Sýnir færslur með efnisorðinu Samfélagsmál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Samfélagsmál. Sýna allar færslur

20 mars, 2020

Minna

"Ég hefði ekki átt að hlusta á þig", voru orð sem  ég fékk að heyra áðan, þegar í ljós kom, að það var ekki nema botnfylli af barbekjú sósu til á bænum. Ég hafði svarað því, aðspurður í verslun í morgun, að ég hefði séð slíka sósu inni í eldhússkáp. Þar með var ekki keypt barbekjkú sósa í þessari kaupstaðarferð. Auðvitað legg ég til að það verði gert gott úr þessu, sett bara meira af öðru kryddi, farnar nýjar leiðir, fundið nýtt bragð. Ég á það gjarnan til, reyndar, að stinga upp á að setja vel af chili í aðskiljanlega rétti og fæ sjaldnast undirtektir sem talist gætu jákvæðar. 

"Nú lifum við fordæmalausa tíma", þreytast alþingismennirnir ekki á að endurtaka, í síbylju, á Alþingisrásinni. Vissulega er það rétt og ég held að við séum nú öll að verða búin að átta okkur á því og endurtekningar þar með óþarfar. Allt sem maður upplifir þessa daga er fordæmalaust (fordómalaust - segja nýyrðasmiðir). Allt umhverfi manns er með nokkrum ólíkindum. Í kaupstaðarferð í morgun mættum við 5 bílum milli Laugaráss og Selfoss, það var aldeilis engin umferð á Selfossi og andrúmsloftið í matvöruverslun, sem hefur opið milli 9 og 10, sérstaklega fyrir eldri borgara og þá sem veikir eru fyrir, var starfsfólkið með grímur fyrir andlitum og latex hanska á höndum. Viðskiptavinirnir sárafáir og gerðu sitt besta til að forðast nánd hver við annan. Brostu kannski hálf vandræðalega, eða kinkuðu kolli. Fólk sprittaði sig inn og fólk sprittaði sig út.
Þetta er í rauninni til fyrirmyndar, í ljósi stöðu mála.
Ég bíð þess þó að fram spretti Trumpistanskir vanvitar og geri ástandið verra en það þarf að vera. Nokkra sér maður reyna fyrir sér í íslenskum samfélagsmiðlum, en mér sýnist tilraunir þeirra flestra vera kæfðar í fæðingu.


Það fer ekki á milli mála, að við erum búin að búa til samfélag, sem gengur varla til lengdar nema við kaupum hluti eða þjónustu, meira með hverju árinu sem líður. Það fer heldur ekki á milli mála, að við getum verið án stórs hluta þeirra hluta og þjónustu sem við kaupum, án þess að lífsgæði okkar skerðist að marki (gætu jafnvel batnað umtalsvert). 
Mér finnst kominn tími  til að við lifum hægar. Látum duga, t.d. að fara ekki til útlanda nema einu sinni á ári, eða jafnvel annahvert ár, jafn vel bara enn sjaldnar. Stefnum að því að eiga símana okkar í það minnsta í 5 ár, förum ekki út að borða nema kannski einusinni í mánuði og svo fram eftir götunum.
Ef við gerum þetta nú öll, hvað þá?  Hvað verður um verslanirnar, veitingastaðina, flugfélögin, símaframleiðendur og allan þann fjölda fólks sem byggir lífsviðurværi sitt á störfum í þessum geirum og öðrum svipuðum?  Þar stendur hnífurinn í vorri kú, nefnilega. Kapítalisminn byggir, að stórum hluta, á því að við dundum okkur við það, daginn út og inn, að kaupa af og selja hvert öðru, vörur og þjónustu. Því meira sem við kaupum og seljum, því betra fyrir hagvöxtinn og því "þægilegra" lífi lifum við. Ég hef reyndar afar lengi velt fyrir mér, hvenær hagvöxturinn verður kominn upp í þak og getur ekki hækkað lengur. Hvað gerist þá? 
Getum við dregið úr þessari neyslu án þess að samfélagið hrynji með tilheyrandi hörmungum? Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér hvort mögulegt geti verið að endurskapa samfélag manna, þannig að þeir verði sjálfum sér nægari, geri minni kröfur til efnislegra gæða, losni við þann klafa sem græðgin leggur á þá. Ég á erfitt með að ímynda mér þann veruleika, eins og maðurinn er samsettur, en aldrei skyldi maður segja aldrei. Út úr þessu veirutímabili kemur líklega annaðhvort eitthvað verulega gott, eða eitthvað verulega slæmt.
Gott: Allt samfélag manna fer í hægari takt og nægjusamari. Umhyggja fólks fyrir öðrum vex, svo og skilningur þjóða í milli. Fólk vinnur skemur og þar með skapast atvinnutækifæri fyrir fleiri, börn fá að njóta meiri samvista við foreldra, heimsbyggðin sameinast í því að bjarga jörðinni frá tortímingu.
Slæmt: "Mannkynslausnarar", fólk sem segist hafa öll svörin, ná að fóta sig enn frekar (varla á bætandi), með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina alla.

Kannski er þetta bara allt bull, sem ég set hér fram, hver veit? Ég er nú farinn að nálgast þann aldur sem greinir á milli þess að mega hafa skoðun og mega það ekki.

"Lokaðiðru ekki olíulokinu?" Þessi orð voru sögð í þann mund er við renndum í hlað í Kvistholti eftir kaupstaðarferðina. Ég fyllti bifreiðina af eldsneyti á Selfossi áður en við héldum heim á leið. Í ljós kom, sem sagt, að ég hafði ekki skrúfað olíulokið í og ekki skellt lokinu fyrir. Auðvitað hefði fD átt að taka eftir þessu strax, líta í baksýnisspegilinn, en ekki þegar við vorum búin að aka 40 km. Kannski er að verða eins komið fyrir henni og mér.

Við erum í stöðu sem er ekki ósvipuð samskiptum eyruglunnar og smáfuglanna hér fyrir utan í gær. Hún sat í tré og leitaði færis. Þeir tóku áhættuna af því að renna sér inn á pallinn, tína nokkur korn upp í sig, áður þeir drifu sig, allir í hóp, í skjól í næsta tré. Uglan sat hin rólegasta og lyngdi augum, fylgdist grannt með, beið eftir færi. Samstaða þeirra litlu varð til þess, að hún fékk aldrei færi á þeim. Ég skil nú betur mikilvægi þess fyrir garðfuglana, að vera stöðugt á verði - vara sig.




17 mars, 2017

Rétturinn til að vera eins og mann langar að vera.

