10 apríl, 2016

Finslit

Orðið "vinur" hefur aðra merkingu á samfélagsmiðlinum Facebook en raunheimi. Vináttu taka menn upp á svona miðli af ýmsum ástæðum öðrum en að þeir séu vinir í raun. Þarna tilkynnir fólk sig til vináttu, jafnvel bara vegna þess að það þekkist af afspurn. Að nota orðið "vinátta" um það samband fólks sem þarna verður til, má kallast rangnefni og það má vel halda því fram að með þeirri tilhögun sé búið að eyðileggja ágætt orð.  Hvað merkingu leggur fólk í þessa yfirlýsingu, ef hún er ekki sett í eitthvert samhengi: "Við erum búin að vera vinir í 7 ár"?
Ég legg til að til aðgreiningar fari fólk að tala um FINI í þessu sambandi (Facebook vini). FINUR er bara fallegt orð sem fer vel við íslenska tungu.


Ég er búinn að læra hvernig ég get hætt að vera finur fólks og það sem meira er, ég get hætt fináttunni án þess að fyrrum finur minn viti af því, nema hann renni í gegnum breytingar á finalista sínum.  Ég er búinn að prófa að ljúka fináttu við nokkra nú þegar og hef ekki fengið neinar athugasemdir við það frá fyrrverandi, sennilega vegna þess að þeir vita ekki einusinni af því, sem segir margt um hverskonar finátta var þar á ferð.

Ég ætti að vera búinn að grisja finahópinn talsvert meira, en annaðhvort nenni ég því ekki eða þá ég hef öðlast nokkra leikni í því að skrolla eða skruna og líta framhjá; segja sem svo: "Já, þessi er við sama heygarðshornið!".

Mér finnst stærsti kosturinn við þennan miðil vera þeir möguleikar til að vera í sambandi við fólk sem þú myndir að öðrum kosti ekkert vita um: ættingja, gamla skólafélaga, fyrrum nágranna og því um líkt.

Það má flokka þá fini mína, sem mig langar minnst að vita mikið af í fernt:

1. Þeir sem gera fátt annað en deila einhverju sem aðrir hafa sagt þó ég viti að oft eru þeir með því, að upplýsa okkur, fini sína um eitthvað merkilegt, eða skemmtilegt sem þeir hafa rekist á í víðáttum veraldarvefsins. Það er svo sem ýmislegt til þar. Ég er sekur um þessa iðju í einhverjum mæli.

2. Þeir sem taka þátt í öllum deilileikjum fyrirtækja (auglýsingum) í von um að fá vinning. Þessi iðja er af sama tog og þegar hlustendur hringja inn í útvarpsþátt í von um að fá bíómiða, eða eitthvað þvíumlíkt.  Ég hef gert þetta einusinni. Það var í dimmasta skammdeginu og um var að ræða að komast í pott til að vinna mögulega sólstrandaferð.

3. Þeir sem með einhverjum hætti finna hjá sér þörf til að deila með finum sínum fjölkyldulífi sínu og þá, að því er mér virðist, aðallega í upphafningarskyni. Fá síðan helling af viðbrögðum eins eins. "krúttsprengja", "rúsínurass", "heppin þú", "yndislegt", "gellan!"og þar fram eftir götunum.

4. Þeir sem strá inn hávaðanum af órökstuddum skoðunum sínum og dylgjum, og virðist skorta sómatilfinningu, réttsýni, skynsemi, sjálfsgagnrýni og því um líkt. Hér er auðvitað oft um að ræða pólitíska sleggjudóma af ýmsu tagi.

Það er fjarri því að ég hafi áhuga á því, að hafa áhrif á hvernig finir mínir kjósa að tjá sig. Ég þarf bara að vega og meta hvernig ég bregst við.  Oftast er um að ræða ágætis fólk sem leggur einnig margt fleira til málanna.

Af ofangreindu héld ég að ég hafi einna minnst þol fyrir órökstuddum sleggjudómum sem ganga gegn mínum lífsskoðunum og kalla á að ég bregðist við, sem ég geri auðvitað ekki. Með sama hætti get ég alveg reiknað með að það hafi fækkað í finahópi mínum vegna minnar tjáningar að þessu leyti.

Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt þjóðfélögum um allan heim. Það er hægt að nota þá til góðs eða ills og allt þar á milli.   Það má spyrja sig um hvert það leiðir okkur.







Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...