01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...