Þessi pistill bendir ótvírætt til þess að ég verði sífellt þjálfaðri í að segja ekki neitt í mörgum orðum, en segja þó margt.
Stundum stend ég mig að því að hafa hug á að segja, bæði á þessu svæði og í töluðu máli, nákvæmlega það sem mér býr í brjósti (sem er nú ekki alltaf birtingarhæft), en ákveð jafnharðan, að það sé sennilega ekki þess virði.
Hvað myndi ég hafa upp úr því annað en heilaga vandlætingu heimsins?
Yrði ég einhverju bættari?
Myndi tjáning mín breyta einhverju umfram það sem nettröllunum tekst að koma til leiðar?
Svo velti ég auðvitað fyrir mér hvort öðrum komi við hvað mér finnst um hitt og þetta?
Svo ekki sé nú nefnd spurningin um það hvort einhver hefur yfirleitt áhuga á að öðlast innsýn í hugarheim karls á sjötugsaldri (hvíts, meira að segja), sem þekkir ekki sjálfan sig í þeim "staðlmyndum" sem dregnar eru upp af körlum af þessu tagi, eða körlum yfirleitt..

Það fer auðvitað ekki milli mála, að ég hef fullan rétt á að halda fram skoðunum mínum, hvort sem þær eru rökstuddar eða ekki. Ég þarf bara að svara því hvort þessar skoðanir megi bara ekki vera mínar, og í sófanum með fD.
Skoðanir mínar og sýn mín á lífið eru til staðar, en stundum er bara betra að þegja; leyfa þeim sem vilja tjá sig út í hið óendanlega, í hópi jábræðra/jásystra sinna, án þess að nokkur nenni að bregðast við.
Auðvitað er ég ekkert upprifinn yfir því að ég skuli ekki bara láta vaða, en að sama skapi dálítið stoltur af sjálfum mér að halda ekki út á það forarsvað sem íslensk umræðuhefð býður upp á.

Kannski sætti ég mig bara við þá STAÐALMYND sem ég er settur í. Kannski endar með því að ég trúi því að þar eigi ég heima. Ég fæ daglega að vita af því hvaða flokki ég tilheyri, án þess að hafa gert mér grein fyrir að þar ætti ég heima.  Ég fæ daglega að vita af því hvað ég er, hvernig ég er og hvað ég stend fyrir. Ég fæ daglega upplýsingar um það að ég eigi að vera öðruvísi en ég er og haga mér öðruvísi en ég geri.  Myndin sem ég fæ af sjálfum mér, á hverjum einasta degi, er hreint ekki falleg. Því miður. Mér hefur ekki fundist ég vera neitt sérstaklega vondur maður, eða verulega ósanngjarn í framgöngu minni. Finnst meira að segja, að ég hafi lítið eitt til brunns að bera, sem er jákvætt, uppbyggilegt eða hlutlaust.  Það er víst ekki svo, er mér sagt, daglega.  Ég er alltaf að troða á öðrum eða taka pláss frá öðrum.

Einhversstaðar var sagt: "Ég er eins og ég er" og það er mikið til í því. Ég fæddist í þennan heim með tiltekna kosti eða galla, í líffræðilegum skilningi. Það er víst hægt að breyta því nú til dags, sem getur vissulega verið jákvætt þar sem það á við.  Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mér beri verða við kröfum um að ég breyti mér frá því sem ég varð í móðurkviði. Ég hef ávallt hafnað því, vegna þess, að ég er eins og ég er. Ef ég er mögulega tiltölulega sáttur við sjálfan mig, í stórum dráttum, þannig, þá er það bara svo og verður svo.

Til að hafa þetta nú allt á hreinu þá má gjarnan skipta út orðunum ég/mig/mér/mín hér fyrir ofan og setja í staðinn hann/honum/hans eða hún/hana/henni/hennar.
Setji fólk 3. persónu fornafn í stað 1. persónufornafns, bið ég það að hugsa sem svo, að á bak við þau sé ungt fólk á mótunarárum. Ég fer ekki fram á annað.
----------------
Hvað sem því líður, þá er tilefni þess að ég settist niður á þessum föstudegi til að skrifa mörg orð sem segja kannski ekki neitt, af ástæðum sem í honum má finna ef vel er að gáð, myndin sem er hérna efst, en hana sá ég í einhverjum vefmiðli.  Þarna voru á ferð Guðrún Jónsdóttir(ljósmyndarinn) og dóttir hennar Sóley Tómasdóttir (fyrirsætan). Guðrún kenndi með mér fyrir ártugum síðan. Hún var litrík baráttukona þá og hefur verið síðan. Sóley var þá barn að aldri. Ég man ekki eftir mikilli baráttu hjá henni þá, fyrir einhverjum málstað, en hún hófst og stendur enn.



28 ágúst, 2016

Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði


Það sem hér er til umfjöllunar á sér bræður í tveim pistlum frá ágústmánuði árið 2014 og þá má sjá hér og hér.
Það er nánast erfitt að hugsa til þeirra tíma þegar móttaka nýnema í framhaldsskóla á Íslandi tók mið af því sem gerist þegar ný hæna kemur inn í hænsnahóp. Ég held og vona að það hafi tekist að breyta þeim hefðum sem voru orðnar allof fastar í sessi og sem fólust í því að spyrja nýnema hvern fjandann þeir vildu upp á dekk og gera þeim ljóst að þeir væru ekki velkomnir. Þeir þyrftu að gangast undir píningar og niðurlægingu til að geta fengið inngöngu í samfélag nemenda í skólanum; leggja leið sína í gegnum einhverskonar hreinsunareld.
Auðvitað getur hver maður séð að með þessum aðferðum við að taka á móti nýjum samnemendum voru eldri nemendur fyrst og fremst að gera lítið úr sjálfum sér, þroska sínum og atferli. Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma þeirra hugsun til skila, til þess var óttinn við að víkja frá hefðinni of sterkur. Ég er viss um að margir áttuðu sig á þessu, en voru ekki tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að breyta.


