárbrú og eins austur á Jökulsá á Fjöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Enn gefur Jónas merki og mennirnir uppi á turninum fyrir ofan okkur hafa komið vírnum yfir. — Nú liggur vírinn í hjóli, sem auðveldar dráttinn, en þann þyngist nú óðum. Vírendinn hefur farið alveg niður undir vatnsborðið. Úti yfir miðri ánni, sem er rúmlega 90 m breið, hækkar vírinn sig aftur í stefnu á turninn á vestri bakkanum. Nú fer hann rétt fetið áfram, því þyngslin aukast nú mjög, en vírinn vegur sjálfur 4.5 tonn.

Metdagur

Jónas sagði okkur að vírdrátturinn hefði gengið mjög vel þennan dag. Senn var kvöld og þetta var þriðji vírinn á einum og sama degi, sem þarna var kominn alla leið yfir. Það þykir gott að geta gengið frá tveim vírum á einum degi.

Jónas gaf strákunum á keflinu enn merki um að nema staðar. Hann hafði aldrei augun af vírendanum, sem nú var kominn upp að turnbrúninni á vesturbakkanum. Mennirnir, sem verið höfðu í turninum fyrir ofan okkur, voru nú komnir yfir ána til að taka á móti vírnum. Það tekur kringum eina klukku stund að draga vírinn á milli, en metið sögðu strákarnir okkur væri 57 mínútur. Er þá eftir að ganga frá vírunum í akkerunum, sem er erfitt verk og margar hendur þarf við með aöstoð handsnúinna spila, er lyft geta nokkrum tonnum. Það var gaman að sjá þetta verk unnið. Þarna var hver mað- ur á sínum stað og vissi nákvæm lega hvað hann átti að gera. Var þetta mjög vel skipulagður og samhentur vinnuflokkur, allt unnið fumlaust. Hann sagðist vonast til að vírarnir væru allir komnir upp á miðvikudaginn, þ. e. a. s. í gærkvöldi.
— Hvað liggur þá næst fyrir að gera?
Gekk Jónas nú með okkur þangað sem margir járnbitar lágu.
— Þetta eru þverbitarnir undir brúargólfið, sem hver vegur um 650 kg., 24 talsins. Það liggur næst fyrir að koma þeim fyrir í burðarjárnunum, sem aftur eru fest í vírana.
— Þá þurfið þið að fara út á þá?
— Jú, en það er eiginlega með öllu hættulaust, þvi strákarnir standa í kláfferju. Síðan verður svo langbitunum komið fyrir. Þeir eru ekkert smásmíði, þriggja tonna bitar, og síðan hefst smíði sjálfs brúargólfsins og verður það steinsteypt. Vona ég að hægt verði að opna brúna til umferðar í nóvembermánuði næstkomandi.

Hjá ráðskonunum

Að lokum þáðum við hressandi kaffisopa hjá ráðskonunum tveim, sem ýmist eru með mat eða kaffi handa vinnuflokknum, sex sinnum á sólarhring. Það er orðin nokkurra ára reynsla mín. að óvíða fæ ég eins gott kaffi og meðlæti og hjá ráðskonum vegavinnumanna, og þannig var það hjá þeim við Iðubrú. Strákarnir létu vel yfir fæðinu, en ráðskonurnar voru að matbúa kvöldmatinn, sem verða átti kjöt. Á olíukyntri eldavél, sem í eina tíð var sennilega kolavél, stóðu kjötkatlar og súpupottar.
- Þeir fengu saltfisk í dag, sagði önnur ráðskonan, en báðar sögðust þær kunna vel við sig eystra, og hafði önnur verið vestur í Dölum en hin uppi í Hvalfirði. Hún sagði að sér hefði þótt fallegt hjá Fossá, en þar var bækistöðin.
Við kvöddum Jónas Gíslason og menn hans. Einn strákanna ferjaði okkur yfir ána á vestri bakkann, þar sem bíllinn okkar stóð.

Skálholt — Hlöðufell

Ferjumaður sagði okkur að vinnuflokkurinn hefði ákveðið það skömmu eftir komuna austur, að flokksmenn skyldu nota einhvern sunnudaginn, sem ekki yrði farið til Reykjavíkur, til þess að ganga á Hlöðufell, en enn hefðu menn ekki gefið sér tíma til þess. Sumir hefðu ekki enn heimsótt hinn fræga stað helgi og sögu, Skálholt. Frístundirnar hafa farið í að „þjónusta" sjálfan sig, þvo galla, stoppa og annað þess háttar. Við erum ekki á förum héðan, og það gefast vafalaust tækifæri til þess að stunda fjallgöngur og koma í Skálholt, sagðí ferjumaðurinn um leið og hann ýtti kænunni fram í straumharða ána.

Þegar við gengum framhjá akkerinu voru brúarmenn þar að streitast við að festa níunda burðarvírinn fyrir Iðubrú og þann þriðja á sama degi. — Góðu dagsverki var senn lokið.

Sv. Þ.
Sverrir Þórðarson
Gunnar Rúnar Ólafsson

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...