Áður en ég fer að fást við hengibrýr síðdegisins, læt ég viðfangsefnið snúast um jólatorgið í La Fortuna, en þar hófst dagurinn miðvikudaginn 19. nóvember. Hópnum var sleppt lausum á torginu og naut þess að vera frjáls í nokkurn tíma. Vð nýttum hans meðal annars til að rölta um jólaskreytingarnar, sem þarna var að finna og fannst þær nokkur ýktar, sumar hverjar, en þær voru líklega ágætar fyrir sinn hatt, þó fremur óíslenskar væru þær, ef maður leit þannig á.
Hér er umrætt torg:
Stærsta byggingin sem þarna er að finna er kirkja, Iglesia de La Fortuna de San Carlos, heilmikil bygging og þegar maður stendur fyrir framan hana blasir eldfjallið Arenal við í bakgrunnni, þ.e. þegar það sést í það á annað borð. Við fD eyddum tímanum sem þarna var til reiðu til að rölta þarna allt um kring, skoða jólaskreytingarnar, verslanirnar, veitingahúsin og krikjuna.
Mér kom í hug, þar sem fáni landsins var talsvert áberandi þarna, að ég þyrfti að kynna mér eitthvað meira um hann, hann er talsvert yngri en íslenski fáninn, eða frá 1948. Landið varð lýðveldi árið 1949, eftir stutt borgarastríð. Áður var það hluti af Mið-Ameríska sambandslýðveldinu, sem þá var hætt að virka sem slíkt. Hvað um það, fáninn ber sömu liti og sá íslenski og fleiri fánar, blár, hvítur og rauður.
Fáni sambandslýðveldisins hafði verið blár-hvítur-blár, en þegar lýðveldið var stofnað á Costa Rica var rauða fletinum bætt við og átti hann að tákna siðmenningu aldarinnar og fyrstu geisla sólarinnar á nýfengið sjálfstæði, hlýju íbúanna og örlæti, ást þeirra á lífinu og blóð þeirra sem létust í baráttu fyrir frelsi þjóðarinnar.
Blái liturinn táknar himininn, tækifærin sem blasa við, vitsmuni, þrautseigju, óendanleikann, eilífðina og fleira. Hvíti liturinn á að tákna skýra hugsun, hamingju, visku, kraft og fegurð himinsins og frumkvæði í vitleitninni til að leita nýrra leiða og frið í landinu.
Ég verð nú að segja, að mér finnst þetta nú vera dálítið flókið táknkerfi og datt strax í hug að blái liturinn hlyti að tákna höfin sitthvorumegin við landið, sá hvíti merkti hreinleikann og mögulega strandirnar, sá rauði eldfjöllin sem er að finna eftir því endilöngu. En ég er nú bara ég.
Þarna vorum við sem sagt á skreyttu torginu og virtum fyrir okkur jólaskreytingarnar, gengum einn góðan hring og skoðuðum það sem fyrir augu bar, meðal annars kirkjuna.
![]() |
| Útsýni til Arenal af bvietingastað við torgið. |
![]() |
| Ég vil halda því fram, að hér sé um að ræða þjóðartré Costa Rica: Guanecaste tréð. |
![]() |
| Sé inn eftir kirkjunni í La Fortuna. |











Engin ummæli:
Skrifa ummæli