Það er svo, að dropinn holar steininn og við kusum að fara tiltölulega mjúka leið til að breyta þeim hefðum sem tengdust "busun" eða móttöku nýnema. Einum af öðrum var þeim þáttum fækkað, sem í raun voru óásættanlegir og þar kom, haustið 2014 og endanlegur viðsnúningur varð og það sem áður kallaðist "dauðaganga" í umsjón ruslapokaklæddra, sósu- og matarlitaðra  ógnvalda, vék fyrir "gleðigöngu" sem er leidd áfram af dansandi, skrautklæddum fígúrum af ýmsu tagi. Það var fatnaðurinn og tónlistin sem í raun breytti öllu yfirbragðinu.  Stjórn nemendafélagsins sem tók þá erfiðu ákvörðun að móta þessa nýju nálgun, verður seint fullþakkað. Vissulega voru þau ekki endilega öll sátt og vissulega voru aðrir eldrinemendur misglaðir, en þeir tóku þátt í breytingunni.
Ég hef, starfsins vegna, fylgst allvel með þessum þætti í gegnum árin. Neita því ekki, að ég kveið nokkuð fyrir því fyrstu skiptin; fannst skelfilegt hve lágt var lagst á stundum og man þá tíma þegar einhverjir eldri nemendur voru búnir að setja í sig það sem ekki má og þá fannst mér þessi hefð vera komin á sitt lægsta plan.

Nú er móttöku nýnema lokið í þriðja sinn, með þeim jákvæðu formerkjum sem  mótuð voru haustið 2014.   Trú mín á að maðurinn sé eitthvað annað og meira en kjúklingur, hefur vaxið enn frekar.

29 júlí, 2016

Líklega betra að koma ekki heim

Fyrrverandi forsætisráðherra steig inn í ljós fjölmiðlanna fyrir nokkrum dögum og tilkynnti endurkomu sína. Hvaða endurkoma er það? Hann situr á Alþingi sem fyrr. Er það þá endurkoma í forsætisráðuneytið?
Endurkomu sína tilkynnti hann þannig, að hann væri kominn heim, með tilvísum í lag og texta sem tengist aðallega glæstum árangri íslenskra landsliða í íþróttum þessi misserin.  Ég leyfi mér hér, aðallega, auðvitað að gamni mínu, að heimfæra texta Jóns Sigurðssonar upp á þessa meintu endurkomu fyrrverandi forsætisráðherra.

------------------------------



Er völlur grær og vetur flýr,
og vermir sólin grund.
Kem ég heim og hitti þig,
verð hjá þér alla stund.


Í þessari vísu er augljóslega verið að fjalla um að heimkoman verði næsta vor og það  skýrir sannarlega hversvegna sá sem segist vera kominn heim, hefur tjáð sig á öðrum vettvangi um að það skuli kosið í vor. 
Annarrar persónu fornafnið vísar augljóslega til þjóðarinnar og ber með sér að hann telji ástæðu til þess að hún hlakki til. Hann gerir einnig ráð fyrir því, að þegar kann kemur, verði það til frambúðar.


Við byggjum saman bæ í sveit,
sem brosir móti sól.
Þar ungu lífi landið mitt
mun ljá og veita skjól.


Hér er talað um bæ í sveit, sem bendir þá til þess, að um verði að ræða bæinn Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð, sem einmitt má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð
Þar er þá líklega meiningin að sitja á pallinum og brosa með bænum mót austfirskri sólinni. 
Það er áhugavert, að samkvæmt þessu gerir sá sem segist vera kominn heim, ekki ráð fyrir að búa í Skrúðási 7 í Garðabæ, eins og gera hefði mátt ráð fyrir, enda verður það hús seint talið til sveitabæja. 
Að öðru leyti má lesa út úr þessari vísu, að við heimkomuna muni nýjum samflokksmönnum fjölga og þeir muni njóta þess að sá sem segist vera kominn heim, verði kominn heim. Sú framtíðarsýn kann að höfða til einhverra. Þá er þarna talað um "landið mitt" og þar með það slegið út af borðinu, að um land einhverra annarra sé að ræða, nema
Skrúðaás 7, Garðabæ
auðvitað um sé að ræða jörðina Hrafnabjörg út af fyrir sig.

Sól slær silfri á voga,
sjáðu jökulinn loga.
Allt er bjart yfir okkur tveim
því ég er kominn heim.

Hér er sleginn nokkuð rómatískur strengur og þar með þess freistað að höfða til tilfinninga lesandans. Vissulega má segja að Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð standi ekki fjarri Héraðsflóa (kort) og þar megi mögulega líta dans sólageislanna, en þá þarf auðvitað að hafa það í huga að Héraðsflói er flói en ekki vogur. Með því að kalla hann vog, er verið að gera lítið úr honum, en einmitt sú yfirlýsing gæti bent til þess að sá sem segist vera að koma heim, sé talsvert hrokafullur í eðli sínu.  
Tilvísunin í jökulinn sem logar í geislum kvöldsólarinnar er dálítið dularfull, enda engir jöklar á Norð-Austurlandi. Þarna er sá sem segist vera kominn heim að öllum líkindum að freista þess að höfða til víðari hóps, ekki síst á þeim landsvæðum þar sem einhverjir jöklar sjást, þar með höfuðborgarsvæðinu, þar með í Garðabæ, sem síðan má túlka sem tilboð til þeirra sem hallast frekar til hægri í stjórnmálum.

Sá sem segist vera kominn heim telur að allt verði bjart yfir honum og þjóðinni þegar hann kemur heim, en fjallar ekkert frekar um hvað það er, sem gefur tilefni til þeirrar yfirlýsingar. Birta getur verið svo margt: 
- birtan sem stafar frá sólinni og er grundvöllur lífs á jörðinni, 
- birtan sem verður til innra með fólki vegna einskærrar lífshamingju, 
- birtan sem verður til þegar frelsarinn snýr aftur frá himni (money heaven, ef til vill) 
- birtan sem leggst yfir þjóð sem hefur kosið réttan stjórnmálaflokk til valda, 
- birtan sem lýsir frá öflugum stjórnmálaleiðtoga. 
Það er mörg birtan, en ekki verður ráðið af vísunni hverskonar birtu sá sem segist vera kominn heim er að tala um.

Að ferðalokum finn eg þig,
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.

Ekki er ljóst af samhenginu, úr hvaða ferð sá sem segist vera kominn heim, er að koma. Hvert var tilefni ferðar rhans? Hvert fór hann? Hvað gerði hann á þeim tíma sem hann var í ferðinni?  
Hér kemur auðvitað ótalmargt til greina. Það sem telja verður líklegustu skýringuna, svona í heildarsamhenginu er, að sá sem segist vera kominn heim, hafi flúið út úr ofbeldissambandi, þar sem hann var helsti gerandinn og farið í ferðalag þar sem hann tókst á við sjálfan sig, leitaði skýringa á því hvernig fór sem fór og lausna á því hvernig bætt yrði úr.  Margt bendir til þess að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu og það sem gerðist í aðdraganda ferðarinnar hafi með engu móti mátt rekja til þess að hann hafi gert eitthvað rangt, þvert á móti.  Hann er þess því fullviss að honum verði tekið opnum örmum þegar hann snýr til baka. Hann telur sig hafa verið fórnarlamb þess sem hann ávarpar í textanum, en hefur fyrirgefið af stórmennsku sinni. Hann er þess fullviss, að endurkomu hans verði fagnað.

