Fyrir nokkrum árum. Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum. |
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.
Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.
Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki. Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.
Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.
Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.
Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.
Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.
Takk fyrir þessa grein,Palli.Kv.Ásta
SvaraEyða