Sýnir færslur með efnisorðinu Kristinn Kristmundsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kristinn Kristmundsson. Sýna allar færslur

02 október, 2010

Leiðarlok Laugvetnings


Kristinn Kristmundsson, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni, lést þann 15. september, 73 ára að aldri. Hann fæddist á Kaldbak í Hrunamannahreppi. Það eru 50 ár á þessu ári síðan hann gekk að eiga eftirlifandi konu sína Rannveigu Pálsdóttur (Bubbu) frá  Stóru-Sandvík. Þau eignuðust 4 börn.
Útför Kristins verður gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag og hann verður jarðsettur á Laugarvatni.

Kynni okkar Kristins hófust haustið 1970, þegar ég hóf nám í Menntaskólanum að Laugarvatni, sama haust og hann tók við skólameistaraembættinu. Eftir árin þar lá leiðin annað þar til ég hóf störf sem kennari við skólann haustið 1986. Eftir það starfaði ég með Kristni þar til hann lét gott heita. Þar með lauk samskiptum okkar hreint ekki, þar sem hann og Bubba sóttu skólann oft heim síðan og í gegnum veru Bubbu í Skálholtskórnum héldu samskiptin einnig áfram.

40 ára kynni, sem aldrei bar skugga á, skilja eftir sig mynd af einstaklega heilsteyptum manni, sönnum húmanista með leiftrandi kímnigáfu. Þarna fór maður sem sóttist ekkert sérstaklega eftir sviðsljósinu, en lenti þar bara aftur og aftur, þar sem samferðamenn gerðu þá kröfu til hans að fá að heyra hvað hann hefði fram að færa. Ég hugsa að ég orði það sem svo, að af honum hafi geislað einhvers konar persónulegri dýpt. Hann var í eðli sínu fræðimaður, mikill íslenskumaður og afbragðs kennari. Aldrei varð ég var við að hann hreykti sér, þvert á móti ástundaði hann það að gera minna úr sjálfum sér en efni stóðu til. Þetta kom ekki síst fram þegar hann flutti tækifærisvísur eftir sjálfan sig, sem reyndust undantekningalaust fela í sér allt sem prýðir góðan kveðskap. 

Ég reikna ekki með að það hafi verið einfalt mál fyrir Kristin að taka við stjórn Menntskólans að Laugarvatni þegar hann var rétt að verða 33 ára að aldri. Unga fólkið á árunum í kringum og upp úr 1970 var nú ekki beinlínis það meðfærilegasta sem sögur fara af. Þetta voru árin þegar ungdómurinn var talsvert uppreisnargjarnari og gagnrýnni en nú er. Við þær aðstæður hlýtur að hafa reynt á ungan mann að halda utan um svo stórt heimili sem þarna var um að ræða. Lífsförunautur hans, hún Bubba, var án efa betri en engin í að styðja hann í erilsömu og krefjandi starfi.  Það má kannski líta svo á, að fyrsti áratugurinn hans við skólastjórnina hafi verið nokkurskonar eldskírn. Eftir það  vil ég fullyrða að hann hafi verið skólinn og skólinn hann. Þeir eru orðnir margir nemendur hans, sem nú minnast hans fyrir þau áhrif sem hann og skólinn höfðu á líf þeirra. Mér fannst það alltaf með ólíkindum, en samt lýsandi fyrir þá persónulegu nánd sem einkenndi skólabraginn, og hvernig Kristinn nálgaðist starf sitt, að hann hafði ávallt á hraðbergi nöfn allra nemenda, hvort sem þeir voru í skólanum eða horfnir á braut. 

Þó svo veikindi hafi sett eitthvert strik í reikninginn síðustu árin, var Kristinn ekkert á því að láta það aftra sér frá því að sinna hugðarefnum sínum og njóta lífsins að öðru leyti.
Mér sérstaklega minnistæð framganga hans í Ítalíuferð Skálholtskórsins fyrir nokkrum árum, þar sem hann reyndist enginn eftirbátur þeirra sprækustu.   
Ég minnist góðs samferða- og samstarfsmanns með hlýju og virðingu.
                                                                                                                                   

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...