Sá sem segist vera kominn heim, sendi textann á undan sér, fullur bjartsýni á að óbreytt nálgun hans að heimilislífinu muni vera hið eina rétta til að endurnýja sambandið.  

Það er ekki óvarlegt að ætla, að hann geti hafa metið stöðuna rangt.

ÉG ER KOMINN HEIM (FERÐALOK) - ÓÐINN VALDIMARSSON
Erlent lag en textinn eftir Jón Sigurðsson

23 júlí, 2016

Vanþróuð víkingaþjóð

Um aldamótin fylgdi ég nemendahópi í heimsókn til vinaskóla í Bæjaralandi í Þýskalandi og þar áttum við ágætan tíma og nutum gestrisni Þjóðverja.  Einn dagur heimsóknarinnar fór í rútuferð í skóg nálægt landamærunum við Tékkland, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þarna var um að ræða skóg sem fékk að þróast algerlega án aðkomu mannsins; tré uxu af fræi og féllu þegar sá tími kom. Fallin tré lágu síðan þar sem þau féllu og hurfu með tímanum aftur til jarðarinnar til að af henni gætu vaxið ný tré.
Þarna gegum við um þennan villta skóg dagspart og gerðum ýmislegt. Einn þáttur dagskrárinnar fólst í því að nemendunum var skipt í tvo hópa, Íslendingar í öðrum og Þjóðverjar í hinum. Hóparnir fengu í hendur spegla og áttu síðan að keppa í því hvorum gengi betur að ganga um skóginn þannig, að þátttakendur héldu speglunum fyrir framan sig eins og sjá má á myndinni. Með þessum hætti sáu þátttakendur upp í trjákrónurnar og himininn.
Það kom í ljós, að mig minnir, að Íslendingaliðinu gekk betur.
Í spjalli við kennara Þjóðverjanna á eftir sagði hann mér hver tilgangur leiksins hefði verið, nefnilega sá, að staðfesta þá kenningu að Íslendingar væru tengdari náttúrunni en Þjóðverjar. 

Ég ætla hreint ekki að þvertaka fyrir, að við þessar upplýsingar varð ég nokkuð hugsi og það örlaði á því sem kalla mætti móðgun. Það var auðveldlega hægt að túlka þessa kenningu sem svo, að þar sem styttra væri síðan Íslendingar komu út úr torfkofunum væru þeir skemmra á veg komnir og þar með síður þróaðir en Þjóðverjar (og þá væntanlega aðrar vestrænar þjóðir) að flestu leyti og í grunninn með vanþróaðri heila.
Auðvitað var þetta ekki lagt svona upp af kennaranum, heldur þannig að það væri jákvætt að vera nær náttúrunni. Það breytti hinsvegar ekki því hvernig ég sá þetta fyrir mér.

Síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að einn nemandinn úr mínum hópi kom að máli við mig í talsverðu uppnámi eftir að þýskur félagi hans hafði upplýst hann um að heilinn í Íslendingum væri vanþróaðri en Þjóðverjum.   Auðvitað varð niðurstaða um að gera ekkert veður úr þessu, enda varla auðveld umræða sem það fæli í sér. Við ákváðum bara að við vissum betur og þar við sat.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa spegilleiks síðan.
Var þetta kannski bara rétt hjá Þjóðverjunum?
Er kannski of stutt síðan við komum út úr torfkofunum?
Ráðum við við að halda í við þær þjóðir sem byggja á lengri þróunarhefð?
Erum við kannski ennþá víkinga- og veiðimannasamfélag sem er að þykjast vera eitthvað annað, uppblásin af minnimáttarkennd? (hádújúlækÆsland?)

WE ARE THE VIKINGS, HÚ!!
Æ, ég veit það ekki.

Svo er það hin hliðin á peningnum.

Er viðhorf útlendinga til okkar með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan?
Líta þeir á okkur sem skemmra á veg komin á flestum sviðum, kannski bara hálfgerða villimannaþjóð, þar sem lög og regla eru bara til hliðsjónar og siðferðileg álitamál eru ekki mál?
Skýrir það að einhverju leyti margumrædda og óvirðandi hegðun einhverra ferðamanna?  Kannski líta þeir svo á að þeir séu komnir til landsins sem leyfir þér allt.

Ég bið þá lesendur, sem mögulega taka efasemdir mínar um söguþjóðina nærri sér, afsökunar.

Ég held svo bara áfram að efast.


01 júlí, 2016

Þorpið teiknað

"Um holt og hól" Dröfn Þorvaldsdóttir 2016
Það vita það ef til vill sumir, að undanfarin ár hef ég dundað mér við það í verkföllum og frístundum, að safna saman efni um Laugarás. Það bætist stöðugt við, en þó hægar en skyldi, ef til vill.
Eitt af því sem ég lít á sem hluta af þessu verkefni, er að teikna upp kort af  þorpinu. Það verk er nú hafið og nánast hver stund milli knattspyrnuleikja og heilsubótargöngutúra, hefur farið í þetta að undanförnu.  Við verkið notast ég við AI (Adobe Illustrator), mikið töfratæki, ekki síst þegar ég verð búinn að ná almennilegum tökum á því. Þarna er hægt að setja upp teikningu sem er lagskipt, þannig á á einu laginu eru bara vegir, á öðru íbúðarhús, þriðja gróðurhús, fjórða eitthvað sem er horfið, og svo framvegis. Svo get ég slökkt á þessum lögum eftir því sem hentar. Þetta er skemmtileg iðja.

Hér fyrir neðan má sjá stöðu þessa máls nú.
Ég notaðist við:
- loftmynd frá Loftmyndum ehf.,
- kortið sem Bjarni Harðarson birti hér fyrir nokkru og sem Atli Harðarson teiknaði,
- loftmynd af Laugarási (okt. 1966)
- skipulagstillögu vegna sláturhússlóðarinnar

Ég er ekki að birta þetta hér bara að gamni mínu, heldur þætti mér vænt um að fá ábendingar og það sem réttara má teljast og tillögur að nýjum lögum sem skella má inn á kortið.

Ég tek það fram, að lóðamörk eru ekki nákvæm þar sem mér finnst þáu ekki vera aðalatriði í þessu samhengi. Það væri þó gaman að geeta haft þau sem réttust og ég treysti því að kunnugir bendi mér á  það sem rétt telst vera.


Hér fyrir neðan er svo, til gamans, hluti úr kortinu, þar sem ég er búinn að setja inn tillögu um skipulag sláturhúslóðarinnar.


