Sýnir færslur með efnisorðinu Río Azul. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Río Azul. Sýna allar færslur

12 desember, 2025

Costa Rica (2) - Leiðin til Bláár (Río Azul)

Það er varla í frásögur færandi, en þegar búið var að endurnýja vegabréfið, verða sér úti um einhverskonar vegabréfsáritun til Kanada (ETA), greiða uppsett verð fyrir ferðina, pakka í slatta af töskum, fá nágranna til að kveikja á jólaljósum á svölunum á tilsettum tíma, skvetta smá vatni á gróðurinn sem kominn var í vetrardvala, velta vöngum yfir hvort borgarastríð skylli kannski á í landi hinna frjálsu og þetta og hitt og hitt og þetta, lá leið okkar fD til Keflavíkur og við full af þakklæti fyrir að þurfa ekki að vakna um miðja nótt til að komast í flug. Ef það er eitt sem dregur úr manni löngun til ferðalaga, þá er það einmitt svefnleysið á ferðardegi. Við þurftum bara að vera komin á völlinn um tvöleytið til að taka flug með Icelandair til Toronto sem hóf sig til flugs rétt rúmlega klukkan fimm síðdegis. 
Carlos og Guðni

Flugið var bara svona flug eins og flug eru, en því verður ekki neitað, að það var þægilegt að vita til þess að með í för frá upphafi ferðar og allt til enda hennar voru þeir félagarnir, eigendur Kúbuferða/2GOIceland, Guðni Kristinsson og Juan Carlos Suarez Leyva. Þeir áttu svo eftir að leiða hópinn, nánast eins og andamömmur, svo aldrei fundust hnökrar á. Guðni var mest svona í framlínunni gagnvart hópnum, en Carlos var í bakvinnslunni og sá um að allt gengi smurt, gagnvart heimafólki í Costa Rica. Svona blasti það alla vega við mér.

Toronto

Það var sem sagt millilent í Toronto og "gist" eina nótt á Alt-hotel, sem er nánast við flugvöllinn. "Gist", já. Ekki varð nú mikið úr svefni, enda 5 tíma munur á Íslandi og Toronto. Á venjulegum svefntíma á Íslandi, var klukkan í Toronto ekki nema um 17.30. Þarna var, sem sagt, allt kvöldið eftir og svefndrungi færðist yfir. Við reyndum að vinna að jafnvægi og því gengið til náða á nánast óguðleum Kanadatíma, með þeim afleiðingum að við urðum afskaplega árrisul.
Baráttan við kaffivélina

Hygg það klukkan hafi verið sem næst 3 þegar við spruttum á fætur og ég fór að reyna að berjast við kaffikönnuna. Reyndar vissi ég, að kaffikönnur í hótelherbergjum hljóta að vera þannig hannaðar, að hvaða manneskja, með hálfa hugsun, ráði við að fá sér kaffi. Ég fann samt ekki leiðina fyrr en ég var nánast búinn að gefast upp. Þegar ég fann loksins lausnina, varð ég mest undrandi á hálfvitaskapnum í sjálfum mér.

Morguninn eftir, kl. 9+, hóf svo flugvel frá West Jet sig til flugs frá Pearson flugvelli, suður á bóginn. Kannski rétt að halda því til haga, að þarna var klukkan orðin vel ríflega 14 á Íslandi og einmitt þannig var líkamsklukkan stillt. 
Toronto
Það gerðist nú ekkert frásagnarvert að ráði í þessu fimm og hálfs tíma flugi í suð-suð-vestur, um eitt tímabelti. Það má svo sem nefna það, að nokkru eftir að flugið hófst og við vorum komin yfir land hinna frjálsu, átti sér stað allmikil ókyrrð sem orsakaði ekkert umtalsvert, en hugurinn leitaði skýringa í meintri umhyggju þess appelsínugula, umsvifalaust. Jæja .. svona var þetta.
Þar sem við vorum farin að nálgast Costa Rica, sástá jörðu niðri, keilulagað fjall úti í vatni. Allt bendir til að þarna hafi verið um að ræða eldfjallið Conception í Nicaragua. Þetta fjall gaus síðast í maí 2024 og reykurinn úr toppi þess var þá væntanlega bara eftirhreytur af því gosi - án þess ég viti neitt um það.

Liberia 

Alejandro og Carlos
Þarna flugum við á flugvöllinn í Liberiu, sem er stærsta borgin í Guanacaste héraði og er, eftir því sem ég kemst næst, næststærsta borg landsins. Það er ekki margt að segja um þessa borg, enda gerðum við ekki annað þar en fara í gegnum flugstöðina og út í rútuna sem varð ferðamátinn okkar það sem eftir var ferðarinnar. Þarna hittum við leiðsögumanninn okkar, Alejandro og bílstjórann Juan Carlos,  en þeir reyndust báðir heldur betur starfi sínu vaxnir. Þetta þýddi, að 22 manna hópurinn var alla ferðina um Costa Rica, umvafinn 4 körlum, þar sem hver hafði sitt hlutverk. 
Leiðin frá Liberiu til Blue River Resort.
Ofar á kotinu má sjá eldfjallið Conception

Til "Blue River" - Río Azul

Rútan sem beið okkar í Líberiu tók 50 manns, þannig að það var heldur betur rúmt um okkur. 
Ferðin til fyrsta dvalarstaðar okkar í þessu hitabeltislandi hófst með því ókum um "The Pan-American highway", sem mun vera um 30.000 km. langur frá suður-til norður Ameríku. Þessi vegur var nú svo sem ekkert ólíkur venjulegum vegi, ekki einusinni hraðbraut, þó hann sé merktur á kortum sem þjóðvegur nr. 1.


Ekki var nú um það að ræða að leiðin til dvalarstaðar okkar, The Blue River Resort, væri malbikuð, Þegar vikið var út af þjóðvegi 1, tók fljótlega við venjulegur íslenskuskotinn malarvegur og sá naut nú ekkert sérstaks viðhalds og eftir því sem við nálguðumst ferðalok þennan daginn, hneig sólin smám saman niður fyrir sjóndeildarhringinn og það var orðið almyrkvað þegar við loks renndum í hlað. Hvað beið okkar þar, átti eftir að koma á óvart, en það er efni framhalds þessarar sögu.







Costa Rica (2) - Leiðin til Bláár (Río Azul)

Það er varla í frásögur færandi, en þegar búið var að endurnýja vegabréfið, verða sér úti um einhverskonar vegabréfsáritun til Kanada (ETA),...