Sýnir færslur með efnisorðinu gáta. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu gáta. Sýna allar færslur

23 október, 2019

Hvernig flutt var yfir á

Það var ástæða fyrir því að mér kom í hug þessi gamla gáta í dag:

Hvernig flutt var yfir á
úlfur, lamb og heypokinn?
Ekkert granda öðru má,
eitt og mann tók báturinn.

Það var nú ekki svo, að þarna væri um stórkostlega samanburðarhæft tilvik að ræða - miklu einfaldari þraut blasti við okkur fD og í sem stystu máli, þá féllum við á því prófi og það með glans.

Nú segi ég bara söguna nákvæmlega eins og hún varð til í raunheimum.

Dekkjaskiptin

Það er komið fram í síðari hluta október og allra veðra von. Því var tekin ákvörðun um að panta tíma í dekkjaskipti á Vélaverkstæði Guðmundar og Lofts á Iðu, en Iða er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kvistholti og milli þessara tveggja staða rennur Hvítá hjá Iðu og til að komast á milli er ekið eða gengið yfir Hvítárbrú, sem opnuð var 1957 og hefur þjónað okkur vel og dyggilega síðan.
Ég pantaði sem sagt tíma í dekkjaskipti fyrir heimilisbílana tvo. Já, þeir eru tveir. Ekki má nú víst minna vera, á þessum tímum umhverfismeðvitundar.
Tíma fékk ég í dag og mátti koma öðrum bílnum yfir ána í morgun, en síðan kæmi ég bara með hinn þegar sá fyrri yrði klár. Þetta hljómaði allt afskaplega einfalt.
Ég ók svo Qashqai sem leið lá yfir ána að Iðu í morgun (eftir að hafa verið búinn að steingleyma þessum tíma og eftir að fD hafði með einhverjum hætti munað eftir honum) og skildi hann þar eftir hjá Lofti, sem kvaðst myndu hringja í mig þegar dekkjaskiptum væri lokið. Þessa sömu leið ók fD á Yaris sínum til þess að ég þyrfti ekki að ganga heim í ísköldum norðaustan strekkingnum. Þegar ég hafði skilað Qashqai af mér héldum við heim aftur til að sinna því sem sinna þurfti. 
Leið nú nokkur tími, en þá hringdi Loftur og kvað vera kominn tíma til að skipta á bílum. 
Þar með settumst við fD upp í Yaris og ókum sem leið lá, yfir ána, að Iðu. Þar tók ég við Qashqai og við skildum Yaris eftir og fD fékk far með mér heim þar sem við hófum aftur að sinna því sem sinna þurfti. 
Á tilsettum tíma héldum aftur út yfir á að Iðu, á Qashqai og nú til að ná í Yaris. Hann var tilbúinn þegar við komum þangað og við gengum frá málum áður en við héldum heim, yfir ára, enn til að sinna því sem sinna þurfti og sinna þarf.
Þarna voru báðir heimilisbílarnir komnir heim í hlað, tilbúnir til vetraraksturs. 
----------------------------------------------------------------

Á einum timapunkti í þessu ferli laust mig í höfuðið sannleikurinn um ótrúlega hugsanaskekkju sem við höfðum bæði gerst sek um.  
Hver var hún?  

Rétt er að geta þess, að  annað okkar ekur báðum heimilisbílunum, en hitt aðeins öðrum.
Einnig er rétt að geta þess, að hvorugt okkar, tel ég, yrði metið vera komið með einhverskonar aldurstengdan kvilla í höfðinu.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...