Veit einhver hvort lóðin var seld núverandi eigendum ásamt reitnum sem er austan vegarins?


28 júní, 2016

Sumarið kemur í haust - vonandi

"Svo ólík, en samt eins" - Dröfn Þorvaldsdóttir (2016)
Það skall á vetur í október 2008. Hann hefur staðið síðan. Vetur í íslensku þjóðlífi. Því er ekki að neita, að það hefur komið hláka við og við og þá aðallega vegna utanaðkomandi áhrifa. Það hafa einnig komið slæmir frostakaflar, sérstaklega vorið 2013. Þá lá við alkuli, en síðan minnkaði frostið aðeins næstu árin vegna flugvélafarma frá suðlægari slóðum og ekki síst í mars 2016, þegar öflug lægð með uppruna lengst suður í Atlantshafi út af ströndum Suður-Ameríku, reið yfir þjóðina. Það hlýnaði verulega og sólin yljaði rækilega í kjölfarið. 
Því er hinsvegar ekki að neita að sumum hlýnaði meira en öðrum. Það má segja að vorkomunni væri misskipt á landslýð.

Það má halda því fram, að þann 25. júní og dagana þar í kring, hafi orðið þáttaskil þegar þjóðin kvaddi veturinn endanlega.  Þann 27. reið sannkölluð hitabylgja yfir þjóðina; hitabylgja sem allir fengu að njóta. Ekki gera spár ráð fyrir öðru en veður haldist með ágætum í einhverja mánuði. Helst er gert ráð fyrir að það geti brugðið til beggja vona í október. Þá verða enn veðraskil, ef að líkum lætur. Vonir standa þó til að þá muni sumarið loksins festa sig í sessi og ein þjóð í landinu geti gengið saman um ókomna tíð, með sól á himni, blóm í haga, ást í hjarta; sameinuð til móts við nýjar áskoranir á öllum sviðum. 
-------------------
Skelfing er það undarlegt hvað forsetakjörið síðastliðinn laugardag og ítrekuð stórafrek knattspyrnulandsliðsins geta nú lyft manni í hæðir.  Jú, ég gaf frá mér hljóð nokkrum sinnum í gærkvöld þegar hápunktarnir áttu sér stað. Það varð ítrekað rof milli mín og sófans. 
fD hrópaði ekki.
Jú það væri gaman að skjótast til Parísar, en ætli mig skorti ekki nennu til.  
Lélegt. 

24 júní, 2016

Seríos áskorunin

"Börn í leik" Dröfn Þorvaldsdóttir (2015)
Þar sem  ég hef ákveðið að blanda mér ekki í mismislita umræðuna sem á sér stað um Brexit, forsetakosningar eða EM, hef ég þessu sinni valið mér að fjalla í stuttu máli, auðvitað, um börn og foreldra (aðallega feður, að mér sýnist).
Ef ekki fæddust nein blessuð börn væri mannkynið sannarlega í djúpum skít - en það fæðast börn. Reyndar eru íbúar svokallaðra þróaðra þjóða, sem mér sýnist að, að mörgu leyti megi kalla úrkynjaða (þetta var illa sagt og vanhugsað - kannski), komnir að þeirri niðurstöðu, að börn séu til vandræða fremur en eitthvað annað.  Í það minnsta fækkar börnum meðal þessara þjóða og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um ástæðurnar, þó á þeim hafi ég vissulega ótæmandi úrval skoðana.


Hversvegna ætti fólk að eignast börn, yfirleitt?
Varla fyrir slysni, enda hægur vandi að skipuleggja barneignir á þessum tímum.
Ég get alveg tínt til nokkrar mögulegar ástæður.

1. Meðfædd þörf mannskepnunnar, eins og annarra dýra, að geta af sér afkvæmi. Það er reyndar ekkert meira um það að segja. Örugglega góð og gild ástæða.

2. Krafa stórfjölskyldunnar (ekki síst mæðra, ímynda ég mér) um að fjölgun eigi sér stað. Með öðrum orðum, utanaðkomandi þrýstingur. "Er eitthvað að? Geturðu ekki átt börn?"

3. Þörf samfélagsins til að til verði einstaklingar til að standa undir samfélagi framtíðarinnar. Það verður að búa til framtíðar skattgreiðendur til að halda hjólunum gangandi, standa undir efnahagslegum vexti. Það þurfa alltaf að vera til neytendur framleiðslunnar. Einhvernveginn  þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, ævikvöld foreldranna og annað það sem hver kynslóð þarf að geta  staðið undir.

4. Þrýstingur jafnaldra. Allir vinirnir eru búnir að eignast börn og birta dásemdar myndir af á þeim á samfélagsmiðlum. Þessar myndir tjá endalausa hamingju foreldranna. "Þetta er frábært! Ætlar þú ekki að fara að koma með eitt?"

5. Sú hugmynd að börn séu stöðutákn. Þau sýna fram á að foreldrarnir eru færir um að fjölga sér og sjá fyrir sér og sýnum. Foreldrar og börn njóta virðingar umfram þá sem einhleypir eru eða barnlausir.

6. Krydd í tilveru hverrar manneskju. Sá tími kemur að djammið um hverja helgi fullnægir ekki lengur þörfinni fyrir merkingarbært líf. Tákn um það að einstaklingurinn er orðinn fullorðinn og maður meðal manna. Nýr taktur í lífið.

Ég gæti örugglega haldið lengi áfram að skella fram mögulegum ástæðum fyrir barneignum fólks. Það má segja að allar ástæðurnar sem ég taldi hér fyrir ofan tengist með ýmsum hætti og að þannig ráði oftast ekki ein ástæða umfram aðrar. Ég held því hinsvegar fram, að þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn, ráði ástæða númer þrjú minnstu.

Hvað um það, barn er getið og það fæðist, eftir dálítið dass af bumbu- og/eða fósturmyndum á facebook. Það er hægt og bara harla auðvelt, að deila hamingju foreldranna með öðrum, og hversvegna þá ekki að gera það?

Það er okkur öllum ljóst, að öllum foreldrum finnst sitt barn fallegast og best. Því ekki að fá staðfestingu á því? Það er alltaf gott að fá hrós. Við höfum öll þörf fyrir það.  Við þekkjum öll slíkt hrós: "AWWWW", "Dúllan", "Þetta krútt" og svo framvegis.

