Undirfyrirsögn þessa pistils er:
Við erum sjálfum okkur verst.
Ég er búinn að fjalla um dvalar- og/eða hjúkrunarheimilismál talsvert oft í pistlum mínum og vísa að miklu leyti til þeirra:
Eldri borgara í sláturhúsið, 23. janúar, 2013
Sólsetur í uppsveitum (1) 1. mars, 2013
Ég lýsi áhyggjum mínum, 12. mars, 2013
Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra, 30. desember, 2015
Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Tilefni þess að ég legg enn einu sinni ínn á þessa braut, er frétt sem birtist í Fréttatímanum í
gær, 6. apríl.
------------------
Í Læknablaðinu árið 1922 er greint frá því að Landsstjórnin hafi veitt Árnessýslu kr. 11.000 í framlag til að kaupa Laugarás fyrir læknissetur. Í Morgunblaðinu þetta sama ár er greint frá því, að Sýslunefnd Árnessýslu hafi keypt gistihúsið við Geysi, sem reist hafði verið í tengslum við konungskomuna 1907. Jafnframt kom fram að húsið væri ætlað „til íbúðar á læknissetri þar uppi í sýslunni“.
Það var þá ekki svo, eftir allt saman, að það hafi verið hrepparir sex sem keyptu Laugarásjörðina 1922, heldur var það Sýslunefnd Árnessýslu. Í mínum huga skýrir það margt, ekki síst það, að miðað við hreppapotið sem við höfum búið við og búum enn við, fannst mér allaf fremur undarlegt að þessir sex hreppar hefðu getað komið sér saman um að kaupa Laugaráslandið sem miðstöð fyrir læknisþjónustu á svæðinu. Nú hef ég fengið skýringuna. Sýslunefnd Árnessýslu sá þessi mál með skýrari og hlutlægari augum, en hrepparnir gera í samskiptum sín á milli. Þetta leiddi huga minn að því, að um þessar mundir á sér stað skoðanakönnun um mögulega sameiningu Árnessýslu í eitt sveitarfélag. Svei mér ef það er ekki bara góð hugmynd.
Ég hef átt leið inn á vefinn tímarit.is þar sem er að finna botnlausan fróðleik um fyrri tíma.
Þegar uppi voru fyrirætlanir um að byggja brú á Hvítá, hjá Iðu, fór auðvitað ekki hjá því að uppsveitamenn tækjust á, alveg eins og enn í dag.
Í grein sem Brynjúlfur Melsteð, bóndi í Gnúpverjahreppi skrifaði í Tímann 14. febrúar, 1952, segir hann meðal annars:
"Það var viturleg ráðstöfun, er sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur. Að vísu var Hvítá þröskuldur á leið læknis austur um hérað, en allir sáu þá að auðvelt var að brúa hana á Iðuhamri. Og þegar brú sú hefir byggð verið, er læknissetrið á Laugarási eins vel sett og hugsast getur í hjarta héraðsins og sýslunnar. Á þessu miðsvæði Árnessýslu um Skálholtsland, Laugarás og Iðu, er hið ákjósanlegasta sveitaþorpsstæði, svo að þar skortir aðeins brúna."
Sem betur fer varð það ofan á að Iðubrúin var byggð. Í desember 1957 var hún opnuð fyrir umferð, áratug síðar en ætlað var í fyrstu. Sennilega átti sundurlyndisfjandinn þar einhverja aðkomu.
Sannarlega hef ég ekki legið á skoðunum mínum varðandi byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis í Laugarási og tel mig hafa fært fyrir því talsvert gild rök. Ég veit hinsvegar, að það sem ég segi um þetta mál, er í ýmsum kimum tekið með þeim fyrirvara, að ég bý í Laugarási og væntanlega hafi ég því einhverja óeðlilega hagsmuni af málinu. Ég skil það svo sem, en vil halda því til haga, að þó svo ég búi í Laugarási nú, liggur engan veginn fyrir að svo verði til æviloka. Reyndar eru líkurnar á að svo verði ekki, meiri en minni. Laugarás verður áfram til og fær vonandi að njóta sannmælis þegar fram líða stundir og íbúarnir átta sig á því, að ef þeim finnst vanta eitthvað, þá eru mestar líkur á að þeir fái það með því að standa saman. Til þess að upplifa mátt samstöðunnar, þurfa þeir einnig að uppgötva, að það svæði sem uppsveitirnar ná yfir er stórt og að baráttan á að standa um og samstaðan á að vera um eitthvað sem kemur flestum minnst illa. Þar er samnefnarinn.
Það kviknaði vissulega neisti í hjarta mér þegar kvenfélagskonur sendu frá sér samþykkt, þar sem kallað var eftir að reist skyldi hjúkrunarheimili í Laugarási. Sá neisti slokknaði fljótlega, þegar hefðbundnar raddir tóku að heyrast í umhverfinu:
„Auðvitað á það að rísa á Flúðum, þar sem fólkið er“, sagði Hreppamaðurinn.
„Sannarlega á það að rísa í Reykholti, þar er sundlaug og félagsaðstaða“, sagði Tungnamaðurinn
„Það kemur auðvitað ekkert annað til greina en Laugarvatn. Þar eru tilbúin hús fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili“, sagði Laugdælingurinn.
Ég hef ekki heyrt neitt haft eftir Skeiðamanni, Gnúpverja, Grímsnesingi, Grafningsmanni eða Þingvellingi um þetta mál.
Ég hef ekki heyrt um að um málið hafi verið fjallað á vettvangi sveitarstjórna. Það er kannski of viðkvæmt. Kannski er það bara eins gott, því þar yrði sennilega ekki niðurstaða um að Laugarás (þar sem fólkið er ekki, þar sem er ekki sundlaug eða félagsaðstaða, þar sem ekki er tilbúið húsnæði) gæti verið staðurinn til að mynda samstöðu um.
Ég vil auðvitað taka það fram, að mér er á engan hátt í nöp við Flúðir, Reykholt eða Laugarvatn. Þetta er allt hin ágætustu þorp, hvert með sín séreinkenni, eins og eðlilegt er. Megi þau og uppsveitirnar allar blómstra, hvert á sinn hátt.
Mér finnst líklegt, því miður, að þegar við eldumst og getum ekki lengur lifað lífinu án aðstoðar, verðum við send í aðra hreppa, eða aðra landshluta, hér eftir sem hingað til.
Fyrirsögn pistilsins er:“Svo segi ég ekki meira um það“ og þannig verður það.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli