Sýnir færslur með efnisorðinu uppsveitir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu uppsveitir. Sýna allar færslur

19 nóvember, 2023

Hvað ef .....?

Þann 10. nóvember, árið 1998, sat ég síðasta fund minn sem hreppsnefndarmaður í Biskupstungnahreppi. Efir það hvarf ég úr nefndinni og hef ekki komið með beinum hætti að sveitarstjórnarmálum síðan.
Ástæður mínar fyrir ákvörðuninni, þarna í lok árs 1998 eru eflaust fleiri en ein, t.d var ansi mikið hjá mér að gera í vinnunni á þessum tíma. 
Það má einnig nefna tvær líklegar ástæður, sem ég tel að standi nú upp úr svona þegar ég lít til baka. 
Annarsvegar voru það mér allmikil vonbrigði að ekki skyldi takast að sameina hreppana í uppsveitunum, en það var kosið tvívegis um sameiningu þeirra á umræddu ári. Í seinni kosningunum var sameining 4 hreppa samþykkt með talsverðum meirihluta í þrem hreppanna, en felld í Skeiðahreppi, en þar reyndist fólk frekar sjá fyrir sér sameiningu eða samvinnu við Gnúpverjahrepp. Innan hreppsnefndar Biskupstungnahrepps reyndist harla lítil vilji til að halda þessum leik áfram, eins og sjá má af afdrifum tillögu minnar hér fyrir neðan. 


Hin ástæðan sem ég tel að hafi valdið miklu um brotthvarf mitt úr hreppsnefend, var einfaldlega samsetning nefndarinnar á þessum tíma. Mér fannst ég ekki eiga nægilega mikið sameiginlegt með samnefndarfólki mínu, ekki einusinni fólkinu á mínum lista, sem ákvað að ganga til samstarfs við lista fráfarandi meirihluta.  Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar, að saman á framboðslistum til sveitarstjórna, ætti að vera fólk sem er sammála  í grundvallaratriðum um helstu mál. Búseta fulltrúanna, umfram allt, eða ósætti við afmörkuð mál, finnst mér vera frekar veitur grundvöllur til að byggja á 4 ára samstarf, ef ekki kemur einnig til lágmarks pólitískur samhljómur, eða lífsskoðun.  Í mínu tilviki reyndist ég eiga fremur fátt sammerkt  með samstarfsfólki mínu. Vissulega hefði ég getað látið mig hafa það að sitja þarna út kjörtímabilið, en mér fannst hreinlegast að stíga bara til hliðar, hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmálanna. Kannski var ég bara ekki nógu mikill baráttumaður.  

Ef hrepparanir 4, Þingvallahreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur og Hrunamannahreppur hefðu nú haldið áfram og í framhaldinu sameinast vorið 1999, hefði ýmislegt verið með öðrum hætti í uppsveitum nú.  Ekki er ég í vafa um, að fljótlega hefði verið samþykkt sameining þeirra við Gnúpverjahrepp, Skeiðahrepp og Grímsnes- og Grafningshrepp. Íbúar í þessum uppsveitahreppum öllum er nú um 3500, en væru líklegast allmiklu fleiri, ef tekist hefði að ganga þessa sameiningargötu allt til enda. 
Hvert skyldi vera viðhorfið til sameiningarmála í uppsveitunum nú?



07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessar asveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

19 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (5 - lok)

Þetta er framhald pistla með sama nafni nr. 1 - 4. 
Skortur á samstöðu hér í uppsveitum varð til þess að byggingu Hvítárbrúar hjá Iðu seinkaði. Samstaða á svæðinu varð til þess að Hvítárbrú hjá Bræðratungu var byggð. Í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps tók ég þátt í því að berjast fyrir þeirri brú. Ég hefði sannarlega viljað fá hana annarsstaðar, en við gerðum okkur grein fyrir því, að ef brestur fyndist á samstöðu, yrði ekkert af byggingu hennar, eða að henni yrði frestað um óákveðinn tíma.
Það var samstaða í uppsveitum um staðarval fyrir læknissetur í Laugarási á sínum tíma. Kannski var sú staðsetning mistök, eftir á að hyggja.

