17 júní, 2016

Íslendingar að léttast?

Ég neita því ekki að á síðustu mánuðum finnst mér eins og það hafi verið að léttast upplitið á þessari þjóð; þjóðinni sem fagnar í dag á þjóðhátíðardegi. Mér hefur fundist áhugavert að velta fyrir mér hvað gæti valdið þessari breytingu og að sjálfsögðu fann ég nógu góða skýringu, fyrir mig í það minnsta. Ég reikna ekki með að skýringin henti þó öllum, en hver sem hún er í raun, þá tel ég að þjóðin sé að nálgast eitthvert jafnvægi aftur, eftir næstum 15 ára óstöðugleika.

1. kafli  Bláeyg þjóð
Til að gera langa sögu stutta, hefst skýring mín á Hrunadansinum (hrundansinum) í kringum gullkálfinn, sem lyktaði með margumræddu hruni.

2. kafli Reið þjóð
Þetta fjármálahrun og þjóðarhrun neyddi okkur til að hugsa margt í lífi okkar upp á nýtt. Tveim stjórnmálaflokkum var aðallega kennt um hvernig komið varog í kosningum komust þeir flokkar til valda sem síður voru taldir hrunvaldar. Það máttu allir vita, að verkefnið sem sú ríkisstjórn stóð frammi fyrir jaðraði við sjálfsmorð. Þjóð, sem áður hafði lifað í vellystingum með fjármagni sem engin innistæða hafði verið fyrir, var hreint ekki sátt við allan þann niðurskurð sem hér varð. Það risu upp lukkuriddarar í forystu fyrir flokkana sem hafði verið kennt um hrunið, sem töldu sig vita betur en stjórnvöld og lögðu sig fram um að rýra trúverðugleika þeirra. Þrátt fyrir miklar árásir og niðurrif ásamt innbyrðis átökum, tókst þessari stjórn að skapa grunn að endurreisn.  Sú vinna varð henni dýrkeypt.

3. kafli  Reið og bláeyg þjóð
Þjóðin var ekki sátt. Í kosningum, 4 árum eftir hrun voru það lukkuriddararnir sem báru sigur úr býtum. Sögðust myndu ganga frá vondu hrægömmunum sem ógnuðu þjóðinni. Sögðust myndu afturkalla allar vondu ákvarðanirnar sem ræstingafólkið hafði tekið. Áttu varla orð yfir hve lélegt ræstingafólkið hefði verið og þjóðin, sem auðvitað var enn ósátt við hvernig farið hafði, var búin að gleyma. Þjóðin man ekki langt, enda er það það sem brennur á skinninu hverju sinni sem ræður ákvörðunum hennar.
Með lukkuriddurum hófst, að þeirra sögn, hin raunverulega endurreisn. Þeir gerðu fátt annað en setja hvert heimsmetið af öðru með frábærum ákvörðunum sínum, að eigin sögn.  Svo kom í ljós að þeir voru ekki allir þar sem þeir höfðu verið séðir. Þeir höfðu ekki komið hreint fram.

4. kafli  Reið þjóð með opin augu.
Þjóðin fór að sjá hlutina í meira samhengi en áður. Efnahagurinn tók að batna, reyndar mest hjá þeim sem síst höfðu þörf á. Reiðiöldur risu þegar flett hafði verið ofan af hluta þess sem falið hafði verið. Aðal lukkuriddarinn neyddist til að segja af sér og hvarf af vettvangi. Þá fyrst fannst mér ég verða var við að það færðist meiri ró yfir þjóðlífið og umræðuna. Þetta ástand finnst mér hafa fest sig betur í sessi eftir því sem vikurnar hafa liðið.

5. kafli Sátt þjóð?
Ég veit ekki hve langan tíma það tekur þessa þjóð að verða sátt við hlutskipti sitt. Nú er meiri von til þess, en oft áður, að hún nálgist einhverskonar sátt.  Stærsta merkið um það virðist mér vera að hún hyggst hafna, í komandi forsetakosningum, hugmyndinni um forystumann á Bessastöðum, af því tagi sem verið hefur. Hún virðist vilja hafa á þeim stað einhvern sem kveðst vilja vera raunverulegt sameingartákn þjóðarinnar. Sá sem hefur nú setið á Bessastöðum í tvo áratugi, er um margt merkilegur forseti, sem á margskonar fögur eftirmæli skilin, en hann er þeirrar gerðar að í stað þess að sameina þjóðina, stuðlaði hann að sundrungu hennar á margan hátt.
Í haust verða svo kosningar, nema það verði ekki kosningar.  Ég hef nokkra trú á því að þær kosningar muni endurspegla meiri sátt meðal þessarar örþjóðar en verið hefur um langa hríð.
Ég vona að þjóðin hafni lukkuriddurum sem segjast munu gera allt fyrir alla. Við vitum að það er ekki mögulegt.  Megi okkur auðnast að kjósa til valda öfl sem vilja gera eitthvað fyrir alla, jafnt.

Þessa dagana er þrennt sem elur á bjartsýni minni fyrir hönd íslenskrar þjóðar:

1. Knattspyrna (sem meira að segja fD er farin að sýna örlítinn áhuga á, reyndar ekki í verki, heldur með óljósum viðbrögðum sem benda til þess að þjóðarstoltið sé að bera knattspyrnuandúðina ofurliði)
2. Handknattleikur
3. Forsetakosningar

Hafir þú komst alla leið hingað í lestrinum  
óska ég þér gleðilegrar þjóðhátíðar.


Við lifum viðsjárverða tíma í okkar góða landi nú um stundir og í ár er kosningaár og er því hætt við að inn á svið landsmála skeiði pólitískir lukkuriddarar með fullar skjóður loforða og tillagna. 
Úr fundargerð aðalfundar Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands, 
sem haldinn var þann 20. maí 2016 
Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...