23 maí, 2016

Þegar leikurinn stóð sem hæst


Árla morguns, ofarlega í Grímsnesinu, rétt hjá Svínavatni, gæti þetta samtal hafa átt sér stað:

"Góðan daginn dúllan mín. Það er ekki laust við að það sé hrollur í manni. Ég held að það hafi farið talsvert niður fyrir frostmark í nótt. Hvernig gengur, annars?"

"Góðan daginn, ljúfur. Ég held að þetta gangi bara vel. Ég er alveg búin að ná mér eftir gærdaginn. Þetta eru flottustu fjögur egg sem ég hef séð og ég er viss um að ungarnir okkar verða yndislegir".

"Það er enginn vafi á því. Spennandi að verða svona foreldrar í fyrsta sinn."

"Ég er mjög ánægð með þúfuna sem við völdum og okkur tókst bara vel með hreiðrið, finnst þér það ekki?"

"Ekki spurning.  Heyrðu annars, hvernig væri nú að reyna að ná úr sér næturhrollinum? Eigum við að koma í eltingaleik smástund?"

"Eltingaleik? Kommon, ert þú ekki að verða pabbi bráðum, kallinn minn?"

"Kva, það er nægur tími til að vera fullorðinn eftir að krílin eru komin á stjá. Komdu!"

"Jæja, allt í lagi þá. En ekki lengi. Eggin mega ekki kólna."

"Þú ert 'ann. Reyndu að ná mér!"

"Bíddu bara, ég verð ekki lengi að ná í stélið á þér, stelkapabbi!"

"Vúúú, frábært!"

"Klukk, þú ert 'ann!"

"Heyrðu mig, þú varst ekki................"

PÚFF

Qashqai brunaði áfram.
Í baksýnisspeglinum mátti sjá stelksfjaðrir þyrlast í kjölsoginu.
Fjögur egg tóku að kólna í hreiðri.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...