16 maí, 2016

Karlaraddir / Männerstimmen

Það sem hér fer á eftir verður til í framhaldi af aldeilis ágætum tónleikum sem ég fór á í gær í Skálholtskirkju.  Þar var kominn karlakór frá Sviss, Männerstimmen Basel, margverðlaunaður og sigldur. Hann var búinn að vera á landinu um tíma og tók m.a. þátt í miklu karlakóramóti í Hörpu.
Ég skildi þarna hversvegna þessi kór hefur verið hlaðinn verðlaunum og ég er viss um að hann hann getur kennt íslenskum karlakórum og kórum yfirleitt, margt, ekki aðeins að því er varðar sönginn sjálfan, heldur ekki síður framgöngu alla. Þessi kór umkringdi áheyrendur þannig að hljómurinn endurómaði og varð nánast yfirjarðneskur á köflum. Hefðir sem við erum vön, voru brotnar eins og ekkert væri sjálfsagðara, þar sem sjórnandinn tók sér, til dæmis, stöðu í fyrir framan altarið og kórinn snéri "öfugt".  
Það sem ég var einna hrifnastur af við framgöngu þess kórs var tvennt, fyrir utan auðvitað afar vandaðan/fágaðan sönginn. 
Annarsvegar fannst mér styrkleikabreytingar áhrifamiklar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að hlusta á 25 karlaraddir syngja svo veikt að eyrað nær varla að nema, en nemur samt. Ég hef löngum fengið það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að því meiri sem söngstyrkur sé í karlakórsöng, því flottara og því karlmannlegra. Það kann að vera að hefðbundin karlakóralög kalli á mikinn styrk og jafnvel samkeppni innan radda og milli radda um hver getur gefið frá sér mestu hljóðin. 
Hinsvegar var ég hrifinn af aganum. Stjórnandinn var íklæddur kjólfötum, alger andstæða söngvaranna, sem voru næstum í "lederhosen" með axlaböndum. Hann hafði fullkomna stjórn  á sínum mönnum, ein lítil bending og kórinn skipti fumlaust um uppstillingu fyrir næsta lag. 

Efnisskráin var af ýmsum toga, kirkjuleg og veraldleg, allt krefjandi og skemmtilega framreitt. Ég missti þó af, líklega einu áhrifamesta laginu, sem mér heyrðist að fjallaði um ein stærstu mál nútímans, flóttamenn og hryðjuverkaógn, Svei mér ef ég heyrði ekki skothvell, þar sem ég var að fikra mig niður úr  "Þorláksstúku?" (skömm að því að vera ekki viss um heitið á stúkunni fyrir ofan innganginn) eftir myndatökutilraun. Þegar ég var síðan kominn niður vildi ég ekki opna dyrnar inn í kirkjuna til að ná í það minnsta hluta að verkinu.  

Þess var getið sérstaklega á dreifildi um kórinn, að meðal annars væri hann styrktur af einhverjum bjórframleiðanda, og væri duglegur við að innbyrða framleiðsluna, enda þarna á ferð karlmenn á besta bjórneyslualdri, 18 til 32 ára.


Það var ákveðin rælni sem olli því að við, heimaverandi Kvisthyltingar, skelltum okkur á þessa tónleika. Við sáum auðvitað ekki eftir að hafa látið verða af því. 
  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...