07 maí, 2016

Upphaf ferðar nokkurrar (1)


Hér segir af upphafi námsferðar STAMEL til Helsinki í lok apríl.
Svona átti upphaf ferðarinnar sem hér um ræðir að vera:  
Brottför frá Laugarvatni með fólksflutningabifreið kl. 03:30, koma á Flugstöð í Keflavík eigi síðar en kl. 05:30, flug til Helsinski kl. 07:30.
Frásögnin sem hér fer á eftir ber þess auðvitað merki, að ég var ekki hluti af þeim dramtísku atburðum sem eru tilefni hennar. Þannig má segja að hún sé byggð á munnlegum heimildum þeirra sem beinlínis komu að málum, annaðhvort sem beinir þátttakendur eða þá áhorfendur.

Við dómkirkjuna í Helsinki
Við fD vorum komin á Laugarvatn fyrir tilsettan tíma, eins og okkar er von og vísa, þar sem við ákváðum að nýta fólksflutningabifreiðina frekar en greiða himinhátt gjald fyrir bílastæði í Keflavík.
Þar sem við renndum í hlað var fólk byrjað að tínast að og það var ferðaspenningur í loftinu. Þegar áætlaður brottfarartími rann upp var engin fólksflutningabifreið komin á staðinn, en að sögn kunnugra átti fólksflutningabifreið, við svona aðstæður, að vera komin á brottfararstað, eigi síðar en 15 mínútum fyrir áætlaðan brottfarartíma.
Þegar komið var nokkuð fram yfir brottfarartímann fór að gæta nokkurrar óþreyju, sem lauk með því að hringingar hófust í síma þeirra sem í forsvari eru fyrir fólksflutningabifreiðafyrirtækið sem um ræddi og fljótlega kom í ljós að það væri engin fólksflutningabifreið á leið á Laugarvatn. Síðar kom í ljós að fyrirtækið hafði ruglast á nóttum, ætlað að flytja hópinn næstu nótt.
Þarna hófst upphaf merkrar atburðarásar með því að ákvörðun var tekin um að ferðalangarnir sameinuðust í þær bifreiðar sem til reiðu voru og brunuðu á Selfoss, þar sem fólksflutningabifreið myndi bíða hópsins og flytja áfram.  Fyrsta bifreið af stað frá Laugarvatni var Qashqai með mig við stýrið, fD og aukafarþega. Í kjölfarið fylgdu síðan aðrir bílar, hlaðnir farþegum og farangri.
Lagið tekið í plati í Kirkjunni í klettinum í Helsinki
Ég ætla ekki að greina frá ökuhraðanum niður Grímsnesið, en vegurinn var oftast þurr þessa nótt, en sumsstaðar fannst mér eins og væru blettir þar sem mögulega gæti verið hált, enda hiti við frostmark. Þessir blettir voru helst í gegnum Þrastaskóg og undir Ingólfsfjalli. Í eitt skiptið fannst mér ég meira að segja finna fyrir því að Qashqai skrikaði örlítið dekk, sem varð til þess að ég tók ökuhraðann talsvert niður.
Við komumst skilmerkilega á Selfoss, settum töskur í fólksflutningabifreiðina sem þar beið okkar og síðan lagði ég Qashqai á öruggum stað. Á eftir okkur fylgdi nokkrir bílar og fólkið var bara í góðum gír og tók þessu spennandi upphafi ferðarinnar bara vel.
Svo komu ekki fleiri bílar, mínúturnar komu og fóru hver af annarri (það, sem sagt, leið og beið) og jafnframt styttist fyrirsjáanlegur tími í Fríhöfninni, en það var kannski fyrsta hugsunin, næsta hugsum fól í sér vangaveltur um hvað valdið gæti því að ekki komu fleiri bílar.
Svo brunaði sjúkrabíll með blá, blikkandi ljós framhjá.

(framhald síðar)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...