14 apríl, 2016

Sjálfutækni

Við Lagarfljót
Þessum pistli er fyrst og fremst ætlað að vera fræðandi og þáttur í því að opna  fyrir þeirri kynslóð sem ég tel að helst lesi þessi skrif, undraveröld sem ungdómur á þessum tíma drakk í sig með móðurmjólkinni, nánast, samt ekki í eiginlegri merkingu.
Fram til þessa hef ég tekið tvær sjálfur, Önnur þótti sérlega vel heppnuð og áhorfendur höfðu uppi mörg fögur orð um myndefnið.  Hin varð að verða til, enda enginn annar, sem gat framkvæmt myndatöku, með í för. Þessar myndir má sjá hér til vinstri.

Í Eiffelturninum
Þá kem ég að tilefni þessa pistils, sem er uppljóstrun fjármálastjórans í ML, sem er það sem kalla má "advanced", eða svona framhalds-farsíma gúrú, að það væri til svokölluð tveggja fingra tækni við að taka sjálfur.  Þetta varð tilefni mikilla umræðna á kennarastofunni og má jafnvel segja að störf hafi verið lögð niður lengur en ásættanlegt var.

Ég mun hér gera greina fyrir muninum á tveggja fingra og þriggja fingra tækninni við sjálfutöku. Ég biðst að sjálfsögðu velvirðingar á því að andlit mitt kann að blasa við óþægilega oft, en tilgangurinn helgar meðalið.


Þriggja fingra tæknin
Hér er um að ræða þá aðferð sem "elementary" (byrjendur) sjálfutökufólk hefur stuðst við og þar sem ég hef lítið lagt mig eftir sjálfutökum, hefur þetta verið mín aðferð.  Myndin til hægri sýnir vel hvernig myndatakan er framkvæmt með þessari tækni. Tveir fingur, langatöng og þumall, hafa það hlutverk að halda símanum, meðan vísifingur er notaður til að snerta hnappinn á miðjum sjánum og þannig gerist það,  að símamyndavélin smellir af, eða þannig.
Mynd  tekin með þriggja fingra tækni
Beiting þriggja fingra með þessum hætti kallar á talsverða einbeitingu, sem síðan getur birst á myndinni.  Mér hefur lengi þótt undarlegt, ég segi ekki að ég hafi dáðst að fólki sem getur virst alveg afslappað, brosandi og hresst á sama tíma og það þarf að stjórna þrem fingrum með ofangreindum hætti.  Svarið við pælingum mínum að þessu leyti (pælingum sem hafa aldrei átt sér stað, reyndar, svo því sé nú haldið til haga) fékk ég í dag, hjá gjaldkeranum, sem bjó yfir hinni meira þróuðu sjálfutækni: tveggja fingra tækninni, svokölluðu.

Tveggja fingra tæknin

Afsmellihnappurinn
Sú tækni sem hér er gerð grein fyrir, byggir á því að hnappurinn sem alla jafna stýrir hljóðstyrk og hægt er að finna á hlið betri síma (svona eins og mínum), breytist á afsmellingarhnapp um leið og síminn er settur í sjálfuham.
Þarna fannst mér vera komin lausnin sem gæti orðið til þess að ég yki sjálfutökur og gæti jafnvel farið að miða mig við ýmsa jafnaldra mína að því leyti.
Æfingamynd með tveggja
fingra aðferðinni.
Ég leyni því ekki, að ég hóf, strax í dag, æfingasjálfutökur. Fann staði sem mér fannst vera hentugir, reyndi fá fD til að vera með, svona eins og á að vera. Tilmæli mín gáfu ekki þann árangur sem lagt var upp með og þar með snérust æfingarnar aðeins um mig og engan annan. Það kann að vera, þegar ég hef náð fullkomnu valdi á tækninni, að mér takist að breyta afstöðu fD að þessu leyti. er samt ekki vongóður.
Það fæðist enginn sem sjálfutökumaður (nema kannski nútímabörn) og þess bera fyrstu æfingatökurnar merki. Það sem ég mun þurfa að takast á við er sú staðreynd, að linsan á símanum vill lenda á bak við vísifingur (hér hér fyrir ofan til hægri).  Ég er þegar búinn að ná vel viðunandi tökum með þumalinn á afsmellihnappnum.  Þó ég sé búinn að prófa ýmisskonar nálgun að tökum, sem beinast að því að komsta hjá því að vísifingur verði hluti af öllum sjálfum sem ég tek, er ljóst að frekari æfingar er þörf, áður en mér tekst að ná fullkomnum sjálfum, sem óhætt er að bjóða kröfuhörðum neytendum samfélagsmiðla upp á.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...