Sumum er þetta ekki nóg, og ganga lengra.  Það má jafnvel segja, að hrósþörfin verði að fíkn, að gleðin og hamingjan vegna krúttsins verði æ mikilvægari eftir því sem það verður fyrirferðarmeira.
Það verður smám saman ekki nóg að birta krúttmyndir með fyrirsjáanlegum viðbrögðum. Það þarf meira.
Þá koma oftar en ekki til hugmyndaríkir pabbar. Dæmin felast í myndunum sem hér fylgja.

Er rétt að líta á börn sem leikföng, eða nota þau í því samhengi?  Því verður hver að svara fyrir sig, en í stóra samhenginu, sem felst í lið númer þrjú hér fyrir ofan, held ég nú að leikfangsvæðing barna geti verið nokkuð varasöm. Hlutverk foreldra er að skila af sér einstaklingi sem þeir eiga ekki og hafa aldrei átt, nema kannski í orði kveðnu. Það er sannarlega í góðu lagi að þeir njóti þess að eignast barn og njóti samvistanna við það. Foreldrarnir mega hinsvegar ekki líta framhjá þeirri staðreynd að litla krúttið vex og þroskast út frá því umhverfi sem það fæddist inn í og ólst upp í.

Ég get svo haldið áfram og fjallað um aðkomu samfélagsins og ábyrgð þess, en ég nenni því eiginlega ekki að svo komnu máli.




17 júní, 2016

Íslendingar að léttast?

Ég neita því ekki að á síðustu mánuðum finnst mér eins og það hafi verið að léttast upplitið á þessari þjóð; þjóðinni sem fagnar í dag á þjóðhátíðardegi. Mér hefur fundist áhugavert að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessari breytingu og að sjálfsögðu fann ég nógu góða skýringu, fyrir mig í það minnsta. Ég reikna ekki með að skýringin henti þó öllum, en hver sem hún er í raun, þá tel ég að þjóðin sé að nálgast eitthvert jafnvægi aftur, eftir næstum 15 ára óstöðugleika.

1. kafli  Bláeyg þjóð
Til að gera langa sögu stutta, hefst skýring mín á Hrunadansinum (hrundansinum) í kringum gullkálfinn, sem lyktaði með margumræddu hruni.

2. kafli Reið þjóð
Þetta fjármálahrun og þjóðarhrun neyddi okkur til að hugsa margt í lífi okkar upp á nýtt. Tveim stjórnmálaflokkum var aðallega kennt um hvernig komið varog í kosningum komust þeir flokkar til valda sem síður voru taldir hrunvaldar. Það máttu allir vita, að verkefnið sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir jaðraði við sjálfsmorð. Þjóð, sem áður hafði lifað í vellystingum með fjármagni sem engin innistæða hafði verið fyrir, var hreint ekki sátt við allan þann niðurskurð sem hér varð. Það risu upp lukkuriddarar í forystu fyrir flokkana sem hafði verið kennt um hrunið, sem töldu sig vita betur en stjórnvöld og lögðu sig fram um að rýra trúverðugleika þeirra. Þrátt fyrir miklar árásir og niðurrif ásamt innbyrðis átökum, tókst þessari stjórn að skapa grunn að endurreisn.  Sú vinna varð henni dýrkeypt.

3. kafli  Reið og bláeyg þjóð
Þjóðin var ekki sátt. Í kosningum, 4 árum eftir hrun voru það lukkuriddararnir sem báru sigur úr býtum. Sögðust myndu ganga frá vondu hrægömmunum sem ógnuðu þjóðinni. Sögðust myndu afturkalla allar vondu ákvarðanirnar sem ræstingafólkið hafði tekið. Áttu varla orð yfir hve lélegt ræstingafólkið hefði verið og þjóðin, sem auðvitað var enn ósátt við hvernig farið hafði, var búin að gleyma. Þjóðin man ekki langt, enda er það það sem brennur á skinninu hverju sinni sem ræður ákvörðunum hennar.
Með lukkuriddurum hófst, að þeirra sögn, hin raunverulega endurreisn. Þeir gerðu fátt annað en setja hvert heimsmetið af öðru með frábærum ákvörðunum sínum, að eigin sögn.  Svo kom í ljós að þeir voru ekki allir þar sem þeir höfðu verið séðir. Þeir höfðu ekki komið hreint fram.

4. kafli  Reið þjóð með opin augu.
Þjóðin fór að sjá hlutina í meira samhengi en áður. Efnahagurinn tók að batna, reyndar mest hjá þeim sem síst höfðu þörf á. Reiðiöldur risu þegar flett hafði verið ofan af hluta þess sem falið hafði verið. Aðal lukkuriddarinn neyddist til að segja af sér og hvarf af vettvangi. Þá fyrst fannst mér ég verða var við að það færðist meiri ró yfir þjóðlífið og umræðuna. Þetta ástand finnst mér hafa fest sig betur í sessi eftir því sem vikurnar hafa liðið.

5. kafli Sátt þjóð?
Ég veit ekki hve langan tíma það tekur þessa þjóð að verða sátt við hlutskipti sitt. Nú er meiri von til þess, en oft áður, að hún nálgist einhverskonar sátt.  Stærsta merkið um það virðist mér vera að hún hyggst hafna, í komandi forsetakosningum, hugmyndinni um forystumann á Bessastöðum, af því tagi sem verið hefur. Hún virðist vilja hafa á þeim stað einhvern sem kveðst vilja vera raunverulegt sameingartákn þjóðarinnar. Sá sem hefur nú setið á Bessastöðum í tvo áratugi, er um margt merkilegur forseti, sem á margskonar fögur eftirmæli skilin, en hann er þeirrar gerðar að í stað þess að sameina þjóðina, stuðlaði hann að sundrungu hennar á margan hátt.
Í haust verða svo kosningar, nema það verði ekki kosningar.  Ég hef nokkra trú á því að þær kosningar muni endurspegla meiri sátt meðal þessarar örþjóðar en verið hefur um langa hríð.
Ég vona að þjóðin hafni lukkuriddurum sem segjast munu gera allt fyrir alla. Við vitum að það er ekki mögulegt.  Megi okkur auðnast að kjósa til valda öfl sem vilja gera eitthvað fyrir alla, jafnt.

Þessa dagana er þrennt sem elur á bjartsýni minni fyrir hönd íslenskrar þjóðar:

1. Knattspyrna (sem meira að segja fD er farin að sýna örlítinn áhuga á, reyndar ekki í verki, heldur með óljósum viðbrögðum sem benda til þess að þjóðarstoltið sé að bera knattspyrnuandúðina ofurliði)
2. Handknattleikur
3. Forsetakosningar

Hafir þú komst alla leið hingað í lestrinum  
óska ég þér gleðilegrar þjóðhátíðar.