Ég minnist þess í aðdraganda kosninga um sameiningu uppsveitahreppanna á 10. áratugnum að þeir voru nokkrir sveitarstjórnarmennirnir sem voru henni andvígir, þó þeir hefðu ekki hátt um það í aðragandum, allavega ekki opinberlega. Þeir fór þá annaðhvort þá leið að lýsa þeirri skoðun sinni að réttast væri að sameina sýsluna alla (svona til að drepa málinu á dreif) eða þá að þeir segðu sem svo: "Við eigum bara að vinna saman!".  Vinna saman, já. Vettvangurinn til .þessarar samvinnu var og er sjálfsagt að einhverju leyti enn, í gegnum oddvitanefndina, sem varð til þegar hrepparnir sameinuðust um eign sína á Laugarásjörðinni. Þar hafa þeir unnið saman, sjálfsagt að mörgum sveitaþrifamálum, ekki efast ég um það.

Rétt fyrir 1990:
Aftar f.v. Axel Sæland, Þorvaldur Skúli Pálsson, Sigurbjörn Þrastarson,
Guðni Páll Sæland, Egill Árni Pálsson, Eva Sæland, Gunnur Ösp
Jónsdóttir, Inga Dóra Pétursdóttir, Bergþóra Kristín Benediktsdóttir.
Fremri f.v. Elín Ingibjörg Magnúsdóttir, Guðný Rut Pálsdóttir,
Guðný Þórfríður Magnúsdóttir.
Það sem ég sé fyrst og fremst sem annmarka á þessari samvinnu hreppanna er, að uppbygging staðbundinnar, opinberrar þjónustu á svæðinu virðist vera í skötulíki, þar sem hrepparnir fjórir þurfa að koma sér saman um hana, en það virðist reynast þrautin þyngri, þar sem allir leggja þar fram sína þéttbýlisstaði (að Laugarási undanskildum, auðvitað) sem upplagða lausn.  Ég sé þetta ágæta sveitarstjórnarfólk fyrir mér hummandi og ha-andi yfir þessu og ekki verður neitt úr neinu. Auðvitað veit ég ekki hvernig þetta gengur fyrir sig, en svona blasir þetta nú við mér. Á sama tíma sitjum við uppi með uppbyggingu þjónustu fyrir okkur, utan uppsveitanna.

Ég er enn þeirrar skoðunar að uppsveitahrepparnir eigi að sameinast og setja af stað öfluga vinnu að skipulagi svæðisins í heild. Það er, í mínum huga, ekki nokkur þörf á fjórum sveitarstjórnum og fjórum sveitarstjórum til að stýra þessum 3000 hræðum sem búa á svæðinu.
Í ljósi þess, að mér hefur ekki virst margt vera að gerast á þessu svæði, sem til er komið vegna samvinnu sveitarfélaganna, er ég smátt og smátt að komst á þá skoðun, að best færi á því, að Árnessýsla verði sameinuð í eitt sveitarfélag. Það er fyrst og fremst vegna þess að með núverandi fyrirkomulagi missum við hvort sem er allt sem heitir opinber þjónusta, beina leið niðurúr.

Að sjálfsögðu beinist gagnrýni sú sem ég hef sett fram hér, ekki að því sveitarstjórnafólki sem reynir að vinna vel, hvert fyrir sinn hrepp. Gagnrýnin snýr að þeirri stöðu sem við búum við, sem kristallast ekki síst í þeirri stöðu sem Laugarási hefur verið komið í, á svæðinu.

Ég leyfi mér að birta aftur myndina sem ég setti fram á grundvelli talna frá Hagstofunni, um þróun íbúafjölda í þorpunum í Biskupstungum, Laugardal og síðar í Bláskógabyggð, frá 1990 til dagsins í dag. Þessi þróun hefði ekki átt að verða - finnst mér.



ps. fyrir þau sem telja að með þessum skrifum mínum sé ég að skara einhvern eld að eigin köku, eða þá að um sé að ræða einhverja tegund sjálfstæðisbaráttu Laugarásbúa, segi ég þetta:

Ég er í þeirri stöðu að fyrra atriðið getur vart lengur átt við um mig. Varðandi síðara atriðið, er rétt að geta þess að hér er ekki um að ræða niðurstöður af baráttufundum í Laugarási, heldur bara það sem sprottið hefur fram úr fingurgómum þess sem þetta ritar, meðan smáfuglarnir tína í sig kornið fyrir utan gluggann.

Gleðileg jól!
þú sem last alla leið hingað. 
😀

13 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (4)

Framhald pistla með sama nafni, nr. 1, 2 og 3.

Ef við ímyndum okkur nú, í einhverskonar tölvuleik (svoleiðis leikir eru til), að við ættum að skipuleggja landssvæði þannig, að allir hlutar svæðisins fengju að njóta sín og að svæðið væri til þess fallið að draga til sín fleiri íbúa og öflugri starfsemi. Það vææri einnig gefið, að svæðið væri láglaunasvæði og það væri okkar hlutverk að efla það þannig að það yrði eftirsótt til búsetu. Það væri gefið að á svæðinu byggju 3000 manns, þetta væri dreifbýlissvæði með 7 stöðum þar sem byggð væri þéttari.

