Sýnir færslur með efnisorðinu músarhlið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu músarhlið. Sýna allar færslur

19 nóvember, 2016

Eigi skal hún inn

Þegar smellt er, stækkar myndin. :)
Ekki fjölyrði ég um framkvæmdagleðina sem hrjáir mig, en það eru allmörg ár síðan fyrst komu fram tilmæli um að það gengi ekki annað en koma málum svo fyrir, að það væri hægt að hafa dyrnar út á pall eins og hentaði hverju sinni.  Ástæður tilmælanna hafa mér alltaf verið ljós, en í bakgrunni þeirra er örsmátt spendýr sem leitar sér að hlýju þegar fer að kólna á haustin. Þessi dýr eru velkomin á sumum bæjum sem ég hef heyrt af og lesið frásagnir um.  Þar er lýst tjáningarríku augnaráði og ákveðnu kæruleysi gagnvart húsráðendum. Þar eru þessi litlu dýr uppspretta líflegra frásagna af samskiptum tveggja spendýrategunda sem lifa saman í sátt og samlyndi,
Þannig er það ekki í Kvistholti.
Tilhugsunin um að hagamúsin geri sig heimakomna innandyra er óendanlega hrollvekjandi. Það er meira að segja svo, að það kveður við hálfkæft óp í hvert sinn sem mús bregður fyrir í ljósgeislanum þar sem ekið er um sveitir landsins.
Hagamýs eru ekki boðnar velkomnar í Kvistholt.
Nú er lokið framkvæmdum, að lokinni hönnun, efnisöflun og samsetningu hliðs í dyrnar út á pallinn. Eins og nærri má geta er hönnunin snilld í einfaldleika sínum, efnisöflunin tók aðeins á, þar sem áhöld voru um hve hátt hagamús gæti stokkið, eða klifið og það lágu fyrir frásagnir um að þær geti auðveldlega komist inn um op í 50 cm hæð, með því, einfaldlega, að stökkva. Þá munu þær einnig geta klifið veggi og komist þannig jafnvel upp á efri hæðir. Niðurstaðn varð því um að fest voru kaup á hóflegu magni af flugnaneti, enda er músaneti ekki treyst, eftir frásagnir um að hagamýs komist auðveldlega í gegnum op sem eru vart meira en sentimetri í þvermál.  Ágætir listar í hliðgrindina fengust í ruslagámi bygginavöruverslunarinnar.
Svo var ekkert að vanbúnaði. Ramminn útbúinn (reyndar aðeins mál á fá hann hornréttan) flugnanetið heft á hann, viðeigandi tappar settir á hurðarkarminn og hliðinu smeygt í.
Nú má sjá spendýrin litlu spígspora á pallinum, með biðjandi blik í auga, skjálfandi af kulda. Þeim mætir kuldalegt augnaráð og engin samúð, jafnvel  ákveðin ögrun: "Reyndu bara að stökkva."


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...