Sýnir færslur með efnisorðinu Mistico Park. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Mistico Park. Sýna allar færslur

02 janúar, 2026

Costa Rica (11) Frumskógarævintýri

FRAMHALD AF ÞESSU

Þegar maður hefur alið allan aldur á Íslandi og aðallega upplifað frumskóga í gegnum kvikmyndir eða náttúrulífsmyndir, má alveg reikna með, að raunveruleg upplifun af þessu fyrirbæri kalli á talsverða tilhlökkun. Myndi þetta verða eins og örvæntingarfull barátta upp á líf og dauða, þar sem enga færa leið virtist vera að finna og villidýr biðu þess eins að gleypa mann með húð og hári? Væri þarna raunveruleg hætta á að villast? Gætum við treyst leiðsögumönnum okkar til að koma okkur heilum á húfi aftur til byggða? Ég taldi nú reyndar rétt að taka þann pól í hæðina, að ævintýrið sem framundan var, myndi nánast örugglega ekki fela í sér einhverjar hættur  í líkingu við það sem að ofan er nefnt. Þarna var um að ræða ferðamannahóp venjulegra Íslendinga undir öruggri leiðsögn, sem myndi tryggja að engin áhætta yrði tekin með líf eða limi.

Bú smávaxinnar býflugu,sem stingur ekki og ber 
fræðiheitið Tetragonisca angustula

Það var, sem sagt, lagt upp frá bænum La Fortuna og ekið í rútunni í um það bil hálftíma til áfangastaðarins Mistico Park. Bara nafnið á þessum stað benti nú ekki til annars en öllu yrði óhætt. Þetta var bara vinsæll ferðamannastaður, þar sem einu ráðstafanirnar sem þurfti að gera, áður en gangan um frumskóginn hófst fólust í, að þau okkar sem voru í sandölum, þurftu að undirrita yfirlýsingu þess efnis, að þau gerðu sér grein fyrir því, að í því gæti falist áhætta, sem staðurinn tæki ekki ábyrgð á. Hver þessi áhætta var, vissi ég svo sem ekki, en fljótlega kvisaðist eitthvað út um, að líklegast hefði Bandaríkjamaður á sandölum orðið fyrir einhverju slysi og farið í mál í framhaldinu. Ef áhættan af göngunni væri ekki meiri en þetta, þá var engu að kvíða.

Laufskurðarmaurar

Alejandro fór fyrir göngunni, stöðugt skimandi um skógarþykknið eftir áhugverðum lífverum. Einna fyrst varð á vegi okkar bú mjög smávaxinnar býflugu, en út úr búinu gekk einhverskonar rör, sem gegnir örugglega mikilvægu hlutverki. Þetta er allt útpælt.
Ekki löngu síðar, og svo aftur enn síðar urðu á vegi okkar laufskerandi maurar í endalausum röðum. Þeir munu safna laufafskurði í búið sitt og framleiða úr þeim einhverskonar sveppi (fungus). 

Ætli sé ekki rétt á þessum tímapunkti, að upplýsa um það sem var einna mest kvíðavaldandi við þessa ferð, fyrir suma þátttakendur, en það voru hengibrýrnar. Það háttar nefnilega þannig til, á þessum slóðum, að leiðin liggur ekki bara í gegnum frumskóg, heldur einnig yfir gil og gljúfur af ýmsu tagi. Þar hafa verið settar upp hengibrýr, til að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar. Ég hefði ekki séð þennan hóp fyrir mér, príla niður í gljúfur í skógaþykkninu og síðan upp aftur, ítrekað. Þannig komu hengibrýrnar sér harla vel, en þær fólu samt í sér talsverðar ógnir fyrir fólk sem á erfitt með að sveiflast í 40-50 metra hæð yfir jörðu, með ótryggt skógarþykkni, fyrir neðan sig.  Það var nóg af hengibrúm að leiðinni sem þarna var gengin.

Leiðin um frumskóginn (gula línan). Flestir í hópnum fóru þessa leið, en nokkrir létu gott heita þar sem talan 7 er á kortinu og tóku fjólubláu leiðina til baka.

Almennt má segja að þessi gönguferð hafi verið ansi áhugaverð, þó ekki hafi nein hættuleg frumskógardýr orðið á leið okkar. Ég held að eina dýrið sem sást einu sinni lítillega í, hafi verð nefbjörn, eins og sá sem hafði komið í heimsókn til okkar í Los Lagos íbúðinni. Skýringin á dýraleysinu var talin sú, að á þeim tíma dags sem við vorum þarna - síðdegis - væru skógardýrin ekki mikið á ferðinni. 
Þessi varð á leið okkar, alls óhræddur.
Hann mun kallast breiðnefja Motmot og
tilheyrir platyhynchum ættinni- er þó ekki viss.

 Það get ég sagt um leiðina sem þarna var gengin, að það er með ólíkindum hve mikið hefur verið lagt í hana. Þetta var sérlega þægileg gönguleið, að stórum hlut lögð hellusteinum og hvarvetna girðingar til að varna því að fólk færi sér að voða. Mér kom í hug, Reynisfjara, eða skilti á brún þverhnípis, sem greinir þér frá að ef þú ferð út á brún, geturðu dottið fram af og beðið bana. Líklegast útbúið fyrir nágrannann í norðrinu.

Þá eru það hengibrýrnar. Sá háttur var hafður á við að fara yfir þær, að þeir göngumenn sem tókust á við lofthræðslu, gengu fyrstir yfir, enda þá minnstar líkur á að brýrnar sveifluðust. Mér kom það stundum í hug (ekki lofthræddur að ráði) að það gæti verið fróðlegt að sjá viðbrögð við því, að koma brúnum til að sveiflast þegar stærstur hluti hópsins væri kominn inn á þær. Mér kom þetta bara í hug, en gerði auðvitað ekkert í því. Hvað halda menn að ég sé?
Lengstu brýrnar voru næstum 100 metrar og fyrir neðan blasti við skógarþykkni ofan í einhverju gljúfri, sem gat verið 40-50 metra djúpt. 
Ég held að ég láti bara nokkrar myndir úr þessari gönguferð duga til að gefa hugmynd um aðstæðurnar, en þetta var bara ansi skemmtilegt.














Ekki vil ég nú halda því fram að við höfum ekki séð skóginn fyrir brúm, en vissulega voru þær það sem reyndist einna mest áberandi í gönguferðinni. Dýrin sem þarna hefðu hugsanlega getað verið, höfðu sig ekki í frammi, en skógarþykknið, sem blasti við fyrir utan stígana og brýrnar, geta alveg verið "MISTICO"  - falið í sér dulúð og leyndar hættur, ef við hefðum farið eitthvað að hætta okkur út fyrir stígana, svo ekki sé nú talað um brýrnar.  Þarna var ábyrgt fólk á ferð og öll komum við aftur í góðu lagi, meira að segja sandalafólkið.
Svo var nú bara haldið aftur til Los Lagos bækistöðvanna eftir góðan dag.

------------------------

Svo kemur líklega meira - því þetta var sko ekki búið. 😉

Costa Rica (12) Kaffi og kakó

FRAMHALD AF ÞESSU Ef ég færi nú út í það að reyna að segja nákvæmlega allt, sem á dagana dreif, myndi það kannski nást um vorjafndægur, svo ...