Þarna þyrftum við að taka tillit til ýmissa þátta, t.d. aðstæðna á  hverjum stað og staðsetningar, Við þyrftum að velta fyrir okkur hverskonar uppbygging á svæðinu kæmi sér best á hverjum stað. Það vill kannski svo til, að ef svæðið er skoðað í heild, eru þessir staðir misjafnlega heppilegir fyrir mismunandi starfsemi.
Á myndinni hér efst er ég búinn að teikna upp ímyndað svæði til að vinna út frá.

Ég ætla að byrja á að velta fyrir mér þeim þáttum þar sem mikilvægt er að allir íbúarnir á svæðinu hafi sem bestan aðgang og gef mér það, að það sé skilyrði í leiknum að við megum aðeins hafa einn þátt af hverju innan svæðisins. Þá vaknar spurningin: Hvar væri heppilegast að setja niður grunnskólann, stjórnsýsluna, félagsþjónustuna, heilsugæsluna, lögreglustöðina eða heimili eldri borgara, til dæmis? Auðvitað myndi ekki vefjast fyrir mér að staðsetja grunnþætti af þessu tagi. Hvað með þig?
Hinir staðirnir henta sannarlega vel fyrir ýmislegt annað: ferðaþjónustu, jarðrækt, iðnað og  framleiðslufyrirtæki af ýmsu tagi, allskyns starfsemi sem byggði að þeim mannauði eða náttúrulegum aðstæðum sem til staðar væru.

Fjölskyldan í Hveratúni, 1960
Ef við gefum okkur nú, svona til að gera leikinn dálítið erfiðari, að staðirnir sem ég kalla 2 - 7 hafi talsvert sjálfstæði, en hafi með sér einhverja ákveðna samvinnu um ýmis mál, og að jafnvel vinni sumir þeirra meira saman eða aðrir, til að styrkja stöðu sína á svæðinu.

Gefum okkur, til að bæta enn í, að staðirnir 2 - 7  ráði yfir og jafnvel eigi stað nr. 1.  Væru það þá eftir sem áður hagsmunir þeirra, að efla þann stað? Kæmi það sér ef til vill svæðinu í heild best?  Hvað myndi verða um svæðið, ef þeir sem héldu um stjórnartauma á hverjum stað, myndu einbeita sér að því að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni síns staðar, eða kannski freista þess að ná samkomulagi við þann stað sem næstur er, um alla helstu þætti sem á svona svæði þurfa að vera?
Ef við gefum okkur að okkar svæði þurfi að keppa við nágrannasvæði um fólk og uppbyggingu, hvernig færi svæðið út úr þeirri samkeppni? Myndum við tapa þeim leik?
Ég held það.


Ég ætla að hætta í þessum leik og fara að huga að þáttum í lífi mínu sem meiri ástæða er til að ætla að ég geti haft áhrif á.







12 júlí, 2018

Hvað er eiginlega málið með totann minn?

Eins og ég átti svo sem von á, þá reyndust viðtökur við síðustu færslu minni hér, blendnar, en það sem kom mér dálítið á óvart var hve margir virðast hafa lesið. Það segir mér, að málefnið hreyfir við okkur uppsveitafólki.

Þegar upp er staðið þá er það að mínu mati, dæmigert fyrir vandræði okkar þegar kemur að verkefnum, sem eru of dýr fyrir einn hrepp og jafnvel fyrir þá alla saman. Öll förum við að ota okkar tota og ekki verður neitt úr neinu.

Minn toti hefur verið Laugarás. Það kann að virðast augljóst þeim sem lesið hafa, að ég á heima í Laugarási. Þar með er málflutningur minn dæmdur úr leik að stórum hluta. Eingöngu vegna totans míns.  Mér finnst slík viðbrögð hinsvegar benda til talsverðrar grunnhyggni og lítilsvirðingar á því sem ég hef haft fram að færa.

Allt í lagi með þetta allt saman: Ég á heima í Laugarási og þar með eru skoðanir mínar á staðsetningu dvalar- og hjúkrunarheimilis tortryggilegar og að engu hafandi. Ef ég byggi á Laugarvatni og héldi þeim ágæta stað á lofti, gilti það sama og það sama ef um væri að ræða Reykholt, Flúðir, Borg, Árnes eða Brautarholt.
Hvað myndi gerast ef við færum nú að ota öðrum totum? Ég myndi til dæmis sjá marga kosti við það að stofna dvalar- og hjúkrunarheimili á Laugarvatni, nú eða á Brautarholti. Þannig yrðu skoðanir mínar væntanlega marktækari, þar sem ekki væri hægt að halda því fram, að ég hefði sérstakra hagsmuna að gæta.