Við lifum viðsjárverða tíma í okkar góða landi nú um stundir og í ár er kosningaár og er því hætt við að inn á svið landsmála skeiði pólitískir lukkuriddarar með fullar skjóður loforða og tillagna. 
Úr fundargerð aðalfundar Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, 
sem haldinn var þann 20. maí 2016 




01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

14 maí, 2016

Síðasta áminning Töru

Fyrir nokkrum árum.
Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum
Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum.
Tíkin Tara (Rexdóttir frá Hveratúni?) frá Sólveigarstöðum sá til þess að húsmóðir hennar fékk nauðsynlega hreyfingu í, á annan áratug. Hún hafði einnig góða nærveru, var afar skynug og fljót að læra bestu aðferðina við að fá fólk til að gefa sér að éta.  Þegar maður spurði: "Viltu mat?" Svaraði hún umsvifalaust með gelti sem mátti vel túlka sem "Já, já, já".
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.

Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.
 Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.
Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.

Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa  fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru  grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki.  Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.

Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
 Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.

Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.

Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.

Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.


10 apríl, 2016

Finslit

Orðið "vinur" hefur aðra merkingu á samfélagsmiðlinum Facebook en raunheimi. Vináttu taka menn upp á svona miðli af ýmsum ástæðum öðrum en að þeir séu vinir í raun. Þarna tilkynnir fólk sig til vináttu, jafnvel bara vegna þess að það þekkist af afspurn. Að nota orðið "vinátta" um það samband fólks sem þarna verður til, má kallast rangnefni og það má vel halda því fram að með þeirri tilhögun sé búið að eyðileggja ágætt orð.  Hvað merkingu leggur fólk í þessa yfirlýsingu, ef hún er ekki sett í eitthvert samhengi: "Við erum búin að vera vinir í 7 ár"?
Ég legg til að til aðgreiningar fari fólk að tala um FINI í þessu sambandi (Facebook vini). FINUR er bara fallegt orð sem fer vel við íslenska tungu.


Ég er búinn að læra hvernig ég get hætt að vera finur fólks og það sem meira er, ég get hætt fináttunni án þess að fyrrum finur minn viti af því, nema hann renni í gegnum breytingar á finalista sínum.  Ég er búinn að prófa að ljúka fináttu við nokkra nú þegar og hef ekki fengið neinar athugasemdir við það frá fyrrverandi, sennilega vegna þess að þeir vita ekki einusinni af því, sem segir margt um hverskonar finátta var þar á ferð.

Ég ætti að vera búinn að grisja finahópinn talsvert meira, en annaðhvort nenni ég því ekki eða þá ég hef öðlast nokkra leikni í því að skrolla eða skruna og líta framhjá; segja sem svo: "Já, þessi er við sama heygarðshornið!".

Mér finnst stærsti kosturinn við þennan miðil vera þeir möguleikar til að vera í sambandi við fólk sem þú myndir að öðrum kosti ekkert vita um: ættingja, gamla skólafélaga, fyrrum nágranna og því um líkt.

Það má flokka þá fini mína, sem mig langar minnst að vita mikið af í fernt:

1. Þeir sem gera fátt annað en deila einhverju sem aðrir hafa sagt þó ég viti að oft eru þeir með því, að upplýsa okkur, fini sína um eitthvað merkilegt, eða skemmtilegt sem þeir hafa rekist á í víðáttum veraldarvefsins. Það er svo sem ýmislegt til þar. Ég er sekur um þessa iðju í einhverjum mæli.

2. Þeir sem taka þátt í öllum deilileikjum fyrirtækja (auglýsingum) í von um að fá vinning. Þessi iðja er af sama tog og þegar hlustendur hringja inn í útvarpsþátt í von um að fá bíómiða, eða eitthvað þvíumlíkt.  Ég hef gert þetta einusinni. Það var í dimmasta skammdeginu og um var að ræða að komast í pott til að vinna mögulega sólstrandaferð.

3. Þeir sem með einhverjum hætti finna hjá sér þörf til að deila með finum sínum fjölkyldulífi sínu og þá, að því er mér virðist, aðallega í upphafningarskyni. Fá síðan helling af viðbrögðum eins eins. "krúttsprengja", "rúsínurass", "heppin þú", "yndislegt", "gellan!"og þar fram eftir götunum.

4. Þeir sem strá inn hávaðanum af órökstuddum skoðunum sínum og dylgjum, og virðist skorta sómatilfinningu, réttsýni, skynsemi, sjálfsgagnrýni og því um líkt. Hér er auðvitað oft um að ræða pólitíska sleggjudóma af ýmsu tagi.

Það er fjarri því að ég hafi áhuga á því, að hafa áhrif á hvernig finir mínir kjósa að tjá sig. Ég þarf bara að vega og meta hvernig ég bregst við.  Oftast er um að ræða ágætis fólk sem leggur einnig margt fleira til málanna.

Af ofangreindu héld ég að ég hafi einna minnst þol fyrir órökstuddum sleggjudómum sem ganga gegn mínum lífsskoðunum og kalla á að ég bregðist við, sem ég geri auðvitað ekki. Með sama hætti get ég alveg reiknað með að það hafi fækkað í finahópi mínum vegna minnar tjáningar að þessu leyti.

Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt þjóðfélögum um allan heim. Það er hægt að nota þá til góðs eða ills og allt þar á milli.   Það má spyrja sig um hvert það leiðir okkur.







07 apríl, 2016

Góður biti í hundskjaft

Orðtök geta verið skemmtileg og til þess fallin að skerpa á því sem sagt er. Mér hafa dottið nokkur í hug að undanförnu.
Í dag tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra í þessu, að mörgu leyti undarlega þjóðfélagi okkar. Hve lengi honum tekst  að gegna því, veit ég ekki, auðvitað. Þetta getur verið upphafið að endinum á stjórnmálaferli Hreppamannsins eða upphafið á löngum og farsælum ferli. Það kemur allt í ljós og veltur á ótal fyrirsjáanlegum og síður fyrirsjáanlegum þáttum.

Það vill svo til að ég hef átt samleið með þessum pilti á tvenns konar vettvangi. Annarsvegar áttum við ágætt samstarf þegar uppsveitahrepparnir ákváðu að efna til kosninga um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum á 10. áratugnum. Þar sátum við báðir í nefnd sem hélt utan um undirbúning og kynningu á því verkefni. Hinsvegar hafa leiðir legið saman í gegnum aðkomu Sigurðar Inga að málefnum Menntaskólans að Laugarvatni, en þar hefur hann átt sæti í skólanefnd í óskaplega mörg ár og var formaður nefndarinnar um alllangt skeið. Velferð skólans hefur skipt hann miklu máli.

