Eftir að ljóst var að farið var að fjara undan morgunfjöri fuglanna í Blue River, tók við morgunverður og fljótlega eftir það beið hópsins næsta atriði á dagskránni.
Þarna skammt frá er fjölskylda sem ástundar það, að taka við ferðahópum til að kynna þeim matargerð heimamanna. Þessi starfsemi þeirra ber heitið La Cocina de Mayrita. Þetta reyndist talsvert áhugaverð heimsókn.
Aftur kom sami bíll og hafði flutt okkur í gönguna daginn áður og flutti hópinn í tveim ferðum svona tíu mínútna akstursleið. Sem fyrr gerði ég mér enga grein fyrir áttum, en með því að leita að svona "cocinu" í grennd við bækistöðvar okkar, rakst ég á facebook síðu og bar kennsl á fjölskylduna sem þarna tók á móti okkur. Þarna er um að ræða hjón, ásamt þrem stálpuðum börnum sínum og konu sem sá um uppvask. Húsfreyjan stýrði þessu öllu og börnin héldu hvert um sig utan um ákveðna þætti eldamennskunnar.
Það sem einna fyrst vakti athygli, þegar við komum inn í allstóran sal (veggjalausan, að sjálfsögðu) var kyrkislanga, sem hafði komið sér fyrir inni í einum veggnum. Hún var afar digur um miðjuna og þar með í miðjum klíðum að melta einhverja bráð og ekki líkleg til stórræða. Samt stafaði af henni ákveðinni sálrænni ógn og þar sem hún færði sig smám saman til inni í rimlaútveggnum, færði fólk sem sat við borð í nágrenninu sig aðeins í burtu, hægt og hljótt. Heimamenn létu sér fátt um finnast, enda slangan ekki af þeirri stærð sem myndi ráða við að kyrkja fólk. Þar kom, að vanir menn tóku sig til og handsömuðu gripinn. Þeir stóðu afskaplega varlega að því verki, af einhverjum ástæðum. Þannig þurfti að grípa slönguna, rétt fyrir aftan hausinn svo ekki yrði vessen, væntanlega. Hvað varð svo um hana eftir það, veit ég bara ekki. Sennilegast var farið með hana eitthvert út í skóg.
Að slöngunni slepptri, fólst heimsóknin aðallega í tvennu:
1. Hópurinn fékk kennslu í að fletja út deig þannig, að úr yrðu kringlóttar hveitikökur. Börnin gengu á milli og leiðbeindu og gerðu athugasemdir. Að því búnu fór hver með sína köku og brá henni á steikarplötu (einnig með leiðbeiningum). Á meðan gekk húsfreyjan á milli og sýndi hvernig ostur var búinn til úr mjólk, svo eftir varð mysa, sem kálfinum á bænum var síðan gefin úr pela. Ostinn fengum við síðan á kökuna okkar, ásamt sýrðum rjóma (held ég) og svo Lizano Salsa sósu.
Þetta varð forrétturinn okkar.
2. Aðalrétturinn var svo unninn í sameiningu og fékk fólk þar að snerta á og taka þátt í ýmsum þáttum matreiðslunnar frá grunni. Þar var sko handagangur í öskjunni. Ég hygg að mitt stærsta hlutverk við matseldina hafi verið að djúpsteikja banana. Þarna er ekki um að ræða banana eins og við erum vön hér, heldur einhverskonar matarbanana. Eftir að búið var að steikja þá voru þeir einna líkastir frönskum kartöflum og gegndu einhverju slíku hlutverki með matnum.
Allt að verða klárt og fólk bíður matarins.
Á þessari græju var eldað.
![]() |
| Fjölskyldan sem stýrði matarupplifuninni |
Svona leit minn réttur út og þarna má meðal annars sjá steiktu banana. Þetta bragðaðist aldeilis ágætlega, eins og reyndar allur maturinn í þessari ferð.
Eftir matinn hellti húsfreyjan upp á ágætt kaffi, meðan slangan hélt áfram að fikra sig eftir rimlaútveggnum, en hætti sér aldrei inn fyrir.
Þarna í kring voru, á meðan á matarstandinu stóð, allskyns dýrategundir, t.d. þrír hundar, kálfur, gæs, hegrar, kettir, endur og fleira. Þá var þarna fyrir utan maður með langa stöng sem hann notaði til að ná í kókoshnetur, sem hann hjó síðan eftir kúnstarinnar reglum.
Þetta var ágætis heimsókn bara og nú var framundan slökun á Blue River og frekari könnun á staðháttum. Það var þennan dag, eins og nokkra aðra í ferðinni, að maður gat ekki sé fyrir hvenær himnarnir helltu úr sér og oft gerðist það án nokkurs fyrirvara, til dæmis eftir að við vorum komin aftur til Blue River úr matarferðinni. Þarna fékk maður smjörþefina af því hvað raunveruleg rigningardemba er.
Framundan var síðasta nóttin á þessu skemmtilega svæði, morguninn eftir var haldið í talsvert langa keyrslu til næsta áfangastaðar, sem var La Fortuna, en meira það síðar.
FRAMHALD SÍÐAR
