Það sem verður að gerast, hér í uppsveitum er, að okkur takist að sjá tota annarra í annarskonar ljósi.

Ég veit að það skiptir engu máli þó ég upplýsi um það, að totinn minn í þessum málflutningi er ekki til kominn vegna persónulegra hagsmuna minna af málinu. Mér finnst, eins og staðan er nú og útlit allt, harla ólíklegt að ég muni eyða síðustu æviárum á dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitum Árnessýslu.  Sannarlega þykir mér vænt um Laugarás og svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, uppsveitirnar allar. Þetta er vísast eitt besta svæði á landinu til að búa á (nema kannski á þessu sumri), en um leið átta ég mig á því, að síðustu æviárin fela í sér áskoranir sem eru mikilvægari en staðsetning einhvers húss. Þar hlýtur maður að telja mikilvægara að aðgengi þeirra sem að standa sé eins gott og hægt er.  Aldraður einstaklingur á oftast afkomendur sem vilja geta kíkt í heimsókn án þess að þurfa að leggja að baki tuga eða jafnvel hundraða kílómetra akstur.  Margir þeirra sem nú eru aldraðir í uppsveitum eiga hér stóran hluta afkomenda sinna, aðrir engan, svona eins og gengur. 
Ég vil sjá það fyrir mér að aldraðir sem þurfa að þeirri þjónustu sem dvalar- og hjúkrunarheimili veita, geti fengið þá þjónustu sem næst afkomendum sínum. Annað fyrirkomulag er út úr kortinu og ótækt.

Laugarás, eða ekki Laugarás. Stóra spurningin snýst ekki um það, heldur miklu fremur um það að ná samstöðu um að byggja dvalar- og hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það skiptir mestu.
Mér þykir miður ef einhverjir halda, eftir skrif mín um þessi mál að ég sé ekki þroskaðri en svo að geta ekki séð neitt nema naflann á mér (sem reyndar hefur gerst erfiðara með árunum).

Faðir minn, feður margra okkar og mæður, afar og ömmur, sem þurftu og þurfa á þeirri þjónustu sem hér er um að ræða, að halda áttu og eiga engan annan kost en fara á biðlista og lenda síðan einhversstaðar, jafnvel í hundraða kílómetra fjarlægð frá afkomendum símum.
Þetta er ekki boðlegt og ekki það sem mannvinsamlegt samfélag getur boðið þegnum sínum.
Framundan er öldrun barnasprengjukynslóðarinnar, þeirra okkar sem fæddumst í kjölfar síðari heimsstyrjaldar.  Það er stöðugt háværari krafa um að þetta fólk fái viðeigandi þjónustu síðustu ár ævinnar.

Ég legg til, að ráðinn verði óháður aðili til að meta aðstæður hjá okkur á þessu svæði og leggja til hentugustu og hagkvæmustu staðsetningu fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili.  Í framhaldinu sameinist sveitarsjórnirnar um þann kost sem þar birtist og leggist í víking til að fá nauðsynlegt fjármagn. Mig grunar að slíkt geti orðið auðveldara á næstunni, þar sem barnasprengukynslóðin mun ekki sætta sig við að deyja á biðlistum.

Svona í lokin við ég nefna tvennt:
1. Hér er auðvitað ekki bara verið að fjalla um hjúkrunarheimili, heldur öll þau þörfu mál sem stranda á hreppapólitík, engum til góðs, en skaðar marga og tefur margt.

2. Verði ekki úr því að hjúkrunarheimili verið byggt í Laugarási, sem ég mun mögulega aldrei upplifa, þá ítreka ég þá skoðun mína, að kominn sé tími til að uppsveitahrepparnir losi um kyrkingartak sitt á þorpinu í skóginum; flytji málefni þess út úr lokuðum fundarherbergjum oddvitanna
Í sem stystu mál þá tel ég að ekki sé lengur neinn grundvöllur fyrir sameign hreppanna á Laugarásjörðinni.

------------

Myndirnar sem fylgja voru teknar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar er afskaplega vel búið að öldruðum og starfsfólkið einstakt. Þarna dvaldi faðir minn síðustu æviárin og myndirnar sýna hann ásamt fjórum langafabarnanna.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...