Sýnir færslur með efnisorðinu 1972. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 1972. Sýna allar færslur

05 desember, 2023

Ég fór svo aftur í fótbolta ....

Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. 
Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, 
Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlason, 
Þorkell Ingimarsson.  Fremri röð f.v. Hannes
Ólafsson, Héðinn Pétursson, Smári Björgvinsson
og Magnús Jóhannsson. 
Myndin rataði til mín frá Eiríki Jónssyni.
Einu sinni var ég markmaður í knattspyrnu. Það höfðaði samt aldrei til mín að reyna að líkja eftir ensku knattspyrnuhetjunum, nema markvörðum og auðvitað var Gordon Banks þar ofarlega á blaði. 
Mér þótti mikið til þess koma, þegar andstæðingur líkti mér við þann ágæta mann, eftir að ég hafði varið skot, sem ekki hefði verið mögulegt að verja. Þetta atvik er mér enn í fersku minni. Þetta átti sér stað í leik Ungmennafélags Biskupstungna gegn Ungmennafélaginu Hvöt í Grímsnesi, á íþróttavellinum við Borg í Grímsnesi, líklegast um 1970.  
Ég stundaði knattspyrnu ekki mikið í ML, þar sem ég notaði 4 ár til að reyna að þroskast og læra eitthvað gagnlegt, enda réðu forfallnir knattspyrnumenn þar öllu knattspyrnutengdu. Þar fyrir utan hafði ég meiri áhuga á öðrum boltaíþróttum á þeim tíma. 

Hvað í veröldinni veldur því svo, að ég fer að rifja upp hálfrar aldar minningar um knattspyrnuiðkun mína?  
Þannig er mál með vexti, að ég stunda nú líkamsrækt af kappi, ásamt öðru fólki á svipuðu reki, í glæsilegri Selfosshöllinni og hef komist að því, að líkamlegt atgervi mitt hefur tekið stakkaskiptum. Sú trú mín er ef til vill helsta ástæða þess að það sem gerðist í dag, gerðist. Það er einnig tilefni þessara skrifa. 

Unga fólkið, leiðbeinendur okkar, ákváðu að brjóta aðeins upp síðasta alvöru tímann fyrir jól. Þetta fólst í því, að leyfa okkur að snerta á nokkrum íþróttagreinum, þar sem lóð og teygjur komu ekki við sögu. Þarna var tekist á við eftirfarandi greinar:  spjótkast, bandí, badminton og knattspyrnu.
Ég mun ekki fjalla um framgöngu mína í þrem fyrstnefndu greinunum, en hún var sannarlega framar vonum. 
Ég ætla aðeins að minnast á knattspyrnuna. Þarna var um að ræða það sem leiðbeinandinn kallaði "göngufótbolta". Í sem stystu mál þá þýddi það, að mátti hreint ekkert, í mesta lagi að ganga í rólegheitum fram og til baka, eða bara ganga ekki og bíða eftir að fá boltann í fæturna. Ég veit núna hversvegna þessi útgáfa af knattspyrnu var valin. 

Ég var fljótur að koma mér fyrir í markinu og hugsaði gott til glóðarinnar, að rífja þarna upp gamla takta; freista þess að verða "Gordon Banks" á ný.  Liðsmenn mínir voru ekkert sérstaklega hreyfanlegir og reyndar ekki liðsmenn hins liðsins heldur. Boltinn þvældist einhvernveginn á milli þeirra, algerlega ómarkvisst og engan veginn líklegt að það myndi koma skot á markið. Ég var allur að kólna upp. Loksins kom að því, að boltinn rúllaði í átt að markinu og ljóst að ég myndi þurfa að bregðast við og það gerði ég með eins miklum tilþrifum og geymd voru í reynslubankanum. Þetta var nú bara nokkuð glæsilegt, þó ég segi sjálfur frá - en leiknum var ekki lokið. Hann stóð í 1x5 mínútur og þótti ýmsum nóg um þá tímalengd.  Rétt áður en leiðbeinandinn ákvað að nóg væri komið og tók að ausa hópinn lofi fyrir flotta frammistöðu, kom annað "skot" að markinu, í þetta sinn nokkuð til hliðar við mig.  Það skipti engum togum, ég skutlaði mér fyrir boltann, sem hefði farið langt framhjá markinu, ef ég hefði bara látið hann vera - en ég þurfti að skutla mér. Það var þá sem það rann upp fyrir mér, að ég er ekki lengur 18 ára. Lendingin var nokkuð þung og mér varð ljóst að eitthvað hafði gerst. Ekki hvarflaði að mér að fara að kveinka mér, heldur stóð upp og tók stórmannlega við hrósi félaga og andstæðinga fyrir frammistöðuna - lét sem ekkert væri. Ég veit svo sem ekki hvort það er eitthvað. Það tekur nokkuð á ef ég hreyfi mig og ég sit undir athugasemdum fD ef ég leyfi mér að senda frá mér eina og eina sársaukastunu. 

Lexían er þessi: Við eigum okkar blómatíma aftur og aftur í gegnum allt lífið, galdurinn er bara að finna út rétta blómatímann fyrir hvert tilvik. Minn blómatími í knattspyrnunni er ekki núna, ef hann var þá einhvern tíma einhvers staðar. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...