Sigurður Ingi er vandaður maður, traustur og svona eiginlega gegnheill, ef mér hefur tekist að lesa hann rétt. Ætli megi ekki lýsa honum einnig sem svo, að hann hafi virkað á mann sem þungavigtarmaður í bæði eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Ég varð hugsi þegar ég frétti af því að hann væri kominn í framboð fyrir þann flokk sem hann síðan hefur unnið sig upp innan. Það kom mér nokkuð á óvart, því hann hafði ekkert ýjað að hneigingu til stuðnings við neinn sérstakan flokk, eins og lenskan hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna í uppsveitum. Ég var aldrei búinn að staðsetja hann í þeim flokki sem reyndin varð.

Við þær aðstæður varð mér á orði, í huganum, svo orðvar sem ég nú er: "Þar fór góður biti í hundskjaft!"
Áður en við var litið tók Sigurður Ingi síðan að rísa hærra og hærra innan þessa flokks, að mínu mati að stórum hluta í hópi sem var honum ekki sæmandi. Það var bara mitt mat auðvitað, þar sem ég fylgdist með eins og hver annar, litaður að eigin lífsskoðunum og getu til að lesa í fólk, sem auðvitað er umdeilanleg, eins og flest annað.
Framinn var hraður, miklu hraðari en venjulega gerist innan stjórnmálaflokka. Áður en við var litið var hann kominn á þing, orðinn varaformaður og síðan ráðherra og nú síðast forsætisráðherra.   Þá datt mér í hug annað máltæki: "Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur".

Ég hef haft það á tilfinningunni, að sá stakkur sem maðurinn hefur verið settur í, innan þessa flokks hvorki fari honum vel, né virðist þægilegur.  Þar sem hann stóð í stiganum í gærkvöld, við hlið viðskiptamanns sem var bólginn af hroka og ekki í jafnvægi, fann ég þessa tilfinningu enn skýrar.

Það sem ég óttast er, að ítök þess sem þurfti að hrökklast frá, verði til þess að koma í veg fyrir að Sigurður Ingi fái að njóta sín eins og hann er. Vonandi ber hann gæfu til að hrista þann skugga af sér.




03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

28 mars, 2016

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

22 mars, 2016

Þar sem ljósið nær ekki að skína

Öll eigum við hliðar sem við kjósum að vera ekkert að halda á lofti út á við. Það er mjög eðlilegt, enda erum við bara mannleg.  Þau hlutverk sem við tökum að okkur í lífinu kalla á að við nýtum þann styrk sem við búum yfir, hæfileikar okkar til að leika hlutverk okkar eru stundum miklir, stundum minni.  Flest reynum við að leika eins vel og geta okkar leyfir, hvort sem við störfum á eigin vegum eða hljótum umbun fyrir frá þeim sem við störfum fyrir. Hvernig sem það er, þá skiljum við alltaf hluta af okkur eftir, þar sem ljósið ekki skín. Við viljum geta ákveðið hvað við höfum bara fyrir okkur.  Fyrir lang flesta er þetta fullkomlega eðlilegt. Það getur enginn krafið okkur um að sýna þá þætti lífs okkar sem koma hlutverki okkar ekki við.

Þau eru mörg og margvísleg, hlutverkin og krefjast mis mikils. 

Fólk býður sig fram til að starfa í þágu almennings. Það býður fram krafta sína í þágu íbúa sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar allrar.  Við slíkar aðstæður, ekki síst eftir það sem gerðist haustið 2008, spyrjum við hvað þar liggur að baki. Við viljum að það fólk sem býður fram krafta sína geri okkur grein fyrir bakgrunni sínum og forsendunum að baki framboðsins.  Sum okkar eru búin að læra að þær bakgrunnsupplýsingar sem við erum mötuð með og forsendurnar fyrir því að einstaklingar bjóða sig fram til almannaþjónustu, kunna að vera aðrar en þær sem upp eru gefnar. Við komumst að því þegar samfélagið riðaði til falls, að það er oft harla lítið að marka það sem gerist á yfirborðinu. Við áttuðum okkur á því að það var annað í gangi en okkur var sagt.

Þar með fauk traustið. En það leið ekki á löngu áður en upp reis fólk með ásjónur engla og kvaðst hafa allar lausninrnar fyrir íslenska þjóð og stór hluti þjóðarinnar þjáðu gleypti við boðskapnum.
Það er byrjað að falla á engilsásjónurnar. Sumum finnst að merki um að þær séu að umbreytast í guðlegar ásjónur,  öðrum finnst að smám saman, undir ódýrum leikhúsfarðanum sé að koma í ljós, smátt og smátt andlit spillingar, undirferli og dulins tilgangs.

"Skortur á gegnsæi leiðir til vantrausts
og djúpstæðs öryggisleysis".
Ég ber lítið traust  til þeirra afla sem nú stýra þessu landi og það er vissulega slæm tilfinning. Ég les fullt af orðum, ég heyri endalaust orðaflóð, en á þessum tímum eru orð ódýr. Fólkið sem við kusum til að leiða okkur, virðist hafa tileinkað sér þá aðferð að segja bara eitthvað á þeirri forsendu að eitthvað sé nógu gott, nú eða segja bara hreint ekki neitt, hugsandi sem svo: "Það bíður sér til batnaðar".
Sannleikur, réttsýni, hugsjónir, mannúð, jafnrétti, virðing. Allt eru þetta hugtök sem eiga að vera þrungin merkingu, en eru léttvæg fundin þar sem þau leka eða renna, jafnvel frussast út úr munnum stjórnmálamanna meðan ljósið skín á þá og myndavélarnar eru í gangi.

Hvað gerist þegar ljósin slokkna eða þegar myndvélunum er beint annað?

Við þessar aðstæður myndast kjöraðstæður fyrir samsæriskenningar og ekki ætla ég mér að feta þá braut, þó margt komi upp í hugann. Eitt veit ég þó fyrir víst: þar sem ljósið ekki skín og þar sem myndvélarnar og hljóðnemarnir ná ekki til, þar heldur líf stjórnmálamanna eða annarra sem gegna háum embættum í opinberum stofnunum eða stórum fyrirtækjum sem þjóna almenningi, áfram. Hvað er þetta fólk að gera þá? Varla er það bara að kúra. Ekki leggst það í hýði.

Þetta er birtingarmynd vantraustsins í mínum huga.

Þessi stubbur er skrifaður undir áhrifum frá talsverðri reynslu af því að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi, kosningabaráttu forsetaframbjóðenda í landi hinna frjálsu og sjónvarpsþættinum "Spilaborg", sem RUV sýnir þessar vikurnar, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.







Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...