17 apríl, 2016

X3990

Þetta númer var síðast á Nissan Prairie.
Hlutverki þess lauk með dramatískum hætti
16. nóvember, 1996
"Hver var þetta?"
"Ekki hugmynd."
Hve oft skyldu nú samskipti af þessu tagi hafa átt sér stað þar sem við fD stundum kraftgöngu eftir malbikuðum gangstígnum sem stuðlar að bættu líkamsástandi og betri líðan Laugarásbúa og gesta þeirra?
Tilefni spurningarinnar og svarsins er ávallt bíll sem ekur hjá og við greinum óljósar útlínur handar sem veifar.  Stundum læt ég mig hafa það að veifa á móti, vegna þess að það telst kurteisi að heilsa fólki. Einnig vegna þess, að ef ég ekki veifa þá gæti bílstjórinn eða farþeginn í bílnum fengið þá flugu í höfuðið að mér væri eitthvað í nöp við hann, og þyrfti síðan að berjast við þá  tilhugsun næstu daga.  Ég hef vissulega sleppt því að veifa á móti, hef þess í stað látið sem svo, að ég væri mjög einbeittur við gönguna, því ganga er alvörumál, gæðatími.
Hvernig sem viðbrögð mín eru, hverju sinni má halda því fram að þau séu vandræðaleg og feli í sér ólíklegustu gildrur sem forðast ber í mannlegum samskiptum.

Þetta var einfaldara áður fyrr. Þá þekkti maður helstu númer og gat þannig með góðum fyrirvara brugðist rétt við hverju til viki, allt frá því, auðvitað, að þekkja ekki númerið og þar með sleppa því að veifa í kurteisisskyni, upp í það að spandera breiðu breiðu brosi, ásamt því að veifa kröftuglega.  Allt auðveldara og engin móðgun möguleg,

Það er nú farið að fenna dálítið yfir helstu bílnúmer, en ég man að pabbi var með X1567, Ég með X3990, lengst af, Ólafur læknir með G44, Grímur læknir með X1000, lögreglubílarnir (svarta María) með X1, X2, X3 og svo framvegis (ekki það að ég hafi átt mikið samamn við lögregluna að sælda).

Mér hnykkti dálítið við um daginn, en í einhverri spurningakeppni þar sem æska landsins tók þátt var spurt hvar bílar með tilteknum númerum hefðu verið á landinu. Það stóð á svörum og þau komu ekki.  Auðvitað á hvert mannsbarn að læra hvernig þessu var háttað áður fyrr. X-bílar vori í Árnessúslu, R í Reykjavík, G í Hafnarfirði (Gullbringusýslu), Y í Kópavogi og svo framvegis.  Þetta er þekking sem ætti að varðveita eins og hver önnur menningarverðmæti.

Ég verð að viðurkenna, að í ákveðnum tilvikum var frekar óhagstætt að búa við gamla númerkerfið. Þegar maður fór til Reykjavíkur á bíl með X-númeri brugðust innfæddir ekki alltaf vel við "sveitalúðanum" sem kunni ekki að keyra í höfuðstaðnum. Nokkur flautin fékk ég meðan ég var að ná tökum á tilverunni að þessu leyti í borginni.


Til gamans, bara vegna þess að ég fann, læt ég fylgja lista yfir gömlu númerin, en undir lok síðustu aldar tóku þau að víkja fyrir þeim sem við nú þekkjum.


A-Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla
B-Barðastrandasýsla
D-Dalasýsla
E-Akraneskaupstaður
F-Siglufjarðarkaupstaður
G-Hafnarfjarðarkaupstaður og Gullbringu- og Kjósarsýsla
H-Húnavatnssýsla
Í-Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla
K-Sauðárkrókskaupstaður og Skagafjarðarsýsla
L-Rangárvallasýsla
M-Mýra- og Borgarfjarðarsýsla
N-Neskaupstaður
Ó-Ólafsfjarðarkaupstaður
P-Snæfells- og Hnappadalssýsla
R-Reykjavík
S-Seyðisfjarðarkaupstaður og Norður-Múlasýsla
T-Strandasýsla
U-Suður-Múlasýsla
V-Vestmannaeyjakaupstaður
X-Árnessýsla
Y-Kópavogur
Z-Skaftafellssýsla
Þ-Þingeyjarsýsla
Ö-Keflavíkurkaupstaður

1 ummæli:

  1. . Góður leikur fyrir krakkar vóru að veðja á bílnr... hver væri með flest af sama stafnum. Héraðnr. mátti þá ekki telja eða þá að veðja hversu margir slíkar maður mundi mætta. Nú til þess var horft fram á veg og óvitað festist landslagið á leiðinni in á minnið. Nú horfa flestir bara á i-pad og engin læri á sérkenni.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...